Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Lauk Lýðveldinu 5 desember 2008?

Ég er ákaflega hugsi. Er að lesa bók Guðna Th. þessa dagana. Mín upplifun er sú að þann 5 desember s.l. þegar Alþingi Íslendinga samþykkti þingsályktunartillögu var bundinn endir á sjálfstæði okkar Íslendinga. Þá lauk Lýðveldinu eins og við höfum kynnst því hingað til.

Tillaga til þingsályktunar
um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum
vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka
á Evrópska efnahagssvæðinu.
(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)

Þingsályktunartillagan hljóðar svona og er mjög saklaus á að líta.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld
vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli
þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Það eru þessi viðmið sem skipta öllu máli og fylgja með í þingsályktunartillögunni. Ég er ekki lögfróður en ef Alþingi samþykkir viðmiðin þá hljóta Íslendingar að hafa samþykkt þau. Viðmiðin fylgja hér með.

UMSAMIN VIÐMIÐ
1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og
hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um
Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/
EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld
inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska
efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum
Evrópusambandsins.


2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna
þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og
samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna
sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift
að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.


3. Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi
þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.

Samkvæmt þessu þá fékk Ísland enga fyrirgreiðslu hjá AGS nema að samþykkja Icesave skuldirnar. Liður 3 tryggir það að við rífum ekki kjaft seinna því Evrópusambandið mun verða samráðsaðili að aðstoð AGS. Ef við fellum samninginn núna á Alþingi munum við ekki fá frekari aðstoð frá alþjóðasamfélaginu.

Við vorum algjörlega borin ofurliði, ekki einu sinni Norðurlandaþjóðirnar studdu okkur. Ekki það að við hefðum ekki góð rök fyrir máli okkar. Nei, það var bara sá sem valdið hefur sem réð, þeir þurfa sjaldnast á lögum að halda.

Ekki veit ég hvort er verra að vera gjaldþrota þjóð eða útskúfuð svöng þjóð. Sennilega erum við hvoru tveggja. Hvað er til ráða kæru landsmenn? Kæra þá fyrir mannréttindarbrot? Kannski er best að við flytjum öll til Englands og skráum okkur atvinnulaus þar.


"Við lentum í þessu."

Það er ýmislegt sem gerjast í hugum fólks þessa dagana. Hvernig stendur á því að þrátt fyrir þrjár mismunandi Ríkisstjórnir í vetur þá breytist ekki nokkur skapaður hlutur. Sama leikritið en bara mismunandi leikarar. Hvernig stendur á því að Steingrímur snýst eins og vindhani. Er möguleiki að æðstu stjórnendur Íslands á hverjum tíma viti eitthvað sem við hin vitum ekki. Er það sú staðreynd að ef umheimurinn lokar á okkur þá sveltum við að nokkrum vikum liðnum. Olían búin, bóndinn og útgerðarmaðurinn stopp, enginn matur. Hvers vegna er okkur ekki sagt allt!

Er hugsanlegt að íslensk stjórnvöld hafi lagt sig í líma við að láta líta svo út að allt sé í góðu lagi hjá okkur. Höldum áfram með Tónlistarhúsið eins og ekkert hafi í skorist. Yfirvöld hafi brugðist í því að gera umheiminum fulla grein fyrir því að við getum ekki greitt þessar skuldir. Ef Steingrímur hefði sagt í dag að hann ætlaði að reisa 40 grunnskóla á hverju ári næstu 7 árin í Bretlandi hefðum við skutlað honum snarlega á geðdeild. En hann sagði þetta í dag.

Þegar kreppan hófst í október sagði Geir "að við lentum í þessu".  Núna segir Steingrímur líka "við lentum í þessu". Hann fékk þetta bara si sona í hausinn. Skrítið ég hélt að stjórnmálaskörungar breyttu sögunni en væru ekki bara söguritarar. Ef við rifjum upp söguna þá hafa þeir sem greitt hafa sínar stríðskaðabætur farnast illa. Karthagóbúar greiddu sínar skaðabætur að fullu eftir annað Púnverska stríðið. Þeir voru þurrkaðir út í því þriðja. Hefur einhver orðið var við mikla breytingu á mannskepnunni síðan þá?

 


Kópavogssamningurinn 1662, taka tvö.

Það er ekki laust við óbragð í munninum núna. Kópavogsfundurinn 1662 kemur upp í hugann. Þau ætla að skrifa undir samning við Breta og Hollendinga í nótt. Samning sem bindur mig og börnin mín á skuldaklafa til langs tíma. Því gagnstæða var einmitt lofað fyrir síðustu kosningar. Skuldir sem við fjölskyldan tókum engan þátt í að stofna til. Hvers vegna fáum við ekki að kjósa um þetta beint, það er jú við sem eigum að borga. Hvers vegna fáum við ekki að vita hvaða eignir eiga að koma upp í skuldina, eignir sem Bretarnir vilja ekki sjá. Hvers vegna þetta leynimakk. Að sjálfsögðu eiga allar þessar upplýsingar að vera á heimasíðu Alþingis. Það er eins og við hin séum algjörir óvitar og best að við vitum sem minnst.

Leyndin er einn af orsakavöldum hrunsins. Steingrímur og Jóhanna aðhyllast ennþá slík vinnubrögð. Þau eru alin upp við slíka foræðishyggju áratugum saman. Þau skilja ekkert annað. Allt á að vera klappað og klárt fyrir blaðamannafundinn á morgun. Síðan má aflétta leyndinni seinna fyrir söguritara. Ekki núna fyrir þjóðina sem á borga.

Við kusum steingervinga og kerfiskarla yfir okkur í maí. Því miður. Steingrímur virðist vera fúinn kerfiskarl sem getur ekki verið snöggur né farið ótroðnar slóðir. Hvorki frumkvæði né nýjabrum. Jóhanna virðist vera einangraður eldri borgari. Heilsar ekki, svarar ekki og segir alltaf það sama. 

Sjálfsagt mun lokaniðurstaðan vera  Jóhönnu og Steingrími að skapi. Innan ekki svo langs tíma mun mengun og ofveiði heyra sögunni til. Hvalaveiði aflögð. Það kunna Vinstri-græn að meta. Einnig mun Jóhanna gleðjast því allir Íslendingar munu verða komnir í Evrópusambandið. Engin furða því við verðum öll flutt héðan, sennilega til Evrópu. 

 


Gjáin.

Ég er ekki alveg að kyngja þessu. Í den var munur á hægri og vinstri. Í dag virðast allir verða að einhverskonar skíthælum þegar komið er inn í steinhúsið við Austurvöll. Í dag var mótmælafundur á Austurvelli. Enn er gjá á milli stjórnvalda og almennings. Það virðist ekki skipta máli hver er í Ríkisstjórn. Það er eins og eina lausn íslenskra Ríkisstjórna sé að láta heimilunum blæða, að heimilin borgi kreppuna.

Hvað veldur þessu? Hvað veldur því að það skiptir engu máli hver situr í Ríkisstjórn. Hver segir ríkisstjórninni fyrir verkum? Ríkisstjórnin sinnir fjármagnseigendum af alúð og kristilegum kærleika. Hjörtu þeirra slá í takt. Skuldarar mega þvælast um ranghala stjórnsýslunnar og fjármálafyrirtækja einir á báti. Það finnst Ríkisstjórnum Íslands eðlilegt ástand. 

Þar með er komin gjá á milli þeirra sem skulda og þeirra sem lána. Sökum íslenskra laga eru lánveitendur þeir sem meira mega sín. Vinstri menn í Ríkisstjórn eru svo andskoti löghlýðnir að þeir geta ekki tekið málstað lítilmagnans. Öðruvísi mér áður brá. Ef svokallaðir vinstri menn ætla að fylgja gömlum lögum íhaldsins út í ystu æsar verður aldrei nein bylting. Bylting snýst um að kollvarpa gömlum gildum. Stólást Jóhönnu og Steingríms virðist ætla að koma í veg fyrir allar breytingar til hagsbóta fyrir skuldsett heimili landsmanna. Huggun harmi gegn er að sennilega verður mikið af ónotuðum evrum og hvölum á Íslandi eftir nokkur ár en sárafáir Íslendingar.

Gjáin breikkar, því miður. Sérkennilegt að þurfa kjósa mörgum sinnum á ári þó vandamálin séu augljós öllum. Lausnirnar að sama skapi. Hver stjórnar liðinu í steinhúsinu við Austurvöll?


Framtíðin?

Jóhanna segist þurfa að skera mjög mikið niður næstu árin. 10 til 20 milljarða bara í sumar. Síðan á að hækka skatta. Þetta segir okkur að hún ætli að kokgleypa lyfseðil AGS án þess að blikka auga. Niðurskurður, hækkun skatta og jafnvel lækkun launa mun valda því að allir munu spara eins mikið og þeir geta. Enginn mun gera við húsnæði sitt, fresta öllum viðgerðum á bílnum eða þá tönnunum sínum. Hætta að styrkja menningu eða góðgerðamálefni. Allt stopp. Viðvarandi atvinnuleysi.

Allir sem hafa tök á því munu flytja úr landi, fyrst og fremst ungt fólk. Við sem eftir sitjum munum sætta okkur við meiri stóriðju því það er skárra en ekki neitt. Vonandi hef ég rangt fyrir mér en parið hefur talað á þessum nótunum.


Jóhanna, komdu þér nú að verki kona góð.

Þeim liggur ekki mikið á, hjónaleysunum, Jóhönnu og Steingrími. Þau ræða öll mál í þaula. Þessir málaflokkar skipta allir máli en bara ekki strax. Ísland skuldar, kannski 10 þúsund milljarða íslenskra króna. Það er ekki hægt að gera neitt af viti hér á Íslandi fyrr en þessi skuld er útkljáð. Það er tómt mál að vera að velta sér upp úr ESB og öðrum smámálum þangað til við höfum gert upp skuldir okkar. Meðan það er ógert höfum við ekkert lánstraust né nokkurn pening til að gera nokkurn skapaðan hlut. Því verðum við að semja um skuldir þjóðarinnar. Við verðum að bjóða þeim hundrað ára víxil, "take it or leave it" kæru félagar. Ef við förum þá leið mun lánstraust fást og hjól atvinnulífsins fara í gang. Þá þarf ekki að hækka skatta né skera niður.

Jóhanna, komdu þér nú að verki kona góð.

http://www.powellhistory.com/art/Painting/Ingres_Joan%20of%20Arc%20at%20the%20Coronation%20of%20Charles_VII.jpg


Samfylkingin og skuldir barnanna okkar.

Það er merkilegt að fylgjast með kosningabaráttunni þessa dagana. Samfylkingarmenn eru sjálfsagt jafnaðarmenn upp til hópa enda kalla þeir sig jafnaðarmannaflokk Íslands. Hitt er erfiðara að skilja ást þeirra á Evrópusambandinu. Eina auðlind þeirra í Brussel er súkkulaði og nefndarstörf. Því horfa þeir löngunaraugum á fiskinn okkar og rafmagnið. Því er áhugi Brusselmanna mjög skiljanlegur á okkur Íslendingum. Þar sem allir eru í megrun á Íslandi þá hljóta Samfylkingarmenn að ásælast nefndarstörfin-umræðustjórnmál.

Það virðist vera sem Samfylkingarmenn séu reiðubúnir að kaupa nefndarstólana sínu dýru verði. Afborganir af Icesave, bara vöxtunum, er 85 milljarðar íslenskra króna. Þetta samþykktu Samfylkingarmenn meðan þeir voru í samstarfi við Sjálfstæðismenn. Ástæða undirlægjuháttar Samfylkingarmanna gagnvart Evrópusambandinu er draumur þeirra um um diplómastörf í Brussel. Að selja sálu sína á þennan hátt má jafna við föðurlandssvik, að minnsta kosti þurfa börnin okkar að borga brúsann sem Samfylkingarmenn stofnuðu til.


Hrollvekja á páskum.

Ég var að lesa pistil eftir Andra Geir á netinu. Þvílík hrollvekja, ég tel að allir að ættu að lesa þennan pistil og hugleiða málin. Bara hvers vegna þetta er ekki meira rætt í aðdraganda kosninganna.

Skrítin skepna þetta frelsi.

Ég var að velta fyrir mér frelsinu í dag. Ríkisrekstur og frelsi eru oft sett upp sem andstæður. Þessar hugsanir hófust í höfði mínu þegar ég reyndi að fara frá einni útvarpsstöð til annarrar til að losna undan auglýsingum. Hérna í gamla daga var bara ein útvarpsstöð og við greiddum fyrir það með afnotagjöldum. Síðan kom frelsið. Þá kom fullt af nýjum útvarpsstöðvum. Samkvæmt kenningum frelsissinna þá áttu þær að vera miklu betur reknar og allt að því ókeypis.

Þá koma þessar auglýsingar aftur upp í hugann. Auglýsingar eru afnotagjöld útvarpsstöðva. Auglýsingar kosta peninga. Sá kostnaður er greiddur af almennum neytendum. Hvers á heyrnalaus maður að gjalda, hvert er frelsi hans?

Sá maður sem hlustar ekki á útvarp, sá sem vill ekki hlusta á útvarp þurfti bara að að borga fyrir eina útvarpsstöð gegn vilja sínum í gamla daga. Í dag þarf slíkur maður að borga afnotagjöld af mörgum útvarpsstöðum þegar hann verslar inn. Það er skrítin skepna þetta frelsi.


Hver var svo vitlaus að lána okkur alla þessa peninga?

Silfur Egils var magnað í dag og ég hvet alla til að skoða það á netinu. Endursýningin í kvöld verður textuð og er það til bóta. Það var svakalegt að hlusta á Micheal Hudson. Hægt er að googla hann og lesa margt sem hann hefur skrifað um fjármál og slíka hluti. Hann segir að við eigum að neyta að borga skuldir þjóðarinnar. Ástæðan er einföld. Við getum það ekki. Hann segir að engin þjóð hafi borgað skuldir sínar í okkar stöðu. Þar að auki eigum við að segja okkur frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Það er ekki laust við að maður sé aðeins hugsi. Annað hvort borgum við skuldirnar og lepjum dauðan úr skel eða stöndum í fæturnar og fáum virðingu á ný.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband