Börnin okkar og eiturlyf.

Það kom kona í heimsókn til okkar hjóna í dag. Þó ég væri fullur af tyrkneskum vírus með hálsbólgu og hita skynjaði ég þó að hún hafði frá ýmsu að segja sem olli mér heilabrotum. Mín heilabrot hafa í sjálfu sér aldrei verið merkileg en brot er þó alltént brot.

Dóttir hennar hafði lent í eiturlyfjum og stríðið hafði staðið í mörg ár. Sigrar og ósigrar. Hún hafði þá sterku sannfæringu að gefa ætti eiturlyf "frjáls". Í raun ekki frjáls. Heldur að koma í veg fyrir gróðamyndun við innflutning og sölu á eiturlyfjum. Hún var þeirrar skoðunar að ef eiturlyf væru meðhöndluð á sama hátt og áfengi væri hægt að losna við marga óæskilega fylgifiska eiturlyfjasölu. ÁTVR selur áfengi reyndar ekki ódýrt, en ekki á uppsprengdu verði. ÁTVR er ekki með handrukkara á sínum snærum enda allt staðgreitt þar. Þar að auki myndi allur ávinningur sölunnar renna í sameiginlega sjóði okkar landsmanna en ekki í vasa eiturlyfjabaróna.

Í raun ganga þessar hugmyndir út á það að lítill munur sé á áfengi og öðrum eiturlyfjum. Það er svolítið erfitt að vera andsnúinn því, því í raun er enginn munur á kúk og skít.

Auk þess er önnur forsenda að eiturlyf hafi alltaf fylgt mannkyninu og muni alltaf gera það. Því sé sú hugmynd að reyna að uppræta eiturlyf í eitt skipti fyrir öll andvana fædd hugsun. Það er erfitt að andmæla þessu því EVA beit í eplið og þar við situr.

Ég get ekki neitað því að gróandinn á mínum heilabrotum geti látið bíða eftir sér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hef sagt það áður, að það þarf að skoða sem eitt af varnaraðgerðum, hvort ekki sé rétt að aflétta banni á hassi og öðru slíku, sem er ekki eins skaðsamt og þau eitur verri eins og LSD.  Við hljótum að gera okkur grein fyrir því að með þessu banni, hjálpum við til við að moka undir eiturlyfjabarónana, og gerum þeim kleyft að "eiga" einstaklinga sem hafa ánetjast.  Að minnsta kost ætti að veita þessi lyf illa förnum sjúklingum á heilsugæslustöðvum.  Sagt er líka að hass sé gott lyf við alsheimer og öðrum slíkum sjúkdómum.  En það er algjörlega tabú að ræða það að lina þjáningar manna, vegna fordóma út í slík lyf.

Ég hef lengi þurft að berjast fyrir barninu mínu.  Og hef í yfir 20 ár, reynt að opna umræðuna um þennan vágest og hvað er til ráða gegn honum.  Það er nokkuð ljóst að við erum ekki að gera hlutina rétt, því sífellt stækkar hópur fíkla og sífellt færist aldurin neðar.  Og sífellt koma fram verri tilfelli og harðari efni. 

Nú er mál að allir aðilar sem málið varða taki sig saman og haldi stóra ráðstefnu, þar sem ræddar eru allar hliðar þessa máls.  Menn skoði fordómalaust hvað er hægt að gera raunhæft til að sporna við.  Við hljótum að eiga svar einhversstaðar, ef við virkilega viljum það. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.7.2007 kl. 16:10

2 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Kæra Ásthildur, hef verið þeirrar náðar aðnjótandi að þurfa ekki að glíma við fíkniefni í návígi. Aftur á móti er ég að ala upp fjögur börn og óttinn við að börnin muni ánetjast þeim verið svipaður og að ganga á brún Látrabjargs með bundið fyrir augun. Ekki hafandi hugmynd um hversu nærri eða fjarri fallið sé en þegar það gerist vitandi að það yrði langt og sársaukafullt.

Orð eru til alls fyrst. Ráðstefna er góð hugmynd. Þar yrðu allir aðilar að fá að viðra sínar skoðanir. 

Það eru þrír grundvallaþættir í þessu máli. Einstaklingurinn, fíkniefnið og fíknin. Ekki hefur tekist að útrýma neinum þessara þátta í mörg þúsund ára sögu mannkynsins. Spurningin er hvernig við höndlum þetta, ekki vel hingað til þannig að þörf er á endurskoðun.

Hugmyndin að flytja sölu fíkniefna til ríkisins er vel athugandi. Grundvöllur þeirrar hugmyndar er að losna við viss vandamál tengd fíkniefnum en ekki að leysa þau öll. Það eru aldrei til töfralausnir á flóknum vandamálum. Ef fíkniefnasalar hefðu engan hag af sölu fíkniefna þá myndu þeir sjálfsagt hætta því. Þá hyrfu handrukkarar einnig. Þá yrði ríkið að hafa öll hugsanleg fíkniefni til staðar og alltaf að undirbjóða sölumenn götunnar. Einnig myndi smygl detta upp fyrir. Afbrot tengd fjármögnun neyslu myndu minnka verulega. Að þessu leitinu til er um framför að ræða.

Á móti kæmu rök þess eðlis að við værum að lögleiða og eða gera fíkniefnaneyslu "eðlilegan" þátt í lífi hvers Íslendings. Miðað við ástand mála í dag sé ég ekki skaðsemi þess.

Hverjir ættu að útdeila þessum efnum, tæplega læknar, með fullri virðingu fyrir starfsfélögum mínum, þá held ég að margir aðrir sem nær standa þessum málaflokki séu betur til þess fallnir en almennir læknar. Að minnsta kosti verða örugglega praktísk vandamál tengd dreifingu.

Það er margt í mörgu og örugglega ekki síðasta orðið sagt. 

Gunnar Skúli Ármannsson, 30.7.2007 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband