29.7.2007 | 00:29
Sálartetur Sjálfstæðismannsins.
Ég var að koma frá Tyrklandi í nótt og bunki af ólesnum blöðum beið mín. Það sem ég rak augun fyrst í voru greinar í Blaðinu um smásölu lyfja. Ólafur Adólfsson lyfsali á Akranesi er að rífa kjaft yfir því að stórlaxarnir í bransanum eru að setja hann á hausinn með undirboðum. Hálfgerð ósvífni hjá Óla, þó að hann sé vanur því úr boltanum að dómari dæmi á andstæðinginn sem hefur rangt við þá gildir annað í bísniss. Þar er Darwinn gamli alsráðandi. Þróun tegundarinnar er nefnilega komin lengra en svo að einstaklingsframtak eða önnur frjálshyggju vitleysa borgi sig. Núna er það hringamyndun sem er inni. Í smásölu lyfja eru tveir risar sem ætla allt lifandi að drepa, með góðu eða illu. Dæmisögurnar frá Vestmannaeyjum og Borgarnesi sýna það glöggt. Í sjávarútvegi eru nokkrir stórir að gera sömu hluti með þeim afleiðingum að allt einstaklingsframtak deyr víðsvegar um land. Forsetsráðherra landsins dásamar þessa þróun og kallar hana "aukna hagræðingu og stöðugleika".
Í Bandaríkjunum, frjálshyggjulandinu, eru lög gegn hringamyndunum. Því eru hlutirnir á Íslandi ekki í samræmi við eðlilega frjálshyggju. Hér á landi virðast ekki vera nein lög gegn hringamyndun sem virka, enda ekki von á góðu þegar Forsetsráðherra dásamar ástandið.
Þar sem ég var búsettur í Svíþjóð í 9 ár þekki ég kerfið þar. Þar voru þrír aðilar sem skiptu allri nýlenduvöruverslun á milli sín. Þar voru þrír aðilar sem skiptu allri nýbyggingu húsa og vega á milli sín. Mjög hagstætt fyrir fyrirtækin. Þau höfðu algjörlega í sinni hendi alla verðlagningu á sínu svæði. Engin óæskileg samkeppni. Hægt að sjá fyrir stöðu bókhaldsins við upphaf árs. Engin óþarfa óvissa. Aftur á móti hefur neytandinn stöðu þrælsins í þessu kerfi. Þetta er það sem ég kalla ríkisrekinn kapítalisma.
Núna dásamar formaður þess flokks sem hingað til hefur verið tengdur einstaklingsframtaki þessa þróun á Íslandi. Hann er orðinn einn helsti talsmaður ríkisrekins kapítalisma. Enda upplifi ég hann sem Göran Persson Íslands.
Sönnum Sjálfstæðismönnum hlýtur að vera svolítið órótt í sálinni þessa dagana.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Lífstíll, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 01:15 | Facebook
Athugasemdir
Þú segir nokkuð
Þórdís Bára Hannesdóttir, 29.7.2007 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.