Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.8.2011 | 17:30
Fyrir hverju börðust afi og amma
Stráin nuddast varla saman í logninu. Sólin skín og vermir húðina, þorstanum er svalað með hreinu ómenguðu vatni. Dóttirin kallar frá sjónum, pabbi sjáðu, það er frí og allir njóta. Konan ofhitnar og fleygir sér í sjóinn til kælingar, nokkur öldugangur en ekki meiri umhverfisspjöll að sinni. Áratuga barátta foreldra okkar og foreldra þeirra endurspeglast í tilveru okkar. Sumarfrí á launum, heilsugæsla frá getnaði til grafar. Kallast sósíalískt eða sósíaldemókratískt kerfi. Byggir á sameiginlegri ábyrgð hópsins á einstaklingunum. Allir borga í pottinn án nokkurrar vissu um endurgreiðslu. Eingöngu vissan um að ef eitthvað bjátar á þá er til öryggisnet sem tekur af manni fallið.
Þessa dagana er gerð gangskör í því að afnema þetta kerfi. Sagt er að viðkomandi kerfi í mörgum löndum séu svo skuldum vafið að skera þurfi burt allann óþarfa til að standa í skilum við skuldir landanna. Afleiðingin er mikill niðurskurður á launum, eftirlaunum og mikið atvinnuleysi. Einkavæða þurfi heilbrigðiskerfið þannig að eingöngu þeir sem eru með platínu Visa fái þjónustu. Ríkissjóðir verða að selja auðlindir og aðrar eigur sínar á brunaútsölu. Öll barátta afa og ömmu fyrir bættum hag hverfur ofaní hyldýpi skuldarinnar.
Skuldirnar eru skuldir bankakerfisins sem ríkissjóðir margra landa hafa verið neyddar til að taka á sig. Þetta eru ekki skuldir vegna flatskjárkaupa einstaklinga eða velferðakerfisins.
Reynt hefur verið að bjarga skuldum Grikklands með neyðarpökkum. Við venjulegar aðstæður þegar fyrirtæki fara á hausinn eru þau endurskipulögð sem hefur í för með sér afskriftir á skuldum þannig að fyrirtækin komist á fætur á ný. Í tilfelli Grikklands og fleiri landa hefur sú leið verið bönnuð. Sagt er að þau skulu borga með þjóðartekjum sínum fyrir allann glæfraskap bankanna. Hljómar ósanngjarnt.
Vandamálið eru afleiðuviðskipti bankakerfisins. Afleiður eru veðmál um hvort eitthvað hækki eða lækki í verði. Það veit enginn hversu miklar afleiður leynast í gríska hagkerfinu, hvað þá hinna landanna í Evrópu. Vesalings Trichet forseti Seðlabanka Evrópu hefur ekki hugmynd um magn afleiða innan evrópsks hagkerfis. Þess vegna má ekki setja Grikki né aðra í þrot því þá þarf að kryfja líkið og þá gæti komið í ljós að ekki nokkur einasta stofnun í veröldinni á fjármuni til að borga allar afleiðurnar. Þess vegna finnst þeim betra að láta skrokkinn rotna lifandi í þeirri fáranlegu von að vandamálið gufi upp einhvern daginn. Það mun í sjálfu sér gerast ef þriðja heimstyrjöldin skellur á.
Heimurinn er í gíslingu Grikkja því ef þeir verða settir í þrot vellur ófögnuðirinn fram og leggur helstu ríki heimsins að velli. Afleiðuviðskiptin eru afrakstur óheftrar bankastarfsemi um víða veröld. Í stað þess að taka í lurginn á unglingnum þá sitja og standa stjórnmálamenn eins og bankamönnum þóknast. Margir segja að the banks own the place". Þess vegna er heimurinn gíslar bankanna.
Sú staðreynd að í mörgum löndum eru vinstri stjórninr í dag, stjórnmálaflokkar sem eiga uppruna sinn í baráttu afa og ömmu, baráttu fyrir öryggi og jöfnuði, í dag gera þessar vinstri stjórnir nákvæmlega eins og bankarnir segja þeim að gera. Afi og amma létu berja sig í plokkfisk til að koma á réttlæti en í dag þá eru arftakar afa og ömmu gólftuskur afkomenda þeirra sem þau hjónakornin börðust gegn. Þess vegna er það klám þegar Steingrímur kallar sig vinstri mann. Að telja það til bóta að hægri maður komist til valda flokkast undir ranghugmyndir. The banks own the place".
Um allan heim skynjar almenningur að stjórnmálamenn eru taglhnýtingar bankakerfisins og það skiptir engu máli hvernig þeir litgreina sig. Þess vegna eru mótmæli víðsvegar. Meira að segja í Ísrael eru mótmæli gegn nýfrjálshyggjunni, það kallast nú að bölva í kirkjunni. Bandaríkjamenn eru líka að fara að mótmæla og ætla að setjast á Wall Street þann 17. september og krafan verður einföld og skýr It's time for DEMOCRACY NOT CORPORATOCRACY, we're doomed without it".
Baráttan í dag snýst um okkur, lýðræðið okkar gegn bönkum, fjármálavaldi og stórfyritækjum. Í raun bara ný nöfn á kóngum vs almúga. Upp úr sauð í Frakklandi á sínum tíma eftir langar og myrkar aldir. Munum við sjá bankana stjórna öllu næstu aldir þangað til upp úr síður seint og um síðir eða munum við sem menntaðir og upplýstir einstaklingar drulluhalast út á torg og stræti og gefa óyggjandi til kynna hvar valdið liggur. Er til of mikils mælst að allir geti legið og hlustað á stráin nuddast saman í logninu eða á það bara að vera á færi örfárra.
Þitt er valið. Er hægt að sameinast um að standa saman sem einn maður, bara núna?
22.5.2011 | 18:35
HITAMÆLIRINN hans Árna Páls
Árni Páll ráðherra líkti verðbólgunni við hitamæli. Hann sagði að það hjálpaði lítið að þrasa við hitamælinn. Þar sem verð á vörum hækkar þá sé verðbólga. Hann vill líta á verðbólguna sem náttúrufyrirbrigði sem á sinn tilverurétt. Hann er því samt sammála að reyna að minnka neikvæð áhrif verðbólgunnar á almenning.
Kenningin er sú að launahækkanir hafi þau áhrif að verðlag hækkar. Síðan þarf með einhverrjum hætti að auka kaupmáttinn aftur og er það oftast gert með kauphækkunum og síðan endurtekur sagan sig í sífellu.
Afleiðingin er meðal annars sú að íslenska krónan í dag er nánast verðlaus miðað við þegar hún var tekin í notkun. Bandaríski dollarinn hefur sömuleiðis rýrnað um 98% frá því árið 1913. Það sem þú keyptir fyrir 1 $ árið 1913 er 2 centa virði í dag.
Greinilega full þörf á því að hemja þetta náttúrufyrirbrigði.
Nú vill svo til að fyrrnefnd kenning að launahækkanir valdi verðbólgu er röng. Dæmi eru til úr veraldarsögunni þar sem verðlag hefur staðið í stað í hundruðu ára. Ef við framleiðum ákveðið magn af verðmætum og skiptumst síðan á þessum verðmætum eins og við gerum í dag þá er í raun engin ástæða til þess að hækka verð. Í raun ætti framþróun í framleiðslu verðmæta að lækka verð.
Hvað eykst sem veldur kröfunni um hækkun verðlags ef það eru ekki nauðþurftir okkar?
Ef öll framleiðsla heimsins væru tveir bílar og allir peningar í heiminum væru 1000 krónur myndi einn bíll kosta 500 krónur, ekki satt? Ef við myndum auka framleiðsluna í fjóra bíla á næsta ári en ekki auka peningamagnið í umferð myndi bílinn kosta 250 krónur, ekki satt? Ef við aftur á móti framleiðum áfram tvo bíla en aukum peningamagn í umferð í 2000 krónur þá kostar bílinn 1000 krónur stykkið. Það er ástæðan fyrir verðbólgu að peningamagn og framleiðsla fylgjast ekki að.
Ef við framleiddum ALLTAF jafn mikið af bílum og peningum myndi bílverðið aldrei breytast að eilífu.
Þar sem verðbólgan er stöðugt til staðar hlýtur framleiðslan alltaf að minnka eða peningamagn að aukast. Þar sem okkur er alltaf sagt að framleiða meira ár frá ári þá er skýringin sú að peningamagn í heiminum er alltaf að aukast. Það er reyndar staðreynd að peningamagn er stöðugt að aukast ár frá ári. Fall bandaríska dollarans er beintengt magni dollara, eftir því sem fleiri eru búnir til því minna virði verða þeir sem fyrir eru. Ef við myndum búa til 10 afrit af Jóni Gnarr sem væru algjörlega eins og hann þá væri sá upphaflegi orðinn harla verðlítill, ekki satt? Afritin ræna verðgildi af upphaflega eintakinu.
Aukið penngamagn ár frá ári veldur verðbólgunni og vextir á þeirri peningaframleiðslu veldur því að við þurfum alltaf að framleiða meira og meira.
Þar sem bankar stjórna peningamyndun og hafa einkaleyfi á framleiðslu peninga og rukka vexti fyrir það verður Árni Páll að snúa sér að bönkunum ef hann vill stöðva verðbólguna því hún hefur ekkert með laun að gera.
20.5.2011 | 18:27
Vextir hubris og liljur
Flókin stærðfræðimódel hagfræðinnar hafa þann eina tilgang að telja okkur trú um að hagkerfið ráði við óendalega miklar skuldir. Á þann hátt horfum við fram hjá grundvallaratriðum hagfræðinnar sem snýr að rekstri eininga eins og heimilis sem dæmi.
Þar sem hagfræðikenningar nútímans ganga út á það að hægt sé að greiða allar skuldir er augljóst að sú kennisetning er höll undir lánadrottna. Margur stjórnmálamaðurinn gengur sömu erinda og hrópar að að sjálfsögðu greiðir maður skuldir sínar. Þegar tillit er tekið til þess að hagvöxtur í Evrópu hefur verið 0,2% á ári s.l. 2000 ár er ekki mikil von til þess að raunhagkerfið geti greitt allar skuldir með þeim vöxtum sem í boði eru.
Súmerar notuðu sama orð yfir vexti og kálfa. Egypska orðið fyrir vexti þýddi að fæða. Til forna var hugsunin sú að af fræi kæmi planta sem gæfi vel af sér að hausti og kálfur gæti skapað mörg afkvæmi. Vextir voru því greiddir eftir að raunhagkerfið hafði borið ávöxt, m.ö.ö. menn deildu með sér uppskerunni eða ávöxtuninni þegar hún hafði raungerst. Ekki fyrirfram eins og í dag.
Öll trúarbrögð heimsins hafa verið á móti vöxtum á peningum því peningar geta ekki af sér, þeir eru ófrjóir. Að fá vexti af engu vinnuframlagi var ekki talið boðlegt. Aftur á móti að deila sameiginlegum ábata sem er orðin til er annað mál.
Bæði í Babílon og Egyptalandi til forna voru hagfræðingar vel meðvitaðir um hættuna á of miklum skuldum fyrir raunhagkerfið. Þess vegna settur þeir reglur. Þegar vextir höfðu náð upphæð höfustólsins féll skuldin niður . Auk þess voru skuldir afskrifaðar af kóngum þegar þær urðu of íþyngjandi fyrir raunhagkerfið. Babílóníumenn afskrifuðu skuldir landbúnaðarins að minnsta kosti á 30 ára fresti því að að öðrum kosti hefðu lánadrottnar eignast allar jarðir og allt sem fylgdi með þeim. Verðlag breyttist ekki mikið vegna vaxtabyrði í Mesópótamíu vegna þess að verð var ákvarðað með lögum eða hefðum. Þess vegna stjórnuðu menn til forna hagkerfinu fyrir sig en ekki öfugt eins og í dag.
Þessi skynsemi að meta raunhagkerfið fram yfir fjármálakerfið hefur því miður tapast í aldanna rás innan hagfræðideilda háskóla. Hugsanleg skýring er að fjármálakerfið hefur verið einn aðal styrktaraðili hagfræðideilda um víða veröld.
Græðgi var fordæmd til forna og hófsemi vegsömuð, ástæðan var sú vissa að hinn gráðugi væri að taka nauðþurftir frá þeim sem minna mátti sín. Hugsunin um græðgi var því beintengd ofgnótt eins á kostnað annars. Í dag er græðgi vegsömuð og því afneitað að hún valdi skorti eins og að hinn gráðugi taki til sín úr ótæmandi hirslum.
Þegar allir ætla að draga vexti úr raunhagkerfinu sem er að minnka, þegar lánadrottnar og lífeyrissjóðir eða aðrir sjóðir ætla að ávaxta sitt pund með samsettum vöxtum án þess að fyrst sjá eitthvað fæðast í raunhagkerfinu sem er hægt að deila með sér verður eitthvað að gefa eftir. Vandamálið er að sóknin í ábata í formi vaxta er orðin sem fíkn og þarf í raun að meðhöndla sem slíka.
Mörgum fræðimanninum í hagfræði er illa við að ríkisvaldið stjórni efnahagskerfinu og vilja meina að kerfið aðlagi sig sjálft að breyttum aðstæðum. Til forna stjórnaði ríkisvaldið efnahagnum með lögum og valdboði eins og afskriftir skulda bera með sér. Það var hægt vegna þess að valdið var hjá kónginum, hann hafði hermenn og lánadrottnar urðu að beygja sig undir vilja hans. Í dag er ekkert vald eftir hjá ríkisstjórnum þjóðlandanna. Á Íslandi hafa allir fjármunir farið í að endurreisa bankakerfið eftir hrun, varla króna í raunhagkerfið og það hefur verið skorið kröftuglega niður bankakerfinu til bjargar. AGS og ESB eru framlengd hönd lánadrottna heimsins og krefjast þess að allar skuldir skulu greiddar með öllum þeim fórnum sem almenningur þarf að leggja á sig. Stjórnvöld fylgja þeim að málum eins og hverjar aðrar strengjabrúður.
Ef Lilja er sett í tjörn og hún og afkomendur hennar tvöfalda sig á hverjum degi þá er tjörnin full á þrítugasta degi og þær geta ekki fjölgað sér frekar eftir það. Hvenær var tjörnin hálf full eða hálftóm? 29 daginn er svarið.
Það er innbyggð tortíming í vöxtum sem er að sliga heiminn í dag og hugsanlega er tjörnin að fyllast. Það er því full þörf á því að hagfræðingar hætti að velta fyrir sér kenningum um hvernig jafnvægi verði náð og reikni frekar út hvenær því líkur.
áður birt á Eyjublogginu mínu
14.5.2011 | 20:06
Bankalandið
Það eru viss tímamót í uppsiglingu á Íslandi. Nýir kjarasamningar til þriggja ára voru samþykktir um daginn ásamt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana. Með þessum skjölum er kominn fram nálgun hvernig verður að búa á Íslandi á næstunni. Við skulum glugga aðeins í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Þau helstu eru að fjármálakerfið hefur verið endurreist, markmið um hjöðnun verðbólgu hafa náðst, vextir hafa lækkað umtalsvert og tekist hefur að koma jafnvægi á gengi krónunnar. Hér telur ríkisstjórnin upp afrek sín frá hruni. Verðbólgan hefur lækkað sökum þess að engir peningar eru í umferð og allir halda í þá með öllum tiltækum ráðum og við getum verið sammála því að vöxtum er handstýrt. Þeir þurfa að lækka mun meira ef fjármagn á Íslandi á að hætta að flatmaga á bankabókum landsmanna. Þess vegna hefur handstýrð vaxtastjórn valdhafa stuðlað að góðri ávöxtun innistæðæðna en ekki aukið á framkvæmdir og þannig unnið bug á atvinnuleysinu. Að koma jafnvægi á gengi krónunnar er svipað og að hrósa sér af því að fangi í gæsluvarðhaldi sé til friðs. Það eina sem valdhafar haf gert frá hruni er að endurreisa bankakerfið með ærnum tilkostnaði fyrir okkur skattgreiðendur.
Undanfarin tvö ár hafa stjórnvöld fylgt efnahagsstefnu sem tekið hefur mið af þeim áföllum sem riðu yfir íslenskt efnahagslíf haustið 2008......Brýnt er að tryggja að svo verði áfram og að framfylgt verði heildstæðri og árangursríkri áætlun í efnahagsmálum. Þar sem stór hluti íslensku þjóðarinnar hefur fengið að finna það á eigin skinni hvernig hagstjórnin hefur verið þá vonum við svo innilega að sú stefna sem rekin er stöðvist og að ný stefna verði tekin upp. Þar er ég að vísa til atvinnuleysis, landflótta, gjaldþrot heimila og fyrirtækja, vaxandi fjölda fátækra og sveltandi einstaklinga. Samtímis horfum við upp á að bankakerfinu er bjargað og þeir auka hagnað sinn og einnig eykst rekstrarkostnaður bankanna á meðan öll önnur fyrirtæki í landinu skera sinn rekstrarkostnað niður með öllum tiltækum ráðum.
Losun gjaldeyrishafta Lilja Mósesdóttir kom strax fram með tillögur um hvernig ætti að vinna á krónubréfunum en ekki var hlustað á hana en núna gerir Seðlabankinn tillögur hennar að sínum. Svolítið langur þráðurinn í sumum. Slík framkvæmd er einkennandi fyrir stjórnsýsluna okkar að hugmyndir verða að koma frá réttum innmúruðum aðilum til að teljast gildar. Þetta hefur stórskaðað almenning lengi og ekki minnst eftir hrun. En við megum ekki gleyma því að það sem skiptir stjórnmálamenn máli er að ná endurkjöri aftur og aftur og aftur...
þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum. Mér er spurn, var það einhvern tíman möguleiki að þessir hópar fengju ekki kauphækkun eins og hinir?
Breytingar á persónuafslætti Persónuafslátturinn hefur ekki breyst mikið lengi og er það fagnaðarefni að það sé komið á blað. EN.. Ekki eru forsendur fyrir því að breyta persónuafslætti að öðru leyti þannig að það dragi úr heildartekjum ríkissjóðs vegna tekjuskatta einstaklinga á næstunni, Það má sem sagt ekki breyta afslættinum þannig að tekjur ríkissins minnki??
tryggingagjaldið hækkað um 0,45% og gjald í Ábyrgðasjóð launa um 0,05% um næstu áramót með tímabundnu álagi til þriggja ára. Ég hélt að álögur á atvinnurekstur væri ekki til þess að auka vinnu en sennilega skil ég ekki fræðin rétt.
Markmið sóknar í atvinnumálum er að atvinnuleysi verði ekki hærra en 4-5% af vinnuafli í lok samningstímans. Til að það markmið náist þarf að auka hagvöxt umfram horfur að óbreyttu. Það voru nokkrir þingmenn Vg sem andmæltu fjárlögum í desember s.l. á þeirri forsendu að hagvaxtaspár væru ekki líklegar að ganga eftir. Þessi orð virðast að nokkru leiti staðfesta ótta þeirra. Ríkisstjórnin ætlar sér að breyta hagvexti, þ.e. að auka hann. Það má skilgreina þörfina fyrir hagvöxt að mestu sem kostnað þjóðfélagsins af vöxtum. Í raun ættum við að getað lifað á jafn miklum tekjum í ár eins og í fyrra sérstaklega þar sem okkur fækkar á milli ára. Það sem liggur beinast við á Íslandi í dag er að draga sparifé úr bönkum og inn í atvinnulífið. Hitt sem er borðleggjandi er að við eigum að veiða mun meiri fisk. Vandamálið eru skuldir sjávarútvegsins hjá bönkunum þannig að arðurinn endar í hvelfingum bankanna en ekki hjá þjóðinni.
Stjórnvöld telja nauðsynlegt að auka beina erlenda fjárfestingu hér á landi og ryðja burt hindrunum sem helst standa í vegi hennar og taka mið af niðurstöðum nefndar iðnaðarráðherra um stefnumótun fyrir beinar erlendar fjárfestingar. Bein erlend fjárfesting eða Foreign Direct Investments hefur ekki alltaf verið happadrjúg fyrir lönd sem þiggja slíkar heimsóknir. Nefnt hefur verið að stórfyrirtæki nýti sér neyð landa til að gera hagstæða samninga. Meðan íslenska krónan veikist stöðugt fá þeir stöðugt meira fyrir sína fjárfestingu og þess vegna liggur þeim ekki mikið á. Ef þeir fjármunir sem eru til í landinu nú þegar, t.d. lífeyrissjóðirnir eða krónubréf, eru notuð verður ekki um neytt nýtt fjármagn að ræða. Reynslan frá Kárhnjúkum er dæmigerð fyrir FDI að vinnuafl er oft flutt inn til að halda kostnaði niðri. Það sem einkennir þó FDI er að slík fjárfesting er ekki orsök uppsveiflu heldur kemur fjárfestingin þegar allt er komið á góðan snúning í viðkomandi landi. Að ætla sér að fjárfesta í landi sem á ekki einu sinni fyrir vöxtunum af skuldunum sínum er ekki harla líklegt.
Bókun um málsmeðferð í sjávarútvegsmálum Fyrst á að leggja fram frumvarp sem fer í fyrstu umræðu á Alþingi. Að því loknu munu fjórir einstaklingar meta áhrif frumvarpsins á sjávarútveginn. Spurningin er hvort þessi fjögurra manna hópur hafi meiri völd en Alþingi, til hvers að eyða tíma Alþingis í fyrstu umræðu? Grunsemdir eru um að hér verði farið eins að og þegar örlög skuldugra lántakenda voru ákveðin haustið 2010. Þá settu lánastofnanir leikreglurnar. Skuldir sjávarútvegsins hjá bönkunum mun vera stærsti einstaki þátturinn í afgreiðslu kvótamálsins í höndum núverandi valdhafa.
Hvergi er minnst á að samkvæmt áætlun AGS á að skera niður um 50 milljarða á næsta ári í ríkisfjármálum.
Að lokum þá finnst mér að höfundar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefðu átta að telja saman alla þá starfshópa sem á að stofna samkvæmt þessu skjali. Sá mannskapur sem þarf í alla þær nefndir mun sennilega minnka atvinnuleysi um prósentustig eða svo.
Því miður verðu að segjast eins og er að þessi tímamótaatburður mun ekki auka vilja Íslendinga til að búa á Íslandi. Áfram mun atvinnuleysi halda áfram að minnka á Íslandi sökum brottfluttra Íslendinga. Það kom einnig fram á fundi sem ég átti með AGS á sínum tíma að það væri bara gott og blessað og greinilegt að ríkisstjórnin hefur tileinkað sér flest allt hjá AGS.
Hversu mörgum þarf að sturta niður þangað til að þjóðin skilur að okkar örlög eru að óbreyttu klóakið.
28.8.2010 | 21:06
Bæjarins bestu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
Grein eftir mig á Svipunni 26 ágúst 2010.
Bæjarins bestu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
All nokkrir einstaklingar vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn úr landi sem fyrst. Þeir sem eru því ósammála bera því við að AGS sé eini valmöguleiki Íslands í dag. Svar þeirra við ósk okkar um brottflutning sjóðsins frá Íslandi er oftast á þá leið hvað við viljum þá gera í staðinn. Ástæðan fyrir því að við viljum sjóðinn burt er ekki sú að við vitum nákvæmlega hvernig eigi að leysa vanda Íslands heldur að við teljum sjóðinn stórhættulegan. Þar greinir okkur einnig á við viðmælendur okkar því þeir telja sjóðinn til bóta í íslensku þjóðlífi. Mín reynsla er oftast sú að þeir sem treysta sjóðnum hafa ekki kynnt sér sögu hans að neinu viti. Það virðist vera beint samband á milli þekkingar á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og viljans til að losna við hann.
Til að svara þeirri gagnrýni að andstæðingar sjóðsins viti ekki hvernig eigi að kippa landi og þjóð út úr mesta efnahagshruni Íslandssögunnar þá vil ég nefna nokkur atriði. Nokkrir þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að finna leið út úr vandanum án aðkomu AGS. Þessi hugmynd fæst ekki rædd á Alþingi, það fæst ekki fjármunir til að kalla til sérfræðinga, bæði innlenda eða erlenda, til að koma upp með Plan B eins og við köllum það. Þeir þingmenn eða fræðingar í þjóðfélaginu sem tjá sig um planB komast oftast ekki að í ríkisfjölmiðlunum. Að minnsta kosti hafa þeir sem hlusta eingöngu á fréttamiðla hliðholla ríkisstjórninni litla hugmynd um andstæðinga sjóðsins, hugmyndir þeirra um aðrar lausnir eða hvort við eigum yfir höfuð að óttast sjóðinn. Sjóðssinnar vita að þeim mun minni þekking á sjóðnum og fortíð hans skapar gagnrýnislaust andrúmsloft í þjóðfélaginu. Slík tenging er mjög augljós í vandræðum Þjóðkirkjunnar þessa dagana vegna fortíðar hennar.
Andstæðingar sjóðsins segja í dag að hans sé ekki þörf lengur. Hugmyndir um að nota skatttekjur af séreignasparnaði til að leysa yfirvofandi halla ríkissjóðs á næsta ári eru skynsamar því þær hamla gegn niðurskurði og auknum almennum skattahækkunum. Báðar aðgerðirnar-þ.e. skurður og skattar- eru kreppudýpkandi í eðli sínu. Það hefur verið margsinnis bent á að AGS hefur með ráðstöfunum sínum aukið vandræði þeirra þjóða sem hann sinnir einmitt vegna þess að hann gengur allt of langt í niðurskurði og sköttum.
Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið veitt völd á Íslandi sem eru einstök. Davíð Oddson hafði aldrei jafn mikil völd á sínum tíma. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er sá aðili á Íslandi sem aftekur með öllu að skuldsettum heimilum sé rétt hjálparhönd. Þess vegna mun óviss fjöldi heimila venjulegs fólks fara á uppboð í vetur. Viðkomandi einstaklingar munu missa heimili sín sem oft á tíðum er ævisparnaður þeirra og fé sem hugsað var til elliáranna. Fjölskyldur munu því þurfa að flytja af heimilum sínum og leigja sér húsnæði. Sú skuld sem út af stendur mun síðan fylgja fjölskyldum inn í þeirra nýju heimkynni hvar sem til þeirra næst þangað til að skuldin er að fullu greidd.
Að sjóðnum gengnum fengi Ísland aftur fullveldi sitt óskorað. Þá væri möguleiki að taka á skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja þannig að sem mest sátt skapaðist um aðgerðir. Þá væri haft að leiðarljósi að skuldabyrðin gerði meðbræðrum okkar kleift að halda áfram að skapa verðmæti eða auka á snúning þjóðfélagsins með neyslu. Einhvern rétt hljóta einstaklingar í þjóðfélagi okkar að eiga sem hafa með dug og ósérhlífni tekið þátt í því með okkur hinum að skapa þá auðlegð sem þetta land býr yfir. Stefnan í dag er aftur á móti sú að innheimta sem mest af skuldunum, bönkum til framdráttar, síðan er bara skítt og lagó með hina.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun setja það sem skilyrði í næsta mánuði þegar þriðja endurskoðun sjóðsins fer fram að Ísland greiði Icesave skuldina. Þar er um að ræða gallað regluverk Evrópusambandsins, gallinn er í því fólginn að ekki er nægjanlega tryggt í lögum að almenningur eigi að borga fyrir mistök bankanna. Þess vegna þarf AGS að troða mistökum bankanna ofan í kokið á íslensku þjóðinni. Ef það gengur eftir að við sitjum uppi með Icesave reikninginn, til viðbótar við allar aðrar skuldir, er nokkuð víst að við getum kvatt Norræna velferðaþjóðfélagið okkar fyrir fullt og fast.
Okkur, andstæðingum sjóðsins, finnst ráðstafanir hans kreppudýpkandi, sjónarmið hans er hagur banka fyrst og síðast og almenningur er látinn borga fyrir mistök bankanna. Sjóðurinn hefur fengið völd á Íslandi sem eru meiri en Alþingi og framkvæmdavald hafa til samans, því er um valdarán að ræða og fullveldi landsins er ekki lengur á forræði okkar. Okkur finnst þessi atriði duga vel til að skapa mikla umræðu og ætti að gegnsýra alla pólitíska umræðu á Íslandi í dag. Sú umræða gæti verið erfið en fjarvera hennar er mun verri.
Það er að brjótast um í mér hvers vegna elítunni á Íslandi finnst sjóðurinn hafinn yfir alla gagnrýni og sporðrennir honum eins og bæjarins bestu.
10.8.2010 | 22:41
Vanhæfni eftir pöntun-Sveinn Margeirsson
Vanhæfni virðist vera stjórnsýsluverkfærið þessa dagana. Samskipti milli Seðlabanka og viðskiptaráðuneytisins virðast vera í ólagi. Samskipti milli Seðlabanka og forsætisráðuneytisins virðast hafa verið í ólagi. Samskipti milli ráðuneytismanna í viðskiptaráðuneytinu og ráðherra virðast vera í ólagi. Eina sem vitað er með vissu að aðstoðarseðlabankastjóri lét gera álit sem enginn las. Að minnsta kosti skilur Jóhanna ekkert í því hvers vegna enginn setti henni fyrir að lesa heima. Almenningur telur að hér sé um verulega vanhæfni stjórnsýslunnar að ræða. Þrátt fyrir það er enginn settur af.
Sveinn Margeirsson sem tilnefndur var í rannsóknarnefnd um Magma málið var settur af. Hann var talinn vanhæfur sökum þess að hann á frænku sem er í annarri nefnd á vegum hins opinbera. Auk þess mun hann hafa talað við þessa frænku sína. Jóhanna hafði snör handtök og snaraði honum úr nefndinni. Núna hefur hún lagt til atlögu við Bjarnveigu Eiríksdóttur sem er tilnefnd í nefndina og á sennilega frænda einhversstaðar.
Framkvæmdavaldið er ósnertanlegt á Íslandi. Við höfum engin tök á því að setja af vanhæfa einstaklinga af innan þess, nema að bíða eftir því að þeir komist á eftirlaun. Aftur á móti er framkvæmdavaldinu í lófa lagið að ráðskast með einstaklinga og nefndir sem eru þeim ekki þóknanleg. Sveinn er mjög kunnugur því málefni sem hann á að meta í fyrrnefndri nefnd. Sveinn er mjög fylginn sér og auk þess mjög réttsýnn maður. Því virðist vanhæfni Sveins felast í of mikilli hæfni til að fjalla um málið.
Sveinn ógnar þeirri niðurstöðu sem auðhringir höfðu lagt á ráðin með. Jóhanna og vinstri stjórn hennar vinnur með þeim að ryðja öllum hindrunum úr vegi svo að auðlindir okkar komist í eigu erlendra aðila.
9.8.2010 | 21:52
Ráðstafanir Steingríms eru kokkaðar í Whasington
Pressugrein 3 ágúst 2010.
Bankahrunið eins og nafnið gefur til kynna er orsakað af bönkum og starfsemi þeirra. Hvert og eitt okkar hinna gekk til sinna starfa árið 2008, sinntum skyldum og skuldbindingum okkar að venju. Sú fullyrðing að við séum meðsek vegna þess að við horfðum ekki yfir axlirnar á bönkunum, ríkisvaldinu og eftirlitsstofnunum á hverjum degi er æði langsótt.
Síðan hafa allar aðgerðir stjórnvalda snúist um að skrapa saman eins miklum fjármunum og nokkur kostur er til að greiða skuldir bankakerfisins. Það sem þessar skuldir eiga sameiginlegt er að Alþingi Íslendinga hafði ekki stofnað til þeirra fyrir hrun. Upphaf skuldanna má rekja til athafna utan valdsviðs kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Þrátt fyrir það á þjóðin að borga skuldirnar á eftirfarandi hátt:
Boðuð er frysting á launum í all nokkur ár og segir ráðherra vel sloppið ef frystingin ein dugar. Niðurskurðahugmyndir fyrir komandi fjárlagaár eru svo hrikalegar að framkvæmdastjórar ýmissa stofnana telja sig ekki geta veitt lögbundna þjónustu.
Háir stýrivextir á Íslandi eru banvænir fyrir viðkvæmt atvinnulíf okkar. Hækkun skatta.
Niðurskurður hjá hinu opinbera veldur atvinnuleysi, bæði hjá opinberum starfsmönnum og einkaaðilum sem höfðu verkefni hjá hinu opinbera. Niðurskurður tekna almennings veldur samdrætti hjá öllum fyrirtækjum landsins og þar með er kominn vítahringur.
Nánast engar afskriftir verða leyfðar hjá skuldugum einstaklingum og sennilega mun verða gengið milli bols og höfuðs á 25 þúsund heimilum fyrir áramót. Mörg fyrirtæki hafa farið í gegnum sömu aftökur síðan hrunið varð. Sökum síversnandi aðstæðna mun fjölga stöðugt í þessum hópi eftir því sem tíminn líður.
Reynt er að draga fé úr lífeyrissjóðum okkar til að ná af okkur sparnaðinum. Fjárfest er í flugfélagi sem er mikill áhætturekstur en ekki fékkst leyfi til að fjárfesta í HS-Orku sem á framtíðina fyrir sér.
Hugsanlegt er að vegaframkvæmdir fari af stað sem einkaframkvæmd og þá greidd upp með vegatollum.
HS-orka var seld til erlends einkafyrirtækis í óþökk Íslendinga. Litlu munaði að búið væri að einkavæða vatnið okkar og stór spurning er hvernig löggjöfin um vatnið verður næsta vetur.
Samantekið: Laun skorin niður, skattar hækkaðir, gjöld aukin, lífeyrissparnaðurinn kroppaður af okkur. Allt gert til að auka getu ríkissjóðs og almennings til að greiða lánadrottnum. Hingað til höfum við talið það vera hlutverk ríkissjóðs að jafna kjör almennings í landinu og standa í framkvæmdum landi og þjóð til hagsbóta.
Þessi stefna mun leiða til aukins fjölda fátækra og samsvarandi minnkunnar á millistétt. Fámennur hópur stórríkra einstaklinga verður áfram til. Auðlindirnar komnar í eigu einkaaðila. Einkavæðing á almanna þjónustu. Þeir sem hafa fjárráð munu fá góða þjónustu. Spillingin heldur meiri ef eitthvað er. Landflótti og þeir sem eftir eru að leita sér matar í öskutunnum besta bæjarins, Reykjavíkur.
Mörgum finnst sjálfsag myndin máluð dökkum litum. Viðkomandi stefna hefur haft slíkar afleiðingar í för með sér í öðrum löndum og enn sem komið er hefur lítil mótstaða við þessari þróun myndast á Íslandi. Kjósendur núverandi ríkisstjórnar sem eru vinstri menn og félagshyggjufólk hafa sjálfsagt ekki gert ráð fyrir þessu. Mjög skiljanlegt því viðkomandi stefna er ekki skráð í stefnuskrár viðkomandi ríkisstjórnarflokka. Stefnan er stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Sumir leiðtogar vinstri manna hafa fylgt stefnu AGS í löndum sínum og oftar en ekki tekist að halda andófi í lágmarki. Sagt er að óskastjórn AGS sé vinstri stjórn því þá eru mótmæli í lágmarki. Það er sorgleg staðreynd að andstæðingum AGS væri þægð í því að hægri menn kæmust til valda á Íslandi á ný. Þá myndu vinstri menn koma aftur á Austurvöll og mótmæla eins og þeir gerðu í búsáhaldabyltingunni. Mikil og kröftug mótmæli almennings gegn AGS er eina leiðin til að snúa af þeirri braut sem þjóðin er á.
Það er mjög skiljanlegt að loksins þegar Vinstri grænir eru komnir til valda að þeir vilji halda völdunum og að sleikipinnarnir innan flokksins reyni allt til að skríða upp eftir bakinu á flokkseigendafélaginu. Það eru mikil vonbrigði, eftir að hafa upplifað alla þessu hörðu andstæðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í búsáhaldarbyltingunni, njóta í dag valdanna af slíkri áfergju að öll prinsipp eru gleymd og grafin. Það er mér hulin ráðgáta að stefna strákanna frá Whasington sé orðin að vinstri stefnu á Íslandi og er varin sem slík.
Fjölmiðlar mættu standa sig betur í því að skýra út fyrir almenningi að Steingrímur er bara millistjórnandi og að það er AGS sem ræður öllu á Íslandi. Ef það hefði verið gert hefði almenningur beint reiði sinni að AGS frekar en Steingrími. Vissum aðilum(fjölmiðlum) hentar að spjótin standi á Steingrími og aðrir aðilar(fjölmiðlar) verja hann með kjafti og klóm. Á meðan hlær AGS að heimsku okkar.
Eftir því sem stjórnvöld þjóðríkja fylgja ráðleggingum AGS betur farnast almenningi viðkomandi landa ver, rannsóknir fræðimanna sýna fram á þetta.
Það er augljóst að enn sem komið er hafa helstu máttastólpar lýðræðisins á Íslandi þ.e. Alþingi, ráðherrar og fjölmiðlar, kosið að fylgja AGS að málum. Ef fyrrnefndir aðilar skipta ekki fljótlega um skoðun mun stór hluti íslensku þjóðarinnar fylgjast með gleði þeirra á störfum sjóðsins úr fjarlægð, erlendis frá. Aftur á móti, ef Alþingi, ráðherrar og fjölmiðlar vilja ekki að þjóðin dreifist út um allar koppagrundir eða hírist í fátækt á skerinu gamla, verða viðkomandi aðilar að breyta um stefnu. Viðbrögð ykkar við stefnu AGS er það sem mun gera ykkur ábyrg í næstu Rannsóknarskýrslu Alþingis. Viðbrögð Alþingis, ráðherra og fjölmiðla við stefnu AGS mun ákvarða kjör almennings á Íslandi til framtíðar.
27.7.2010 | 21:46
Var Steingrímur búinn að fá leyfi hjá AGS?
Útspil ríkisstjórnarinnar kaupir tíma en tekur ekki á málinu. Þvílík ákvörðunarfælni. Skúffufyrirtækið er lögbrot, ríkisstjórnin á bara að segja það og afþakka dílinn við Magma. Sjálfsagt munu þessir stjórnmálamenn fá hvítþvott hjá embættismönnum og salan gengur í gegn.
Til vara virðist eiga að búa til lagaumhverfi sem þjóðin kyngir.
Síðan er það nú þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á alltaf lokaorðið. Spurningin er hvort við Íslendingar berum gæfu til að fara að fordæmi Ungverja og senda AGS heim. Ég efa það því íslensk þjóð hefur aldrei þurft að berjast fyrir sjálfstæði sínu eins og Ungverjar og halda því að það sé verslað út í búð.
Vill vinda ofan af Magma máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.7.2010 | 23:40
Jarðvarmaklösum Íslands pakkað í söluvænar umbúðir
Það er ótrúleg flóra af fyrirtækjum sem spretta upp umhverfis auðlindir okkar Íslendinga. Sjálfsagt vel meint og ef til vill óþarfi að vantreysta vel meinandi fólki. Hvaða fyrirtæki er þetta Gekon? Heimasíða þeirra er saklaus en þau virðast ráðleggja fyrirtækjum hvert stefna eigi(stefnumótun) og um samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Þau hafa mikinn áhuga á jarðvarma því þau ætla að opna heimasíðu á næstunni sem ber heitið www.icelandgeothermal.is . Á þeim vef eiga að verða "ítarlegar upplýsingar um kortlagningu um íslenska jarðhitaklasans". Verkefnastjórar fyrrnefnds verkefnis eru tveir doktórar frá Harvard Business School.
Það sem er að snúast fyrir mér og ég á svo erfitt með að skilja er eftirfarandi. Ef þú ert einn af fáum sem hefur aðgang að jarðvarma í heiminum, ert einn af fáum í heiminum sem kann mest um hvernig maður virkjar jarðvarma og allir vilja kaupa afurðina, hvers vegna þá að flækja málið.
Það er ótrúlegt að við Íslendingar ætlum að afhenda arð auðlindanna okkar til einhverra annarra en okkar sjálfra, skilur einhver slíka hegðun eftir að við erum búin að sigrast á öllum erfiðleikunum við uppbygginguna.
Hvers vegna þarf doktóra í business til að selja það sem allir vilja kaupa??
Kortleggja íslenska jarðvarmaklasann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2010 | 21:34
Samfylkingin og Bernanke ráðalaus
Undanfarna daga hef ég lent í því að ræða þjóðmálin við nokkra hreinræktaða samfylkingarmenn. Skoðun þeirra er sú að lítil neyð sé hér á landi og þeir sem hringja eða óska eftir aðstoð séu að misnota aðstoðina en þurfi hennar ekki með. Auk þess sé atvinnuleysið ekki svo alvarlegt því þeir geta alltaf nefnt dæmi um einhvern sem vantaði einhvern í vinnu en fékk engan.
Þeim finnst dómur hæstaréttar ekki góður og óverjandi að bankakerfið skaðist af dómnum. Þeir sem tapa öllu sínu vegna bankahrunsins hafi eytt um efni fram og því sé ekki ástæða til að bjarga slíku fólki.
Þeir bölva síðan Davíð og dýrka ESB.
Þeir gera sér enga grein fyrir því að Ben Bernanke á ekki til neinar lausnir á núverandi bankakreppu, ekki einu sinni ESB.
Þá dreymir bara um að finna gamla góða gæruskinnspokann sinn sem þeir sváfu í í æsku.
Væri ekki nær að standa saman og takast á við aðsteðjandi vandamál, eins og menn.
Segir horfur hafa versnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |