Færsluflokkur: Ljóð
24.11.2008 | 08:45
HÁSKÓLABÍÓ KL 20:00 Í KVÖLD.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.11.2008 | 23:38
Stólafíklar og við-BURT MEÐ SPILLINGALIÐIÐ.
Hvernig á maður að haga sér núna. Á maður að ræða um eftirlaun ráðherra sem skipta engu máli í stóru myndinni. Á maður að velta sér upp úr því hvort Davíð Oddson hefði átt að ræða um eitthvað annað en sjálfan sig. Á maður að velta fyrir sér einhverjum öðrum smámálum. Nei, við eigum að einbeita okkur að aðalatriðunum, því sem skiptir máli.
Lýðræðið; það skiptir máli. Valdhafar hlusta ekki á þjóðina þessa dagana. Valdhafar hafa menn í fullri vinnu til að kasta ryki í augun á okkur borgurunum. Allt til að fegra sinn hlut. Hér er um mjög alvarlegan misskilning að ræða milli okkar og valdhafa. Þeir þurfa ekki að vera í neinni kosningabaráttu gegn okkur. Þeir eiga bara að vinna vinnuna sína og sína af sér heiðarleika og gott siðferði. Því áttu valdhafar að segja af sér strax í upphafi kreppunnar og skipa utanþingsstjórn. Að lafa í stólunum rúin öllu trausti er ekki nokkrum manni til gagns.
Réttlætið; Að endurráða spillingarliðið aftur inn í bankana og viðhalda óhæfum embættismönnum hjá eftirlitsstofnunum ríkisins er ekki bara heimskulegt heldur einnig spilling. Síðan þega ráðherrar hlægja góðlátlega að okkur, almúganum, og í þokkabót fara með rangt mál, þ.e. ljúga, eins og kom fram í fréttum ríkissjónvarpsins í kvöld, þá á okkur að vera nóg boðið. Enda er okkur nóg boðið, við viljum lýðræði, ekki alræði stólafíkla.
Framtíðin; hvernig bregðumst við við þessum erfiðu aðstæðum sem við erum í? Hver einstaklingur vill ekki verða gjaldþrota. Því er verðtrygging lána stórt mál. Hana þarf að afnema, núna. Ef einhverjar stofnanir eða lífeyrissjóðir fara illa út úr því getum við tekið á því seinna. Núna þarf að bjarga heimilunum.
Við þurfum að endurlífga Alþingi Íslendinga og virkni hins almenna borgara í þjóðmálum.
Mætum á Austurvöll á morgun og í Háskólabíó á mánudagskvöldið. Verum ábyrg.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.11.2008 | 23:43
"Ég flyt bara héðan"-mætum á NASA og finnum lausnir.
Ég hef heyrt í mörgum. Fólk er að hugsa um að yfirgefa skerið og koma sér vel fyrir á erlendri grund. Það hefur enginn trú á lýðræðinu á Íslandi. Mætum á NASA annað kvöld kl 20:00, þe mánudagskvöld og fyllumst einhverri von. Von um jákvæðar breytingar, annars hoppum við af þessu sökkvandi skeri.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.11.2008 | 13:54
Opinn BORGARARAfundur á mánudagskvöld á NASA.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2008 | 00:51
BURT MEÐ SPILLINGARLIÐIÐ.
Það má reyna að sjá jákvæða þætti í þeim miklu erfiðleikum sem blasa við okkur Íslendingum þessa dagana. Ég ætla ekki að draga úr því á neinn hátt að staða okkar er mjög alvarleg, í mörgu tilliti ef ekki flestu. Aftur á móti hafa þessir erfiðleikar leyst úr læðingi ýmislegt hjá okkur sem hefur ekki verið svo áberandi langa lengi. Fólk er farið að hugsa og það á gagnrýninn hátt. Ég sjálfur upplifi það þannig að svo miklar breytingar hafa átt sér stað að maður verður að endurskoða flest allar skoðanir sem maður hefur haft hingað til. Mörgum er eins farið. Því er mikil gerjun í gangi. Það spretta upp grasrótahreyfingar út um allan bæ, nánast úr engu. Það gleður mig. Ástæðan er sú að virkt borgaralegt lýðræði byggir á virkum, afskiptasömum borgurum sem láta ekki vaða yfir sig. Við getum öll verið sammála um það að ef virkt borgaralegt lýðræði hefði verið til staðar á Íslandi undanfarin ár hefði margt farið öðruvísi.
Núna krefst fólk upplýsinga, staðreynda. Það er forsenda þess að við getum myndað okkur sjálfstæða skoðun. Það virðist vera djúpt á öllum slíkum upplýsingum. Allt sem skiptir máli virðist makkað í bakherbergjum í dag. Okkur er ekki treyst fyrir viðkvæmum staðreyndum, við gætum komist að "rangri" niðurstöðu. Hugsanlegt er einnig að einhverjir gætu orðið að sakamönnum ef við vissum allan sannleikann.
Hvernig bregðast valdhafar við því að þjóðin er vakna. Spunameistarar reyna að finna ódýrasta samnefnarann hjá þjóðarsálinni og stefna flokkum sínum þangað. Það er gert í einum og bara einum tilgangi. Að halda völdum með eins litlum tilkostnaði og hugsast getur. Gleggsta dæmið er nefndarskipan Sjálfstæðisflokksins um ESB. Brauðmolar til almúgans í þeim eina tilgangi að tolla í stólunum. Af þessu er augljóst að valdið er óttaslegið, hestar bakka yfirleitt ekki. Það í sjálfu sér er sigur.
Stóra vandamálið er að valdhafar og þeirra nánustu er að þeir eru afruglaralausir, þeir sjá ekki myndina skýrt. Við viljum Ríkisstjórnina burt. Við viljum toppana í Seðlabankanum burt. Við viljum nýtt fólk í Fjármálaeftirlitið. Við viljum Kaþólskan rétttrúnaðarrétt yfir útrásarliðinu. Við viljum upplýsingar og réttlæti. Við viljum, BURT MEÐ SPILLINGARLIÐIÐ.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.10.2008 | 22:15
Krónan okkar er orðin latína.
Ef, ef, ef við bara hefðum gert þetta eða hitt þá væri allt í stakasta lagi. Á bloggsíðu Egils kemur fram að breskur fræðimaður vann skýrslu fyrir Landsbankann og kynnti fyrir þeim, mönnum úr Seðlabankanum og Fjármálaráðuneytinu s.l. sumar. Hann spáði fyrir um það sem við höfum upplifað þessa vikuna. Nokkrir vinnufélagar mínir hafa margoft rætt möguleikann á þeirri stöðu sem upp er komin í að minnsta kosti hálft ár. Því virðist sem almenningur og fræðimenn hafi gert sér fulla grein fyrir hvað gæti gerst. Því miður höfðu þessir aðilar engin völd til að rétta kúrsinn á skútunni.
Ég hef örlítinn skilning á spennufíkn bankamannanna, reyndar í dag er samúðin ekki upp á marga fiska. Ábyrgð þeirra er mjög mikil. Bretinn sem Egill vitnar í gaf tvær leiðir s.l. sumar. Halda krónunni og flytja bankana út eða taka upp evru og halda bönkunum innanlands. Að halda bæði krónunni og bönkunum var andvana fædd hugmynd. Hvaða grunnskólakrakki sem er sér það í hendi sér að bankakerfi sem skuldar 12 faldar þjóðartekjur getur ekki staðið í skilum.
Ef bankarnir hefðu flutt sig um set hefðu þeir lifað af og íslenska ríkið ekki lent í þessum hremmingum. Þá hefði íslenska ríkið misst af góðum tekjum ef bankarnir hefðu flutt sig erlendis. Davíð vildi ekki evruna og við að sat. Hann vildi ekki einu sinni baktryggja bankann með nægjanlegum varasjóði gjaldeyris því í dag getum við bara keypt inn lífsnauðsynjar frá útlöndum. Í dag eru bankarnir okkar rjúkandi rústir og fjöldi einstaklinga atvinnulaus. En við eigum þó krónuna okkar. Hún er reyndar komin á bás með Latínunni, hún er til en það notar bara hana enginn lengur.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2008 | 21:57
Sól, sumar og kynþáttahatur.
Það er ekki hægt að neita því að maður var heppinn að vera í fríi í dag. Þvílíkt veður. Ég held að þessi dagur toppi allt í Reykjavík hvað við kemur veðurblíðu. Nauthólsvíkin og Kaffi París voru áningastaðir okkar í dag. Smá slatti af sólbað og síðan ögn af hvítvíni og salati. Grillaður lax og meira hvítvín í kvöldmat.
Ef það væri ekki fyrir mannlegt eðli hefði dagurinn verið fullkominn. Á Ilströndinni voru nokkrir að stelast til að reykja þó það sé bannað. Það skipti mig engu máli. Aftur á móti þá sá einn íslendingurinn ástæðu til að hreyta ónotum í eina konu sem var að reykja á ströndinni. Þegar hún vildi klára sína rettu bauðst hann til að míga á hana og spurði hana hvort það væri ekki jafngilt. Það sem gerði þetta sérstakt var að reykingakonan var svertingi. Íslendingurinn sá ekki ástæðu til að bjóða hland sitt öðrum reykingamönnum á ströndinni. Því var greinilega um kynþáttafordóma að ræða.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.9.2007 | 22:32
Fósturdráp og kerfisbundin sjálfsvíg.
Mikil umræða hefur verið á blogginu um fóstureyðingar. Jón Valur og Halla Rut hafa tekist á ásamt fleirum. Ekki hefur mér gefist tími til að lesa allt það sem ritað hefur verið í þeirri umræðu. Ljóst er að ekki verður andstæðum skoðunum hnikað hversu mikið menn blogga. Því mun frekari rökræða ekki leiða til neinnar sameiginlegrar niðurstöðu.
Er ekki hægt að virkja þá umhyggju sem fram hefur komið í umræðunni til góðs? Annars vegar er mikil umhyggja fyrir hinu ófædda barni og á hinn bóginn er mikil umhyggja fyrir hinum þunguðu konum.
Þá er mér efst í huga fólk sem lendir í aðstæðum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Landlæknir Bandaríkjanna áætlar að um 400 þús bandaríkjamanna látist af völdum reykinga á ári. Einnig að um 3-400 þús bandaríkjamenn látist af ári vegna offitu. Við Íslendingar stefnum hraðbyr í sömu átt. Það gerir um 700 andlát á ári á Íslandi sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Reykingar og offita er í sjálfu sér kerfisbundið sjálfsvíg hjá viðkomandi einstakling. Reykingar og í vaxandi mæli offita munu draga til sín vaxandi fjármuni, mannslíf og þjáningar. Þeir svartsýnustu telja að offita muni draga svo mikla fjármuni í framtíðinni til sín að ekkert verður eftir til vegagerðar eða skóla. Reykingamenn hafa þó greitt örlítið upp í kostnaðinn með kaupum sínum á tóbaki sem ríkið leggur á gjöld sem renna í ríkiskassann. Offitusjúklingurinn hefur hvergi lagt til aukið fjármagn.
Því er þörf á að taka höndum saman. Gott væri að beina allri þeirri umhyggju sem fram hefur komið undanfarna daga í garð ófæddra einstaklinga og þungaðra kvenna til þeirra sem þjást af offitu. Ófætt fóstur deyr í fóstureyðingu. Líf konu gæti farið í rúst vegna óvelkominnar þungunar og jafnvel deyr hún. Offitusjúklingurinn leggur líf sitt í rúst og deyr að lokum fyrir aldur fram.
Er eðlismunur á vel útfærðu sjálfsvígi með offitu eða reykingum annars vegar eða hins vegar vel útfærðu fósturdrápi?
Ljóð | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.8.2007 | 21:03
Hundanámskeð.
Ég var á hundanámskeiði í gær. Já einmitt ég. Kennarinn sagði að við eigendurnir værum ekki síður á námskeiðinu en hundarnir. Hundarnir ættu að læra að hlýða. Við þyrftum að læra að beita hundinn aga. Kennarinn var ekkert lamb að leika sér við. Hún notaði mjög ákveðnar aðferðir. Verðlaun ef hann gerði rétt og harða refsingu ef hann gerði rangt. Þannig fékk hún hundinn til að hlýða. Hundaeigandinn varð að vera samkvæmur sjálfum sér og engar undantekningar því það skilur ekki hundurinn.
Ég er að ala upp 4 börn. Ég held það hafi tekist þokkalega, amk hingað til. Ég el þau ekki upp eins og hunda. Þau skilja undantekningar, að fylgja reglunum ekki alltaf er möguleiki. Aftur á móti hef ég kennt þeim aga. Haft reglur. Ekki bara það. Ég hef reynt að fylgja reglum sjálfur því ólíkt hundum þá er það mjög sterkt að vera gott fordæmi. Til dæmis ef ég myndi sofa á gólfinu fyrir framan hjónarúmið mitt í margar vikur þá myndi hundurinn ekki hætta að hoppa upp í hjónarúmið. Hann yrði sennilega bara ánægður með plássið sem ég eftirléti honum. Aftur á móti myndu börnin mín panta fyrir mig tíma hjá geðlækni.
Núna er skólastarfið að hefjast. Fjölmiðlar fullir af sálfræði um hvernig við eigum að takast á við þessar náttúruhamfarir að börnin okkar fara í skóla. Við eigum að vera góð við börnin, við eigum að kenna þeim aga, við eigum að sýna þeim áhuga, við eigum að grennslast fyrir hvort þau verði fyrir einelti, við eigum að gefa þeim meiri tíma, við eigum að minnka vinnu, við eigum að samræma okkar vinnu og skólagöngu barnanna, við eigum að taka þátt í starfi foreldraFÉLAGSINS, VIÐ EIGUM AÐ VITA MEÐ HVERJUM BARNIÐ OKKAR EYÐIR TÍMA SÍNUM MEÐ, VIÐ EIGUM AÐ VITA HVAÐ BARNIÐ OKKAR SKOÐAR Á NETINU, VIÐ EIGUM AÐ VITA VIÐ HVERN ÞAÐ TALAR VIÐ Í SÍMA OG VIÐ EIGUM AÐ VITA HVAÐ ÞAÐ HUGSAR.
Ég held að það sé mun auðveldara að ala upp einn hund.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2007 | 01:28
Ég endaði í sjónum á Patreksfirði.
Fyrir tuttugu árum síðan bjó ég á Patreksfirði. Þá var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur eins og venja er. Þá var meðal annars kappróður. Ég var stýrimaður á bát skipuðum konum af sjúkrahúsinu og heilsugæslunni. Var frekar dagsfarsprúður og lá ekki hátt rómur. Þennan dag tók ég hamförum og öskraði svo á mínar stúlkur að þær réru lífróður og við sigruðum. Það var til siðs í þá daga að fleygja stýrimanni sigurliðsins í sjóinn. Þennan dag var ekki gerð nein undantekning frá þessari göfugu reglu. Þrátt fyrir að ég væri eini læknir héraðsins flaug ég í fallegum boga út yfir hafflötinn og lenti á bólakafi í ísköldum sjónum. Læknirinn var að minnsta kosti á vísum stað á meðan. Sjórinn var ískaldur og blautur. Svo fékk ég að súpa á Íslenskum sjó, söltum, þannig að mér hefur ekki bara orðið migult í saltan sjó heldur einnig fengið að vera neytandi, hlandblandaðs bryggjugutls.
Það er því deginum ljósara að ég hef dulda hæfileika til að vera leiðtogi. Amk ef ég fæ tækifæri til þess. Aftur á móti er mér mun hugstæðara hver verður næsti framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins. Þar er mikil nauðsyn að sé maður sem getur stýrt sínu liði til sigurs, eins og ég gerði forðum daga. Sigurjóni Þórðarsyni hefur verið úthlutað stöðunni ef eitthvað er að marka bloggheima.
Enginn talsmaður Frjálslyndra hefur jafn breitt bakland og á ég þá við að mörgum andstæðingum fannst fall hans af þingi hið verst mál. Þar fór góð og kröftug rödd í súginn. Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum kvótaflakks. Sigurjón er maður friðarins. Ekki minnist ég úr fréttum liðinna ára að hann hafi átt í útistöðum við fólk, nema þá pólitíska andstæðinga sína, enda eru þeir sviðnar rústir eða parkeraðir inn á stofnunum til langdvalar. Hans bakland er eins og spretthlauparar sem bíða eftir skothvellinum til að hefja baráttu í þágu Frjálslynda flokksins. Ef hann verður stýrimaður er nánast formsatriði að sigur er í höfn.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)