Færsluflokkur: Heilbrigðismál
5.2.2010 | 16:15
Norskir víkingar-2
Í hádeginu í dag(5 feb) áttum við mjög góðan fund með formanni stórs stéttafélags í Noregi, er um að ræða opinbera starfsmenn og eru félagsmenn jafnmargir og íslenska þjóðin. Þar var farið yfir stöðuna með AGS og Icesave. Einnig rætt um aðkomu íslenskra stéttafélaga að þessum deilumálum meðal íslensku þjóðarinnar. Í heildina mjög góður fundur þar sem okkur tókst að lýsa ástandinu nokkuð vel fyrir verkalýðsleiðtoganum norska.
28.12.2009 | 00:41
Höfnum Icesave, fátækt og barnadauða.
Bretar og Hollendingar eru vanir að rukka. Bretar eru auk þess í fjárhagsvandræðum. Af þeim sökum munu þeir ganga á eftir kröfum sínum. Að halda það að ESB muni borga fyrir okkur ef við göngum þangað inn er fjarstæða. Til þess þarf samþykki allra aðildarþjóðanna. Ætla Bretar og Hollendingar að samþykkja að greiða skuld fyrir Íslendinga sem þeir skulda þeim. Slíkur samningur mun eingöngu fela í sér að auðlindir okkar verða settar upp í skuldir. Það verður settur verðmiði á fiskinn okkar og þannig verður skuldin greidd.
Hlutverk AGS er að finna leið fyrir skuldsettar þjóðir til að standa í skilum. Ef við getum ekki framleitt nóg upp í skuldir munu þeir leggja til að við seljum auðlindir upp í skuldir. Það hafa þeir gert margoft áður. Við erum ekki neitt spes ef fólk heldur það.
Við verðum að skynja söguna og stóra samhengið. Margar þjóðir eru stórskuldugar. Í þeim löndum er barnadauði hæstur því þjóðartekjurnar fara í afborganir af skuldum. AGS stjórnar þar afborgunum skulda ríkisins. Þessar þjóðir voru eins og við, skuldlitlar, barnadauði á niðurleið og almennt heilbrigði á uppleið. Þá kom bóla sem sprakk-skuldir-AGS-og barnadauði. Bólan kom vegna óhefts flæði fjármagns sem olli skuldsetningu. Síðan lokuðust lánalínur og allt sprakk. Margendurtekin saga sem klikkar ekki.
Icesave er ekki bara eitthvert bankatæknilegt vandamál. Icesave snýst um grundvallar lífsviðhorf. Spurningin er hvort réttlætanlegt er að ógna tilveru heillar þjóðar vegna peninga. Vegna gildru sem við gengum í. Við vorum auðveld bráð, ég viðurkenni það. Sem upplýst þjóð hljótum við að skynja að allar hinar skuldsettu þjóðir bíða og vona að við höfnum Icesave. Þar með höfum við brotið ísinn, deyjandi börnum í hag.
Icesave á Alþingi á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2009 | 22:40
AGS og Landspítalinn okkar
Grein sem birtist eftir mig í Mogganum í morgun;
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er byrjaður að setja klærnar í holdið. Boðaður er niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og þar með á Landspítalanum. Rætt er um 9% niðurskurð á LSH og það gæti þýtt að segja þyrfti upp 4- 500 manns um leið og fjárlög landsins öðlast gildi. Hvíslað hefur verið um frekari niðurskurð næsta sumar. Ljóst er að árin 2011 og 2012 þarf að skera jafn mikið niður og árið 2010, eða meira. Það stefnir í að 700-1000 manns verði sagt upp á LSH fyrir lok árs 2013. Það er nærri 20% af 5000 manna liðsafla Landspítalans. Meðan Ísland fer eftir prógrammi AGS mun þetta gerst.
Ef við könnum sögu AGS þá er hún ekki góð. Þau lönd sem hafa lotið stjórn hans hafa upplifað mikinn niðurskurð á velferðakerfinu. Stefna þeirra hefur leitt af sér lækkun launa, atvinnuleysi og gjaldþroti heimila og fyrirtækja. Hagur almennings í þessum löndum hefur versnað verulega, sjúkdómar og dauðsföll aukist.
Við skulum líta til nágranna okkar í Lettlandi. Þeir fengu, eins og við, auðveldan aðgang að lánsfé. Aðallega frá sænskum bönkum. Úr varð mikil bóla sem síðan sprakk. Núna er þar kreppa og sænsku bankarnir vilja fá skuldirnar endurgreiddar með vöxtum. AGS er mættur á staðinn til að sjá til þess að skuldirnar séu greiddar til baka með niðurskurði og skattpíningu. Laun kennara voru lækkuð um 25% 1. september síðastliðinn. Skattar hafa hækkað. Nú þegar er búið að loka 36 skólum og 13 sjúkrahúsum. Komugjöld hafa aukist. Heilbrigðisráðherrann hefur jafnvel stungið upp á því að greiða eingöngu fyrstu tvo legudagana en síðan greiða sjúklingarnir afganginn. Forstjóri gas félagsins er búinn að gefa það út að ef reikningar verði ekki greiddir verði lokað fyrir gasið í vetur. Ríkisstjórn Lettlands reynir eftir bestu getu þessa októberdaga að slást við AGS. Lettar eru reiðubúnir að skera niður um 275 milljónir latta en AGS krefst 500 milljóna niðurskurðar á næsta ári. Lettar hafa staðið upp í hárinu á AGS nokkrum sinnum en ekki haft erindi sem erfiði.
Ísland á ekki fyrir skuldum sínum og því mun koma til meiri lán frá AGS í náinni framtíð. Afleiðingin af því verður afnám þeirrar heilbrigðis- og félagsþjónustu sem við höfum þekkt hingað til. Í öðrum löndum sem AGS hefur stjórnað hefur millistéttin snarminnkað, fátækt aukist og örfáir verið ríkir. Er þetta það sem við viljum? Er svona mikilvægt að greiða skuldir óreiðumanna, skuldir sem þú og ég vissum ekkert um fyrr en þær fóru fram yfir eindaga.
Nei segi ég. Lýsum yfir einhliða greiðslustöðvun í 5-10 ár. 27 ríki hafa gert það á síðustu 30 árum. Ræðum við lánadrottnana og semjum um skuldirnar til langs tíma og niðurfellingu á hluta þeirra. Notum andrýmið til að byggja upp heilbrigt atvinnulíf sem skilar afgangi í kassann og er að öðru leiti sjálfbært.
9.10.2009 | 21:48
Mætum öll í MÍR salinn á morgun!!
Baráttudagar í Október
- Grasrótahreyfingar funda um nýtt Ísland
Á morgun (laugardag 10. okt.) ætla grasrótahreyfingar úr öllum flokkum að funda í MÍR salnum á Hverfisgötu (við hliðina á lögreglustöðinni) í tilefni af bankahruninu.
1. málstofa byrjar kl. 10:00 með yfirskriftinni
"Bankahrunið og reynslan af fyrsta ári kreppunnar"
Þórarinn Hjartarson
Þórður Björn Sigurðsson
Davíð Stefánsson
2. málstofa kl 13:00 til 15:00
"Hver fer með völdin á Íslandi?"
Jakobína Ólafsdóttir...Hver stjórnar Íslandi
Gunnar Skúli Ármannsson ...Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Haraldur Líndal...Skuldastaða Íslands
3. málstofa kl 16.00 til 18.00
"Átök og verkefni framundan"
Andrea Ólafsdóttir
Lilja Mósesdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson.
Ráðstefnan mun standa fram á sunnudag.
Ný stefna fyrir Ísland
4. málstofa kl 11.00 til 13.00
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Helga Þórðardóttir
Vésteinn Valgarðsson
Þorvaldur Þorvaldsson
21.9.2009 | 21:16
Vangaveltur um getu Svínaflensunnar í að heltaka heila fréttamanna.
Þessi mynd hér fyrir neðan er ekki alveg splunkuný, hún er frá júlíbyrjun. Mig grunar að hún hafi versnað ef eitthvað er. Myndin ber með sér að afborganir af skuldum ríkissjóðs verða gróflega 200 milljarðar á ári til 2023. Þar sem ríkissjóður hefur haft um 400 milljarða á ári til ráðstöfunar er um að ræða mikla blóðtöku. Við getum búist við skertum tekjum í framtíðinni, kunnugir telja að ríkissjóður muni hafa um 380 milljarða á ári til ráðstöfunar. Það ætti að gefa okkur 180 milljarða í stað 400 milljarða í ráðstöfunartekjur þegar við erum búin að greiða af lánunum. Nú er hugsanlegt að íslenska ríkið gæti verið í mínus í nokkur ár meðan það versta gengur yfir en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannar okkur það nema tvö næstu árin. Það setur okkur svo þröngar skorður að manni liggur við köfnun.
Ef við veltum þessum stærðum örlítið fyrir okkur. Samkvæmt þessu eru ráðstöfunartekjur ríkissjóðs að minnka um 50%. Landspítalinn sem þarf tæpa 40 milljarða á ári ætti samkvæmt því að fá rúma 20 milljarða. Ef þetta reynist vera raunin þá erum við að upplifa mesta niðurskurð á LSH í sögunni. Þetta þýðir miklar uppsagnir hjá starfsfólki. Þetta getur einnig haft í för með sér takmarkanir á meðferð sjúklinga. Meðferð sem við höfum talið sjálfsagða hingað til. Takmarkanir gætu falist í því að einstaklingar með krabbamein fái ekki gjörgæslumeðferð, sjúklingar sem hafa náð ákveðnum aldri komist ekki í blóðskilun í gervinýranu. Eldri einstaklingar komist ekki í hjartaskurðaðgerð, kornabörn með rýrnunarsjúkdóma verði látin deyja án gjörgæslumeðferðar. Ef til vill verður gefinn kostur á meðferð ef sjúklingar borga meðferðina sjálfir.
Útlitið er ekki gott. Vonandi hef ég rangt fyrir mér, því að öðrum kosti er framtíð okkar hræðileg.
5.8.2009 | 20:09
Blóðugur niðurskurður hjá okkur Íslendingum
Þjóð sem 30 sinnum fjölmennari en við Íslendingar talar um blóðugan niðurskurð upp á 200 milljarða íslenskra króna. Niðurskurður sá sem er framundan hjá okkur Íslendingum er upp á 150 milljarða. Hann á að skiptast á tvö næstu ár, sennilega nokkuð jafnt. Það eru 75 milljarða niðurskurður á ári. Við höfum um 360 milljarða á ári til að reka íslenska ríkið. Það stefnir í 140 milljarða greiðslur í vexti af þeim lánum sem íslenska ríkið hefur tekið á sig.
360 milljarðar til skiptanna,
mínus 140 milljarðar í vexti,
þá eru eftir 220 milljarðar,
mínus 75 milljarða niðurskurður
Þá er eftir 145 milljarðar til að reka allt sem tengist ríkinu.
Ég get bara nefnt að það kostar 35 milljarða á ári að reka Landspítalann.
Þar sem ég útskrifaðist úr menntaskóla með lægstu hugsanlegu einkunn í stærðfræði bið ég alla lesendur að koma með leiðréttingar ef mér hefur orðið hált á svellinu.
Blóðugur niðurskurður í Búlgaríu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.7.2009 | 22:42
Þumalskrúfan og slefandi Spánverjar
Mér er til efs að nokkur þjóð hafi fengið jafnmargar slæmar fréttir á jafnskömmum tíma og við Íslendingar. Því finnst mér það varla frétt að við kvíðum vetrinum. Nýtt leyniplagg leit dagsins ljós. Samningur milli innistæðutryggingasjóða Íslands og Bretlands. Sá breski má sækja okkur til saka hvar og hvenær sem er, en við bara í London. AGS fresta okkur um mánuð. Úttekt á virkjunarframkvæmdum okkar sýnir að við högnumst ekki neitt en skuldum 1000 milljarða vegna framkvæmdanna. Útrásarvíkingarnir fluttu allt góssið út, við vissum það svo sem en núna var það staðfest. Síðast en ekki síst Hulda forstjóri Landspítalans er farin í árs leyfi. Þar misstum við frá okkur góðan starfskraft.
Það er orðið ljóst að efnahagsaðstoð AGS mun ekki koma fyrr en við samþykkjum IceSave. Ýmsir sem eru duglegir í reikning hafa komist að því að Ísland geti ekki staðið í skilum og þá erum við komin á hausinn-gjaldþrota þjóð. Þá verðum við að setja auðlindirnar okkar upp í skuldir. Spánverjar eru nú þegar farnir slefa yfir væntanlegum aðgangi að fiskimiðunum okkar.
Þetta er stríð sem við erum að tapa. Á maður bara ekki að koma sér í burtu áður en ósigurinn verður innsiglaður. Eða eigum við að gera eins og Rússarnir, sprengja og brenna allt á flóttanum.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.7.2009 | 21:20
May the force be with us
Enn er hugur minn fullur svartsýni. Það er ekkert sem í fréttum sem gæti valdið bjartsýni í mínum huga. Í kvöldfréttum RÚV kom frá að til þess að AGS geti tekið okkar mál fyrir þurfa þeir í Wasington staðfestingarvottorð frá Norðurlöndunum um að þeir ætli virkilega að lána okkur peningana. Við erum nú þegar búin að skrifa undir lánasamning við "vinaþjóðir" okkar en það er ekki nóg. Því verður ekkert framhald á aðstoð AGS til okkar fyrr en Norðurlöndin gefa okkur grænt ljós. Norðurlandaþjóðirnar munu ekki gefa út sitt vottorð fyrr en við höfum gengið frá IceSave. Því mun ekkert koma frá AGS til okkar fyrr en IceSave hefur verið troðið niður í kokið á okkur eins og á franskri gæs. Þess vegna segir Steingrímur að alla lánalínur muni lokast ef töf verður á IceSave málinu.
Steingrímur veit eins og er að ekki dugar að mögla, auk þess ef maður er þægur þá fær maður mjúkan stól. Kannski munu S og VG sameinast og Steingrímur verður nýr formaður-rosa flott.
Þess vegna eigum við engra kosta völ. Við verðum svelt til hlýðni. Öngvir peningar munu koma nema við samþykkjum IceSave. Þá þurfum við að fara að borga allar skuldirnar. Fræðimenn fullyrða að þær séu okkur ofviða. Í þeirri stöðu verðum við eins og mjúkur leir í höndunum á samninganefnd ESB. Sjávarútvegur og landbúnaður verða algjör aukaatriði ef maður sveltur. Auk þess er það hulin ráðgáta hjá samninganefnd ESB hvað 300.000 hræður, svona eins og borgarhluti í Berlín, er að gera veður út af smámunum. Þrasið í okkur tefur bara dagskrána.
Í raun eru bara tvær spurningar sem standa út af borðinu. Sú fyrri er hversu mikið munu þeir mjólka okkur. Lán hafa þá náttúru að þurfa að endurgreiðast. Verður um 50% lækkun launa, 50% niðurskurð í heilbrigðis, félags - og menntamálum svo við getum staðið í skilum. Hversu mörg álver verða reist.
Hin spurningin er hversu margir hafa tök á að flýja Ísland.
15.4.2009 | 22:30
Landspítalinn okkar-er hann ómissandi?
Rætt er um mikinn niðurskurð á Landspítalanum okkar. Það er þungur róður að flysja meira af honum sökum þess að hann er vel tálgaður fyrir eftir sparnað árum saman. Til viðbótar hafa öll aðföng hækkað verulega sökum veikingu krónunnar. Því er okkur mikill vandi á höndum. Ef við skerum niður um 10% af ekki raunhæfum fjárlögum, aðkeyptar vörur hækka um 40-50% og eigum að veita nákvæmlega sömu þjónustu erum við komin með jöfnu sem gengur ekki upp.
Sumir álíta að það sé létt verk að spara á Landspítalanum. Skoðun þeirra byggist á því að mikil ofmönnun sé þar og bruðl. Sumir halda jafnvel að á Landspítalanum séu framkvæmdir hlutir sem séu betur ógerðir-óþarfir eða jafnvel séu betur gerðir af öðrum. Sumir óska þess svo innilega að hægt sé að spara á Landspítalanum svo einhverstaðar sé hægt að spara.
Rekstur Landspítalans kostar meira en 30 milljarða á ári. Mörgum finnst það óskiljanlegt að ekki sé hægt að klípa aðeins af þessari upphæð. Ég tel að ekki sé hægt að spara nema að skerða þjónustu Landspítalans. Þá vandast málið.
Hver á að ákveða hvar eigi að skera niður. Eru það starfsmenn, alþingismenn eða þjóðin?
Hvað eigum við að láta ógert og hvað ekki?
Svör óskast!