1.6.2008 | 21:44
Sjómannadagurinn.
Það er sjómannadagurinn í dag. Mikill merkisdagur. Ég vil óska öllum sjómönnum innilega til hamingju með daginn. Einnig mökum og fjölskyldum. Þessi dagur skipar stóran sess í mínu lífi. Ekki það að ég sé sjómaður, hef ekki migið í saltan sjó svo neinu nemi. Aftur á móti tók ég þátt í kappróðrakeppni sem stýrimaður hjá kvennaliði sjúkrahússins á Patreksfirði 1987. Við unnum. Fyrir vikið á ég eina medalíu, þá einu sem mér hefur hlotnast enn sem komið er. Þar að auki fleygðu stelpurnar mér í sjóinn.
Það ber vissan skugga á daginn í dag. Íslendingar eru dæmdir sem mannréttindaníðingar af mannréttindadómstóli Sameinuðu Þjóðanna. Við brjótum mannréttindi á sjómönnum. Dómstóll SÞ hefur óskað eftir því að við látum af mannréttindabrotunum og fer fram á að við gerum grein fyrir því hvernig við hyggjumst gera það. Svar okkar er að við "ætlum að pæla í því" Við gætum alveg eins ullað á Sameinuðu Þjóðirnar.
Til allra hamingju voru nokkrar hugrakkar konur frá Landsambandi kvenna í Frjálslynda flokknum sem mótmæltu í dag. Þær klæddu sig upp í sjóstakka og báru mótmælaspjöld. Þær skiptu ekki þúsundum en vöktu engu að síður mikla athygli. Fjölmiðlar tóku eftir þeim og höfðu við þær viðtöl, teknar myndir. Nærvera þeirra undir ræðu sjávarútvegsráðherra gerði ræðu hans að hjómi einu, slæm var hún nú fyrir.
Hvar voru allir menningarvitarnir sem mega aldrei vita af neinu óréttlætinu í útlandinu?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gunnar Skúli.
Góður pistill.
Ég tók einnig þátt í róðrarkeppni á sjómannadegi í Reykjavík fyrir mörgum árum síðan, mjög skemmtilegt.
Skilaðu kveðju og takk fyrir í dag, til Helgu og dætranna.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 2.6.2008 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.