Færsluflokkur: Vefurinn
8.7.2007 | 22:33
Rómantík.
Enn eru það sjávarútvegsmál sem eru á dagskrá hjá mér. Er þetta ef til vill eintóm rómantík að vilja að fólk geti stundað sjóinn. Er það rómantík og óraunsæi að menn geti haft lifibrauð af því að róa á litlum bát sem maður á sjálfur, ræður sjálfur. Er það rómantík að menn geti rekið svona lítið til meðalstórt útgerðafyrirtæki nálægt miðunum og haft ofan í sig og á.
Sjálfsagt er þetta óraunsæi og rómantík. Núna er öldin önnur. Núna ráða hagfræðingar. Því skal hlutunum komið þannig fyrir að hámarks gróði fáist með sem minnstri fyrirhöfn. Þá er sjálfsagt best að hafa örfá stór fyrirtæki sem geta beitt mikilli hagræðingu til gróðamyndunar. Að sjálfsögðu verður starfsfólkinu greitt eftir taxta annars eykst ekki gróðinn.
Er þetta bráðnauðsynlegt. Er ekki tími né ráðrúm til að hafa smá rómantík í lífinu. Liggur okkur lífið á? Getum við ekki hægt aðeins á okkur og notið lífsins á annan hátt en að bókfæra alltaf þennan gróða.
Ef þessar þjóðfélagsbreytingar væru knúnar fram af óvefengjanlegum vísindarannsóknum þá gæti maður ekki sagt mikið. En núna eru mjög margir sem hafa miklar efasemdir um niðurstöður Hafró. Það er alls ekki hægt að tala um einhug um rannsóknaraðferðir Hafró. Verst er að ráðleggingar eins og Hafró er með hafa hvergi skilað árangri.
Þessa dagana getur maður ekki annað en fundist forystumenn þjóðarinnar vera að klæmast á fornri Íslenskri rómantík-að vera sinn eigin herra og sjá sínum farborða.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2007 | 21:05
Kolefnisjöfnun-eða hvað?
Nú sit ég enn og aftur og brenni í mínum Mexíkóska ofni. Drekk hvítvín sem ég verð að kæla sökum óvenjumikilla hita hér í Reykjavík. Venjulega kólnar það af sjálfsdáðum hér úti á pallinum. Ekki hef ég hugsað mér að kolefnisjafna þennan bruna neitt sérstaklega. Reyndar setti konan niður nokkur blóm um daginn, ég veit ekki hvað þau vigta þungt í þessu sambandi.
Reyndar er ég þeirrar skoðunar að okkur beri að minnka mengun eins og kostur er. Þess vegna drekk ég gjarnan úr plastglösum því það er víst minnsta mengunin. Það kostar meira að þvo venjuleg glös og ég tala ekki um sápuna sem við sleppum út í umhverfið samfara þeim þvotti. Plastglösin fara í náttúruna og eru þar og hafa engin áhrif.
Ég hef enga trú á því að við séum að grilla jörðina til frambúðar sem er ekki það sama og að okkur leyfist að búa til ómælt magn af gróðurhúsalofttegundum. Það ber að minnka eftir því sem tök eru á. En þessir dómsdagsspádómar eru hreint rugl. T.d. hefur verið margsinnis mun heitara á jörðinni en núna og samt er ég að blogga ósviðinn.
Kolefnisjöfnun er nokkuð merkilegt fyrirbæri. Ef ég tek þá meðvituðu ákvörðun að menga þá get ég greitt fyrir með því að borga í sjóð og hef fengið þannig syndakvittun. Þetta er syndaaflausn nútímans samanber syndaaflausn kaþólskunnar fyrr á öldum. Það er sjálfsagt skammt í sjóð sem maður getur greitt í áður en maður heldur fram hjá konunni eða hvað?
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2007 | 22:24
Var þetta ofbeldi?
Forsætisráðherra bað bankana að sína þeim Íslendingum miskunn sem fara illa út úr 30% skerðingu á lifibrauði sínu.
Ef kaupið mitt yrði lækkað um 30% hvað myndi ég gera. Ég væri a.m.k. ekki svona rólegur eins og viðmælendur hafa verið í sjónvarpinu hingað til. Ég yrði brjálaður. En kannski er fólkið ekki búið að gera sér grein fyrir þessu ennþá. Það er e.t.v í sama hugarástandi og konan var í á meðan henni var nauðgað á Hótel Sögu s.l. vetur. Hún trúði ekki því sem var að gerast og varð þess vegna ekki brjáluð. Það kom seinna. Við eigum sjálfsagt eftir að sjá kröftug viðbrögð seinna.
Það hugsa sjálfsagt margir með hlýhug til ríkisstjórnarinnar fyrir framtak sitt að opna neyðarmóttöku fyrir 70% Íslendingana. Bankarnir eru beðnir um miskunn sem táknar sjálfsagt að þeir láni lengur, þeir hafa aldrei gefið neitt. Flytja á störf út á land, vegaframkvæmdir ofl ofl ofl.
Hann var sýknaður í undirrétti en spurningin er hvað gerist í Hæstarétti. Ef þorskarnir eru ekki fleiri í sjónum að þremur árum liðnum þá var þetta ofbeldi eftir allt saman.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2007 | 00:14
Læknaráð og Hafró.
Það er ein af tillögum ríkisstjórnarinnar að Hafró skipi sérfæðingahóp til að rannsaka sjálfan sig.
Núna hefur Mannréttindadómstóllinn í Evrópu nýlega dæmt í máli og snúið við dómi Hæstaréttar. Aðalgagnrýnin var sú að Læknaráð sem gaf umsögn til dómstólanna var samansett af mönnum sem störfuðu hjá Landspítalanum þar sem atvikið átti sér stað. Um greinilega hagsmunaárekstra, ég segi ekki hagsmunagæslu var að ræða. Þau gömlu lög sem Læknaráð byggir á eru allir sammála að fella úr gildi og þar á meðal læknar.
Þegar kemur að Hafró og rannsóknum þeirra þá eiga þeir að meta eigin ágæti. Niðurstaðan er nokkuð fyrirséð. Ég held að við getum hætt að tala um læknamafíu en frekar farið að velta fyrir okkur fiskifræðingamafíu. Hvað knýr menn til að berjast fyrir stefnu sem hefur fært okkur allt færri þorska áratugum saman. Hvernig ná menn slíkum árangri, erum við svona auðtrúa og gagnrýnislaus. Það eitt að enginn árangur hefur orðið ætti að vekja upp einhverjar efasemdir.
Í gamla daga voru læknar í Guða tölu og enginn gagnrýndi ákvarðanir þeirra. Í dag þegar einstaklingur fær sjúkdóm fer hann á netið og spyr doksa hverja af þrem meðferðarmöguleikum hann hyggist velja fyrir sig. Þá segir doksi," nú ég vissi bara um tvo möguleika". Þetta er til mikilla bóta að einstaklingar eru meðvitaðir og taki fullan þátt í sinni meðferð. Þessu ber að fagna.
Aftur á móti eru rannsóknir á þorskinum á einni hendi, þeir hafa algjört ægivald og eiga meira að segja leggja dóm á sjálfan sig, eins og Læknaráð. En nú fer fólk á netið og les sig til um rannsóknir á þorski og skyldum málum. Það kynnir sér málin og margir hafa tjáð sig og lýst miklum efasemdum um ágæti Hafró og tillagna þeirra. Einar K er sennilega ekki nettengdur eða auðtrúa.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2007 | 22:25
Að buffa að vild.
Ef ég er samferða einhverjum inn á klósett þá er hann sáttur við að láta buffa sig. Ef hann lætur mig ekki hafa yfirlýsingu í þríriti með undirskrift tveggja votta meðan ég er að buffann þá er hann því ekki mótfallinn. Svo ég bara buffa hann í góðri trú.
Guði sé lof að ég er hvorki lögfræðingur né kona.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2007 | 21:36
Iðnbylting á röngum forsendum.
Nú á að skera niður þorskvótann svo rækilega að margir munu skaðast verulega. Það er staðreynd. Mikið hefur verið fjallað um málið og því er ljóst að fyrirtækin sem veikust eru munu leggja upp laupana. Kvótinn mun safnast á enni færri hendur. Allt þetta er fyrirséð. Allt þetta gerir ríkisstjórn Íslands sér grein fyrir.
Ríkistjórn Íslands sér þetta sem óumflýjanlega hagræðingu innan sjávarútvegsins.
Hrærigrautur hugmyndafræðanna er orðinn svo mikill að manni sundlar. Frjálshyggjuflokkurinn Sjálfstæðisflokkurinn tekur völdin af markaðnum með boðum og bönnum. Setur inn fátækrahjálp, ríkisstyrki sem kallast mótvægisaðgerðir. Samfylkingin sem á að vera málsvari frjáls framtaks og sérstaklega smærri fyrirtækja rústar þeim innan sjávarútvegsins. Eflir stórfyrirtækin.
Hér er á ferðinni handstýrð byggðaröskun. Það á að færa kvótann til þeirra stóru í nafni hagræðingar. Samtímis á að reyna að skapa einhver ný störf, alls óskyld sjómennsku, fyrir þá sem missa vinnuna. Þeir sem kunna ekki að meta verða sennilega bara að flytja á mölina eða austur í álver.
Þetta verður örugglega erfitt að skilja fyrir þann sem hefur dreymt um að vera sjómaður, kannski á eigin smábát, ráða sér svolítið sjálfur og hafa unun að því að stússast í kringum bátinn sinn og veiðafæri. Reykjavíkurliðið fattar það ekki að nokkrum manni geti þótt gaman af sjómennsku. Ég held að þessi misskilda hagfæði sjái bara hamingju bak við skrifborð og tölvuskjái.
Það sem verst er að grundvöllur þessara ákvarðana er mjög umdeildur og í raun upplifi ég að enginn trúi í raun á framtíðasýn Hafró. Hvað sem öllu líður þá gagnast þessi ákvörðun í dag eins fáum og hugsast getur og er þá þorskurinn meðtalinn.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2007 | 20:16
Kastljós-II
Nú get ég ekki bara orða bundist. Þegar ríkisstjórn Íslands tekur eina stærstu og afdrífaríkustu ákvörðun seinni tíma um sjávarútvegsmál þá fjallar kastljós um fótbolta. Það er fyrst rætt örstutt um sjávarútvegsmál og meðal annars er íþróttafréttamaður fyrir svörum, með fullri virðingu fyrir honum. En augljóst var að ekki átti að ræða sjávarútvegsmál að neinu ráði. Eftir örfár mínútur var farið að ræða eitthvað mark í knattspyrnuleik sem olli því að fullorðnir menn fóru að haga sér eins og smástrákar. Enda varð öll umræðan sem fylgdi eins og hjá krökkum sem eru að saka hvert annað um mismunandi ódæði og röksemdafærslan á svipuðu plani.
Knattspyrna er leikur og skemmtun. Sjávarútvegur og þær ákvarðanir sem teknar voru í dag eru dauðans alvara.
Kastljós á ekki lengur að tilheyra fréttastofu sjónvarpsins heldur vera hluti af skemmtidagskrá þess eins og spaugstofan.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2007 | 23:11
STRÆTÓ-enn og aftur.
Ég er með strætó á heilanum og í kvöld í Kastljósi voru þessi mál rædd. Mest var rætt um slæma afkomu strætó. Kom þar fram að allt færri noti sér þjónustu strætó. Nú er svo komið að farþegar greiða fyrir um 25% af rekstrarkostnaði strætó en afgangurinn komi frá sveitafélögunum þ.e. útsvarið okkar.
Ég held að fólk verði að fara að gera upp við sig hvort og hvernig við ætlum að hafa strætó.
Á strætó að vera einhverskonar óhagkvæm neyðarlausn fyrir þá sem geta ekki átt almennilegan einkabíl, eða eru svo illa settir að hafa ekki bílpróf. Ef strætó á að vera fyrir undirmálsfólk eða kolgræna hugsjónamenn þá getum við svo sem haldið áfram á þessari braut.
Ef fólk meinar eitthvað með því að það vilji hafa almennilegar almenningssamgöngur þá held ég að tími sé kominn til að menn fari að bretta upp ermarnar.
Ef farþegar standa undir eingöngu 25% þá getum við alveg eins sleppt því að vera að rukka farþegana. Sparast mikill peningur sem fer í allt umstangið að rukka fólk. Auk þess sparast mikill tími fyrir vagnstjórana ef þeir þurfa ekki að rukka fólk.
Þar að auki myndi ef til vill fleiri nýta sér strætó. Ég held þó að fæstir hafi sett fyrir sér kostnaðinn heldur hversu óhægt er um vik að greiða í strætó. Fæstir eru með peninga á sér og eingöngu innvígðir eiga strætókort. Því hefði eini raunhæfi möguleikinn verið að geta greitt fyrir með sínu venjulega debet/kredit korti. Hvers vegna ekki við notum þau kort als staðar annarstaðar.
Meginvandinn er sá að það er allt of langt á milli ferða. 30 mínútur allan daginn nær náttúrulega engri átt. Það hentar engan veginn fyrir nútímafólk.
Aftur á móti er það staðreynd að vinsældir strætó eru ekki svipur við sjón miðað við áður. Það er EKKI vegna þess að margir eiga einkabíl í dag. Það er bara hluti af skýringunni. Aðalástæðan er sú að fólk upplifir ekki strætó sem raunverulegan valkost heldur sem neyðarlausn.
Háu herrar og frúr, leysið það vandamál og strætó mun lifa.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.7.2007 | 21:02
Hagstofa sjávarins.
Gestur Guðjónsson bloggar í dag um Norðuratlandhafsfiskveiðiráðið. Þeir eru að velta fyrir sér mælingum okkar Íslendinga á fjölda þorska. Niðurstaða þeirra er að við vitum ekki neitt með vissu. Niðurstaða þeirra er að okkur hafi ekki tekist að svara grundvallarspurningum um stærð þorskstofnsins. Við vitum ekki aldursdreifingu hans. Vitum lítið hvaða áhrif fylgifiskar þorsksins hafa á lífslíkur hans.
Ef við vissum ekkert hversu margir Íslendingar fæðast og deyja á ári. Hversu margir eru kynþroska né hversu margir eru öldungar. Ef svo væri komið fyrir Hagstofu vorri, en hún myndi ÁÆTLA allar fyrrnefndar stærðir, tækjum við sennilega mátulega mikið mark á henni.
Samt trúir fólk þessu sem nýju neti sem frá Hafró kemur. Til allrar hamingju fyrir mannkynið eru ekki allir sem ganga á jörðinni flatri. Vandamálið er að þeir sem eiga að taka ákvarðanir um aflaheimildir landsmanna vilja ekki hlusta á aðra en Hafró. Þeir hafa undanfarið fundað með fjölda fólks sem hefur aðrar skoðanir en Hafró. Enn stærri hópur hefur haft sig í frammi á opinberum vettvangi en ekki fengið áheyrn.
Augljóst er að farið verður að óskum Hafró, aldrei hefur skort á viljann til þess. Til hvers þessar málalengingar? Er þetta ekki bara spurningin í hvers vasa ágóðinn fer.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2007 | 23:48
UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ HIÐ ÍSLENSKA.
Mér fannst ég heyra það í útvarpsfréttunum um helgina að Utanríkisráðuneytið væri þyngst á fóðrum af öllum ráðuneytum íslenska ríkisins. Mig rak í rogastans. Hvernig getur það kostað meira að kenna öllum Íslendingum að lesa eða halda heilsu allra Íslendinga við en að reka eitt Utanríkisráðuneyti.
Utanríkisráðuneytið sér um samskipti við útlönd. Mörg stórfyrirtæki, sum mun stærri en Ísland, sjá um slíka hluti bara með einni netsíðu. Hvað er því til fyrirstöðu að Utanríkisráðuneytið sé bara ein netsíða eða svo? Til þess þarf ekki nema örfáa starfsmenn og öngvan ráðherra. Hvað er allt hitt fólkið að gera? Sjálfsagt bara að senda póst á milli sín.
Ég held að við Íslendingar þurfum að komast niður á jörðina. Mér er mjög minnisstætt þegar Ráðuneytisstjóri í Utanríkisráðuneytinu var spurður hvort ekki þyrfti að spara þar eins og annars staðar í blöðunum hér um árið. Flestir ráðuneytisstjórar hefðu farið í varnarstöðu en viðkomandi svaraði fullum hálsi að " ef við í utanríkisráðuneytinu sjáum einhverja þörf í náinni framtíð að spara þá munum við hugleiða það".
Ég held að Utanríkisráðuneytið sé orðið Ríki í Ríkinu. Þá fellur það undir skilgreiningu á krabbameini, það vex án tillits til heildarinnar. Þá þarf að skera það burt eins og aðrar meinsemdir.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)