18.8.2007 | 21:03
Hundanámskeð.
Ég var á hundanámskeiði í gær. Já einmitt ég. Kennarinn sagði að við eigendurnir værum ekki síður á námskeiðinu en hundarnir. Hundarnir ættu að læra að hlýða. Við þyrftum að læra að beita hundinn aga. Kennarinn var ekkert lamb að leika sér við. Hún notaði mjög ákveðnar aðferðir. Verðlaun ef hann gerði rétt og harða refsingu ef hann gerði rangt. Þannig fékk hún hundinn til að hlýða. Hundaeigandinn varð að vera samkvæmur sjálfum sér og engar undantekningar því það skilur ekki hundurinn.
Ég er að ala upp 4 börn. Ég held það hafi tekist þokkalega, amk hingað til. Ég el þau ekki upp eins og hunda. Þau skilja undantekningar, að fylgja reglunum ekki alltaf er möguleiki. Aftur á móti hef ég kennt þeim aga. Haft reglur. Ekki bara það. Ég hef reynt að fylgja reglum sjálfur því ólíkt hundum þá er það mjög sterkt að vera gott fordæmi. Til dæmis ef ég myndi sofa á gólfinu fyrir framan hjónarúmið mitt í margar vikur þá myndi hundurinn ekki hætta að hoppa upp í hjónarúmið. Hann yrði sennilega bara ánægður með plássið sem ég eftirléti honum. Aftur á móti myndu börnin mín panta fyrir mig tíma hjá geðlækni.
Núna er skólastarfið að hefjast. Fjölmiðlar fullir af sálfræði um hvernig við eigum að takast á við þessar náttúruhamfarir að börnin okkar fara í skóla. Við eigum að vera góð við börnin, við eigum að kenna þeim aga, við eigum að sýna þeim áhuga, við eigum að grennslast fyrir hvort þau verði fyrir einelti, við eigum að gefa þeim meiri tíma, við eigum að minnka vinnu, við eigum að samræma okkar vinnu og skólagöngu barnanna, við eigum að taka þátt í starfi foreldraFÉLAGSINS, VIÐ EIGUM AÐ VITA MEÐ HVERJUM BARNIÐ OKKAR EYÐIR TÍMA SÍNUM MEÐ, VIÐ EIGUM AÐ VITA HVAÐ BARNIÐ OKKAR SKOÐAR Á NETINU, VIÐ EIGUM AÐ VITA VIÐ HVERN ÞAÐ TALAR VIÐ Í SÍMA OG VIÐ EIGUM AÐ VITA HVAÐ ÞAÐ HUGSAR.
Ég held að það sé mun auðveldara að ala upp einn hund.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Ljóð, Sjónvarp, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Já ég er sammála þér, hundurinn er miklu minna mál hehehe
Ragnheiður , 18.8.2007 kl. 21:22
Skemmtilegur pistill hjá þér.. og ég er sammála þér með agann. Hann er nauðsynlegur bæði á sjálfan sig og börnin og þá greinilega samkvæmt þessu á hundana líka..;)
Kolbrún Stefánsdóttir, 19.8.2007 kl. 13:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.