5.9.2007 | 22:32
Fósturdráp og kerfisbundin sjálfsvíg.
Mikil umræða hefur verið á blogginu um fóstureyðingar. Jón Valur og Halla Rut hafa tekist á ásamt fleirum. Ekki hefur mér gefist tími til að lesa allt það sem ritað hefur verið í þeirri umræðu. Ljóst er að ekki verður andstæðum skoðunum hnikað hversu mikið menn blogga. Því mun frekari rökræða ekki leiða til neinnar sameiginlegrar niðurstöðu.
Er ekki hægt að virkja þá umhyggju sem fram hefur komið í umræðunni til góðs? Annars vegar er mikil umhyggja fyrir hinu ófædda barni og á hinn bóginn er mikil umhyggja fyrir hinum þunguðu konum.
Þá er mér efst í huga fólk sem lendir í aðstæðum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Landlæknir Bandaríkjanna áætlar að um 400 þús bandaríkjamanna látist af völdum reykinga á ári. Einnig að um 3-400 þús bandaríkjamenn látist af ári vegna offitu. Við Íslendingar stefnum hraðbyr í sömu átt. Það gerir um 700 andlát á ári á Íslandi sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Reykingar og offita er í sjálfu sér kerfisbundið sjálfsvíg hjá viðkomandi einstakling. Reykingar og í vaxandi mæli offita munu draga til sín vaxandi fjármuni, mannslíf og þjáningar. Þeir svartsýnustu telja að offita muni draga svo mikla fjármuni í framtíðinni til sín að ekkert verður eftir til vegagerðar eða skóla. Reykingamenn hafa þó greitt örlítið upp í kostnaðinn með kaupum sínum á tóbaki sem ríkið leggur á gjöld sem renna í ríkiskassann. Offitusjúklingurinn hefur hvergi lagt til aukið fjármagn.
Því er þörf á að taka höndum saman. Gott væri að beina allri þeirri umhyggju sem fram hefur komið undanfarna daga í garð ófæddra einstaklinga og þungaðra kvenna til þeirra sem þjást af offitu. Ófætt fóstur deyr í fóstureyðingu. Líf konu gæti farið í rúst vegna óvelkominnar þungunar og jafnvel deyr hún. Offitusjúklingurinn leggur líf sitt í rúst og deyr að lokum fyrir aldur fram.
Er eðlismunur á vel útfærðu sjálfsvígi með offitu eða reykingum annars vegar eða hins vegar vel útfærðu fósturdrápi?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Ljóð, Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 22:35 | Facebook
Athugasemdir
ertu ekki að gleyma anorexiu og bulimiu sjúklingunum? annars góð hugmynd með umhyggjuna. Hún er þarna undir niðri í öllu sem fólk segir í þessum deilum....
halkatla, 5.9.2007 kl. 22:53
Sæl Anna, jú það er rétt hjá þér.
Gunnar Skúli Ármannsson, 6.9.2007 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.