3.4.2009 | 18:49
HVER OG HVER OG VILL OG VERÐUR?
HVER OG HVER OG VILL OG VERÐUR?
Vorið 1961, snemma morguns, opnaði hjúkrunarfræðingur hurðina á 6 manna stofunni sem afi minn svaf í ásamt fimm öðrum. Hann hafði verið lagður inn á Landspítalann í Reykjavík með kransæðastíflu þremur dögum áður. 1961 fengu sjúklingar morfín við verkjum og húsaskjól, ekki mikið meira. Því var það eðlilegt í þá daga að sjúklingar með bráða kransæðastíflu svæfu eftirlitslausir á 6 manna stofum Landspítalans. Því var það einnig eðlilegt að einhver væri látinn að morgni sem hafði gengið til náða kvöldið áður lifandi. Þennan maí morgun var afi látinn, eðlilegasti hlutur í heimi, 55 ára gamall. Meðalaldur þeirra sem eru endurlífgaðir í dag eru 57 ára.
1961 voru ekki til sérstakar hjartadeildir með þráðlausum búnaði sem fylgist með lífsmörkum sjúklinganna. Ekki voru til lyf sem bætt geta ástand sjúklinganna. Ekki til hjartaþræðing, ekki til kunnátta í endurlífgun, ekki til gjörgæsla. Ekki til hámenntað og þrautþjálfað starfsfólk. Því má fullyrða að hver einstaklingur sem lifði af kransæðastíflu árið 1961 hafi kostað Landspítalann margfalt minna en í dag. Því væri það hreint rekstralega séð mun hagstæðara að hverfa aftur til baka og taka upp þá einföldu meðferð sem var í boði 1961. Þrátt fyrir augljósan rekstrarlegan hagnað vill enginn hverfa til gömlu tímanna. Munurinn á árangri þá og nú er svo augljós að ekki þarf að ræða málið.
Fyrirhugað er að loka bráðamótöku Landspítalans við Hringbraut. Allir bráðasjúklingar fari fyrst inn í Fossvog. Ef þar kemur í ljós að þú sért með bráða kransæðastíflu þá verður þú fluttur niðrá Hringbraut. Þar er öll aðstaða til að sinna hjartasjúklingum og ekki er hægt að flytja þá vinnuaðstöðu þaðan. Í dag koma hjartasjúklingar beint á Hringbrautina. Þar með er komin auka stoppistöð og auka flutningur fyrir hjartasjúklinginn ef þeir eiga að millilenda fyrst í Fossvoginum. Að skilja að greiningu og meðferð á bráðri kransæðastíflu í einu bæjarfélagi er nýmæli. Að greina kransæðastífluna í Fossvogi og meðhöndla sömu kransæðastíflu síðan á Hringbraut er ekki eingöngu nýmæli heldur afturhvarf til fortíðar.
Það hafa ekki komið fram nein gögn sem benda til þess að þetta nýja fyrirkomulag sé jafn gott eða betra fyrir sjúklingana. Aftur á móti sýna margar erlendar rannsóknir að þetta fyrirkomulag sem fyrirhugað er gefur af sér lakari árangur en það fyrirkomulag sem er núna til staðar. Við vitum í dag að meðferðin á Hringbraut er ein sú besta í heimi. Meginástæðan er að öll þjónusta er á einum stað. Lakari árangur hefur í för með sér að færri mannslífum er bjargað. Verri heilsu því margir munu koma seinna í hjartaþræðingu en nú og hver mínúta skiptir máli. Allt þetta leiðir á endanum til aukins kostnaðar. Hvati þessara breytinga er sparnaður í heilbrigðiskerfinu. Ég tel þessa sparnaðarráðstöfun mjög misráðna og hvet þá sem aðhyllast hana að nema staðar og hugsa sig vel um.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Heilbrigðismál, Mannréttindi | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta.
Lifi fjalldrapinn!
Ásgeir Rúnar Helgason, 3.4.2009 kl. 19:39
Gótt að þú birtir greinina góðu á blogginu líka. Sumir missa jafnvel af greinum í miðjum Mogganum!
Ívar Pálsson, 4.4.2009 kl. 01:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.