Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Erum við gjaldþrota eða ekki??

Uppgjör banka og fyrirtækja koma fram þessa dagana. Eignir eru yfirleitt lítill hluti af skuldum, það virðist vera meginreglan. Skuldir Íslendinga samkvæmt heimasíðu Seðlabankans eru ríflega 11 þúsund milljarðar. Samkvæmt fyrrnefndri reglu verða eignirnar eingöngu lítill hluti af öllum skuldunum. Einnig er vert að hafa í huga að megnið að skuldum okkar eru í erlendri mynt. Eignir bankanna okkar eru að miklu leiti veð í fasteignum á Íslandi. Jafnvel þó bankinn fái gott verð fyrir húsið mitt þá hjálpar það honum mjög lítið því hann fær það greitt í íslenskum krónum sem duga ekki til greiðslu á erlendu lánunum. Það var haft á orði um daginn að ill mögulegt væri fyrir íslenska þjóð að greiða 3 til 4 þúsund milljarða skuld. Af því leiðir að lífsins ómögulegt er fyrir okkur að greiða niður 11 þúsund milljarða. Því miður er sú tala fenginn í byrjun desember og með fallandi krónur hækkar sú tala stöðugt. Ef þetta er rétt hjá mér, þá er Ísland gjaldþrota. Hvernig væri að einhver ábyrgur aðili innan stjórnsýslunnar tæki af skarið og segði okkur hvað er rétt í þessu?

HJÁLP, ÞARF TALNAGLÖGGAN MANN ÞVÍ ÞETTA SKIL ÉG EKKI.

http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3654

 Erlendar skuldir okkar samkvæmt Seðlabanka Íslands þann 4 des 2008 eru samtals

11 þúsund milljarðar og 500 milljónir (11.490.606)

Það er 800% af vergri þjóðarframleiðslu.

Það er 2000% af útflutningstekjum.

Afsakið mig en þetta eru upplýsingar sem eru öllum aðgengilegar á heimasíðu Seðlabankans. Ég hlýt að vera að misskilja eitthvað. Þetta eru svo geggjaðar tölur að við getum aldrei borgað þetta. Ég óska eftir einhverjum sem getur huggað mig og sagt mér að þetta sé bara slæmur draumur og ég muni vakna á nýjan leik í borg Davíðs.

 


Fyrsti í Jóhönnu.

Jajæ, þau mátuðu stólana í dag. Jóhanna sendi bréf til Dabba og bað hann að hypja sig, svona sem almenna greiðasemi við þjóðina. Ögmundur strokaði út Guðlaugsskattinn á þá sem þurfa að leggjast inn á Sjúkrahús. Steingrímur sér til þess að hvalir drepist drottni sínum á náttúrulegan hátt án tekna fyrir ríkissjóð. Í raun nokkuð gott miðað við einn dag. Sjálfstæðismenn eru búnir að töfra fram tvö þingmál og munu mæla fyrir þeim á næstunni. Hvar munu Framsóknarmenn staðsetja sig? Munu þeir leka til hægri eða vinstri?

Kosningar 25 apríl. Gott fyrir þá flokka sem hafa skorað vel í skoðanakönnunum undanfarið. Verra fyrir hina flokkana. Verst fyrir ný framboð. Ekki beint lýðræðislegt. Vonandi tekst grasrótinni að koma einhverju góðu á koppinn innan tilskilins tíma. Mér finnst að við þörfnumst þess.


Frysting eigna hefur verið framkvæmd áður á Íslandi-á grunni gunsemda um afbrot á lögum.

Þvílík forréttindi að fá að upplifa þessa tíma sem við erum að upplifa. Þá er ég að meina hina miklu breytingu sem átt hefur sér stað í hugsun. Stór hluti þjóðarinnar er farin að beita gagnrýnni hugsun við úrlausn vandamála. Í því felst byltingin á Íslandi. Afleiðingin af gagnrýnni hugsun þjóðarinnar hafa verið skelfilegar fyrir flokksræðið. Ríkisstjórnin er fallin og hreinsað hefur verið í Fjármálaeftirlitinu. Jóhanna segir að bráðum komi röðin að Davíð og Seðlabankanum. Völd Jóhönnu í þessu máli eru komin frá þjóð sem mótmælti og mótmælti vegna þess að þjóðin hugsaði. Reyndar, til að gæta alls sannmælis, þá varð þjóðin neydd til þess að hugsa vegna kreppunnar. Það getum við þakkað Davíð og Co. Hitt er öllu verra að fórnarkostnaðurinn til að fá þjóðina að hugsa er fjöldaatvinnuleysi, gjaldþrot og miklar mannlegar hörmungar. En hér stöndum við í dag.

Fréttatímar eru að verða æsispennandi. Hvaða hneykslismál fáum við að vita um í dag? Það sem er óhugganalegast er að fréttamennirnir toppa sig daglega. Ef fram vindur sem horfir þá mun svarta bókin hans Davíðs, þar sem hann hefur skráð helstu þætti í lífshlaupi félaganna sem þola illa dagsljósið, verða eins og hver annar upplestur í sunnudagaskóla Þjóðkirkjunnar.

Vinkill dagsins á örugglega bloggfærsla Helga Jóhanns Haukssonar. Segið svo ekki að bloggið sé bara slúður og fúkyrði. Þar bendir Helgi á að hælisleitendur sem kyrrsettir voru í Njarðvíkum, meðan mál þeirra voru rannsökuð um landvistarleyfi, voru rannsakaðir vegna meintra grunsemda að þeir hefðu aflað sér peninga með ólögmætri vinnu. Viðbrögð yfirvalda voru að leggja hald á alla fjármuni þeirra á heimulum þeirra. Það var gert á grundvelli grunsemda um að þau hefðu hugsanlega, ef til vil, sennilega, að öllum líkindum, brotið íslensk lög. Eigur þeirra voru kyrrsettar af lögreglu á þeirri einu forsendu að grunur var um afbrot. Ekkert sannað fyrr en eftir á.

Ef hægt er að gera þetta mínum minnstu bræðrum þá krefst ég þess að það sama gildi um hina meintu stórglæpamenn í röðum okkar hinna- og hana nú.


Gunnar Páll-KBbanki-Jómfrúeyjar-VR.

Gunnar Páll fær fullan stuðning sinna manna. Nú er bara að sjá hvað hinn almenni félagsmaður telur að sé heppilegast. Frétt Kastljóssins um lán til Jómfrúeyja er þvílíkt hneyksli að leitun er að öðru eins. Frásagnir af tregðu Sjálfstæðismanna til að taka til hendinni eru með ólíkindum. Manni er létt ofboðið. Ég tel að ástæður til að mótmæla hafi síst minnkað.

Við getum krafist opinnar stjórnsýslu strax. Allt sé upp á borðinu, þ.e. allar rannsóknir og verk séu á netinu. Við getum krafist að öll spilling skuli fundin og upprætt, án undantekninga. Við getum krafist að fjármunir "landráðamanna" verði endurheimtir. Við getum krafist endurskipulagningar í Seðlabankanum. Margt fleira má telja til en ég vek bara athygli á því að okkur hefur verið ágætlega ágengt í kröfum okkar. Núna þegar farið er að kvarnast úr múrum spillingarliðsins um að gera að láta hné fylgja kviði


Umboðslausir valdhafar-gefist upp.

Hvað er í gangi þjóðfélagi okkar? Margir reyna eftir bestu getu að taka púlsinn. Ekkert einhlýtt svar er til. Það eru mjög margar tilfinningar sem bærast með þjóðinni. Hvort komið sé að úrslitastund er ekki augljóst en ég tel þó að hún nálgist óðfluga. Þegar gamall stjórnmálaflokkur eins og Framsóknarflokkurinn tekur u beygju í ESB málinu virðist manni eins og fjölmiðlamenn rembist við að vekja áhuga almennings á málinu. Samt er áhuginn takmarkaður. Verra er með Landsfund Sjálfstæðismanna. Þar eru menn nú þegar byrjaðir að skrifa í blöð hvað sá ágæti fundur komi okkur yfirleitt við, og fundurinn er ekki einu sinni hafinn.

Traust á valdhöfum landsins er búið. Okkar kjörnu fulltrúar hafa rofið sáttmálann sem gerður var í síðustu kosningum. Við treystum þeim fyrir vörnum lands og þjóðar. Þeir brugðust. Þeir kannast ekki við ábyrgð sína og ætla að halda áfram að þumbast. Í raun er eina spurningin sem eftir er, hvenær ætla núverandi valdhafar að víkja? Þjóðin bíður og vonar að þeir leggi frá sér völdin. Það sem gæti hugsanlega valdið óróa og látum í þjóðfélaginu er ef stjórnvöld skynja ekki vitjunartíma sinn og reyni að hanga á útrunnu umboði. Að mótmælum landsmanna linni er óskhyggja sem mun ekki rætast.


Frelsi til athafna, flugeldar, bankar og afleiðingar alls þessa.

Meðan ég fylgdist með flugeldum springa og kökur tætast í kvöld fór ég að velta fyrir mér frelsinu til athafna. Það er almennt viðurkennt að einstaklingar eigi að hafa frelsi til athafna meðan þær skaða ekki aðra. Þrátt fyrir þessa meginreglu er hún brotin. Við vitum vel að um hver áramót slasast einhverjir sökum þessa háttalags. Við sættum okkur við að fólk skaði sig vegna ofneyslu áfengis. Við vitum að margur íþróttamaðurinn skaddast við íþróttaiðkun sína. Við ökum bílum alla daga þrátt fyrir að sú iðja kosti mörg mannslíf á ári hverju. Því virðist reglan vera frekar þannig að við höfum frelsi til athafna svo fremi að bara fáir skaðist af háttalaginu. Það sem hins vegar er augljóslega hættulegt fyrir einstaklinginn, einn eða fleiri, er bannað. Svona oftast eða þannig sko.

Þjóðin finnst að frelsi ákveðinna einstaklinga til athafna brjóti meginregluna um að eingöngu fáir skulu skaðast af verkum þeirra, sem nýta sér frelsið til athafna sinna. Almenningur er mjög ósáttur við að frelsið var nýtt til að gera bankana 12 sinnum stærri en þjóðarheimilið. Einnig það frelsi sem stjórnvöld tóku sér til að bregðast rangt við aðsteðjandi vanda. Að þegja þunnu hljóði um hvað er að gerast innanbúðar hjá stjórnsýslunni. Að taka sér það frelsi að sitja áfram, að afnema frelsi okkar til að hafa kosningar. Nýting valdhafa á frelsinu miðast við að þau komist sem best undan vetri. Slík notkun á frelsinu til athafna skaðar allt of marga til að þjóðin sætti sig við það.

Þegar mótmælendur trufluðu og komu í veg fyrir útsendingu hjá sjónvarpsstöð hér í bæ urðu viðbrögðin slík að skaði hlaust af. Að mótmæla samrýmist meginreglunni, að athafnirnar valdi litlum ásættanlegum skaða, eins og við umgöngumst frelsið á öðrum sviðum þjóðlífsins. Til samanburðar má geta þess að margir hafa orðið blindir vegna frelsisiðkunar þeirra sem elska flugelda og annað stórhættulegt dót um áramót.

Hvað um það, það sem ég ætlaði að segja var þetta; ef allir þessir lögreglumenn hefðu frekar takmarkað frelsi bankanna á sínum tíma hefði margt farið á annan veg.


Glöggt er gests augað!!




Wall Street Journal skrifar nýlega stóra grein um okkur. Þeir eru kurteisari en dómurinn er ekki góður. Í raun tæta þeir okkur í sig. Það kemur fram í greininni að Mr. Oddson hafi ekki viljað tala við þá.

Í Financial Times er fjöldi greina um okkur. Fæstar auka hróður landsins okkar, þvert á móti.

Það er augljóst að við höfum glatað öllu trausti og trúverðuleika. Ríkisstjórn landsins hefur ekkert traust erlendis enda eru þau steinhætt að ferðast um heiminn. Allir blaðamenn sem koma hingað að kynna sér málin spyrja allir hvernig standi á því að enginn hefur sagt af sér enn þá.


Árið 2008, ESB og holræsin.

Uppgjör virðist mörgum hugleikið þessa dagana. Um er að ræða uppgjör við árið 2008. Ég mæli með pistli Rakelar Sigurgeirs bloggvinkonu minnar. Í þeim pistli er drepið á marga nytsama hluti og uppbyggilegar vangaveltur.

Í vefritinu AMX er deilt á nýjan ritstjóra Morgunblaðsins. Hann er ekki einarður andstæðingur ESB eins og Styrmir er. Hann vogar sér að taka undir hótanir Ingibjargar um aframhaldandi stjórnarsamstarf eða ESB. 

Ég verð nú að segja að þetta er nokkuð einfölduð mynd. Ef Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki ESB eftir landsfundinn og Samfylkingin fer í fýlu þá geta Sjálfstæðismenn myndað nýja stjórn með Framsókn eða Vinstri grænum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun öll völd í hendi sér. Hann getur frestað kosningum út kjörtímabilið ef hann vill. Það skiptir engu máli hvað Samfylkingin vill eða vill ekki. Samfylkingin virðist bara vilja það heitast af öllu að liggja með Sjálfstæðisflokknum í bælinui. Síðan dreymir hana um að teyma okkur öll inn í ESB.

Þjóðin vill spillinguna burt og það stefnir í að bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur skolist einnig niður í það holræsi.   


Flokkur allra landsmanna-eða hvað?

"Forsætisráðherra segir marga þeirra sem sækja þjónustu í heilbrigðiskerfinu við góða heilsu í grunninn, og geti staðið undir gjaldtökunni".

Hugmyndir eru um að allir þeir sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús greiði 4000 kr. Ástæða þess að viðkomandi "velur" að koma á sjúkrahús er langoftast sú að hann á engra annarra kosta völ. Viðkomandi getur illa hagrætt og sleppt því að mæta. Það má vel vera að viðkomandi hafi verið nokkuð hraustur í "grunninn", aftur á móti þegar heilsubrestur verður hjálpar það ekki nema Geir til að rukka gjaldið sitt.

Að rökstyðja þessa gjaldtöku á þeirri forsendu að einhverjir hraustir einstaklingar leiti sér læknishjálpar er fáránlegt. Í fyrsta lagi eru þeir í algjörum minnihluta og hitt að hvers eiga hinir sjúku að gjalda. 

Auðmenn sleppa aftur og aftur hjá honum Geira kallinum, en ekki þeir sem veikastir eru fyrir. Hver er það sem gefur Geira ráð, eða hafa auðmennirnir keypt hann líka. Hver veit, hann er kannski líka veðsettur.


mbl.is Standa undir gjaldtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband