29.6.2007 | 22:14
"Að efla almenningssamgöngur"
Gvöð hvað ég er orðinn þreyttur á þessum farsa. Í 35 ár eða lengur erum við búin að hlusta á okkar kjörnu fulltrúa tyggja á þessu endurtekið eins og tannlaust gamalmenni. Og tuggan er enn upp í kjaftinum á þeim og því ekki orðin að neinu gagni.
Nú var Siglfirðingurinn góði enn að ræða þetta með Dalvískum tónum í Speglinum í útvarpinu í kvöld.
Síðastliðna áratugi hafa almenningssamgöngur bara versnað hér á höfuðborgarsvæðinu, það er í sjálfu sér afrek því ekki voru þær góðar fyrir.
Við höfum aldrei tekið afstöðu til þess hvort Strætó eigi að vera raunverulegur valkostur við einkabílinn. Í raun má segja að framkvæmd þessara mála hingað til bendi eindregið til þess að Strætó sé ekki hugsaður sem raunverulegur valkostur við einkabílinn. Þar á móti speglast orðagjálfur stjórnmálamanna við framkvæmdina í því að almenningssamgöngur séu æskilegar, nauðsynlegar og fólk eigi að nýta sér þær. Hér er greinilega misræmi milli orðs og æðis. Góður sálfræðingur kæmist sennilega að þeirri niðurstöðu að stjórnmálamennirnir hafi hugsað sér að við hin tökum Strætó meðan þeir rúnta um á sínum einkabílum. Að minnsta kosti ef þeir væru háðir Strætó væru hlutirnir öðruvísi.
Margar þjóðir og sumar mun ríkari en við hafa almenningssamgöngur sem virka. T.d. í Sviss þar sem hver fjölskylda á einn Bens og einn BMV, af dýrustu sort, taka allir Strætó. Í Genf gengur Strætó á 5 mín fresti allan daginn, um kvöldmat fer tíminn upp í 10-12 mín á milli ferða. Eftir sem líður á kvöldið tognar á tímatöflunni og seint á kvöldin er orðnar heilar 20 mínútur á milli ferða. Auk þess þarf vagnstjórinn ekki að taka við greiðslum og við það sparast mikill tími. Allir hafa greitt fyrirfram á stoppistöðvunum, en eftirlitsmenn koma í vagnana og sektin er það stór að fáir svindla.
Svisslendingar hafa tekið þá afstöðu að almenningssamgöngur eigi að vera valkostur. Við Íslendingar höfum aldrei tekið þá afstöðu. Vinstri menn hafa reynt að koma þeim á, í hálfgerðum feluleik því aldrei hefur orðið nein mynd á því. Hægri menn hafa reynt allt til að stöðva þróun almenningssamgagna til hagsbóta fyrir einkabílinn. Það er ekki mikið mál að gefa öllum frítt í Strætó þegar enginn notar hann. Þannig að með sameiginlegri vinnu hefur stjórnmálamönnum allra flokka tekist að drepa niður allar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Ferðalög, Lífstíll, Sjónvarp, Vefurinn, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.