Færsluflokkur: Menntun og skóli
27.2.2008 | 20:48
Nýtt Háskólasjúkrahús.
Í dag voru haldnir fundir í báðum hlutum Landspítalans. Tilefnið var að sú nefnd sem Guðlaugur Þór skipaði í haust til að fara yfir þær fyrirætlanir sem fyrir lágu um nýbyggingu Landspítalans hafði komist að niðurstöðu. Það var stór hópur starfsmanna mættur og eftirvæntingin var mikil. Viss ótti hafði læðst að okkur starfsmönnunum núna í vetur að menn væru að hugsa um að hætta við nýbygginguna.
Sá ótti reyndist ekki á rökum reistur. Guðlaugur Þór og Inga Jóna eyddu honum snarlega. Fyrirhugað er að halda áfram af fullum krafti og ekki láta staðar numið fyrr en verkinu er lokið.
Dagurinn í dag er merkisdagur í sögu landsins. 27. febrúar 2008 er dagur sem löngum verður í minnum hafður hjá okkur starfsmönnum Landspítalans. Þegar nýr Landspítali mun fara að taka við sjúklingum munu landsmenn skilja hver munurinn er á nýja og gamla tímanaum.
Þá myndu margir Lilju kveðið hafa.
28.12.2007 | 17:59
HELGA FIMMTUG.
Konan er fimmtug í dag. Því er mikið um dýrðir. Fátt finnst henni skemmtilegra en mannamót og ekki er það síðra að vera sjálft afmælisbarnið. Fæstir hafa sloppið ósnortnir við kynni sín af Helgu. Hún berst ekki mikið á en eftir henni er tekið engu að síður. Aftur á móti þekki ég ekki til nokkurs sem skaða hefur hlotið í viðkynningum sínum við hana.
Hún ákvað snemma að verða kennari og uppalandi. Á hún nú stóran útskrifaðan hóp vítt og breitt. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu síðast liðin 30 ár hefur henni ekki tekist að útskrifa mig. Með góðum vilja má segja að hún hafi náð vissum árangri en enn er nokkuð í útskrift. Helgu til málsbótar má segja að lærlingurinn hefur haft ósköp litla tilburði sjálfur til útskriftar. Sjálfsagt líkar honum vistin vel.
Börnin eru fjögur og hefur hún alið þau upp sem ljónynja. Vei þeim sem snerti þau, það yrði hans bani. Enda nýtur hún takmarkalausrar virðingu þeirra allra og er það töluvert afrek á þessum tímum. Í raun er þetta eitt af megineinkennum konu minnar, umhirða og varsla fjölskyldunnar.
Þetta eru stór tímamót í lífi okkar allra. Í kvöld mun fjölmenni streyma að og samgleðjast Helgu með áfangann. Við sem höfum verið að tölta með henni Helgu í gegnum lífið munum ekki vera svo mikið að rifja um gamla tíma. Við vitum sem er að ballið er bara rétt að byrja hjá henni og um að gera að reyna að missa ekki af neinu.
22.12.2007 | 23:55
TRÚFRÆÐI Í GRUNNSKÓLUM.
Þorgerður Katrín leggur til að gefinn verði smá slaki á tengslum Þjóðkirkjunnar og Grunnskólum landsins. Þar með var fjandinn laus eða þannig sko. Ég hélt að þessi umræða myndi lognast fljótt útaf en svo virðist ekki ætla að verða raunin. Út frá þessu hafa síðan spunnist umræður um tengsl ríkis og kirkju.
Ég er skráður í Þjóðkirkjuna og er mjög sáttur við það. Í skoðanakönnun myndi ég vera í þeim helmingi þjóðarinnar sem telur sig kristinn. Hinn helmingurinn telur sig vera eitthvað annað. Mér er nokk sama því ég aðhyllist frelsi og líka trúfrelsi. Það virðist sem margur hafi fengið hland fyrir hjartað þegar þessi umræða kom upp á yfirborðið. Menn keppast við að telja þjóðinni trú um að ríkisrekin kirkja sé
það eina í stöðunni. Þeir virðast halda að allir haldi það líka. Þeir vilja telja öllum trú um að þeir haldi það líka. Bara svo að enginn haldi að þeir séu á móti Þjóðkirkjunni.
Að kirkjan sé ríkisrekin samræmist ekki frelsi, trúfrelsi og jafnrétti. Því ber að skilja þessar tvær stofnanir að. Að auki og ekki síður mikilvægt væri það mjög gott fyrir kristna kirkju að vera ekki lagskona ríkiskassans. Kirkjan yrði mun sjálfstæðari og meira lifandi, eins og í frumkristninni. Ég held að það yrði Þjóðkirkjunni til góðs að einkavæða hana.
Annað við þessa umræðu er fáránleikinn. Þegar skortur er á kennurum. Kennarar kvarta sáran yfir kjörum sínum. Allt of margir nemendur í bekk. Samanburðakannanir sýna að íslenskir nemendur standa sig illa. Um hvað snýst umræðan-SMJÖRKLÍPU-hvort og hvernig eigi að kenna kristinfræði í skólum. Ég held að þjóðin sé ekki með öllum mjalla.
Brettið nú upp ermarnar og sköpum góða skóla fyrir börnin okkar.