11.8.2007 | 22:55
Mr. Bormann og Vestmannaeyjar.
Ég var í Vestmannaeyjum sl viku. Ræddi og skrafaði við heimamenn. Samgöngumál brenna á Eyjamönnum eins og búast má við, þetta er nú einu sinni eyja umlukin hafi. Ekki beint einfalt mál að bruna í bæinn. Göngin eru komin út af borðinu, ég segi nú til allra hamingju því ég hefði þá aldrei þorað til eyja aftur. Síðan eru eftir tveir kostir. Annar er að byggja bryggju á sandi. Samkvæmt heilagri ritningu og heilbrigðri skynsemi lofar það ekki góðu. Þar að auki felst í þeirri leið fjallvegur, þe Hellisheiði sem getur oft verið leiðigjörn, ófærð eða mikil þoka. En samtals er tíminn frá Eyjum til byggða uþb 2-2,5 klst. Það gerir ávinning upp á 1 klst miðað við núverandi ástand. Hvað sandbryggjan á að kosta veit ég ekki en gefins er hún ekki.
Hinn kosturinn er að kaupa nýjan Herjólf, ekki bara einn heldur tvo. Hafa þá hraðskreiðari þannig að tíminn milli lands og Eyja verði 2 klst. Þá verður heildarferðartíminn um 2,5 klst. Aftur sparnaður um eina klst miðað við núverandi ástand. Ef þessi kostur verður fyrir valinu vinnst margt. Ferðum fjölgar. Það gefur Eyjamönnum möguleika á því að ákveða með stuttum fyrirvara að skreppa upp á land en núna þurfa þeir að panta far með Herjólfi með löngum fyrirvara um helgar. Þetta er í raun óþolandi. Ef við veltum fyrir okkur að aðrir landsmenn geta skroppið eftir sínum þjóðvegum þegar þeim dettur í hug ef veður leyfir. Því myndi þetta leiða til jöfnunar. Annar kostur er að höfnin í Þorlákshöfn myndi nýtast og þær fjárfestingar sem í henni liggja. Auk þess sleppa menn við fjallveg-Hellisheiðina. Einnig þarf ekki að betrumbæta vegakerfið í kringum Bakka sem óneitanlega þarf að gera. Kolefnisjöfnun er í tísku þessa dagana. Í staðin fyrir að allir Eyjamenn séu að aka um Suðurland þá eru allir bílarnir þeirra kyrrstæðir í ferju og menga því mun minna.
Því er það algjörlega óskiljanlegt að Mr Bormann ætlar að byggja framtíð samgöngumála Eyjamanna á sandi. Þar að auki gat ég ekki betur heyrt en að flestir Eyjamenn sem ég ræddi við væru mér sammála. Mr Bormann ætti kannski að gera eina létta skoðanakönnun í Eyjum. Eða er hann að hugsa um einhverja aðra en þá?
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Lífstíll, Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.