24.7.2009 | 21:20
May the force be with us
Enn er hugur minn fullur svartsýni. Það er ekkert sem í fréttum sem gæti valdið bjartsýni í mínum huga. Í kvöldfréttum RÚV kom frá að til þess að AGS geti tekið okkar mál fyrir þurfa þeir í Wasington staðfestingarvottorð frá Norðurlöndunum um að þeir ætli virkilega að lána okkur peningana. Við erum nú þegar búin að skrifa undir lánasamning við "vinaþjóðir" okkar en það er ekki nóg. Því verður ekkert framhald á aðstoð AGS til okkar fyrr en Norðurlöndin gefa okkur grænt ljós. Norðurlandaþjóðirnar munu ekki gefa út sitt vottorð fyrr en við höfum gengið frá IceSave. Því mun ekkert koma frá AGS til okkar fyrr en IceSave hefur verið troðið niður í kokið á okkur eins og á franskri gæs. Þess vegna segir Steingrímur að alla lánalínur muni lokast ef töf verður á IceSave málinu.
Steingrímur veit eins og er að ekki dugar að mögla, auk þess ef maður er þægur þá fær maður mjúkan stól. Kannski munu S og VG sameinast og Steingrímur verður nýr formaður-rosa flott.
Þess vegna eigum við engra kosta völ. Við verðum svelt til hlýðni. Öngvir peningar munu koma nema við samþykkjum IceSave. Þá þurfum við að fara að borga allar skuldirnar. Fræðimenn fullyrða að þær séu okkur ofviða. Í þeirri stöðu verðum við eins og mjúkur leir í höndunum á samninganefnd ESB. Sjávarútvegur og landbúnaður verða algjör aukaatriði ef maður sveltur. Auk þess er það hulin ráðgáta hjá samninganefnd ESB hvað 300.000 hræður, svona eins og borgarhluti í Berlín, er að gera veður út af smámunum. Þrasið í okkur tefur bara dagskrána.
Í raun eru bara tvær spurningar sem standa út af borðinu. Sú fyrri er hversu mikið munu þeir mjólka okkur. Lán hafa þá náttúru að þurfa að endurgreiðast. Verður um 50% lækkun launa, 50% niðurskurð í heilbrigðis, félags - og menntamálum svo við getum staðið í skilum. Hversu mörg álver verða reist.
Hin spurningin er hversu margir hafa tök á að flýja Ísland.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Formúla 1, Heilbrigðismál, Löggæsla | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gunnar Skúli. Mér finnst þú heldur svartsýnn og vera að kaupa rökstuðning VG og Samfylkingarinnar fyrir aðildarumsókn. Það er gangur lífsins að alltaf er hægt að fá annað skip og annað föruneyti eins og sagt er. Það þarf að snúa frá þessari ESB villu og einbeita sér að öðrum hlutum. Það hefur komið fram að ekki hefur verið leitað til allra landa og vel má vera að við gætum fengið lán t.d. í Kanada og jafnvel tekið upp dollar. Aftur á móti meðan við erum í miðju þessu ferli sem byggist á því að ESB nái yfirráðum yfir Íslandi og auðlindum okkar, auk þess til að hylma yfir galla á reglum ESB og EES varðandi ábyrgðartryggingar, þá er ekki von að okkur, þér, mér og íslensku þjóðinni aukist bjartsýni. Við flýjum ekki og berjumst til síðasta manns. Með góðri kveðju Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 24.7.2009 kl. 22:50
Ég er bjartsýn á framtíð okkar sem þjóðar, en finn að núna eru miklir umbrotatímar. Við erum að kasta af okkur hlekkjum innlendrar einokunar sem tók við af Danskinum. Það gerist ekki átakalaust sem ekki er von.
Taktu endilega gleði þína Gunnar Skúli. Svartsýnis talið núna er í boði stjórnarandstöðunnar. Hún hamast við að gera stjórnina tortryggilega eins og mögulegt er. Þetta er síðasta stóra tækifærið þeirra til að stöðva það hreinsunarstarf sem hafið er í samfélaginu. ICESACVE er ekki draugurinn sem sá hópur óttast, heldur að nú verði farið í alvöru að skoða innviði samfélagsins aftur í tímann. Farðið að skoða valdablokkirnar, hagsmunapotið, grímulaust siðleysi sem viðgengist hefur í bankakerfinu, sjóðakerfinu, sjávarútvegi, tryggingafélögum og víðar og víðar.
Hvað er t.d. verðið að skoða þegar mál aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs er komið inn á borð hjá Ólafi Þór Haukssyni saksóknara. Þar er verið að skoða ásakanir Þorsteins Ingasonar Tryggvasonar þess efnis að Búnaðarbankinn hafi keyrt fyrirtæki hans í þrot með misbeitingu valds. Hvað ef fleiri slík mál yrðu skoðuð, ég tel mig vita um eitt sem ekki þolir dagsbirtu. Við erum að hefja nýja vegferð þar sem faglega á að taka á málum hver sem í hlut á. Við erum á leið inn í ESB sem mun færa okkur réttlátara fjármálaumhverfi og verðlag. Landsbyggðin mun örugglega blómstra þegar byggðastefna ESB fer að virka. Þá verður skipting landsins milli framsóknarblokkarinnar sem fékk landsbyggðina í sinn hlut og Íhaldsblokkarinnar sem fékk þéttbýlið á SV horninu í sinn hlut, endanlega úr sögunni og ekki mun ég syrgja, svo mikið er víst.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.7.2009 kl. 22:58
Sæll Gunni, ég hitti marga Skandinava, aðalega Dani og Norðmenn, á hverjum degi og efnahagsmálin t.d. Icesave ber oft á góma.
Ég fullyrði að það er enginn pólitískur stuðningur við að fara út í "collective punisment" gagnvart Íslandi.
Ég skal ekki fullyrða um Svía en allavega ekki hin Norðurlöndin.
Ef slíkar hótanir hafa verið settar fram af Norðurlöndunum þá hefur Ísland enga hagsmuni af því að leyna þeim. Þvert á móti freistast ég til að trúa skýringum Þórs Saari um að leyndin sé til komin til að fela mistök stjórnmálamanna.
Sigurður Þórðarson, 24.7.2009 kl. 23:10
Sæl Kolla,
þú misskilur mig. Að giftast nauðgar sínum til að fá öryggi er fjarri mér. Ég vil ekki inn í ESB, svo það sé á hreinu. Aftur á móti óttast ég að við getum okkur hvergi hreyft í þessu máli. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.
Gunnar Skúli Ármannsson, 24.7.2009 kl. 23:16
Sæll Skúli.
Okkar akkilesarhæll er þessi hörmulega "ríkisstjórn"sem í öllum málum tekur stöðu gegn þjóð sinni og skipar sér í lið með kúgurunum.
Við þurfum að losa okkur við "ríkisstjórnina" sem allra fyrst og taka síðan til varnar við þurfum að hafa ríkisstjórn sem er með okkur í liði - það segir sig sjálft..........
Það er mín bjargföst trú að inn í ESB eigum við ekki eftir að fara meir en orðið er - svo erum við svo heppin að það eru ekki allar þjóðirnar 27 meðmæltar því að við förum þarna inn - sama hvað ræfillinn hann Össur sleikir á þeim skósólana......
Ég er sammála þeim Kolbrúnu og Sigurði ........
Senda öllum Alþingismönnunum tölvupóst og krefjast þess að allir samningarnir séu opinberaðir og hvert einasta leyniskjal líka.
Ég er búin að senda þeim öllum áskorun - og fengið svör frá nokkrum............
Því ætti að halda því leyndu fyrir okkur sem við eigum að bera byrðarnar af - NEI -TAKK - Bara berjast.....................við látum ekki fara svona með okkur - "Samspillinguna" burt! hún er landi og þjóð stór hættuleg......
Með baráttu kveðju.
Benedikta E, 25.7.2009 kl. 00:59
Sælt veri fólkið.
Þið semekki viljið samþykkja Icesave og ekki ganga í ESB. Hvaða lausnir eru í boði og hverskonar framtíð eru þið að tala um fyrir Ísland. Það er sagt ég vil ekki þetta og ég vil ekki hitt, gott og vel en hvernig á að endurreysa okkar þjóðfélag, það langar mig óskaplega til að vita. Þá er ég ekki að tala um slagorð eins og sjálfstæði eða annað kjaftæði. Heldur aðgerðaplan takk.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.7.2009 kl. 15:51
Sæll Skúli. " Nú erum við að tala saman" Það er rétt að það er ekki mikið svigrún nú þegar búið er að senda inn umsókn og talað er um að hún fái forgangsafgreiðslu í ESB. Fyrir hvað skildi það nú vera? Ætli vanti auðlindir til að metta hinar sveltandi þjóðir? Af hverju á að taka 320 þúsund manna þjóð fram fyrir 72 milljóna þjóð eins og t.d.Tyrkland. Ætli þá vanti ráðgjafa í sjávarútvegsfræðum eða fjármálafræðum? Ætli þurfi meira að hjálpa okkur? Nei það vantar vítamín í Evrópukroppinn og við höfum gnótt af þeim. Varðandi brottflutning fólks þá er það ágætt að fólk sem getur og vill skipta um umhverfi flytji út og afli sér þeirrar dýrmætu reynslu að hafa búið erlendis. Það er oft besta fólkið þegar það kemur heim og deilir þeirri þekkingu með þjóðinni. Þetta er ekki atgerfisflótti heldur þvingandi aðstæður og betri tækifæri annarstaðar á erfiðum tímum sem ég er ekki að gera lítið úr síður en svo. bestu kveðjur Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 26.7.2009 kl. 10:36
Hólmfríður Bjarnadóttir. Hvaða rétt átt þú á því að heimta aðgerðaplan af þeim sem hafa lagt fram stefnu, lausnartillögur og boðið fram krafta sína, á krepputímum, en verið hafnað? Kynntir þú þér ekki stefnumál td. Frjálslynda flokksins fyrir kosningar eða kaustu með bundið fyrir bæði. Fannst þér í lagi að ljúga sig til valda og krefja svo þá sem eru á annarri skoðun um lausnir og aðgerðaplön þegar stjórnarliðar ráða ekki neitt við neitt og flýja ráðalausir á náðir þeirra sem vilja seilast til áhrifa yfir Íslandi ljóst og leynt. Landsbyggðin mun örugglega blómstra þegar byggðastefna ESB fer að virka. Viltu sjálf vera svo væn að skýra þessa setningu úr fyrri ath þinni bæði fyrir mér, bændum og bændasamtökunum og segja mér af hverju þú vilt þetta aðgerðaplan sem þú lofar og prísar. kveðja Kolla.
Um þessa ríkisstjórn passar best að segja. Þangað leitar klárinn sem hann er hvaldastur
Kolbrún Stefánsdóttir, 26.7.2009 kl. 10:49
kvaldastur átti þetta nú að vera
Kolbrún Stefánsdóttir, 26.7.2009 kl. 10:51
Sæll Siggi og takk fyrir kommentið,
ég var í Malmö um daginn og ræddi málin við nokkra Svía. Þeir vissu ekki hvað IceSave var. Það þurfti að útskýra allt frá grunni. Ég held að þannig sé farið með marga Evrópubúa í dag. Fólk er mest að velta fyrir sér sínum vandræðum ekki annara. Læknir sem ég hitti í Malmö hafði mestar áhyggjur af því að læknum hafði verið fækkað svo mikið að vinnuálagið orðið ómennskt. Áhyggjur hennar, hún er skurðlæknir, voru mestar um að sinna sjúklingum sínum illa og gera fljótfælrnismistök. Þannig birtist kreppan manni í Svíþjóð. Þannig munum við einnig þurfa að bregðast við, bara mun meira.
Gunnar Skúli Ármannsson, 26.7.2009 kl. 17:28
Sæll Jón,
ég hef hitt svo mikið af fólki undanfarið sem er að velta því fyrir sér að flytja af landi brott. Mín upplifun er sú að fólk sé í biðstöðu, það fylgist vel með og ætlar að taka endanlega ákvörðun seinna. Um er að ræða einstaklinga sem hafa möguleika á því að fara. Margir komast ekki vegna fasteigna sem þeir losna ekki við. Dæmi er um unglækna sem verða að fara í sérnám erlendis eigi í erfiðleikum með að losna úr viðjum lána. Þetta mun bremsa símenntun lækna. Þar að auki mun ekki nokkur nýr sérfræðingur flytja til landsins í mörg ár. Því sitja landsmenn uppi með gamla liðið, eða þá sem verða eftir.
Gunnar Skúli Ármannsson, 26.7.2009 kl. 17:34
Sæl Benidikta,
því miður hefur það sýnt sig að það skiptir öngvu máli hver er í ríkisstjórn á Íslandi. Alþjóðlegir fjármagnseigendur hafa okkur í vasanum. Þeir starfa í gegnum Evrópusambandið og AGS. Þeirra er að hámarka afrakstur lánsfé síns. Því er staða okkar harla vonlaus. Ef við höfnum Icesave þá mun AGS ekki aðstoða okkur í bili. Þar með mun okkur skorta lífsnauðsynjar, við munum svelta. Því er spurningin hvernig við lágmörkum skaðann af Icesave.
Staða okkar er bara sú að skrimta eða fara á hausinn. Valið er ekki okkar, þeir ákveða það.
Eina valið sem sum okkar eiga er að búa á Íslandi eða í öðrum löndum.
Gunnar Skúli Ármannsson, 26.7.2009 kl. 17:42
Sæll Þór,
ég fékk sömu tilfinningu og þú vegna þessara frétta. Reyndar var mín upplifun meira sem staðfesting á því sem mig grunaði.
Hvað viðkemur samningunum er augljóst að ef tveir aðilar sem stæðu nokkurn vegin jafnfætis þá er samningurinn hreint klúður hvað okkur varðar. Spurningin er miklu fremur hvort íslenska samninganefndin hafi verið kúguð til hlýðni. Þá er um að ræða nauðvörn og samningurinn góður í því ljósi. Ég tek það fram til að forða misskilningi að mér finnst samningurinn mjög slæmur.
Gunnar Skúli Ármannsson, 26.7.2009 kl. 19:18
Sæl Hólmfríður,
okkur greinir á í grundvallaraðgerðum. Það skiptir mig litlu máli hver eldar matinn, bara að hann sé nægur og góður. Hitt sem þú verður að skilja að það er engin munur á hægri eða vinstri pólitík. Það skiptir engu máli hver er í ríkisstjórn, þeir hegða sér eins. Í stuttu máli, það er engin munur á kúk eða skít.
Það sem skiptir máli er hvað lánadrottnum okkar þóknast að gera. Lánadrottnar okkar stjórna ESB oh AGS. Þessi tvö apparöt eru bara handrukkarar fyrir viðkomandi lánadrottna. Staða okkar núna er sú að við eigum engra kosta völ. Aðildarumsókn að ESB hefur ekkert að segja, skiptir í raun engu máli. Við skuldum og þeir vilja að við borgum. Það skiptir þá engu máli hvort við erum í ESB eða ekki. Eina hagræðingin er sú að lánadrottnar okkar sleppa við að fara til Reykjavíkur til að semja við okkur, það dugar að koma við í Brussel ef við erum í ESB.
Framtíð Íslands snýst um að borga skuldir, annað ekki. Þú veist, lán hafa þá náttúru að þurfa að endurgreiðast. Þetta er framtíð okkar, með eða án ESB. Þess vegna skiptir ESB engu máli í samhenginu. Ein leið er að lágmarka skuldir. Ef okkur tekst að semja betur við Breta og Hollendinga þá höfum við minnkað skuldaklafan.
Framtíð Ísland er dökk. Við sem þjóð verðum öðru hvoru megin við núllið. Til að forða þjóðargjaldþroti munum við þurfa að þræla og púla. Lífsgæði munu minnka verulega. Ef við förum undir núllið þá munu þeir taka auðlindir okkar í pant. Þannig er staðan.
Ef Samfylkingin hefði ekki verið svona heilaþvegin af ESB kjaftæðinu hefði hún getað forðað okkur öllum frá þessu í samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma. Því miður gerði hún það ekki. Þar sem tækifæri Samfylkingarinnar voru mest til að bjarga Íslandi á sínum tíma frá örlögum sínum er ábyrgð hennar að sama skapi mjög mikil. Brútusarheilkennið endurtekur sig í sífellu Hólmfríður.
Gunnar Skúli Ármannsson, 26.7.2009 kl. 19:50
Sæl aftur Kolla,
ég gat hgsað mér að skoða ESB fyrir hrunið, en samt mjög varlega. Núna er ég algjörlega á móti. Þeir hafa örugglega ekkert á móti því að eignast auðlindir okkar, það er klárt.
Þegar kemur að flótta fólks frá íslandi þá vil ég segja eftirfarandi; vandamálið er tvíþætt. Fyrst er það að mjög margir af þeim sem geta flutt munu gera það. Það verður blóðtaka. Hitt er líka að erlendis eru mjög margir Íslendingar í framhaldsnámi sem Ísland ætlaði að nýta sér í framtíðinni. Þetta fólk mun ekki flytja heim. Eftir situr gamla liðið sem getur sig hvergi hreyft.
Gunnar Skúli Ármannsson, 26.7.2009 kl. 19:59
Sæll Skúli og þið hin!
Til ykkar sem eruð í Frjálslindaflokknum styrkið innviði flokksins og komið tvíefld í næstu kosningar...........
Frétta miðlarnir áttu mikinn þátt í útkomu Frjálslyndra í kosningunum - látið þeim ekki takast það aftur...............Frjálslindaflokksins er saknað á Alþingi í dag.
Svo er það valið um það að fara eða vera á íslandi ég hef búið langdvölum í ESB löndum - eftir því sem "flestir" búa lengur í útlöndum því meiri Íslendingar............
Benedikta E, 26.7.2009 kl. 21:37
Sæl Benedikta. Takk fyrir hvatninguna. Það er rétt að strax eftir kosningaúrslitin voru margir sem töldu eftirsjá að Frjálslynda flokknum. Margir hafa þó glaðst yfir því að vera lausir við stöðugt aðhaldsnagg okkar manna. Við áttum sjálf stóran þátt í því að það fór eins og það fór en fjölmiðlar fannst mér alltaf líta niður á FF og af því hann var ekki einn af fjórflokkunum þá var hann oft ekki tekinn með. Útvarp Saga fór hamförum í ófrægingaráróðri á okkur í FF að mínu áliti. Við erum ekki hætt en þurfum að vanda okkur í uppbyggingunni og ég vona sannarlega að það verði ekki kosið fljótlega aftur. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 26.7.2009 kl. 22:09
Sæl aftur Benedikta,
ég dáist af bjartsýni þinni. "Næstu kosninga" segir þú. Allt verður ákveðið löngu fyrir næstu kosningar. Örbirgð íslenskrar alþýðu verður meitluð í stein fyrir næstu kosningar. Við höfðum tækifæri en misstum af því-sorry.
Ég bjó í Svíþjóð á árum áður, bæði utan og innan ESB. Málið snýst um að velja sér land við hæfi.
Gunnar Skúli Ármannsson, 26.7.2009 kl. 22:11
Sæl aftur Kolbrún og Skúli !
Ég hef þá trú að það gæti orðið mjög stutt í að þessi svo kallaða ríkisstjórn falli - þíð sjáið nú bara VG þeir koma sterkir út úr skápunum þessa dagana - tveir ráðherrar og Atli Gísla...............það verður ekki bara logn í kringum það.........
Hótanir og einelti Jóhönnu duga nú ekkert á Jón Bjarnason hann eflist bara við vandarhöggin - og Ögmundur og Atli Gísla virðast vera allir að styrkjast..........
Heyrðu nú Skúli !
Eftir ellefu ára búsetu erlendis þá taldi ég mig komst að því - að það væru örlög að vera fæddur Íslendingur - svo ég dreif mig heim - og hér er ég og vil ekki annað..........
Benedikta E, 26.7.2009 kl. 22:36
Já það er ekkert fjallað um þær fjölskyldur sem eru að flytja til Íslands. Ég hef heyrt um tíu fjölskyldur sem eru komnar en ef ung hjón ákveða að fara þá er það hálfsíðufrétt í mogganum. Mér finnst svo gaman að fylgjast með Jóni Bjarnasyni hann virkar svo "happy" í jobbinu en samt segir hann sína skoðun karlinn óhikað. Enda vilja þau að hann segi af sér. Þetta er nú ekki einleikið ástand á þingliðinu ég meina það. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 26.7.2009 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.