26.12.2008 | 19:47
Að pissa í skóna sína.
Það ku vera skammgóður vermir, fyrst volgt en síðan enn kaldara.
Áramót eru tími uppgjörs. Þá horfum við afturábak og áfram. Pælum og metum. Reynum að komast að niðurstöðu, stillum kúrsinn og strengjum heit, allt í þeim tilgangi að næsta ár verði betra en það gamla.
Ef ég ætti að gefa árinu 2008 einkunnarorð þá yrði það "að pissa skóna sín". Þannig hafa valdhafar hagað sér allt þetta ár. Allir sem fylgdust með vissu að bankarnir voru gjaldþrota árið 2007. Allir sem fyldust með vissu eftir síðustu áramót að skuldir bankanna voru 12 sinnum fjárlög íslenska ríkisins. Og allir sem fylgdust með gerðu ekki nokkurn skapaðan hlut til að afstýra hruninu. Allir pissuðu í skóna sína.
Þegar horft er um öxl er vandséð hvernig valdhafar hefðu getað klúðrað þessu meir eða betur. Það hefur í raun allt klikkað sem bilað gat.
Síðast liðna 3 mánuði hafa valdhafar og skilanefndir bankanna verið að sortera úr haugnum. Í fyrsta lagi fer öll sú vinna á bak við luktar dyr. Það er mjög óheppilegt því þar með er komin forsenda fyrir trúnaðarbresti á milli valdhafa og almennings. Þegar einhverjar fréttir leka út er oftast um að ræða niðurfellingu skulda hjá vellauðugu fólki. Trúnaðarbrestur breytist í gjá. Þar að auki virðist sem þeir sem fóru á hausinn eftir allt sukkið verði endurreistir á ný með hjálp íslenskra skattgreiðenda. Núna held ég að gjáin sé að breytast í D-day.
Ef auðmenn og valdhafar ætla að tína bestu bitana handa sér og þátttaka almenning felst eingöngu í að borga brúsann er ekki von á góðu. Þá höfum við farið úr öskunni í eldinn. Göran Persson sagði að við ættum að sækja fjármuni auðmanna, hann manaði okkur til þess. Ekkert lífsmark er í þá veru hjá valdhöfum. Rannsóknarnefndin sem skipuð hefur verið nýtur ekki trúverðugleika strax í upphafi og er það miður.
Niðurstaða almennings er sú að það eigi að hlunnfara okkur eina ferðina enn.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.