Færsluflokkur: Matur og drykkur

Kann þorskur hagfræði.

Ætli þorskar kunni mikið í hagfræði? Sjálfsagt ekki, eftir því sem við best vitum. Hafró hefur að minnsta kosti ekki stundað neinar vísindarannsóknir á því.

Ef við veiðum engan þorsk þá deyr allur sá þorskur sem deyr, í hafinu. Þá verður hafsbotninn ein stór fjöldagröf eða hvað? Þetta kallast sjálfsagt þorskahagfræði, eða hagfræði fyrir þorska. 

Blessaðir hagfræðingarnir virðast þó reikna rétt þegar þeir spá fyrir um þá "hagsæld" sem bíður Vestfirðinga. Sjálfsagt munu þeir allir fara á hausinn þegar þeim verður meinað að veiða fisk. Það þurfti margra mánaða vinnu okkar færustu sérfræðinga til að komast að þessari niðurstöðu. Hvaða 10 ára krakki á vestfjörðum hefði geta sagt þeim það. 

Það sem er þó mest eftirtektarvert er að öllum virðist vera slétt sama. Það vilja allir að sjómenn fari að vinna eitthvað allt annað á meðan þeim er bannað að fiska. Hver eignast aflaheimildirnar þegar fyrirtækin fara á hausinn? Verður ekki niðurstaðan sú að enginn útgerð verður rekinn nema á örfáum stöðum af örfáum.

Verður það þannig að örfáir veiða sem mest þeir mega, flytja sem mest sem minnst unnið út úr landi, framhjá mörkuðum fyrir sem mestan gróða fyrir sig.

Það er ekki mikil rómantík í þessari þorskahagfræði enda á sú tík ekki upp á pallborðið hjá þorskum. 

 


Þorskastríð.

Hér á árum áður voru háð þorskastríð. Þau voru endurtekin og háð af miklum hetjuskap. Sérstaklega var framganga varðskipsmanna glæsileg og lögðu þeir oft líf sitt í hættu við sín skyldustörf. Sigur Íslendinga í þorskastríðunum varð þess valdandi að við réðum yfir okkar fiskimiðum. Við gátum skammtað öðrum þjóðum veiðiheimildum innan lögsögu okkar. Breskir sjómenn voru ekki kátir með niðurstöðuna.

Nú hafa Bretar tekið kæti sína á nýjan leik. Næsta vetur mun vera leyfilegt að flytja óunninn fisk frá Íslandsmiðum. Forystumenn íslenskra fiskverkenda telja að þá muni fiskur verða unninn á breskri grund-eins og í den. 

"Höfum við gengið veginn til góðs" orti hann um árið.

Ég held að sigur Bretanna sé fullkominn. Þeir sitja heima í rólegheitum en við hoppum og skoppum á miðunum og veiðum fiskinn fyrir þá.

Hver er orsökin fyrir því að það er orðið svo "púkó" í dag að vinna fisk á Íslandi?


Neskaupsstaður-IV.

Núna er ég kominn úr útlegðinni á Neskaupsstað. Hef orðið margs vísari. Ekki voru svæfingarnar margar, bara örfáar, veit ekki hvort tilvist mín skipti einhverjum sköpum. Gerðum þó einn keisara, sennilega hefði það verið verra að þurfa senda hana frá okkur. Hvað veit ég, kemur ekki í ljós fyrr en krakkinn tekur stúdentspróf að 20 árum liðnum hvort nærvera mín skipti einhverju máli. Þá verða börnin mín sennilega að reyna að hola mér niður á einhverft hjúkrunarheimilið.

Svo lærði ég annað skondið og sorglegt. Ef þú vilt fá ýsu í soðið, ég tala ekki um ferska, þá þurfa íbúar í Neskaupsstað á Norðfirði að aka 75 km. til Egilsstaða og kaupa ýsuna þar í Bónus. Neskaupsstaður er ÚTVEGSSTAÐUR þ.e. þar er bryggja, sjómenn, apparöt sem fljóta á vatni og veiða fisk, kallast bátar eða togarar eftir atvikum en það er ekki hægt að fá ýsu í soðið. Þetta er klikkun!!!!! Þegar ég bjó á Patró í den þá voru það stór hlunnindi að hafa fisk 3-4 x í viku, þess vegna eru börnin mín svona gáfuð. Að fara niður í fiskverkunarhús og velja mátulega litla Lúðu, feita og í andarslitrunum úr hrúgunni voru lífsgæði. Hlaupa svo með hana spriklandi á pönnuna var nautn. Að borða hana var unun.

Hvað er að gerast? Er firringin orðin algjör? Ef ekki er hægt að fá ferskan fisk í Íslensku sjávarplássi án þess að fara í Bónus þá er eitthvað mikið að. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband