Færsluflokkur: Heimspeki
23.5.2010 | 01:20
Frjálslyndir og byltingin
Við í Frjálslynda flokknum heyrðum búsáhaldabyltinguna hrópa gömlu slagorðin okkar. Við upplifðum tengingu við almenning. Slagorð alþingis götunnar, hagsmunasamtaka heimilanna og andstaðan við AGS, allt slær í takt við okkur, stefnumál Frjálslyndra.
Við ákveðum að reyna að koma rödd almennings upp á borð elítunnar með lýðræðislegum hætti, bjóða fram. Þar með breyttumst við í litla ljóta andarungann.
Er ekki til nein pólitísk hugsun í þessari þjóð, ráða gamlir fordómar og nennir enginn að kynna sér málin til hlítar eða fylgir pöpullinn bara straumnum í algjöru hugsunarleysi og eða gamla góða flokknum sínum. Er sem sagt í lagi að við séum vinnudýr byltingarinnar en ekki forustuafl?
21.5.2010 | 21:26
Jón Gnarr næsti borgarstjóri
Jón Gnarr hefur grínast og haft árangur sem erfiði hvað viðkemur vinsældum. Að öllum líkindum mun Besti flokkurinn ná hreinum meirihluta í Reykjavík n.k. laugardag. Fjórflokkurinn virðist vera gjörsamlega varnarlaus gegn framboði Besta flokksins. Sjálfsagt sitja spunameistarar þeirra núna sveittir við finna mótleik við Jóni. Hætt er við að vopnin snúist í höndum þeirra ef þeir ætla sér að ráðast beint á Jón.
Er hugsanlegur sigur Jóns einhver endalok fyrir Reykjavík? Þar sem Jón hefur svo hagstæðan samanburð af fyrri stjórnendum í Reykjavík þá er lítil hætta á að honum mistakist við stjórnun borgarinnar. Jón boðar í þessu viðtali að hagstjórn hans muni lúta hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður eða eins og hann segir sjálfur Ábyrgð og ráðdeild. Við ætlum að spara eins og íslenskar mæður hafa gert í gegnum aldirnar án þess að vera vondar við börnin sín.
Ég er skiljanlega svolítið á báðum áttum því sem frambjóðandi Frjálslynda flokksins hefði ég fremur kosið að fylgi Jóns væri mitt. Það þýðir reyndar ekkert að sýta ákvörðun kjósenda, hana virðum við.
Ef Jóni tekst vel að stjórna borginni á þessum erfiðu tímum sem eru framundan og skilar Reykjavíkurborg í betra ástandi en hann tók við henni, hefur hann markað viss tímamót í pólitískri sögu Íslands.
Tvennt verður spaugilegt að fylgjast með að loknum sigri Jóns. Hvernig munu embættismenn borgarinnar taka Jóni og hitt, hvernig munu stjórnmálafræðingar túlka ákvörðun kjósenda að kjósa Jón.Jón Gnarr: Ég er stoltur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.4.2010 | 01:32
Fáþingi-aLÞINGi gÖTUNNAr-bylting
Það var hefðbundinn laugardagur hjá okkur hjónum í dag. aLÞINGi gÖTUNNAr var á dagskrá. Konan var reyndar fundarstjóri í fyrst sinn og tókst það með ágætum. Ekki er hægt að segja að það hafi verið margmenni en kjarninn mætti. Ég var nokkra stund í Kolaportinu fyrir fundinn og útbýtti dreifimiðum og hvatti fólk til að mæta á Austurvöll. Lang flestir vissu ekki af fundunum. Þar kom berlega í ljós skortur okkar á fjármagni því ekki getum við auglýst okkur eins og bankarnir með heilsíðuauglýsingum.
Þrjár góðar ræður voru á fundinum. Sjá má hluta þeirra hér, á althingigotunnar.is.
Ræða Evu Hauks var mjög beitt. Hún benti á að alþingi götunnar er valdalaust í samanburði við hið hefðbundna Alþingi, sem hún reyndar kallaði "Fáþingi". Hennar lausn var bylting. Bylting sem felst í því að við hættum að næra núverandi valdhafa, þ.e. bankana og stórverslanirnar. Hún spurði líka þeirrar áleitnu spurningar, hvað er fólk að gera, það er að versla í búðum valdhafanna svaraði hún sjálfri sér. A.m.k. var ekki fólk að mótmæla á Austurvelli þó flestir séu ósáttir við framþróun mála í þjóðfélaginu í dag.
Þjóðin siglir áfram og reynir eftir fremsta megni að halda upp hefðbundinni iðju eins og fyrir hrun. Þjóðin er ekki sátt. Þjóðin reynir samt ekkert til að takast á við ástandið sem það er ekki sátt við nema að hverfa til gömlu taktanna, að fylgjast ekki með og láta teyma sig áfram. Það er eins og enginn vilji breytingar, manni er jafnvel spurn, hvar eru allir róttæklingarnir, geta þeir ekki sameinast um nokkrar réttlætiskröfur.
Það er sérkennilegt að hugsa til þess að ef allt verður vitlaust í kjölfar skýrslunnar þá er það meira fýlukast þjóðarinnar vegna vanhæfni sem er löngu liðin en þess óréttlætis sem viðgenst í dag. Er okkur viðbjargandi?
21.3.2010 | 21:32
Jóhanna, eldgos og rústabjörgun
Það er eldgos á Íslandi í dag. Menn höfðu grunsemdir um að slíkt gæti gerst og voru við öllu búnir. Þegar það hófst ruku menn til og unnu fumlaust eftir fyrirfram gerðum áætlunum. Hingað til hefur ekkert farið úrskeiðis. Jóhanna forsætisráðherra brá sér af bæ í dag og kynnti sér málin af eigin raun. Hún heitir hugsanlegum fórnarlömbum hamfaranna fullum stuðningi og bótum ef illa fer.
Jóhanna sat í ríkisstjórn í aðdraganda bankahrunsins. Engin plön, engin áætlun. Við bankahrunið varð uppi fótur og fit, fum og fát. Enginn brá sér af bæ til að kynna sér málin af eigin raun og hefur ekki gert enn. Fórnalömbin sitja ein og yfirgefin í rústum heimila sinna. Ríkisstjórn Jóhönnu bíður fórnarlömbum bankahrunsins að berjast í bökkum til æviloka. Ef fórnarlömbunum hugnast ekki það hlutskipti eða geta ekki annað ætlar Jóhanna og Árni Páll að hjálpa þeim að verða gjaldþrota á mettíma. Það kallast rústabjörgun, draga líkin út því þau lykta svo illa. Síðan getur nýtt fólk flutt inn í staðinn.
Að ljá Lyklafrumvarpi Lilju Mós liðsinni sitt er ekki inní myndinni hjá Jóhönnu. Hún tekur afstöðu með lánadrottnum þessa lands, enda hafa þeir fóðrað kosningajóði hennar.
21.3.2010 | 14:36
Landsþing Frjálslynda flokksins
Við í Frjálslynda flokknum héldum landsþing núna um helgina. Þar sem allir voru vinir höfðu fjölmiðlar landsins lítinn sem engan áhuga á okkur. Því má segja að gæði á samkundum landsmanna séu í öfugu hlutfalli við fjölmiðlaathygli. Sem dæmi er útspil ríkisstjórnarinnar í vikunna um aðstoð við skuldsettan almenning. Tómur pakki sem fékk mikla umfjöllun, um umbúðir að sjálfsögðu því ekki er hægt að hafa umræðu um innihald sem er ekki til staðar. Grátlegast af öllu er sú staðreynd að lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur fékk ekki náð fyrir augum valdhafanna. Það segir manni að almenningur á enga raunverulega fulltrúa inn á Alþingi, nema þá Lilju.
Við slíkar aðstæður er þörf á breytingum og ef fólk kynnir sér málefni Frjálslynda flokksins mun það sjá að þar er margt gott og til framfara. Að málefnin verði að raunveruleika byggist á hversu spilltir menn eru því að öðrum kosti svíkja menn ekki kosningaloforð. Svikin byggjast á fyrirfram samningum við hagsmunaaðila, á bak við luktar dyr, sem almenningur hefur ekki aðgang að. Við þekkjum svikasögu Fjórflokksins. Það er komin tími til að senda Fjórflokkinn í aflúsun.
Sjá nánar á XF.IS
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2010 | 00:55
Alþingi götunnar verður stofnað 6 mars
Fréttatilkynning frá grasrótinni, 4 mars 2010.
Nú hafa nokkrir grasrótarhópar ákveðið að standa fyrir kröfugöngu frá Hlemmi laugardaginn 6. mars kl 14. Gengið verður niður Laugarveginn og að lokinni göngu verður haldinn útifundur á Austurvelli kl. 15.
Ræðumenn verða Andrés Magnússon læknir, Héðinn Björnsson generáll heimavarnaliðsins og Júlíus Valdimarsson húmanisti. Á fundinnum verður Alþingi götunnar stofnað. Magnús Þór Sigmundsson mun syngja. Hljómsveitin Stjörnuryk mun flytja lag.
Helstu áhersluatriði Alþingis götunnar eru:
Leiðrétting höfuðstóls lána, afnám verðtryggingar, fyrningu lána við þrot, jöfnun ábyrgðar og að fjárglæframenn Íslands séu hvorki stikkfrí né endureistir, AGS í úr landi, manngildið ofar fjármagni, aukin völd til almennings, bættur neytendaréttur.
Trommusláttur og lúðrablástur mun fylgja með niður Laugaveginn. Mælst er til þess að göngumenn taki með sér potta, pönnur, flautur eða annað sem getur framkallað hóflegan hávaða. Takið með kröfuspjöld.
Gerum næsta laugardag að sögulegum degi. Fjölmennum við formlega stofnun Alþingis götunnar. Gefum skýr skilaboð til umheimsins, lýðræðið er númer eitt, valdið er fólksins.
Gerum Alþingi götunnar að stórviðburði. Ekki láta þig vanta. Tölum einum rómi með samtökunum okkar. Látum það ekki fara neitt á milli mála hver vilji okkar er. Kjósum með fótunum í göngunni niður Laugaveg.
Hagsmunasamtök heimilanna,
Nýtt Ísland,
Attac samtökin á íslandi,
Siðbót,
Húmanistafélagið,
Rauður vettvangur,
Vaktin,
Aðgerðahópur Háttvirtra Öryrkja.
Samtök fullveldissinna.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Joly er nagli, það er augljóst. Alltaf þegar hún talar til okkar Íslendinga finnst mér eins og hana langi til að segja eftirfarandi. Þið Íslendingar eru svo sundurþykk þjóð sem virðist ekki geta staðið saman og eltist við hagsmunaklíkur endalaust. Sjáið það sem skiptir máli. Sameinist. Þið eruð gáfum gædd, það er bara þessi einbeitti vilji að una engum neins, það sem rak okkur frá Noregi á sínum tíma. Eða við vorum rekin burt.
Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Tja...ekki beint en þó...
Ef fjórflokknum tekst ekki að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu munum við eiga þess kost að ákveða okkur sjálf, að vel athuguðu máli og vel meðvituð um ábyrgð okkar. Þ.e. upplýst ákvörðun. Það er reyndar eitur í beinum fjórflokksins. Þau vilja bara kosningar á fjögurra ára fresti, kosningaloforð sem síðan er hægt að svíkja. Þjóðaratkvæðagreiðslur á kjörtímabilinu setja þessari hegðun skorður og þau túlka það sem skerðingu á frelsi sínu til athafna, þ.e að svíkja kosningaloforð.
Ef við viljum vera þjóð meðal þjóða, þá meina ég langtum lengra aftur í tímann en tilvist Evrópusambandsins nær, verðum við að standa í lappirnar og fá okkar kosningu.
Ef við fellum lögin þá er samningsstaða okkar mun sterkari.
Samningsstaða okkar er sterk því öllum á óvart þá var þjóð gefin lýðræðislegur möguleiki á að segja skoðun sína á greiðslufyrirkomulagi lána. Lánadrottnar vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið enda er allt vitlaust eins og fólk hefur orðið vart við.
Svar lánadrottna hingað til við slíku nöldri er að senda skriðdrekana fram á völlinn.
Leggið við hlustir, skröltið leynir sér ekki og jafnvel innanlands.
Sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig.
Joly harðorð í garð Hollendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2009 | 14:47
Hverju skiptir Icesave þjóðina
Spá AGS og íslenskra stjórnvalda, á getu okkar til að standa í skilum sem þjóð, er mikil bjartsýnisspá. Fjárlög fyrir árið 2010 eru klár merki þess að höfundarnir eru ekki í tengslum við raunveruleikann. Forsendurnar, gjaldeyrisafgangur, tekjur ríkisins og þjóðarframleiðsla, standast ekki. Ef forsendurnar eru brostnar þá er ekkert að marka þessi plön. Þá er framtíð okkar ekki eins og okkur er talin trú um.
Hvernig verður þá framtíð okkar Íslendinga?
Ég óttast að þegar AGS birti sína næstu endurskoðun fáum við verri tíðindi. Sú endurskoðun verður ekki birt fyrr en Icesave hefur verið samþykkt sökum þvingunaraðgerða AGS gagnvart okkur. Sennilega verður okkur tjáð að til að geta klofið skuldirnar verðum við að skera enn meira niður. Síðan mun AGS koma með fleiri endurskoðanir og markmið þeirra allra er að við verðum borgunarmenn fyrir skuldum okkar. Því munu þeir leggja til að við setjum hvað eina upp í skuldir. Ef vinnuframlag okkar dugar ekki fara eignir okkar líka.
Því mun arður Íslands fara í vasa lánadrottna.
Til að hámarka arðinn mun laun og annar kostnaður, heilbrigðis- og menntamál, vera skorinn niður.
Þannig óttast ég að framtíð Íslands verði.
Ef Icesave verður fellt á Alþingi kemur upp sú nýja staða að þjóðin þarf að fara að hugsa. Þjóðin þarf þá að setja sig inn í málin og finna lausnir. Þjóðin mun þá gera sér grein fyrir stöðu sinni. Þá er það kostur að hafa fyrirvarana við Icesave.
Ef Icesave verður samþykkt núna mun fyrrnefnd stað, að þjóðin taki til sinna mála, koma upp mun seinna. Saga annarra þjóða í sömu stöðu og við segir okkur það. Þá mun skuldasúpan vera orðin mun verri. Sennilega er þjóðinni fyrirmunað að skynja vitjunartíma sinn fyrr en seinna og sjálfsagt verður maður að sætta sig við það.
Afborganir lána 40% tekna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.12.2009 | 00:41
Höfnum Icesave, fátækt og barnadauða.
Bretar og Hollendingar eru vanir að rukka. Bretar eru auk þess í fjárhagsvandræðum. Af þeim sökum munu þeir ganga á eftir kröfum sínum. Að halda það að ESB muni borga fyrir okkur ef við göngum þangað inn er fjarstæða. Til þess þarf samþykki allra aðildarþjóðanna. Ætla Bretar og Hollendingar að samþykkja að greiða skuld fyrir Íslendinga sem þeir skulda þeim. Slíkur samningur mun eingöngu fela í sér að auðlindir okkar verða settar upp í skuldir. Það verður settur verðmiði á fiskinn okkar og þannig verður skuldin greidd.
Hlutverk AGS er að finna leið fyrir skuldsettar þjóðir til að standa í skilum. Ef við getum ekki framleitt nóg upp í skuldir munu þeir leggja til að við seljum auðlindir upp í skuldir. Það hafa þeir gert margoft áður. Við erum ekki neitt spes ef fólk heldur það.
Við verðum að skynja söguna og stóra samhengið. Margar þjóðir eru stórskuldugar. Í þeim löndum er barnadauði hæstur því þjóðartekjurnar fara í afborganir af skuldum. AGS stjórnar þar afborgunum skulda ríkisins. Þessar þjóðir voru eins og við, skuldlitlar, barnadauði á niðurleið og almennt heilbrigði á uppleið. Þá kom bóla sem sprakk-skuldir-AGS-og barnadauði. Bólan kom vegna óhefts flæði fjármagns sem olli skuldsetningu. Síðan lokuðust lánalínur og allt sprakk. Margendurtekin saga sem klikkar ekki.
Icesave er ekki bara eitthvert bankatæknilegt vandamál. Icesave snýst um grundvallar lífsviðhorf. Spurningin er hvort réttlætanlegt er að ógna tilveru heillar þjóðar vegna peninga. Vegna gildru sem við gengum í. Við vorum auðveld bráð, ég viðurkenni það. Sem upplýst þjóð hljótum við að skynja að allar hinar skuldsettu þjóðir bíða og vona að við höfnum Icesave. Þar með höfum við brotið ísinn, deyjandi börnum í hag.
Icesave á Alþingi á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.12.2009 | 19:18
Að hafna Icesave er sennilega andstætt náttúruvernd
Milli jóla og nýárs mun Icesave verða samþykkt. Það verður mikill léttir fyrir alla Íslendinga. Þeir sem hafa kynnt sér málið og skilja það munu afskrifa Ísland. Þá mun fólk hefjast handa við að skipuleggja framtíð sína fyrir sjálft sig. Við munum hætta að standa í þessu brölti fyrir þjóðina og hugsa eingöngu um eigin hag. Orrustan töpuð og bara að viðurkenna það.
Þegar maður hugsar aðeins út fyrir kassann, hugsar í víðara samhengi er þetta augljóst. Það eru á hverjum degi einhverjar dýra- og plöntutegundir að koma og fara. Þjóðir koma og fara, það er hinn eðlilegi gangur sögunnar, hvað er maður að æsa sig? Hvernig gat nokkrum Íslendingum dottið í hug að stöðva þróun sem þeir hafa ekkert vald til að hafa áhrif á.
Í sinni einföldustu mynd er staðan eftirfarandi: Ísland er gjaldþrota, við lestur skýrslu AGS er það augljóst. Þar að auki munu fleiri skuldir eiga eftir að bætast við og síðan að sjálfsögðu Icesave. Áætlun AGS stenst ekki, hún er óframkvæmanleg. Þegar viljayfirlýsing Jóhönnu og Steingríms við AGS er lesin sér maður hvað er í vændum. Niðurskurður og fátækt. Lausn AGS verður meiri lántaka og vaxtagreiðslur að eilífu.
Vandinn er sérkennilegur. Ef allir Íslendingar hefðu lesið skýrslu AGS, viljayfirlýsingu stjórnvalda við AGS og velt fyrir sér skuldastöðu okkar væru allir á móti Icesave, líka á Alþingi. Þess vegna hafa andstæðingar Icesave ekkert vald.
AGS vill að við samþykkjum Icesave. Meðan það er ógert beita þeir okkur þrýstingi. Þegar Icesave er samþykkt þurfa þeir ekki að beita okkur þrýstingi. Þegar Icesave er samþykkt á Alþingi Íslendinga getur AGS sagt okkur fyrir verkum. Ef Icesave verður samþykkt, verður það síðasta frjálsa/fullvalda atkvæðagreiðsla Alþingis Íslendinga.
Ég ætla að mæta á Austurvöll og mótmæla, meira svona til að geta sagt frá því við afabörnin. Eftir Icesave ætla ég bara að hugsa um sjálfan mig, en sennilega mun ég aldrei skilja hvernig náttúruverndarhugsjónir VG gátu falið í sér tortímingu fullveldis þjóðar sinnar.
Undarlega lítill kraftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |