Færsluflokkur: Ferðalög

Strætó og nútímafólk.

Það er þetta með strætó. Ég er sennilega með þessa vagna á heilanum. Sennilega vegna þess að þeir eru oftast tómir. Nú á að reyna að hressa upp á þetta allt saman. Í staðinn fyrir ferðir á 30 mínútna fresti þá munu sumar leiðir aka á 15 mín fresti. Það má taka kaffi með sér í vagnana. Námsmenn fá frítt. Þá er það upptalið.

Ég held að frír aðgangur fyrir námsmenn sé góð hugmynd og bíð spenntur eftir að sjá hvort hún virkar. Það er í raun alvörumál að láta þessa vagna aka um allan bæ tóma. Ansi þurfa menn að vera duglegir að kolefnisjafna fyrir þessa tómu vagna.

En í raun erum við að kljást við kynslóðaskipti, eða réttara sagt nýja tíma með nýjum viðmiðum. Spurningin er hvort strætó sé í takt við tímann.

Ég finn það á sjálfum mér og mínum nánustu að við gerum allt aðrar kröfur til strætó en var gert hér á árum áður. Í þá daga var mun meiri tími til stefnu. Þá gat maður velt fyrir sér tímatöflu strætó og hagað ferðum sínum í samræmi við það. Aftur á móti í dag höfum við enga þolinmæði. Stafar það að hluta vegna meiri hraða í þjóðfélaginu en einnig vegna þess að við erum orðin svo vön einkabílnum. Áður fyrr var í mesta lagi einn bíll á hverju heimili og stundum enginn. Þá var það eðlilegt að nota strætó. Núna er það meira spurningin um að láta einhvern af öllum þessum bílum hvíla sig heima og nota strætó í staðinn. Þar með aukast kröfurnar á strætó, að sjálfsögðu. Spurningin er hvort strætó hefur "fattað" það.

Ég held að við séum svo kröfuhörð, hvort það er réttlætanlegt eða ekki, þá viljum við getað gengið út á stoppistöð og það eina sem við þurfum að vita er númer hvað vagninn er sem við eigum að taka. Við viljum ekki þurfa að bíða eftir honum nema í örfáar mínútur og alls ekki þurfa að kunna einhverja tímatöflu. Ef til vill eru þetta of miklar kröfur, jafnvel heimtufrekja. Aftur á móti viljum við nýta strætisvagnana sem best og þá er spurningin hvort við verðum ekki að fara þessa leið til að ná því markmiði. Um það stendur valið.

 


Nú er ég hugsi, jafnvel orðlaus.

Þorbergur Þórsson hagfræðingur ritar grein í Morgunblaðið á dag. Hann er áhugamaður um náttúruvernd. Ég er það reyndar líka en bara með öðrum formerkjum. Hann vill að mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna niðurskurðar á þorskafla felist aðallega í tvennu. Í fyrsta lagi eigi þeir sem missa vinnunna vegna fyrrnefnds niðurskurðar að týna rusl á víðavangi heima í héraði. Í annan stað á afgangurinn af þessum atvinnulausu að steypa kóralrif sem yrði síðan sökkt í sæ með verkefnalausum fiskibátum. Þessi kóralrif eru hugsuð sem aðdráttarafl fyrir fiska, þannig að þeim líði betur í sjónum. Þá muni fiskarnir dafna betur og fjölga sér. Það á einnig að húða kóralrifin með skeljasandi svo að gróður tolli betur við þau og auki þar með fjölbreytilekann í flóru hafsins.

Ég geng út frá því að manninum sé full alvara og hann meini vel. Sjálfsagt munu margir "græningjar" taka þessum hugmyndum fagnandi. Aftur á móti þá varð ég svolítið hugsi, eða þannig sko.

Að tína rusl, steypa og sökkva einhverju í sjóinn er ekki mjög sérhæfð vinna. Tökum dæmi. Alkunna er að Mafíósar tína rusl(óæskilegir náungar), steypa þá í bala og henda þeim síðan í sjóinn. Alls ekkert flókið.

Aftur á móti finnst mér því fólki sem mun missa vinnuna misboðið með þessum tillögum. Um er að ræða fólk með sérhæfingu. Sjómenn hafa sérhæfingu og kunnáttu. Einnig landverkafólk. Þetta er tíðarandinn. Öllum finnst lítið koma til þessara starfa og því geti þetta fólk farið í hvaða vinnu sem er. Utanríkisráðherrann vill setja alla á skólabekk að þeim forspurðum. "Allir" vilja segja því fólki sem býr úti á landi og vinnur við fisk hvað það eigi að gera og hvar það eigi að búa. Ekki er hlustað á kröftug mótmæli þessa fólks.

Þegar Mafíósar fleygja einhverjum í sjóinn, steyptum í bala, er ekki heldur hlustað á mótmælin.

Ég er mikill náttúruverndarsinni. Ég forgangsraða reyndar öðruvísi en flestir aðrir slíkir "sinnar". Ég tel að mannskepnan eigi að hafa forgang. Því vil ég "steypa" og "húða" ráðstafanir sem henta hinum dreifðu byggðum. Það mun laða að sér fólk og gera því kleift að búa í sínu plássi.  Þetta mun auka fjölbreytileikann í mannlífinu hringinn í kringum landið.

Eða viljum við bara aka frá einni bensínstöðinni að enn annarri allan hringinn? 


Bakkafjara og Þorlákshöfn.

Nú eru allri að tala um Bakkafjöru og Þorlákshöfn. Sumir vilja fá stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Aðrir vilja fá Bakkafjöru. Sumir vilja hvorutveggja. Aðrir segja að stórskipahöfn í Þorlákshöfn hafi ekkert með Bakkafjöru að gera. Bakkafjara sé samgöngumál Eyjamanna. Þorlákshöfn sé allt annað.

Ég segi nú bara að menn eigi að ræða saman um málin áður en þeir ákvaða hvað er hvað. 


"Lífið er yndislegt" í Eyjum.

VESTANNAEYJAR 2007 010Hér sjáum við reyktan Lunda sem allir gæddu sér á og þótti

mjög góður. 

 

 

 

 

 

 

 

 Hér er okkur boðið inní Hvítt tjald Eyjamanna. Dísa og Gunsi buðu okkur. Hún átti afmæli daginn eftir. Sennilega bara um þrítugt, þeir eldast vel þessir Eyjamenn.

 

VESTANNAEYJAR 2007 015

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér sjáum við þrjá ættliði í Brekkunni í Herjólfsdal. Tengdó, eiginkonan og yngsta dóttirin. Mikið stuð.

 

VESTANNAEYJAR 2007 022

 

 

 

 

 

 

 

Flugeldasýningin var stórkostleg. 


Mr. Bormann og Vestmannaeyjar.

Ég var í Vestmannaeyjum sl viku. Ræddi og skrafaði við heimamenn. Samgöngumál brenna á Eyjamönnum eins og búast má við, þetta er nú einu sinni eyja umlukin hafi. Ekki beint einfalt mál að bruna í bæinn. Göngin eru komin út af borðinu, ég segi nú til allra hamingju því ég hefði þá aldrei þorað til eyja aftur. Síðan eru eftir tveir kostir. Annar er að byggja bryggju á sandi. Samkvæmt heilagri ritningu og heilbrigðri skynsemi lofar það ekki góðu. Þar að auki felst í þeirri leið fjallvegur, þe Hellisheiði sem getur oft verið leiðigjörn, ófærð eða mikil þoka. En samtals er tíminn frá Eyjum til byggða uþb 2-2,5 klst. Það gerir ávinning upp á 1 klst miðað við núverandi ástand. Hvað sandbryggjan á að kosta veit ég ekki en gefins er hún ekki.

Hinn kosturinn er að kaupa nýjan Herjólf, ekki bara einn heldur tvo. Hafa þá hraðskreiðari þannig að tíminn milli lands og Eyja verði 2 klst. Þá verður heildarferðartíminn um 2,5 klst. Aftur sparnaður um eina klst miðað við núverandi ástand. Ef þessi kostur verður fyrir valinu vinnst margt. Ferðum fjölgar. Það gefur Eyjamönnum möguleika á því að ákveða með stuttum fyrirvara að skreppa upp á land en núna þurfa þeir að panta far með Herjólfi með löngum fyrirvara um helgar. Þetta er í raun óþolandi. Ef við veltum fyrir okkur að aðrir landsmenn geta skroppið eftir sínum þjóðvegum þegar þeim dettur í hug ef veður leyfir. Því myndi þetta  leiða til jöfnunar. Annar kostur er að höfnin í Þorlákshöfn myndi nýtast og þær fjárfestingar sem í henni liggja. Auk þess sleppa menn við fjallveg-Hellisheiðina. Einnig þarf ekki að betrumbæta vegakerfið í kringum Bakka sem óneitanlega þarf að gera. Kolefnisjöfnun er í tísku þessa dagana. Í staðin fyrir að allir Eyjamenn séu að aka um Suðurland þá eru allir bílarnir þeirra kyrrstæðir í ferju og menga því  mun minna.

Því er það algjörlega óskiljanlegt að Mr Bormann ætlar að byggja framtíð samgöngumála Eyjamanna á sandi. Þar að auki gat ég ekki betur heyrt en að flestir Eyjamenn sem ég ræddi við væru mér sammála. Mr Bormann ætti kannski að gera eina létta skoðanakönnun í Eyjum. Eða er hann að hugsa um einhverja aðra en þá? 


Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Við vorum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Reyndar var ég að vinna frá föstudegi til föstudags. Samferða voru eiginkonan, dæturnar og tengdamamma. Ómissandi fyrir vel heppnaða útilegu. Synirnir voru svo á sjálfri Þjóðhátíðinni. Allir skemmtu sér konunglega og allir vilja koma aftur. Þjóðhátíð er svolítið merkilegur og sérstakur viðburður, engin venjuleg útihátíð. Það er erfitt að lýsa með orðum. Ef til vill eiga orð 11 ára dóttur minnar vel við. Við vorum búin að fylgjast með stemmingunni í Herjólfi á leið til Eyja, lífinu í Herjólfsdal, kvöldvöku í Herjólfsdal. Upplifa bekkjarbílana. Svo var okkur boðið í eitt af þessum landsfrægu hvítu tjöldum Vestamanneyinga inní Herjólfsdal. Þar var okkur strax boðið upp á samlokur, flatkökur með hangikjöti og LUNDA. Þessu var öllu skolað niður með viðeigandi drykkjum. Sú 11 ára fylgdist með öllu með galopin augun og af undrun. Svo kom að því að hún dró föður sinn að sér og hvíslaði í eyra hans,

"eru Vestamanneyingar líka Íslendingar?". 


Bullshit = BUS.IS

Drengurinn var að vandræðast vegna morgundagsins. Vildi ekki hjóla í vinnuna en vildi gjarnan fá bílinn. Bentum honum á BUS.is.  Hann svaraði stutt og laggott"bullshit". Kom fram á moggablogginu í dag að 3% þjóðarinnar gengur til vinnunnar en eingöngu 2% nota strætó. Það er greinilegt að strætó er eingöngu afarkostum þeirra sem koma engum öðrum ferðamáta við. Þannig er börnunum mínum einnig innanbrjóst, strætó er algjört neyðarúrræði. Hnignun þessa kerfis er með eindæmum og fáa sinn líka. Fádæma hæfileikaleysi til að setja sig í spor þeirra sem hefðu áhuga á að nota strætó frekar en einkabílinn. Ef vottur af tilfinningargreind og metnaði hefði verið til staðar hefði kerfið blómstrað í dag.

Í raun er þetta svo einfalt. Geta greitt með þeim kortum sem maður er venjulega með í vasanum. Vita eingöngu hvaða leið taka skuli og vagninn komi það oft að ekki þurfi að bíða nema í mesta lagi 10 mínútur. Sökum þess hversu málið er auðleyst, en ekki hefur tekist að leysa það, er augljóst að aldrei hefur staðið til að hafa hér almennilegar almenningssamgöngur.


Tyrkland og Guðstrúin.

Nú er Tyrklandsævintýrinu lokið. Við komum heim í nótt. Allir voru sammála um að ferðin hafi verið meiri háttar vel heppnuð. Okkur fannst gott að vera í Tyrklandi. Fjölskyldan vill mjög gjarnan fara aftur að ári og segir það sína sögu. Vorum á Club Turban hótelinu seinni vikuna. Nutum lífsins þar í hvívetna. Get virkilega mælt með Tyrklandi sem ferðamannastað.

Það sem gerir Tyrkland óneitanlega svolítið sérstakan ferðamannastað er að það er múslímskt land. Oftast höfum við verið að ferðast um kristin svæði, lútersk eða kaþólsk. Tyrkland hefur þá sérstöðu að fullur aðskilnaður er á ríki og trú. Sem ferðamaður í Tyrklandi er nánast ekkert sem bendir til þess að maður sé í landi þar sem 99% íbúanna séu múhameðstrúar. Maður var ekkert var við trúariðkun landsmanna. Enginn af þeim Tyrkjum sem voru að vinna í kringum mann virtust biðjast fyrir fimm sinnum á dag. Einstaka konur voru huldar klæðum en þær voru algjör undantekning. Flest minnti mann á vestræna menningu, bæði í háttalagi og öllu umhverfi.

Það vakti auk þess athygli mína að nýkjörinn forseti Tyrklands, sem hefur verið hallur við strangtrúarstefnu, gerði strax grein fyrir því að hann hygðist ekki breyta neinu í sambandi trúar og ríkis. Enda eins gott fyrir hann, því annars mun herinn setja hann af.

Svipað hugarfar ríkir hér á landi, nema með öfugum formerkjum. Þegar alræmdur vinstri maður, Ólafur Ragnar, er kjörinn forseti á Íslandi þá gengur ekki hnífurinn á milli hans og lútersku kirkjunnar á Íslandi. Ef hann hefði vogað sér að setja sig upp á móti kirkjunni hefði hann aldrei náð kjöri sem forseti. Þá hefði "herinn" sett hann af.

Hér á landi er ekki neinn aðskilnaður trúar og ríkis. Að því leitinu erum við komin skemur á veg en Tyrkir. 


Tyrkneskt detox.

Við höfum verið hér í góðu yfirlæti í Tyrklandi. Þessa vikuna erum við á Hoteli Club Turban. Þar er allt innifalið, fullt fæði og drykkir allan liðlangan daginn. Dagurinn er þétt bókaður. Tímafrek sólböð sem eru tafin með sífelldum sjávarböðum til að forða líkamanum frá suðumarki. Svo fer töluverður tími í að skola niður 3 lítrum af vatni á dag ásamt ögn af bjór eða brandy. Þegar meðvitundarstigið er vart finnanlegt þá skellir maður í sig tyrknesku kaffi.

Detox meðferð hefur verið vinsæl á Íslandi upp á síðkastið. Einhverskonar afeitrunarmeðferð í gegnum ristilþvott. Sem læknir þekki ég það mjög vel að þetta líffæri á hug manns allan við upphaf og lok lífs okkar. Þar sem ég tel mig vera staddan einhvers staðar mitt á milli þessara tveggja póla í lífi mínu velti ég frekar fyrir mér öðrum líffærum.

Ég held að tyrkneskur HEILAÞVOTTUR sé frekar við hæfi nú til dags. Ristillinn og innihald hans er hvort sem er fyrir utan líkamann og þar að auki er það líffæri að mestu sjálfvirkt. Heilinn aftur á móti er óneitanlega hluti af líkamanum. Ég held að við ættum að sína honum viðlíka virðingu og skolpröri skrokksins.

Að fara í frí og slaka á ætti að vera mun meðvitaðra ferli. Hvers vegna pantar maður sér bara tvær vikur á svona letistað. Jú, sú hræðilega staða gæti komið upp að manni færi að leiðast ef maður væri í þrjár vikur. Hvað er að leiðast? Að hafa svo mikinn tíma til að gera ekki neitt annað en það sem hugurinn girnist að það veldur óróleika í heilanum.

Ég held að tyrkneskt detox sé okkur öllum holl. 


Tyrkneskur strætó.

Hér í Marmaris í Tyrklandi er strætó. Hann er að mestu rekinn af einyrkjum. Þeir eiga sinn vagn og reka hann sjálfir. Þeir hafa hagsmuna að gæta, þ. e. sinna.

Þeir hafa vagninn frekar lítinn þannig að hann fyllist fljótt. Yfirbyggingin er skorin við nögl, bara þeir sjálfir. Þeir keyra sem oftast fyrirfram ákveðna leið því þannig ná þeir í sem flesta farþega. Farþegarnir þurfa ekki að kunna neina tímatöflu því hún er ekki til. Maður gengur bara út á götu og vinkar þá stoppa þeir, svo taka þeir við aðgangseyrinum sjálfir. Síðan segir maður bara STOPP og þá stoppar hann. Það gæti ekki verið einfaldara og þess vegna DETTUR MANNI EKKI Í HUG AÐ TAKA LEIGUBÍL.

Hvatir strætisvagna höfuðborgar Íslands eru allt annars eðlis. Sem fæstir farþegar sem sjaldnast gefur af sér minnstan kostnað. Þess vegna er það sem manni dettur fyrst í hug í Reykjavík er TAXI. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband