Færsluflokkur: Fjármál

Litli Jón sem komst ekki á Saga Class.

Óréttlætið í samfélagi okkar er óásættanlegt. Núna er við völd vinstri stjórn. Pólitík sem hefur viljað kenna sig við aðstoð við litla manninn. Þessi litli venjulegi Jón virðist vera langaftast á verkefnalista þessarar Ríkisstjórnar. Það er búið að tryggja innistæður þeirra sem áttu einhverjar.  Litli Jón átti bara skuldir, ekki innistæður. Það er búið að afskrifa skuldir stórfyrirtækja, ekki Litla Jóns. Stóri Jón fór með allan ránsfenginn sinn í skattaskól skömmu fyrir hrun vegna þess að Stóri Jón fékk viðvörun sem Litli Jón fékk ekki. Að auki á Litli Jón að borga allar skuldir íslenska þjóðarbúsins að viðbættum IceSave skuldum bankaræningjanna. Litli Jón á að minnka við sig kaupið um 20-30%. Allt sem Litli Jón kaupir sér til viðurværis er 100% dýrara í dag. Skattbyrðin mun aukast um 20-30%.

Þegar hann afi minn var orðinn einn eldaði hann kjötsúpu einu sinni í viku og át hana svo alla vikuna. Ekki keypti hann ost á brauðið en leyfði sér smjör. Þegar ég kvartaði yfir þessum meinlætalifnaði hans, því hann hafði ráð á meiru, sagðist hann þá vilja að það væri einhver peningur til skiptanna þegar hann kveddi þennan heim.

Hvernig höfum við getað orðið svona firrt. Hefur það kannski alltaf verið "löglegt" að sparka í Litla Jón. Samt er það sérkennilegt að sjá vinstri stjórn verja fjármagnseigendur með kjafti og klóm á kostnað venjulegra borgara. Venjulegar fjölskyldur sem missa heimili sín því það eru helgispjöll að afskrifa skuldir Litla Jóns. Á meðan horfum við upp á menn flytja milljarða úr landi um hábjartan dag, menn sem skorti ekki neitt, hvar er þessi jöfnuður Jóhanna? Annars er ég búinn að gefast upp á henni Jóhönnu því það er augljóst að hún vinnur bara á Saga Class.

http://farm4.static.flickr.com/3093/2727496899_50bfa3666c.jpg?v=0


Við munum hafa það mjög skítt

Sérfræðingarnir telja eftirfarandi;

1. Stöndum ekki í skilum og förum á hausinn.

2. Stöndum í skilum en rétt merjum það.

3. Ef hið minnsta klikkar stöndum við ekki í skilum og förum á hausinn.

4. Án tillits til hvort leið 1 eða 2 eða 3 verður valin munum við hafa það afspyrnu skítt á komandi árum.

15 - 20% hækkun á beinum sköttum að minnsta kosti. Það mun skerða lífskjör verulega. Það mun draga úr efnahagsbata því þetta mikil skattheimta dregur máttinn úr fólki. Í kjölfarið á slíku ástandi verða enn meiri uppsagnir og enn minni tekjur fyrir hið opinbera. Síðan munu útgjöld ríkisins verða skorin niður verulega. Launalækkun hjá opinberum starfsmönnum um tugi prósenta. Niðurskurður í velferðarmálum.

Sumir segja að það auki trúverðugleika Íslendinga ef við borgum IceSave. Er það aðalsmerki að vera kúguð og beygð þjóð?

Sumir krefja andstæðinga IceSave um lausnir ef við borgum ekki IceSave. Við teljum ekki IceSave lausn fyrir Ísland og því er það lausn að losna við IceSave. Þá eigum við kannski möguleika að standa í skilum með allar hinar skuldirnar.

Annars er þessi skuldasúpa okkar Íslendinga svo klikkuð og möguleikarnir minnka stöðug að við getum staðið í skilum. Það virkar sem nágrannaþjóðirnar séu einfaldlega að ná á okkur taki. Þau eru ekki svo léleg í reikning að þau sjái ekki að við getum ekki borgað til baka. Lánadrottnar okkar eiga allskostar við okkur núna og IceSave er bara berið á ísinn.


mbl.is Icesave: Gæti stefnt í óefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir fiska sem róa.

 Þetta er grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu í gær.

Þeir fiska sem róa.

Veiðiskapur er sport, beitan er valin af innsæi, fiskurinn þreyttur og síðan dreginn að landi. Þar fær hann síðan náðarhöggið.

Við vorum skuldlaus þjóð og því nokkuð sjálfstæð. Í dag erum við skuldug og ósjálfstæð þjóð. Við bitum á agnið, afbrot okkar var að láta glepjast en núna situr öngullinn fastur og það er sárt. Það er verið að þreyta okkur núna. Stýrivextirnir lækka ekki neitt af ráði. Afleiðingin er að fleiri fyrirtæki komast í þrot. Atvinnulausum fjölgar. Þar með er kominn ásættanlegur grundvöllur fyrir launalækkunum. Af þeim sökum minnka tekjur ríkisins verulega, bæði beinir og óbeinir skattar minnka. Þar með er einnig kominn grundvöllur fyrir launalækkun opinberra starfsmanna og síðan verulegur niðurskurður hjá hinu opinbera. Til að tryggja þetta ástand til frambúðar munum við samþykkja IceSave samninginn í sumar.

Við verðum að framleiða eins mikið af vörum sem gefa gjaldeyri og við getum. Ál og fisk. Það viljum við gera til að standa í skilum. Það vilja líka þeir að við gerum sem voru svo góðhjartaðir að lána okkur til að bjarga okkur frá vandræðunum, sem öngullinn veldur okkur. Því vinnur veiðimaðurinn ötull að því að hámarka afrakstur veiði sinnar. Fljótlega mun þjóðin framleiða eins mikið og hún getur. Þjóðinni mun vera greitt eins lágt kaup og framast er unnt til að halda framleiðslukostnaðinum niðri. Það mun hámarka afraksturinn úr verksmiðjunni Íslandi. Það mun gera okkur kleift að greiða niður lánin og taka ný. Í stað þess að hagnaður okkar, vegna vinnu okkar, fari í okkar vasa mun hann streyma óhindrað í vasa lánadrottna okkar.

Nú er okkur bent á að með aukinni stóriðju muni okkur ganga betur að greiða skuldir okkar. OECD er búið að gefa línuna. Til stóriðju þarf lán. Lánveitendurnir skella okkur í ruslflokk lánshæfismatsins til að stilla af vaxtabyrði okkar, sér í hag. Síðan mun hver stóriðjan af annarri fylgja í kjölfarið og við höfum ekkert um málið að segja. Lánadrottnarnir stjórna og stýra, þannig er það hjá gjadþrota heimilum og eins er það hjá gjaldþrota þjóðum.

Eina spurningin sem út af stendur er hvort eða hvenær þeim þóknast að veita okkur náðarhöggið. Sennilega munu þeir ekki gera það. Mun arðvænlegra er að setja okkur í kvíar til hámarks nytja. Að velta því fyrir sér hvað Davíð, Solla eða Geir gerðu er tímasóun. Jafn glórulaust er að velta sér upp úr því hvað Jóhönnu dettur í hug. Önglar hafa þá náttúru að sitja fastir. Veiðimaðurinn á næsta leik.

Niðurstaðan er sú að íslensk þjóð er komin í kvíar lánadrottna sinna. Við munum strita og púla þangað til síðasta lánið er greitt og það mun taka okkur marga áratugi. Hver er sinnar gæfu smiður.....

 

 


Reyk-ja-vík og Jóhanna.

Það voru margir á Íslandi sem biðu spenntir eftir munnlegri skýrslu Jóhönnu í dag. Skýrslu um hversu hratt og örugglega sumir Íslendingar fara í gjaldþrot. Það var mjög sérkennilegt að hlusta á Jóhönnu. Þegar hún er loksins komin í góða aðstöðu til að hygla þeim sem minna mega sín þá verða ákvarðanirnar sem hún þarf að taka þær erfiðustu á lífsleiðinni. Svolítið sérstakt verð ég að segja. Ég hefði haldið að það yrði auðvelt að valta yfir auðvaldið og færa almúganum fé og völd.

Hún afneitaði AGS og sagði það gert fyrir almenning að staðgreiða skuldir þjóðarbúsins í einum grænum. AGS og erlendir lánadrottnar kæmu hvergi nærri þeim fyrirætlunum Ríkisstjórnarinnar. Fyrirgefið en er mig að dreyma.

Verst af öllu að fátt nýtt kom fram í ræðu Jóhönnu. Mest atriði sem þegar hefur verið fjallað um. Gerði Jóhanna sér ekki grein fyrir að við biðum með öndina í hálsinum í dag eftir ræðu hennar. Þetta var nokkurn veginn síðasti séns að standa sig. Ef þessi taktík sjálfsvorkunnsemi og stefnuleysis á að vera aðalsmerki Ríkisstjórnarinnar er ekki von á góðu. Mörg þúsund manns bíða eftir lausn sinna mála. Þá er það alls ekki ásættanlegt að þau ætli að tékka á því fólki við tækifæri .Hætta er á því að þá muni Reykjavík bera nafn með rentu.


Gjáin.

Ég er ekki alveg að kyngja þessu. Í den var munur á hægri og vinstri. Í dag virðast allir verða að einhverskonar skíthælum þegar komið er inn í steinhúsið við Austurvöll. Í dag var mótmælafundur á Austurvelli. Enn er gjá á milli stjórnvalda og almennings. Það virðist ekki skipta máli hver er í Ríkisstjórn. Það er eins og eina lausn íslenskra Ríkisstjórna sé að láta heimilunum blæða, að heimilin borgi kreppuna.

Hvað veldur þessu? Hvað veldur því að það skiptir engu máli hver situr í Ríkisstjórn. Hver segir ríkisstjórninni fyrir verkum? Ríkisstjórnin sinnir fjármagnseigendum af alúð og kristilegum kærleika. Hjörtu þeirra slá í takt. Skuldarar mega þvælast um ranghala stjórnsýslunnar og fjármálafyrirtækja einir á báti. Það finnst Ríkisstjórnum Íslands eðlilegt ástand. 

Þar með er komin gjá á milli þeirra sem skulda og þeirra sem lána. Sökum íslenskra laga eru lánveitendur þeir sem meira mega sín. Vinstri menn í Ríkisstjórn eru svo andskoti löghlýðnir að þeir geta ekki tekið málstað lítilmagnans. Öðruvísi mér áður brá. Ef svokallaðir vinstri menn ætla að fylgja gömlum lögum íhaldsins út í ystu æsar verður aldrei nein bylting. Bylting snýst um að kollvarpa gömlum gildum. Stólást Jóhönnu og Steingríms virðist ætla að koma í veg fyrir allar breytingar til hagsbóta fyrir skuldsett heimili landsmanna. Huggun harmi gegn er að sennilega verður mikið af ónotuðum evrum og hvölum á Íslandi eftir nokkur ár en sárafáir Íslendingar.

Gjáin breikkar, því miður. Sérkennilegt að þurfa kjósa mörgum sinnum á ári þó vandamálin séu augljós öllum. Lausnirnar að sama skapi. Hver stjórnar liðinu í steinhúsinu við Austurvöll?


Ný ríkisstjórn?

Ný ríkisstjórn mun sennilega fæðast á sunnudaginn. Þetta er í fyrst skiptið sem ég bíð eftir sáttmála nýrrar stjórnar. Þau hafa tekið sér góðan tíma til að semja hann. Vissar væntingar eru meðal þjóðarinnar. Þess vegna verður mjög athyglisvert að lesa nýja sáttmálann. Kannski verður hann bara almenn orð sem merkja ekki neitt. Orð sem hafa enga skírskotun inn í tilveru okkar. Kannski verður hann sönnun þess að þau búa þar en við hér. Við sjáum til hvað setur.

Framtíðin?

Jóhanna segist þurfa að skera mjög mikið niður næstu árin. 10 til 20 milljarða bara í sumar. Síðan á að hækka skatta. Þetta segir okkur að hún ætli að kokgleypa lyfseðil AGS án þess að blikka auga. Niðurskurður, hækkun skatta og jafnvel lækkun launa mun valda því að allir munu spara eins mikið og þeir geta. Enginn mun gera við húsnæði sitt, fresta öllum viðgerðum á bílnum eða þá tönnunum sínum. Hætta að styrkja menningu eða góðgerðamálefni. Allt stopp. Viðvarandi atvinnuleysi.

Allir sem hafa tök á því munu flytja úr landi, fyrst og fremst ungt fólk. Við sem eftir sitjum munum sætta okkur við meiri stóriðju því það er skárra en ekki neitt. Vonandi hef ég rangt fyrir mér en parið hefur talað á þessum nótunum.


Jóhanna, komdu þér nú að verki kona góð.

Þeim liggur ekki mikið á, hjónaleysunum, Jóhönnu og Steingrími. Þau ræða öll mál í þaula. Þessir málaflokkar skipta allir máli en bara ekki strax. Ísland skuldar, kannski 10 þúsund milljarða íslenskra króna. Það er ekki hægt að gera neitt af viti hér á Íslandi fyrr en þessi skuld er útkljáð. Það er tómt mál að vera að velta sér upp úr ESB og öðrum smámálum þangað til við höfum gert upp skuldir okkar. Meðan það er ógert höfum við ekkert lánstraust né nokkurn pening til að gera nokkurn skapaðan hlut. Því verðum við að semja um skuldir þjóðarinnar. Við verðum að bjóða þeim hundrað ára víxil, "take it or leave it" kæru félagar. Ef við förum þá leið mun lánstraust fást og hjól atvinnulífsins fara í gang. Þá þarf ekki að hækka skatta né skera niður.

Jóhanna, komdu þér nú að verki kona góð.

http://www.powellhistory.com/art/Painting/Ingres_Joan%20of%20Arc%20at%20the%20Coronation%20of%20Charles_VII.jpg


Íslenskir blaðamenn!?

Hvað er hægt að gera til að bjarga íslenskum blaðamönnum frá glötun? Hvernig geta þeir eytt hálfum fréttatímum í að spyrja parið hvort og hvenær þau verða búin að mynda stjórn. Hvort og hvernig þau muni semja um ESB. Til að spara tíma okkar landsmanna er mun æskilegra að blaðamennirnir bíði bara eftir tölvupósti frá Jóhönnu þegar niðurstaða er komin í málið. Það vita allir að þau svara aldrei neinu sem skiptir máli fyrr. Ég verð að hrósa Kastljósinu að fjalla ekki þráðbeint um málið hjá hjónaleysunum.

Mikið væri nú gott fyrir íslenska þjóð að blaðamenn myndu fá botn í skuldir okkar Íslendinga. Virkilega sökkva sér í góða rannsóknarblaðamennsku. Reikna síðan út hægstæðustu aðferðina til að greiða skuldirnar. Hvernig við komumst hjá því að frysta allt atvinnulíf á Íslandi meðan við greiðum skuldirnar. Væri það ekki munur-ha? Hætta þessu djöf... dægurþrasi.

http://tyrfingsson.files.wordpress.com/2008/04/oretrucka.jpg


Samfylkingin og skuldir barnanna okkar.

Það er merkilegt að fylgjast með kosningabaráttunni þessa dagana. Samfylkingarmenn eru sjálfsagt jafnaðarmenn upp til hópa enda kalla þeir sig jafnaðarmannaflokk Íslands. Hitt er erfiðara að skilja ást þeirra á Evrópusambandinu. Eina auðlind þeirra í Brussel er súkkulaði og nefndarstörf. Því horfa þeir löngunaraugum á fiskinn okkar og rafmagnið. Því er áhugi Brusselmanna mjög skiljanlegur á okkur Íslendingum. Þar sem allir eru í megrun á Íslandi þá hljóta Samfylkingarmenn að ásælast nefndarstörfin-umræðustjórnmál.

Það virðist vera sem Samfylkingarmenn séu reiðubúnir að kaupa nefndarstólana sínu dýru verði. Afborganir af Icesave, bara vöxtunum, er 85 milljarðar íslenskra króna. Þetta samþykktu Samfylkingarmenn meðan þeir voru í samstarfi við Sjálfstæðismenn. Ástæða undirlægjuháttar Samfylkingarmanna gagnvart Evrópusambandinu er draumur þeirra um um diplómastörf í Brussel. Að selja sálu sína á þennan hátt má jafna við föðurlandssvik, að minnsta kosti þurfa börnin okkar að borga brúsann sem Samfylkingarmenn stofnuðu til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband