Færsluflokkur: Lífstíll
20.8.2007 | 00:59
Sicko-IV.
Ég held að þið verðið að sjá myndina Sicko til að skilja þær færslur sem ég hef verið með hér á síðunni minni. Ég skora á alla að sjá þessa mynd. Hún veltir upp svo mörgum vangaveltum að það hálfa væri nóg. Það sterkasta var að myndin fjallaði að stórum hluta um þá sem höfðu keypt sér tryggingu en fengu samt ekkert út úr þeim.
Svo er annað. Þegar maður hefur verið í Bandaríkjunum og hlustað á fréttir þar. Þegar maður hefur rætt við hinn almenna borgara í Bandaríkjunum þá upplifir maður mjög einfalda heilaþvegna þjóð. Þeir vita ekkert um umheiminn. 90% af fréttatímanum er um staðbundnar fréttir, td ég myndi hlusta á fréttir um Reykjavík í 90% af fréttatímanum. Restin væri um um einhverjar frægar stjörnur sem standa í einhverjum afeitrunarvandamálum.
Það var mjög sterkt að Bandaríkjamenn búandi í Frakklandi sögðu að stjórnvöld í Frakklandi óttuðust hinn almenna borgara því þeir rífa kjaft og mótmæla þegar þeim er misboðið. Aftur á móti í Bandaríkjunum þá óttast hinn almenni borgari kerfið. Hinum almenna borgara finnst hann þurfi að leika á kerfið, hylma yfir óæskilegum upplýsingum í Bandaríkjunum.
Því veldur þessi mynd mörgum heilabrotum og er það vel.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.8.2007 | 20:36
Sicko-II
Enn er ég að hugsa um þessa kvikmynd. Það kom fram í henni að lýðræðið væri orsök fyrir ókeypis heilbrigðisþjónustu. Það væri í raun eðli þeirra sem hafa peningana að halda í þá og deila þeim ekki. Þegar kosningaréttur kom til þá færðust völd til þeirra sem hafa enga peninga en bara kosningarétt, þeas ef þeir nota kosningaréttinn sinn. Því er það þannig í Frakklandi þegar þeir fara í mótmælagöngur, fara í verkföll og brenna bíla þá sýna þeir vald sitt sem væntanlegir kjósendur. Þá þorir ekki yfirvaldið annað en að útdeila þeim ókeypis heilbrigðisþjónustu, meðal annars.
Þetta var svolítið áfall fyrir mig. Ekki það að ég sé neitt á móti lýðræði eða þannig sko. Ég er því mjög fylgjandi. Ég hélt bara að lýðræði væri líka í Bandaríkjunum. Eftir að hafa horft á þessa kvikmynd er ég í vafa. Hið virka lýðræði gengur út á það að við hömumst í okkar kjörnu fulltrúum svo þeir sinni okkar málum. Í Bandaríkjunum er hamast í hinum kjörnu fulltrúum. Ekki af kjósendum. Í raun er kosningaþátttaka svo léleg í Bandaríkjunum að hún er varla marktæk. Þeir sem hamast mest í hinum kjörnu fulltrúum eru þeir sem hafa mikla peninga. Þeir kaupa þá til að fara að vilja sínum. Þetta stafar af því að kosningarétturinn hefur ekki fært til valdahlutföllin í Bandaríkjunum. Það eru svo fáir sem kjósa, það eru svo fáir sem eiga um sárt að binda sem kjósa og þar að auki hafa þeir ekki neinn valmöguleika til að kjósa. Því er það þannig að þeir sem eiga um sárt að binda kjósa ekki neitt því þeir hafa ekkert að kjósa. Því hafa þeir ekki nein völd. Því eru þeir ekki nein ógn fyrir hinar ráðandi stéttir.
Því er Sicko góð mynd, hún fær mann til að hugsa. Hvernig er ástandið hérna heima? Er það skárra? Hvert stefnum við, er ekki eitthvað að varast. Þurfum við ekki að halda vöku okkar og styrkja hið virka lýðræði á allan hátt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2007 | 00:14
Sicko.
Ég var að horfa á myndina Sicko eftir Mr. Moore. Mér fannst hún stórkostleg, sorgleg og svakaleg. Mér fannst hún stórkostleg því sem kvikmynd var hún vel gerð. Mér fannst hún einnig stórkostleg því sem áróðursmynd var hún vel gerð. Örugglega hefur Mr. Moore eins og venjulega gengið hreint til verks og ákveðið að sýna okkur gaumgæfilega það sem hann vill að við sjáum. Því er þetta ekki fræðslumynd í þeim skilningi.
Hvað sem því líður, þó að við deildum 2, 5, 10 eða 100 í sannleiksgildi þessarar kvikmyndar þá er hún eftir sem áður sorgleg og svakaleg. Vandamálið fyrir andstæðinga þessarar myndar er að hún fellur ekki í grýttan jarðveg. Hún fellur í frjósaman jarðveg. Allir hafa heyrt sögur um greiðslufyrirkomulag bandaríska kerfisins. Í sjálfu sér er heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna mjög gott, ef þú getur borgað fyrir það. Læknisþjónusta er mjög góð og öll tæki og tól til staðar. Því fellur þessi umræða frekar undir félagsmál en heilbrigðismál. Ef þú ert borgunarmaður fyrir þeirri þjónustu sem þú þarft á að halda þá færðu sennilega bestu þjónustu sem völ er á í heimi hér.
Það er þetta millistig, borgunin. Um það snýst málið. Stundum hefur reynst erfitt fyrir okkur heilbrigðisstarfsmenn að sækja fé til hins opinbera fyrir því sem við teljum nauðsynlegt. Þá hafa sumir sagt að best sé að innleiða bandaríska kerfið. Þá losnum við við þetta opinbera apparat sem skammtar okkur peningana. Í staðinn gætum við rekið okkar starfsemi eins og hvert annað bifreiðaverkstæði. Þá kæmu bara þeir sem ættu efni á að gera við sig og við gætum rukkað eins og við vildum. Hljómar vel fyrir mína buddu. Vandamálið er þessi samfélagslega samviska. Jú, ef heilbrigðisþjónusta er ókeypis eða því sem næst þá verður heilsa þjóðarinnar betri. Því verður heildarkostnaðurinn fyrir þjóðfélagið minni. Það kom fram að heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum er eitt það dýrasta í heimi en alls ekki það besta.
Þetta kom allt mjög vel fram í kvikmyndinni. Því verður mjög athyglisvert að sjá viðbrögð þeirra sem eru ekki henni sammála. Reyndar held ég að þögnin muni drepa þessa mynd. Ég held að ekkert muni gerast í kjölfar hennar í Bandaríkjunum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2007 | 00:31
Gömul fótbrotin kona.
Fyrir all nokkrum árum síðan var ég læknanemi. Ætli þetta viðtal hafi ekki átt sér stað sem ég ætla að segja frá uþb árið 1984.
Ég var að taka sjúkrasögu af gamalli konu frá Vestfjörðum. Ekki man ég hvers vegna hún var komin á Landspítalann í þetta skipti. Ef ég man rétt þá var hún frá Barðastrandarsýslu. Róleg og yfirveguð kona.
Ég tók eftir því að annar ökklinn á henni var illilega skakkur og hafði hún greinilega gengið á jarkanum alla æfi. Ég spyr að sjálfsögðu hvernig standi á þessu. Jú sjáðu til ungi maður, segir hún, ég fótbrotnað þegar ég var 9 ára gömul. Við vorum bændur. Faðir minn bar mig inn í rúm. Hann setti síðan tvær fjalir sitt hvoru megin við brotinn ökklann og batt svo snæri umhverfis fótlegginn. Þarna lá ég síðan þangað til að ég var gróin. Því miður greri brotið svolítið skakkt en það hefur ekki komið svo mikið að sök því gengið hef ég getað allar götur síðan þá.
Þarna sat ég opinmyntur stúdentsræfillinn og reyndi að skynja og skilja hlutskipti fyrri kynslóða. Spurningarnar hringsnerust í höfðinu á mér. Sú fyrsta sem hrökk út úr mér eins og popp korn fannst mér mjög gáfuleg, en það kom svo síðar í ljós að svo var ekki.
HVAÐ SAGÐI LÆKNIRINN? spurði ég.
HVAÐA LÆKNIR? spurði gamla konan.
Nú hófust heilabrot í kolli mínum fyrir alvöru. Bíddu nú við þau kölluðu semsagt ekki á lækninn.
Þá kom næsta vísindalega úthugsuð spurning frá mér. Kölluðuð þið ekki til lækni þegar þú brotnaðir?
Sú gamla svaraði: TIL HVERS?
Nú var mér öllum lokið, til hvers? Jú en var þetta ekki óskaplega sárt hélt ég áfram, í þeirri vona að ná þræðinum aftur.
Sú gamla svaraði; AÐ SJÁLFSÖGÐU.
Þarna sat ég við rúmstokk þessarar öldnu konu frá einhverju allt öðru tilverustigi en ég sjálfur tilheyrði. Ég barðist við að ná áttum. Hægt og hægt rann upp fyrir mér ýmsar staðreyndir í þessu sérkennilega sakamáli. Því að í dag hefði þessi atburður orðið sakamál hjá barnaverndarnefnd.
Þegar ég svo skildi þetta þá var það þannig að ekki þurfti að kalla til lækni þar sem sjúkdómsgreiningin var augljós. Stúlkan var fótbrotin, það var deginum ljósar og því engin þörf fyrir lækni. Sömuleiðis var meðferðin á færi heimamanna og því ekki nauðsynlegt að kalla til lækninn.
Að beinbroti fylgdu kvalir var sjálfgefið og engin þörf á því að gera veður út af því. Það var bara hluti af lífinu að finna til og kveljast. Að lifa af og komast aftur á fætur var bara vel sloppið. Þessi gamla kona kenndi mér margt þó ég muni alls ekki hvers vegna hún kom til okkar á Landspítalanum.
Síðan ég átti þetta viðtal hef ég oft velt því fyrir mér hvort við getum farið fram á það að finna aldrei til. Allar kynslóðirnar á undan okkur fundu til. Ekki fóru þær í hundana því þá værum við ekki til. Getur verið að við förum í hundana vegna þess að við finnum aldrei til?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2007 | 00:51
Tannlæknasvæfingar.
Í Blaðinu í dag er grein um svæfingar vegna tannviðgerða á börnum. Réttara sagt skort á svæfingum. Bent er á að þessi þjónusta fáist í þjóðfélögum sem við berum okkur gjarnan saman við. Sagt er að svæfingalæknar hafi lítinn áhuga á þessum svæfingum vegna þess að þær séu ver borgaðar af Tryggingastofnun miðað við aðrar svæfingar. Sjálfsagt rétt en ekki meginskýringin.
Þessar svæfingar hafa verið stundaðar á stofum tannlækna. Þar hefur ekki verið nein sérstök aðstaða fyrir svæfingar. Svæfingalæknirinn hefur komið með sín tæki og tól í lítill tösku og sett upp svona "mini" svæfingaraðstöðu. Einstaka hafa alltaf svæft fyrir sama tannlækninn árum saman og geta útbúið eitthvað betri aðstöðu fyrir sig.
Að svæfa fólk er ekki hættulaust. Að svæfa börn er vandasamara. Að svæfa börn þar sem unnið er í öndunarveginum er enn vandasamara. Að gera við tennur er oftast ekki hættulegt. Því á vinnuaðstaðan að miðast við þann þátt starfseminnar sem er hættulegastur fyrir sjúklinginn.
Að stunda farandsvæfingar vegna tannviðgerða er steinöld, það er ekki sæmandi nú til dags. Engum skjólstæðingum svæfingalækna í dag er boðið upp á slíkar hörmungaraðstæður nema börnum sem þurfa tannviðgerð. Allir aðrir eru svæfðir við mun betri aðstæður.
Ég held að það sé meginskýringin á því að erfitt sé að fá svæfingalækna til að sinna þessu.
Tannlæknar ættu að koma sér upp einni stofu þar sem allar svæfingar fara fram vegna tannviðgerða. Þar sé vandað til allra hluta, góð vinnuaðstaða, nægur mannafli til að sinna barnasvæfingum og hámarks öryggi tryggt eins og kostur er. Annað er ekki bjóðandi börnunum okkar í dag.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.8.2007 | 23:02
Strætó og nútímafólk.
Það er þetta með strætó. Ég er sennilega með þessa vagna á heilanum. Sennilega vegna þess að þeir eru oftast tómir. Nú á að reyna að hressa upp á þetta allt saman. Í staðinn fyrir ferðir á 30 mínútna fresti þá munu sumar leiðir aka á 15 mín fresti. Það má taka kaffi með sér í vagnana. Námsmenn fá frítt. Þá er það upptalið.
Ég held að frír aðgangur fyrir námsmenn sé góð hugmynd og bíð spenntur eftir að sjá hvort hún virkar. Það er í raun alvörumál að láta þessa vagna aka um allan bæ tóma. Ansi þurfa menn að vera duglegir að kolefnisjafna fyrir þessa tómu vagna.
En í raun erum við að kljást við kynslóðaskipti, eða réttara sagt nýja tíma með nýjum viðmiðum. Spurningin er hvort strætó sé í takt við tímann.
Ég finn það á sjálfum mér og mínum nánustu að við gerum allt aðrar kröfur til strætó en var gert hér á árum áður. Í þá daga var mun meiri tími til stefnu. Þá gat maður velt fyrir sér tímatöflu strætó og hagað ferðum sínum í samræmi við það. Aftur á móti í dag höfum við enga þolinmæði. Stafar það að hluta vegna meiri hraða í þjóðfélaginu en einnig vegna þess að við erum orðin svo vön einkabílnum. Áður fyrr var í mesta lagi einn bíll á hverju heimili og stundum enginn. Þá var það eðlilegt að nota strætó. Núna er það meira spurningin um að láta einhvern af öllum þessum bílum hvíla sig heima og nota strætó í staðinn. Þar með aukast kröfurnar á strætó, að sjálfsögðu. Spurningin er hvort strætó hefur "fattað" það.
Ég held að við séum svo kröfuhörð, hvort það er réttlætanlegt eða ekki, þá viljum við getað gengið út á stoppistöð og það eina sem við þurfum að vita er númer hvað vagninn er sem við eigum að taka. Við viljum ekki þurfa að bíða eftir honum nema í örfáar mínútur og alls ekki þurfa að kunna einhverja tímatöflu. Ef til vill eru þetta of miklar kröfur, jafnvel heimtufrekja. Aftur á móti viljum við nýta strætisvagnana sem best og þá er spurningin hvort við verðum ekki að fara þessa leið til að ná því markmiði. Um það stendur valið.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2007 | 22:40
Ratsjárstöðvar og Aronskan.
Allt í einu eigum við að fara að greiða fyrir rekstur ratsjárstöðvanna hér á landi. Þá vakna allir upp við vondan draum. Til hvers eru ratsjárstöðvar? Hafa þær borgarlegt eða hernaðarlegt hlutverk? Hverjum gagnast þær? Það er greinilegt að margir eru á gati og hafa ekki unnið heimavinnuna sína.
Ratsjárstöðvarnar fylgjast með og gera flugumferðarstjórn kleyft að stjórna öllu flugi í kringum landið. Það hljómar vel, meira að segja skapar sú vinna tekjur fyrir landann. Á hverju byggist hin hernaðarlega þýðing þessara stöðva? Hver er kostnaðurinn við þann þátt starfseminnar. Þar skortir okkur upplýsingar til að geta tekið afstöðu. Þeir í utanríkisráðuneytinu virðast hafa verið mjög uppteknir í sumar því svörin liggja ekki á lausu.
Ég held að það sé engin þörf fyrir hernaðarlega starfsemi í ratsjárstöðvunum. Hefðbundnar loftárásir eru nánast útilokaðar, þar að auki væri einhver búinn að hringja í Sollu og tilkynna þær, því vinalönd eru allt umhverfis okkur.
Ég held að Aronskan sé aðal vandamálið með ratsjárstöðvarnar. Þar vinna örfáir tæknimenn við sjálfan reksturinn. Umhverfis þá hefur hlaðist fjöldi starfsmanna sem vilja ekki missa vinnuna. Það var hægt meðan Kaninn borgaði brúsann. Núna eigum við að borga þetta sjálf.Þar stendur hnífurinn í kúnni.
Nú þarf Ingibjörg Sólrún að stilla til friðar á fleiri stöðum en fyrir botni Miðjarðahafs.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2007 | 23:31
Kennaralaun.
Var að heyra um vinkonu okkar. Hún kenndi 80% í fyrra, fékk fyrir það 150 þús í peningum. Núna ákvað hún að fara í Háskóla og mennta sig betur. Fær frá Lánasjóðnum 160 þús í peningum á mánuði.
Er ekki eitthvað bogið við kennaralaunin?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.8.2007 | 23:10
Nú er ég hugsi, jafnvel orðlaus.
Þorbergur Þórsson hagfræðingur ritar grein í Morgunblaðið á dag. Hann er áhugamaður um náttúruvernd. Ég er það reyndar líka en bara með öðrum formerkjum. Hann vill að mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna niðurskurðar á þorskafla felist aðallega í tvennu. Í fyrsta lagi eigi þeir sem missa vinnunna vegna fyrrnefnds niðurskurðar að týna rusl á víðavangi heima í héraði. Í annan stað á afgangurinn af þessum atvinnulausu að steypa kóralrif sem yrði síðan sökkt í sæ með verkefnalausum fiskibátum. Þessi kóralrif eru hugsuð sem aðdráttarafl fyrir fiska, þannig að þeim líði betur í sjónum. Þá muni fiskarnir dafna betur og fjölga sér. Það á einnig að húða kóralrifin með skeljasandi svo að gróður tolli betur við þau og auki þar með fjölbreytilekann í flóru hafsins.
Ég geng út frá því að manninum sé full alvara og hann meini vel. Sjálfsagt munu margir "græningjar" taka þessum hugmyndum fagnandi. Aftur á móti þá varð ég svolítið hugsi, eða þannig sko.
Að tína rusl, steypa og sökkva einhverju í sjóinn er ekki mjög sérhæfð vinna. Tökum dæmi. Alkunna er að Mafíósar tína rusl(óæskilegir náungar), steypa þá í bala og henda þeim síðan í sjóinn. Alls ekkert flókið.
Aftur á móti finnst mér því fólki sem mun missa vinnuna misboðið með þessum tillögum. Um er að ræða fólk með sérhæfingu. Sjómenn hafa sérhæfingu og kunnáttu. Einnig landverkafólk. Þetta er tíðarandinn. Öllum finnst lítið koma til þessara starfa og því geti þetta fólk farið í hvaða vinnu sem er. Utanríkisráðherrann vill setja alla á skólabekk að þeim forspurðum. "Allir" vilja segja því fólki sem býr úti á landi og vinnur við fisk hvað það eigi að gera og hvar það eigi að búa. Ekki er hlustað á kröftug mótmæli þessa fólks.
Þegar Mafíósar fleygja einhverjum í sjóinn, steyptum í bala, er ekki heldur hlustað á mótmælin.
Ég er mikill náttúruverndarsinni. Ég forgangsraða reyndar öðruvísi en flestir aðrir slíkir "sinnar". Ég tel að mannskepnan eigi að hafa forgang. Því vil ég "steypa" og "húða" ráðstafanir sem henta hinum dreifðu byggðum. Það mun laða að sér fólk og gera því kleift að búa í sínu plássi. Þetta mun auka fjölbreytileikann í mannlífinu hringinn í kringum landið.
Eða viljum við bara aka frá einni bensínstöðinni að enn annarri allan hringinn?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2007 | 22:21
Bakkafjara og Þorlákshöfn.
Nú eru allri að tala um Bakkafjöru og Þorlákshöfn. Sumir vilja fá stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Aðrir vilja fá Bakkafjöru. Sumir vilja hvorutveggja. Aðrir segja að stórskipahöfn í Þorlákshöfn hafi ekkert með Bakkafjöru að gera. Bakkafjara sé samgöngumál Eyjamanna. Þorlákshöfn sé allt annað.
Ég segi nú bara að menn eigi að ræða saman um málin áður en þeir ákvaða hvað er hvað.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)