Færsluflokkur: Menntun og skóli

LJÓSMÆÐUR OG ÁRNI MATT.

GREIN SEM BIRTIST EFTIR MIG Í MOGGANUM Í DAG.

Hún Ásdís amma konunnar minnar var ljósmóðir í sinni sveit. Ekki veit ég hvað hún hafði í kaup fyrir vinnu sína. Sjálfsagt ekki mikið en þó sjálfsagt meir en margur á þeim tíma. Ef mið er tekið af eftirmælum þeirra hjóna þá er Ásdísar alltaf minnst sem mikils skörungs. Maður hennar Magnús var bóndi. Það endurspeglar verðmætamatið til sveita hér áður fyrr. Hvað er svo sérstakt við að raka hey eða slátra rollum, það getur í sjálfu sér hver sem er lært og gert. Að vera ljósmóðir er svolítið annað. Það er á fárra færi. Verkefnið er einstakt. Við fæðumst bara einu sinni, reyndar endurfæðast sumir í trúarlegum skilningi en við skulum láta það liggja milli hluta. Hver fæðing er einstök hverri móður því hún fæðir hvert barn bara einu sinni. Því erum við að ræða um starfsgrein sem sinnir algjörlega einstökum verkefnum hvernig svo sem við veltum hlutunum fyrir okkur.

Nú er þessi stétt í kjarabaráttu árið 2008. Hún Ásdís heitin hefði örugglega orðið hissa. Í sinni sveit var hún mikils metin og margir leituðu til hennar með ýmis vandamál. Eftir að hafa tekið á móti börnum heima hjá fólki bjó hún hjá þeim í nokkra daga og sá til þess að allt gengi eðlilega fyrir sig, bæði hjá konu og barni. Ljósmæður sinna nefnilega tveimur einstaklingum í einu. Eitt sinn er Ásdís kom ríðandi heim á hesti sínum eftir vel heppnaða yfirsetu, steig hún af hestbaki og gekk til baðstofu og fæddi einn krakkann sjálf.

Að raka saman fé og slátra fyrirtækjum virðist vera mun meira virði í okkar samfélagi í dag en að taka á móti börnum. Slík iðja er kennd við marga Háskóla og flestir virðast geta tamið sér þessa list að rýja fólk fjármunum sínum og virðist ekki þurfa sérstakar gáfur til þess. Að leiðbeina ófæddum einstakling í sinni hættulegustu ferð lífs síns virðist ekki metið til jafns við aðra sem lóðsa mann inní vaxtaokur tilverunnar.

Að vera ljósmóðir er sérstakt. Það er alls ekki öllum gefið. Til þess þarf sérstaka manngerð og menntun. Til að verða góð ljósmóðir þarf reynslu og þykkan skráp. Ég segi oft að þær séu frekustu og ákveðnustu konurnar sem ég fæst við. Enda eins gott, án þessara eiginleika myndu ekki margar konur koma krökkunum sínum út í tilveruna. Síðan krydda þær þetta með hæfilegum skammti af blíðu.

Fjórum sinnum hef ég átt allt mitt undir ljósmæðrum. Það var þegar ég fæddi börnin mín fjögur með aðstoð konu minnar. Til allra hamingju vissi konan mín ekki eins mikið og ég um allt það sem gat farið úrskeiðis í einni fæðingu. Þegar barnið manns síðan tekur á móti góðu stúdentsskírteini 20 árum síðar gerir maður sér grein fyrir því að ljósmóðirin stóð sig í stykkinu nóttina forðum. Ef ljósmóðirin hefði brugðist þá hefði ekki besta uppeldi í heimi getað bætt upp skaðann nóttina þá.

Svo er Árni Hafnfirðingur að slást við þessar stelpur. Neitar að borga þeim mannsæmandi laun. Ég held að fattarinn í honum sé í stysta lagi. Ljósmæður eru mjög ákveðnar konur. Allir standa með þeim, allir hjúkrunarfræðingar, allir læknar sem ég þekki til og allir foreldrar sem munu þyggja þjónustu þeirra í náinni framtíð. Fjárfesting í heilbrigðum einstaklingum er besta fjárfesting sem Fjármálaráðherra tekur sér fyrir hendur, mölur, ryð, gengisþróun né tegund gjaldmiðils skipta þar engu máli.

Ef Gaflaranum tekst að kúga ljósmæður þá munu allir skaðast nema metnaður Árna Mathiesen. Spurningin er hvort viðsemjendur ljósmæðra ættu að vera konur sem hafa fætt börn.

 

 


Fagin og kók.

Það er merkilegt þetta blessaða þjóðlíf okkar. Þegar bankarnir missa tekjur auka þeir álögurnar á okkur venjulegum neytendum. Þannig halda þeir í horfinu og útlendir greinendur skilja ekki neitt í neinu. Þrátt fyrir djúpa niðursveiflu skila þeir afgangi. Meira að segja Bubbi tapaði á trúnni á fyrirtækjum. Mjög einföld regla er sú að fjárfesta í fyrirtækjum sem framleiða eitthvað, eins og Coke t.d. Ekki fjarfesta fyrr en síðasta skuldin er greidd, þannig er það bara. Þetta eru hinar einföldu reglur gyðingsins í Mark Twain. Það virðist að þeir sem telja fólki trú um að að fara EKKI eftir þessum grundvallaratriðum hagfræðinnar fái mestu launin. Það virðist sem Brútus hafi alltaf vinninginn.

Það er eins og öll íslenska þjóðin hafi verið að sniffa kók undanfarin ár. Full af óraunsæi og látið slag standa. Þjóðin er núna með timburmenn og fráhvarf. Yfirvöld, þ.e. íslenska Ríkisstjórnin virðist enn vera í vímu. Allt er svo gott og elskulegt og best að gera ekki neitt og bara njóta. Við þessir venjulegu sem erum fyrir löngu komnir úr trippinu sköðumst bara enn meira eftir því sem tíminn líður. Það er mál til komið að senda yfirvöld í þurrkví.

Meginregla Fagins var eftirfarandi; afla 20 pennía og eyða 19, einfalt ekki satt. 

http://frances-buckroyd.com/blog/wp-content/uploads/2007/01/dodger-and-fagin1.jpg


Sól, sumar og kynþáttahatur.

Það er ekki hægt að neita því að maður var heppinn að vera í fríi í dag. Þvílíkt veður. Ég held að þessi dagur toppi allt í Reykjavík hvað við kemur veðurblíðu. Nauthólsvíkin og Kaffi París voru áningastaðir okkar í dag. Smá slatti af sólbað og síðan ögn af hvítvíni og salati. Grillaður lax og meira hvítvín í kvöldmat.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Ef það væri ekki fyrir mannlegt eðli hefði dagurinn verið fullkominn. Á Ilströndinni voru nokkrir að stelast til að reykja þó það sé bannað. Það skipti mig engu máli. Aftur á móti þá sá einn íslendingurinn ástæðu til að hreyta ónotum í eina konu sem var að reykja á ströndinni. Þegar hún vildi klára sína rettu bauðst hann til að míga á hana og spurði hana hvort það væri ekki jafngilt. Það sem gerði þetta sérstakt var að reykingakonan var svertingi. Íslendingurinn sá ekki ástæðu til að bjóða hland sitt öðrum reykingamönnum á ströndinni. Því var greinilega um kynþáttafordóma að ræða.


Hver er sinnar gæfu smiður.

Mér finnst augnablikið eitthvað svo merkilegt. Sjálfsagt eru allir tímar merkilegir. Þessa stundina er ég að velta fyrir mér ægivaldi ríkisins gagnvart viðsemjendum sínum um launakjör. Hver samtökin á fætur öðrum koma tómhent frá því samningaborði. Þetta flokkast víst undir þjóðarsátt.

BHM samdi greinilega illa um daginn. Var þar um að ræða að andstæðingurinn var óvinnandi. Vantaði styrk, samheldni og vilja hjá félagsmönnum. Ekki veit ég.

Þegar tekist er á skipta kænska og aflsmunir miklu máli og í raun þurfa báðir þættir að fá að njóta sín. Núna ætla hjúkrunarfræðingar að reyna að ná góðum samningum við ríkið. Eftir að símsvari Árna hefur sagt nei við öllu hafa hjúkrunarfræðingar ákveðið að grípa til aðgerða. Ég óska þeim alls hins besta og hvet þá áfram í baráttu sinni.

Árna vil ég benda á að til er hlutur sem heitir arðbær fjárfesting. Vel mannaðar heilbrigðisstofnanir af hjúkrunarfræðingum ná betri árangri en illa mannaðar. Þar sem við Árni erum nú báðir komnir af léttasta skeiði gæti það skipt sköpum þá og þegar maður fellur í faðm hjúkrunarfræðinganna. 


Enginn er spámaður í sínu föðurlandi.

Það fjaðrafok sem væntanleg koma flóttafólks til Akraness hefur orsakað er allrar athygli verð. Björk Vilhelmsdóttir bendir á það að Íslendingar hafi bara tekið við 400 flóttamönnum á hálfri öld. Það geri minna en 10 á ári. Hún telur að bara vegna þessarar einföldu staðreyndar geti fólk ekki verið á móti komu flóttafólks til Íslands. Merkileg röksemdafærsla í sjálfu sér en heldur ekki vatni.

Björk ætlaði að leggja til að Reykjavík taki við flóttafólkinu ef Akranes dytti úr skaftinu. Aðspurð hvort það illi ekki lengingu á biðlistum eftir félagslegum íbúðum í Reykjavík svaraði hún því til að hann væri hvort er svo langur(800 manns)að það myndi ekki muna neinu. Ef Björk væri sjálf á þessum biðlista gæti maður reynt að taka mark á slíkum málflutningi, þar sem hún er það væntanlega ekki er þetta rökleysa.

Þegar Gísli S Einarsson svarar sömu spurningu í kastljósinu svarar hann að þörf eftir félagslegum íbúðum sé ekkert meiri á Akranesi en annarsstaðar, því sé í lagi að lengja biðlistann með flóttafólki. Hann tekur einnig fram að þeir sem séu á þessum biðlista "telji sig í þörf fyrir félagslega aðstoð" og slíkt fólk finnist í öllum sveitafélögum landsins. Þar með sé í góðu lagi að lengja biðlistann á Akranesi.

Samantekið get ég ekki betur séð en að fyrrnefndir biðlistar séu tilkomnir vegna meintrar þarfa einhverra Íslendinga á félagslegri hjálp að áliti fyrrnefndra fulltrúa. Ég get ekki betur séð en að fulltrúar fólksins séu ekki þess fullvissir að sú meinta þörf sé á rökum reist. Þau álíta að það sé í góðu lagi að lengja bið fólks eftir úrlausn sinna mála. Sjálfsagt er sú skoðun þeirra byggð á þeirri trú að flóttafólkið sé í meiri þörf á aðstoð en þeir sem eru fyrir á biðlistanum. Enginn er spámaður í sínu heimalandi. Ég gæti best trúað því að biðlistavandamál sveitafélaganna séu jafngömul flóttamannavandamálum heimsins. Eru ekki biðlistafólk á Íslandi "flóttafólkið" okkar. Það virðist að minnsta kosti hvergi eiga heima.

Þegar einhver stendur upp og imprar á því að ef til vill eigi þeir sem eru á biðlistunum einhvern rétt og tilverugrundvöll, verður fjandinn laus.  Að gefa skít í þarfir Íslendinga á íslenskum biðlistum er sennilega fordómar, eða má maður kalla þetta kultúrrasisma. Vandamál flóttafólksins frá Palestínu er mikil og full þörf á því að leysa þau. Aftur á móti að gjaldfella vandamál landans er ekki fögur iðja.


Hver er hvurs og fyrir hvern?

Það er margt í pípunum um þessar mundir. Til að mynda er allt tilbúið svo hægt sé að valta yfir kennarastéttina eina ferðina enn í kjarasamningum. Árni dýralæknir er fastur fyrir og kennarar hafa í raun skrifað undir sitt eigið dánarvottorð með ósk sinni um "sanngjarna kauphækkun". Það er eins og þeir séu svo kúgaðir að þeir bera ekki einu sinni hönd fyrir höfuð sitt.

Mér skilst að hjá hjúkrunarfræðingum sé ástandið svipað. Þeir eru þó byrjaðir að semja við ríkið. Af viðbrögðum sendimanna Árna þá virðist ekki eiga að bæta kjör hjúkrunarfræðinga. 

Stofnendur hins ríkisrekna velferðaþjóðfélags dreymdi örugglega ekki þessa martröð. Hugsjónin var sjálfsagt vel launaðir og sáttir starfsmenn, allt í þeim tilgangi að skjólstæðingunum farnist sem best. Nemendur og sjúklingar eru þeir sem tapa mestu á endanum. Manni virðist sem ríkið upplifi sig sem skjólstæðing kerfisins. Sorgleg heilabilun þeirra sem búið hafa of lengi í turninum. 


Geymdur en ekki gleymdur mannauður-eða hvað?

Tilfinningar er sérkennileg skepna. Mín tilfinning fyrir ýmsu er hreinn hafragrautur þessa dagana. Nú er krónan að fara fjandans til en bjartsýni innan bankanna er það mikil að ekki á segja neinum upp hef ég heyrt. Ástæðan ku vera sú að þegar þörfin eykst fyrir allt þetta starfsfólk er best að hafa það allt til staðar. Skynsamlegt ekki satt. Ekki hagkvæmt en hvurru skiptir það, kúninn borgar allt hvort sem er.

Á Landspítalanum sem ég vinn á fer megintími hjúkrunardeildastjóra í það að manna næstu vakt. Um er að ræða mjög sérhæfðan vinnukraft. Ekki er hægt að skutla einum hjúkrunarfræðing frá einni deild til annarrar, slík er sérhæfingin orðin. Sama á sjálfsagt við um bankana og þeir geyma hæft starfsfólk hjá sér þangað til full þörf verður á kunnáttu viðkomandi, sem sagt geymdur en ekki gleymdur mannauður.

Svipaða sögu er að segja frá kennarastéttinni. Allir skólar á höfuðborgarsvæðinu eru ekki fullmannaðir af menntuðum kennurum. Þar eins og á Landspítalanum er mannauðurinn geymdur utandyra og gleymdur.

Íslendingar kvarta undan mennta- og heilbrigðiskerfinu. Guðlaugur Þór hefur mikla drauma um að skapa þær aðstæður sem muni draga ungt fólk til starfa innan heilbrigðiskerfisins.  Þorgerður Katrín vill að kennarar njóti forgangs í kjaraviðræðum svo einhver vilji kenna börnunum okkar. Dýralæknirinn Árni vill hafa allt sitt á þurru og vill ekki borga neinum laun og því betra sem færri vinna hjá hinu opinbera. 

Ég tel að það sé bráðnauðsynlegt að sem flestir átti sig á nokkrum mikilvægum staðreyndum. Það eru bara nokkrir einstaklingar á Íslandi sem kunna að sinna mjög veikum einstaklingum eða að kenna erfiðum krökkum og koma þeim til manns. Þá ber að varðveita. Aftur á móti virðast allir geta orðið ráðherrar og þeim má skipta út eftir þörfum. 

 http://www.123.is/skulip/albums/270078/jpg/001.jpg

 

 


Sendiherrar, tollarar og Björgólfur.

Mikið erum við þessir almennu borgarar eitthvað miklu skyni skroppin. Þetta er algjörlega augljóst. Eftir því sem sendiherrunum fjölgar þurfum við færri tollverði. Sendiherrar þurfa ekki tollskoðun bara við hin. Ríkisstjórnin er með samhengi hlutanna á hreinu. Að við skulum vera að fárast yfir þessu.

Aftur á móti hvíslaði ólyginn því að mér að Actavis væri á förum, með manni og mús. Við það missa 90 lyfjafræðingar vinnu sína. Ég vona svo sannarlega að ólyginn sé lyginn í þetta sinn. Það ku víst vera hagstæðara að reka slík fyrirtæki erlendis.

Hvert ætli Björgólfur Thor myndi flytja utanríkisráðuneytið? 


Teningnum er kastað-nýtt Háskólasjúkrahús.

Þetta er grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu í dag.

 

Það er ekki oft sem maður brosir allan hringinn þegar sýnt er fram á að maður hafi haft rangt fyrir sér. Ég var allt að því sannfærður í vetur að ekki stæði til að byggja nýjan spítala. Meðal annars hafði ég tjáð áhyggjur mínar á síðum dagblaðanna. Í dag kom það skýrt í ljós að mér hafði orðið svolítið brátt í brók og ótti minn ekki á rökum reistur. Reyndar er mér vorkunn að stíflan skyldi bresta í vetur því ég hef beðið eftir deginum í dag í meir en 25 ár.

Dagurinn 27 febrúar 2008 mun lengi vera í minnum hafður á Landspítalanum. Í dag gerðist það sem allir starfsmenn Landspítalans hafa beðið eftir árum saman. Heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór, Inga Jóna og fleiri háttsettir embættismenn héldu fund með okkur starfsmönnunum. Það er ekki á hverjum degi sem svo fríður hópur mætir á fund með okkur enda var mjög vel mætt að hálfu starfsmanna. Það var mikil eftirvænting í hópnum. Við fórum ekki tómhent af fundinum.

Guðlaugur Þór og Inga Jóna tóku af öll tvímæli að til stendur að byggja nýtt sjúkrahús fyrir Íslendinga. Auk þess var tekið fram að verkið yrði klárað en ekki skilið eftir sem hálfkláruð bygging. Framtíðarsýnin er  komin á hreint. Til stendur að byggja nýjan og góðan spítala fyrir alla landsmenn. Hann mun þjóna öllum Íslendingum vel og lengi. Teningnum var kastað.

Svartsýnisraddir munu sjálfsagt heyrast eftir sem áður. Ég er sannfærður um að þegar úrtölumenn munu sjá nýjan spítala rísa og átta sig á muninum á gamla og nýja tímanum munu þeir skilja mikilvægi hans. Aftur á móti munum við sem höfum þráð þennan dag árum saman mæta bjartsýnni til vinnu á morgun. Sjúklingar spítalans munu kunna að meta það.

Það er ekki ónýtt að fá góðar gjafir á jólunum en það eru ekki alltaf jól. Áfram verðum við í gömlu húsunum nokkur ár til viðbótar. Á fundinum kom fram skilningur á því að gera okkur vistina sem bærilegasta meðan við bíðum eftir nýju húsi. Sjálfsagt verður það mun léttara fyrir starfsfólk og sjúklinga að þola núverandi ástand vegna þeirra tíðinda sem boðuð voru í dag.

Nauðsynlegt er fyrir alla aðila sem að þessum málum koma að byggja ekki bara hús. Þó að góð aðstaða starfsmanna og sjúklinga sé forsenda árangurs á heimsmælikvarða, sem við stefnum öll að, þá er sjúkrahús miklu meira. Sjúkrahús er fólkið sem vinnur þar, stundum nefndur mannauður nú til dags. Til að ná hámarks ávöxtun á þeim auð þarf ýmislegt að koma til. Stjórnendur þurfa að gæta þess að skapa ekki ónauðsynleg tilefni fyrir hinn almenna starfsmann að kvarta. Við sem nöldrum þurfum að gera það að með góðum rökum og að vel yfirlögðu ráði. Nauðsynlegt er fyrir gæslumenn pyngjunnar að meta störf þeirra sem vinna með veikt fólk. Til að hámarka líkur þess að Íslendingar eigi kost á góðri heilbrigðisþjónustu þurfum við að tryggja það að fólk í heibrigðisstéttum sé metð að verðleikum.

Til að ungt fólk hafi áhuga á að koma til starfa í heilbrigðiskerfinu og sinna veikum meðbræðrum sínum þurfum við sem vinnum þar að muna eftir því jákvæða í vinnu okkar og það sem fær okkur til að starfa áfram. Við þurfum að kynna störf okkar sem eftirsóknarverð. Það er áhyggjuefni að flest ungt fólk ætlar ekki að starfa innan heilbrigðiskerfisins í framtíðinni. Vissar forsendur liggja alltaf að baki áliti fólks á eigin starfi. Því er nauðsynlegt að þeir aðilar sem skapa þær forsendur vandi til verka og hugsi ekki eigöngu um skammtímagróða heldur ávöxtun auðs til framtíðar, eins og nýbygging Landspítalans ber með sér.

 

 


ÞETTA YFIRÞYRMANDI LÍKAN.

LSH 112 MYND.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrátt fyrir að langflestir starfsmenn Landspítalans hafi glaðst mikið þegar Guðlaugur Þór kastaði teningunum og tilkynnti það með endanlegum hætti að nú væri bygging Landspítalans hafin, eru samt ýmsir í vafa. Á margan hátt skiljanlegt. Það er margt sem þarfnast útskýringar sem við starfsmenn upplifum sem sjálfsagða hluti.

Myndin hér fyrir ofan virðist ónáða marga. Fyrst er að geta að öll þessi bygging er ekki eingöngu eiginlegt sjúkrahús. Með þessari nýbyggingu er tækifærið notað og byggt yfir fleiri. Rannsóknarstofan á Keldum verður flutt niðrá Hringbraut. Læknadeild og hjúkrunarfræðideild munu fá húsnæði hér líka. Á það skal bent að læknadeild sameinaðist Háskóla Íslands 1911 en hefur hvergi átt heima þrátt fyrir það. Nú munu þessar háskóladeildir ekki lengur vera á vergangi. Þar með er ég búinn að afgreiða megnið af vinstri helming myndarinnar.

Hinn helmingurinn er sjúkrahús að mestu leiti. Gæta verður að því að þarna koma saman tvö sjúkrahús í eitt og þar að auki önnur starfsemi Landspítalans sem núna er dreifð á minnst 25 mismunandi staði vítt um bæinn. 

Skipstjóri án togara verður aldrei aflakló þrátt fyrir bestu áhöfn í heimi. Þegar nýtt sjúkrahús verður risið verða allar forsendur til staðar til að skapa hér bestu heilbrigðisþjónustu í heimi.

Hver vill ekki njóta þess? 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband