Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Bæjarins bestu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Grein eftir mig á Svipunni 26 ágúst 2010.

                                        Bæjarins bestu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

All nokkrir einstaklingar vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn úr landi sem fyrst. Þeir sem eru því ósammála bera því við að AGS sé eini valmöguleiki Íslands í dag. Svar þeirra við ósk okkar um brottflutning sjóðsins frá Íslandi er oftast á þá leið hvað við viljum þá gera í staðinn. Ástæðan fyrir því að við viljum sjóðinn burt er ekki sú að við vitum nákvæmlega hvernig eigi að leysa vanda Íslands heldur að við teljum sjóðinn stórhættulegan. Þar greinir okkur einnig á við viðmælendur okkar því þeir telja sjóðinn til bóta í íslensku þjóðlífi. Mín reynsla er oftast sú að þeir sem treysta sjóðnum hafa ekki kynnt sér sögu hans að neinu viti. Það virðist vera beint samband á milli þekkingar á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og viljans til að losna við hann.

Til að svara þeirri gagnrýni að andstæðingar sjóðsins viti ekki hvernig eigi að kippa landi og þjóð út úr mesta efnahagshruni Íslandssögunnar þá vil ég nefna nokkur atriði. Nokkrir þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að finna leið út úr vandanum án aðkomu AGS. Þessi hugmynd fæst ekki rædd á Alþingi, það fæst ekki fjármunir til að kalla til sérfræðinga, bæði innlenda eða erlenda, til að koma upp með „Plan B“ eins og við köllum það. Þeir þingmenn eða fræðingar í þjóðfélaginu sem tjá sig um planB komast oftast ekki að í ríkisfjölmiðlunum. Að minnsta kosti hafa þeir sem hlusta eingöngu á fréttamiðla hliðholla ríkisstjórninni litla hugmynd um andstæðinga sjóðsins, hugmyndir þeirra um aðrar lausnir eða hvort við eigum yfir höfuð að óttast sjóðinn. Sjóðssinnar vita að þeim mun minni þekking á sjóðnum og fortíð hans skapar gagnrýnislaust andrúmsloft í þjóðfélaginu. Slík tenging er mjög augljós í vandræðum Þjóðkirkjunnar þessa dagana vegna fortíðar hennar.

Andstæðingar sjóðsins segja í dag að hans sé ekki þörf lengur. Hugmyndir um að nota skatttekjur af séreignasparnaði til að leysa yfirvofandi halla ríkissjóðs á næsta ári eru skynsamar því þær hamla gegn niðurskurði og auknum almennum skattahækkunum. Báðar aðgerðirnar-þ.e. skurður og skattar- eru kreppudýpkandi í eðli sínu. Það hefur verið margsinnis bent á að AGS hefur með ráðstöfunum sínum aukið vandræði þeirra þjóða sem hann sinnir einmitt vegna þess að hann gengur allt of langt í niðurskurði og sköttum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið veitt völd á Íslandi sem eru einstök. Davíð Oddson hafði aldrei jafn mikil völd á sínum tíma. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er sá aðili á Íslandi sem aftekur með öllu að skuldsettum heimilum sé rétt hjálparhönd. Þess vegna mun óviss fjöldi heimila venjulegs fólks fara á uppboð í vetur. Viðkomandi einstaklingar munu missa heimili sín sem oft á tíðum er ævisparnaður þeirra og fé sem hugsað var til elliáranna. Fjölskyldur munu því þurfa að flytja af heimilum sínum og leigja sér húsnæði. Sú skuld sem út af stendur mun síðan fylgja fjölskyldum inn í þeirra nýju heimkynni hvar sem til þeirra næst þangað til að skuldin er að fullu greidd.

Að sjóðnum gengnum fengi Ísland aftur fullveldi sitt óskorað. Þá væri möguleiki að taka á skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja þannig að sem mest sátt skapaðist um aðgerðir. Þá væri haft að leiðarljósi að skuldabyrðin gerði meðbræðrum okkar kleift að halda áfram að skapa verðmæti eða auka á snúning þjóðfélagsins með neyslu. Einhvern rétt hljóta einstaklingar í þjóðfélagi okkar að eiga sem hafa með dug og ósérhlífni tekið þátt í því með okkur hinum að skapa þá auðlegð sem þetta land býr yfir. Stefnan í dag er aftur á móti sú að innheimta sem mest af skuldunum, bönkum til framdráttar, síðan er bara skítt og lagó með hina.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun setja það sem skilyrði í næsta mánuði þegar þriðja endurskoðun sjóðsins fer fram að Ísland greiði Icesave skuldina. Þar er um að ræða gallað regluverk Evrópusambandsins, gallinn er í því fólginn að ekki er nægjanlega tryggt í lögum að almenningur eigi að borga fyrir mistök bankanna. Þess vegna þarf AGS að troða mistökum bankanna ofan í kokið á íslensku þjóðinni. Ef það gengur eftir að við sitjum uppi með Icesave reikninginn, til viðbótar við allar aðrar skuldir, er nokkuð víst að við getum kvatt Norræna velferðaþjóðfélagið okkar fyrir fullt og fast.

Okkur, andstæðingum sjóðsins, finnst ráðstafanir hans kreppudýpkandi, sjónarmið hans er hagur banka fyrst og síðast og almenningur er látinn borga fyrir mistök bankanna. Sjóðurinn hefur fengið völd á Íslandi sem eru meiri en Alþingi og framkvæmdavald hafa til samans, því er um valdarán að ræða og fullveldi landsins er ekki lengur á forræði okkar. Okkur finnst þessi atriði duga vel til að skapa mikla umræðu og ætti að gegnsýra alla pólitíska umræðu á Íslandi í dag. Sú umræða gæti verið erfið en fjarvera hennar er mun verri.

Það er að brjótast um í mér hvers vegna elítunni á Íslandi finnst sjóðurinn hafinn yfir alla gagnrýni og sporðrennir honum eins og bæjarins bestu.


Ráðstafanir Steingríms eru kokkaðar í Whasington

Pressugrein  3 ágúst 2010.

Bankahrunið eins og nafnið gefur til kynna er orsakað af bönkum og starfsemi þeirra. Hvert og eitt okkar hinna gekk til sinna starfa árið 2008, sinntum skyldum og skuldbindingum okkar að venju. Sú fullyrðing að við séum meðsek vegna þess að við horfðum ekki yfir axlirnar á bönkunum, ríkisvaldinu og eftirlitsstofnunum á hverjum degi er æði langsótt.

Síðan hafa allar aðgerðir stjórnvalda snúist um að skrapa saman eins miklum fjármunum og nokkur kostur er til að greiða skuldir bankakerfisins. Það sem þessar skuldir eiga sameiginlegt er að Alþingi Íslendinga hafði ekki stofnað til þeirra fyrir hrun. Upphaf skuldanna má rekja til athafna utan valdsviðs kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Þrátt fyrir það á þjóðin að borga skuldirnar á eftirfarandi hátt:

Boðuð er frysting á launum í all nokkur ár og segir ráðherra vel sloppið ef frystingin ein dugar. Niðurskurðahugmyndir fyrir komandi fjárlagaár eru svo hrikalegar að framkvæmdastjórar ýmissa stofnana telja sig ekki geta veitt lögbundna þjónustu.

Háir stýrivextir á Íslandi eru banvænir fyrir viðkvæmt atvinnulíf okkar. Hækkun skatta.

Niðurskurður hjá hinu opinbera veldur atvinnuleysi, bæði hjá opinberum starfsmönnum og einkaaðilum sem höfðu verkefni hjá hinu opinbera. Niðurskurður tekna almennings veldur samdrætti hjá öllum fyrirtækjum landsins og þar með er kominn vítahringur.

Nánast engar afskriftir verða leyfðar hjá skuldugum einstaklingum og sennilega mun verða gengið milli bols og höfuðs á 25 þúsund heimilum fyrir áramót. Mörg fyrirtæki hafa farið í gegnum sömu aftökur síðan hrunið varð. Sökum síversnandi aðstæðna mun fjölga stöðugt í þessum hópi eftir því sem tíminn líður.

Reynt er að draga fé úr lífeyrissjóðum okkar til að ná af okkur sparnaðinum. Fjárfest er í flugfélagi sem er mikill áhætturekstur en ekki fékkst leyfi til að fjárfesta í HS-Orku sem á framtíðina fyrir sér.

Hugsanlegt er að vegaframkvæmdir fari af stað sem einkaframkvæmd og þá greidd upp með vegatollum.

HS-orka var seld til erlends einkafyrirtækis í óþökk Íslendinga. Litlu munaði að búið væri að einkavæða vatnið okkar og stór spurning er hvernig löggjöfin um vatnið verður næsta vetur.

Samantekið: Laun skorin niður, skattar hækkaðir, gjöld aukin, lífeyrissparnaðurinn kroppaður af okkur. Allt gert til að auka getu ríkissjóðs og almennings til að greiða lánadrottnum. Hingað til höfum við talið það vera hlutverk ríkissjóðs að jafna kjör almennings í landinu og standa í framkvæmdum landi og þjóð til hagsbóta.

Þessi stefna mun leiða til aukins fjölda fátækra og samsvarandi minnkunnar á millistétt. Fámennur hópur stórríkra einstaklinga verður áfram til. Auðlindirnar komnar í eigu einkaaðila. Einkavæðing á almanna þjónustu. Þeir sem hafa fjárráð munu fá góða þjónustu. Spillingin heldur meiri ef eitthvað er. Landflótti og þeir sem eftir eru að leita sér matar í öskutunnum besta bæjarins, Reykjavíkur.

Mörgum finnst sjálfsag myndin máluð dökkum litum. Viðkomandi stefna hefur haft slíkar afleiðingar í för með sér í öðrum löndum og enn sem komið er hefur lítil mótstaða við þessari þróun myndast á Íslandi. Kjósendur núverandi ríkisstjórnar sem eru vinstri menn og félagshyggjufólk hafa sjálfsagt ekki gert ráð fyrir þessu. Mjög skiljanlegt því viðkomandi stefna er ekki skráð í stefnuskrár viðkomandi ríkisstjórnarflokka. Stefnan er stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Sumir leiðtogar vinstri manna hafa fylgt stefnu AGS í löndum sínum og oftar en ekki tekist að halda andófi í lágmarki. Sagt er að óskastjórn AGS sé vinstri stjórn því þá eru mótmæli í lágmarki. Það er sorgleg staðreynd að andstæðingum AGS væri þægð í því að hægri menn kæmust til valda á Íslandi á ný. Þá myndu vinstri menn koma aftur á Austurvöll og mótmæla eins og þeir gerðu í búsáhaldabyltingunni. Mikil og kröftug mótmæli almennings gegn AGS er eina leiðin til að snúa af þeirri braut sem þjóðin er á.

Það er mjög skiljanlegt að loksins þegar Vinstri grænir eru komnir til valda að þeir vilji halda völdunum og að sleikipinnarnir innan flokksins reyni allt til að skríða upp eftir bakinu á flokkseigendafélaginu. Það eru mikil vonbrigði, eftir að hafa upplifað alla þessu hörðu andstæðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í búsáhaldarbyltingunni, njóta í dag valdanna af slíkri áfergju að öll prinsipp eru gleymd og grafin. Það er mér hulin ráðgáta að stefna strákanna frá Whasington sé orðin að vinstri stefnu á Íslandi og er varin sem slík.

Fjölmiðlar mættu standa sig betur í því að skýra út fyrir almenningi að Steingrímur er bara millistjórnandi og að það er AGS sem ræður öllu á Íslandi. Ef það hefði verið gert hefði almenningur beint reiði sinni að AGS frekar en Steingrími. Vissum aðilum(fjölmiðlum) hentar að spjótin standi á Steingrími og aðrir aðilar(fjölmiðlar) verja hann með kjafti og klóm. Á meðan hlær AGS að heimsku okkar.

Eftir því sem stjórnvöld þjóðríkja fylgja ráðleggingum AGS betur farnast almenningi viðkomandi landa ver, rannsóknir fræðimanna sýna fram á þetta.

Það er augljóst að enn sem komið er hafa helstu máttastólpar lýðræðisins á Íslandi þ.e.  Alþingi, ráðherrar og fjölmiðlar, kosið að fylgja AGS að málum. Ef fyrrnefndir aðilar skipta ekki fljótlega um skoðun mun stór hluti íslensku þjóðarinnar fylgjast með gleði þeirra á störfum sjóðsins úr fjarlægð, erlendis frá. Aftur á móti, ef Alþingi, ráðherrar og fjölmiðlar vilja ekki að þjóðin dreifist út um allar koppagrundir eða hírist í fátækt á skerinu gamla, verða viðkomandi aðilar að breyta um stefnu. Viðbrögð ykkar við stefnu AGS er það sem mun gera ykkur ábyrg í næstu Rannsóknarskýrslu Alþingis. Viðbrögð Alþingis, ráðherra og fjölmiðla við stefnu AGS mun ákvarða kjör almennings á Íslandi til framtíðar.

 


Er einhver munur á AGS eða ESB?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið slitu viðræðum við Ungverja sökum þess að þeir samþykktu ekki kröfur AGS og ESB. Auk þess voru Ungverjar með óæskilegar hugmyndir að mati AGS/ESB.

Ungverjar vildu ekki skera jafn mikið niður og AGS/ESB kröfðust. Skoðun Ungverja er sú að nóg sé komið af niðurskurði hjá almenningi og fyrirtækjum. Hinar yfirþjóðlegu stofnanir-AGS/ESB-töldu að skera ætti meira niður en munurinn er sá að Ungverjar kusu viðkomandi ríkisstjórn nýlega og hún ber ábyrgð gagnvart sínum landsmönnum. Hinar yfirþjóðlegu stofnanir AGS/ESB voru ekki kosnar og hafa því enga lýðræðislega ábyrgð gagnvart þegnum viðkomandi landa. Þessar stofnanir sjá vandamálin sem excel skjöl og mannúð eða velferð er ekki til í þeim reikniforritum.

ESB vill meina að Ungverjar séu ekki búnir að gera heimavinnuna hvað varðar breytingar á flutningakerfi sínu(lestakerfi), heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Með öðrum orðum að einkavæða.

Ungverjar voru svo ósvífnir að koma á sérstökum skatti á bankastarfsemi. Sex alþjóðlegir bankar sem starfa í Ungverjalandi kvörtuðu því við AGS/ESB og hlutu greinilega góða áheyrn því AGS/ESB lögðust gegn þessum hugmyndum Ungverja, umsvifalaust.

Ungverjar vildu einnig koma skuldsettum heimilum til aðstoðar með sérstökum sjóði en AGS/ESB voru á móti því einnig.

Ríkisstjórn Lettlands hefur háð svipaða rimmu við AGS/ESB, bæði hvað viðkemur niðurskurði og aðstoð við skuldsett heimili en borið lægri hlut fyrir hinu yfirþjóðlegu yfirvaldi.

Það er augljóst að AGS/ESB bera hag banka og fjármálafyrirtækja fyrir brjósti sér mun frekar en almennings í viðkomandi löndum. Vert er að minna á að kreppan er orsökuð af geðveiku framferði banka en ekki almennings-það voru bankarnir sem hringdu í okkur í tíma og ótíma og nánast tróðu nýjum lánum ofaní kokið á okkur.

Annað sem er augljóst er að stefna og skoðun þessara stofnana-AGS/ESB-er nánast eins. Þess vegna má segja að lítill munur sé á viðhorfum þessara stofnana hvernig bankakreppur eru leystar. Báðar stofnanir telja raunhæft að láta almenning borga brúsann fyrir bankakerfið og mistök þeirra. Að minnsta kosti lekur ekki slefan á milli þeirra í viðbrögðum við hugmyndum Ungverja/Letta/Grikkja um lausn kreppunnar.

Íslendingar geta prísað sig sæla að hafa bara AGS hér á landi-eða hvað?

 


mbl.is AGS og ESB fresta viðræðum við Ungverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli bera árangur

Síðustu tvær vikur hafa verið nokkuð merkilegar. Daglega hefur verið mótmælt, fyrst fyrir utan Seðlabanka Íslands og síðan fyrir utan skrifstofu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er staðsett fyrir ofan Stjórnarráðið. Flesta daga hefur verið einhver umræða um þessi mótmæli í fjölmiðlum. Ég hef fundið það glöggt að AGS er að komast inn í umræðuna. Tekist hefur að draga athyglina að sjóðnum og starfaðferðum hans. Almenningur er farinn að vefengja góðmennsku sjóðsins gagnvart almenningi. Með dómi hæstaréttar og viðbrögðum opinberra aðila kristallast vel að starf AGS snýst um að slá skjaldborg um banka og þess háttar fyrirtæki.

Þetta kennir okkur að það eina sem virkar gegn AGS eru mótmæli. Þau vekja umræðu og blaðaskrif. Mótmælendur koma fram með sjónarmið sem fjölmiðlar verða að kynna sér og umræðan breytist þannig almenningi til hagsbótar. Það dugar skammt að ræða málin í góðra vina hópi heldur verða allir að sameinast um að sýna sig þegar mótmæli eru höfð í frammi gegn AGS. Auk þess er nauðsynlegt að leggja af alla sérvisku hvort einhver sé þess verður að taka þátt í mótmælum með viðkomandi. Við erum öll ólík en verðum að geta sameinast gegn AGS ef við viljum að Ísland verði byggilegt land fyrir börnin okkar.


Nú erum við í skúffu...AGS

Þeir einstaklingar sem hafa fylgst vel með framvindunni á sölu auðlinda landsins til erlendra aðila eru í raun ekki hissa í dag. Við erum meira "skúffuð". Að íslenskum stjórnvöldum takist að afsala sér framleiðslu í 130 ár á auðlind, sem á eftir að verða dýrmætari með hverju árinu, er í raun svik við almenning í landinu. Núna þegar við þurfum sem mest að afla fyrir þjóðina til að vinna okkur út úr kreppunni gerist slíkt afsal á framtíðartekjum okkar. 

Það er vilji AGS að við færum auðlindir landsins úr eigu almennings í einkaeigu. Í skýrslu AGS frá því í apríl s.l. er talið að auðlindir í eigu almennings séu hindrun fyrir efnahagsbata " Constraints on the reallocation of resources from non-tradable to tradable sectors—" Ags telur nauðsynlegt að víkja hindrunum úr vegi fyrir einkavæðingu auðlinda okkar. Þeim hefur greinilega orðið ágengt.

Stefna AGS á Íslandi er aðgengileg á netinu og saga AGS segir okkur að auðlindir landa eru einkavæddar. Þess vegna hefði núverandi vinstri stjórn og stuðningsmenn hennar átt að vera á tánum. Að þetta gerist er merki þess að svo hafi ekki verið. Það er augljóst að ríkisstjórnin er sammála þessu þó Svandís hafi dottað. 

Það er ákaflega sorglegt að upplifa það hvernig afsalið gengur í gegn um hábjartan dag án mikilla mótmæla. Samfylkingarmenn eru annað hvort stóriðjusinnar eða svo miklir ESB sinnar að þeir setja sig ekki upp á móti AGS. VG-liðar eru svo glaðir með völdin að öllu er til fórnandi til að sleppa því að mótmæla núna á Austurvelli.

Því miður mun þetta sjálfsagt ganga eftir og síðan munu fleiri auðlindir okkar fara sömu leið. Fólk ætlar bara að nöldra á Facebook.


mbl.is Vill fund um Magma í iðnaðarnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul Moggagrein til uppryfjunar

Skelli inn næstum ársgamalli Moggagrein eftir mig því sumir halda að ég sé eitthvað svartsýnni á tilveruna núna, ég myndi frekar telja mig bjartsýnni í dag ef eitthvað er.

ÞEIR FISKA SEM RÓA:

Veiðiskapur er sport, beitan er valin af innsæi, fiskurinn þreyttur og síðan dreginn að landi. Þar fær hann síðan náðarhöggið. Við vorum skuldlaus þjóð og því nokkuð sjálfstæð. Í dag erum við skuldug og ósjálfstæð þjóð. Við bitum á agnið, afbrot okkar var að láta glepjast en núna situr öngullinn fastur og það er sárt.

Það er verið að þreyta okkur núna. Stýrivextirnir lækka ekki neitt af ráði. Afleiðingin er að fleiri fyrirtæki komast í þrot. Atvinnulausum fjölgar. Þar með er kominn ásættanlegur grundvöllur fyrir launalækkunum. Af þeim sökum minnka tekjur ríkisins verulega, bæði beinir og óbeinir skattar minnka. Þar með er einnig kominn grundvöllur fyrir launalækkun opinberra starfsmanna og síðan verulegur niðurskurður hjá hinu opinbera.

Til að tryggja þetta ástand til frambúðar munum við samþykkja IceSave samninginn í sumar.Við verðum að framleiða eins mikið af vörum sem gefa gjaldeyri og við getum. Ál og fisk. Það viljum við gera til að standa í skilum. Það vilja líka þeir að við gerum sem voru svo góðhjartaðir að lána okkur til að bjarga okkur frá vandræðunum, sem öngullinn veldur okkur. Því vinnur veiðimaðurinn ötull að því að hámarka afrakstur veiði sinnar.

Fljótlega mun þjóðin framleiða eins mikið og hún getur. Þjóðinni mun vera greitt eins lágt kaup og framast er unnt til að halda framleiðslukostnaðinum niðri. Það mun hámarka afraksturinn úr verksmiðjunni Íslandi. Það mun gera okkur kleyft að greiða niður lánin og taka ný. Í stað þess að hagnaður okkar, vegna vinnu okkar, fari í okkar vasa mun hann streyma óhindrað í vasa lánadrottna okkar.Nú er okkur bent á að með aukinni stóriðju muni okkur ganga betur að greiða skuldir okkar. OECD er búið að gefa línuna. Til stóriðju þarf lán. Lánveitendurnir skella okkur í ruslflokk lánshæfismatsins til að stilla af vaxtabyrði okkar, sér í hag. Síðan mun hver stóriðjan af annarri fylgja í kjölfarið og við höfum ekkert um málið að segja.

Lánadrottnarnir stjórna og stýra, þannig er það hjá gjadþrota heimilum og eins er það hjá gjaldþrota þjóðum.Eina spurningin sem út af stendur er hvort eða hvenær þeim þóknast að veita okkur náðarhöggið. Sennilega munu þeir ekki gera það. Mun arðvænlegra er að setja okkur í kvíar til hámarks nytja.

Að velta því fyrir sér hvað Davíð, Solla eða Geir gerðu er tímasóun. Jafn glórulaust er að velta sér upp úr því hvað Jóhönnu dettur í hug. Önglar hafa þá náttúru að sitja fastir. Veiðimaðurinn á næsta leik.Niðurstaðan er sú að íslensk þjóð er komin í kvíar lánadrottna sinna. Við munum strita og púla þangað til síðasta lánið er greitt og það mun taka okkur marga áratugi. Hver er sinnar gæfu smiður.....


Plís góði guð, eitt eldgos, það eykur hagvöxt

Hugsanleg framtíð:

1. Íslensk heimili sem geta ekki staðið í skilum eftir sumarið fara í þrot. Kannski 25 000 heimili.

2. Til að áætlun AGS gangi upp virðist sem reisa eigi 2 álver á stærð við Reyðarál árið 2011.

3. Þrátt fyrir þetta mun innflutningur minnka með hverju árinu og er vísbending á mjög mikla fátækt og útflutning á fólki.

Summa:

Hvar er hægt að búa án aðkomu AGS og Steingríms.....?


Heildsalinn Steingrímur...

Það er þó nokkur áhugi á næstu viljayfirlýsingu sem íslensk stjórnvöld munu senda til AGS. Ekki að undra. Rannsóknarskýrslan sem verður birt á mánudaginn er reyndar mjög mikilvæg en hún fjallar þó um liðna atburði. Mesti fengurinn í henni verður vonandi sá að við vitum þá hvaða leið við eigum ekki að fara. Jafnframt gæti komið fram hverjum við eigum ekki að treysta fyrir framtíð okkar.

Viljayfirlýsingin segir okkur hvernig AGS ætlar að stjórna litla Íslandi. Með viljayfirlýsingunum sem koma fram fyrir hverja endurskoðun kemur fram stefna AGS. Þar sem AGS er mekka nýfrjálshyggjunnar er ekki nema von að Kristján Þór vilji fræðast.

Aðrir Íslendingar hafa þó enn meiri áhyggjur af því að Steingrímur J Sigfússon fyrrverandi róttæklingur sé orðinn heildsali nýfrjálshyggjunnar hér á landi fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Whasington.

Þannig hefur farið fyrir mörgum.


mbl.is Fjárlaganefnd fundi um AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hverra þágu er samið ?

Núna er að hefjast mjög spennandi áratugur. Tímabil þar sem lántakendur og lánveitendur takast á. Icesave er dæmi, fasteignaeigendur eru dæmi og þjóðir eru dæmi. Allir aðilar skulda mjög mikið, í raun það mikið að ekki er nokkur möguleiki að standa í skilum. AGS er innheimtustofnun lánveitenda, stærri útgáfa af Intrum. Reyndar lána þeir líka til að tryggja starfsemi sína til framtíðar.

Gylfi ráðherra telur að lánshæfismat Íslands sé vandamál, að lánveitendur séu óttaslegnir vegna þess. Lánveitendur stjórna matsfyrirtækjunum og beita þeim í sína þágu. Lækka matið til að fá hærri vexti af fjárfestingum sínum eða hræða líftóruna úr íslenskum ráðamönnum. Fundurinn í New York bar þess augljóslega merki að á vogaskálunum voru auðlindir okkar annars vegar gegn tregðu fjárfesta til að lána okkur, allt með blessun og stjórn AGS. 

Sú viljayfirlýsing sem nú virðist tilbúin verður kvíðvænleg lesning. Mun verri en rannsóknarskýrslan því viljayfirlýsingin segir til um framtíðina en hin er bara liðin tíð.

Ég reikna með að í viljayfirlýsingunni verði hæfileg blanda af eftirfarandi: niðurskurður á þjónustu í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, einkavæðingu þar sem almenningur þarf að greiða fyrir allt eins og vegatollarnir bera vitni um. Þjónustan sem við áður fengum fyrir skattinn okkar, þá þjónustu munum við þurfa að greiða fyrir í hvert sinn. Skatturinn fer til lánadrottna til að borga skuldir.

Niðurstaðan er verri lífskjör, styttra og verra líf.

Er þetta það sem við viljum?

 


mbl.is Fjárfestar hafa áhyggjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta embættismenn samið sig fram hjá þjóðarvilja?

Hið sanna andlit alþjóðasamfélagsins sínir sig þessa dagana. Það er þetta samfélag sem margir á Íslandi vilja tilheyra sem fullgildir meðlimir. Gott að vera í klúbb sem kúgar minnimáttar.

AGS ætlar að þjóna eigendum sínum vel. Þeir ætla að verja lánadrottna okkar og skuldsetja okkur til helvítis. Því fyrr sem landsmenn gera sér grein fyrir því, því betra.

Núna er Gylfi í Washington, varla er hann að versla sér nýja skó. Mun frekar að semja við AGS. Það felst yfirleitt í að skrifa undir viljayfirlýsingu sem AGS hefur samið. Ætli Gylfi og Steingrímur semji um Icesave málið í þeirri viljayfirlýsingu? Geta embættismenn samið sig fram hjá þjóðarvilja?


mbl.is Íslandslán ekki á dagskrá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband