19.10.2007 | 22:21
Fólk sem hugsar um fólk en ekki fjármuni.
Nú hafa skólastjórar tjáð sig. Oft hefur ástandið verið slæmt en nú er það verra en nokkru sinni fyrr. Þeir kennarar sem eru í vinnu eru látnir vinna eins mikið og hægt er því auglýsingum er ekki svarað. Kennaraskortur er staðreynd og þeir sem sinna börnunum okkar eru yfirhlaðnir vinnu svo kerfið hökti einhvernvegin.
Sama staða er í leikskólamálum og hefur verið mikið í fréttum í töluverðan tíma.
Skortur á hjúkrunarfræðingum er vel þekktur og er hver dagur á sjúkrahúsum barátta stjórnenda í því að ná að manna næstu vakt.
Umönnunar- og menntastéttir eru á skammarlega lágum launum, vinna allt of mikið og það er stöðugt verið að þrýsta þeim í meiri vinnu gegn vilja þeirra. Á þann hátt tekst að halda uppi því þjónustustigi sem við höfum í dag.
|
Þegar haft er í huga að hægt er í vissum verslunum að fá kaup fyrir að draga strikamerkingar yfir skynjara fyrir sama kaup og kennari eða hjúkrunarfræðingur fær eftir 25 ára starf þá er eitthvað að. Það er ekkert rangt við það á fá þokkalega greitt fyrir að vinna í verslun, það er hið besta mál og ekki víst að allir sem vinna við það prísi sig svo sæla af sínu kaupi.
Það sem er að er verðmætamat okkar Íslendinga.
Ef ég sel einhverjum eitthvað þá er það gott. Um leið og ég sel þá verður til fjárhagslegur gróði, að öðrum kosti ganga viðskiptin ekki upp. Í dag er þessi gróði orðin aðalsmerki, sá sem græðir sem mest er flottastur. Ef einhver græðir þá hlýtur einhver annar að tapa, það hlýtur þá líka að vera flott. Einu sinni fór maður inn í guðshús og velti um borðum slíkra gróðrarpunga. Honum fannst þeir ekki neitt flottir. Hann varð síðan krossfestur og dó.
Í dag í okkar þjóðfélagi er ekki flott að vera kennari eða hjúkrunarfræðingur ef mið er tekið af launum. Hvernig breytum við því?
Oftast þegar rætt er um þessar stéttir eru framlög þeirra flokkuð sem kostnaður og byrði á þjóðfélaginu sem er að sliga heiðvirða skattgreiðendur. Tilvist þeirra er nánast bruðl. Þegar enn ein Kringlan rís úr jörðu er hún snjöll fjárfesting.
Er það ekki fjárfesting að koma fólki aftur til betri heilsu? Er það ekki fjárfesting að mennta börnin okkar?
Er ekki heilsan og börnin okkar það dýrmætasta sem við eigum, ég bara spyr.
Skólastjórar segja ekki lengur hægt að halda úti lögboðinni kennslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Það er bandvitlaust gefið á flestum borðum hér. Samfélagið Ísland hefur orðið undir í baráttunni við Ísland Group. Allt úir og grúir af sprenglærðum moðhausum úr Hagfræði-Viðskipta-og Félagsvísindadeildum Háskólanna.
Fæst af þessu fólki hefur tiltæka aðra þekkingu en þá sem er útfærð af heilaþvegnum teoriukúnstnerum frá iðnbyltingartímabilinu.
Reiknilíkanið er altari þessa vandræðafólks sem að réttu ætti að vera innilokað í búrum og gefið að éta innum gat þrisvar í viku.
Og helstu atvinnuvegirnir eru tækifærisvæddir af stjórnvöldum til ábata fyrir viðskiptajöfra. Og að sjálfsögðu auðlindirnar líka.
Út í hafsauga með þetta hyski og það strax á morgun.
Þessu verður ekki kippt í lag fyrr en leitaðir verða uppi alvörumenn á gúmmístígvélum og í lopapeysum.
Hanna Birna. Menntun er máttur að vísu, en geldur og náttúrulaus bóklærdómur á ekkert skylt við menntun.
Árni Gunnarsson, 20.10.2007 kl. 00:27
Takk fyrir hressilega athugasemd Árni. Vonandi þurfum við ekki að beita aðferðum frönsku byltingarinnar til að rétta við kjör umönnunar-og menntastéttanna. Það hlýtur að finnast skynsemi í þessu þjóðfélagi ef vel er leitað. Aftur á móti er það rétt hjá þér að ungviðið í dag hefur misst tengsl sín við fortíðina sem einkenndist af "gúmmístígvélum og lopapeysum". Því þurfum við að breyta.
Gunnar Skúli Ármannsson, 20.10.2007 kl. 00:41
Sæll Gunnar Skúli.
Ég er núna búin að starfa inni í skólaumhverfinu sennilega um það bil 16 ár með starfsmenntun sem nemur 43 einingum á uppeldissviði þar sem maður varð að hlaupa í hlutverk deildarstjóra á leikskóla í því umhverfi manneklu á sínum tíma en síðar við störf í grunnskóla með starfsheitið skólaliði þar sem þessar 43 einingar fyrirfinnast ekki í verðmati til launa þar á bæ, ekkert samræmi þar á milli. Það er nákvæmlega sama sagan í heilbrigðis og menntakerfi, allt kapp hefur verið lagt á að spara í formi launa starfsmanna, sem aftur orsakar flótta úr störfum og óstöðugt starfsmannahald endalaust.
Það er mjög gott mál að skólastjórar láti í sér heyra og vonandi verður það víðar en í Reykjavík.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 20.10.2007 kl. 03:29
Sammála þér Guðrún. Ég sakna verulega fjárfestinga í heilsu og menntun þjóðarinnar.
Gunnar Skúli Ármannsson, 20.10.2007 kl. 23:21
Góður pistill. Þakka fyrir mig.
Magnús Þór Hafsteinsson, 22.10.2007 kl. 14:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.