25.12.2007 | 15:32
JÓLAHUGLEIÐING.
Jólin eru merkilegur tími. Sjálfsagt hafa jólin ýmsar birtingarmyndir hjá mismunandi einstaklingum. Mjög sennilega hefur æska og uppeldi mikið að segja, eða eins og erfðamengið í mannskepnunni. Þar á móti kemur ætlun okkar um hvernig við höldum okkar jól. Hvernig við höndlum hefðirnar eða nýtum okkur þær til að gera jólin okkar.
Sameiginlegt er þó flestum að jólin eru vegferð með vissum endi sem þó endurtekur sig í sífellu ár eftir ár. Í raun hefst vegferðin um leið og einum jólum er lokið. Annað sem er sameiginlegt flestum er að mikil samvinna á sér stað við undirbúning jólanna. Þessi sameiginlegi undirbúningur er mjög ríkjandi í hegðun flestra. Fjölskyldur eiga sér sameiginlegt markmið, jólin, þar sem undirbúningurinn veitir einna mesta gleði ekki síður en jólin sjálf. Fjölskyldumeðlimir taka höndum saman og hlutverkin skipast eftir því sem gagnast lokamarkmiðinu, gleðilegum jólum. Enginn einn reynir að krýna sig meistara því sigurinn felst í uppskerunni, að allir í fjölskyldunni eigi gleðileg jól. Jólagjafirnar endurspegla þetta vel því flestir eru að velja gjafir fyrir einhvern annan en sjálfan sig og setja sjálfan sig þar með í annað sætið. Því hafa allir í fjölskyldunni hlutverk, oft er það húsmóðirin sem leiðir starfið en reynir þó að gæta þess að allir fái hlutverk við hæfi. Ekki eingöngu vegna þess að margar hendur vinna létt verk heldur miklu frekar að þá finnst öllum að þeir eigi hlut í jólunum.
Ekki er víst að allir hafi sömu sýn eða reynslu af jólunum. Hvernig við breytum því er vandséð því margt kemur örugglega til. Erfið æska eða slæmar núverandi aðstæður í bland við vandamál. Best væri þó að sem flestir gætu átt góðar stundir í takt við umhverfið.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.