25.7.2007 | 18:46
Tyrkneskt detox.
Við höfum verið hér í góðu yfirlæti í Tyrklandi. Þessa vikuna erum við á Hoteli Club Turban. Þar er allt innifalið, fullt fæði og drykkir allan liðlangan daginn. Dagurinn er þétt bókaður. Tímafrek sólböð sem eru tafin með sífelldum sjávarböðum til að forða líkamanum frá suðumarki. Svo fer töluverður tími í að skola niður 3 lítrum af vatni á dag ásamt ögn af bjór eða brandy. Þegar meðvitundarstigið er vart finnanlegt þá skellir maður í sig tyrknesku kaffi.
Detox meðferð hefur verið vinsæl á Íslandi upp á síðkastið. Einhverskonar afeitrunarmeðferð í gegnum ristilþvott. Sem læknir þekki ég það mjög vel að þetta líffæri á hug manns allan við upphaf og lok lífs okkar. Þar sem ég tel mig vera staddan einhvers staðar mitt á milli þessara tveggja póla í lífi mínu velti ég frekar fyrir mér öðrum líffærum.
Ég held að tyrkneskur HEILAÞVOTTUR sé frekar við hæfi nú til dags. Ristillinn og innihald hans er hvort sem er fyrir utan líkamann og þar að auki er það líffæri að mestu sjálfvirkt. Heilinn aftur á móti er óneitanlega hluti af líkamanum. Ég held að við ættum að sína honum viðlíka virðingu og skolpröri skrokksins.
Að fara í frí og slaka á ætti að vera mun meðvitaðra ferli. Hvers vegna pantar maður sér bara tvær vikur á svona letistað. Jú, sú hræðilega staða gæti komið upp að manni færi að leiðast ef maður væri í þrjár vikur. Hvað er að leiðast? Að hafa svo mikinn tíma til að gera ekki neitt annað en það sem hugurinn girnist að það veldur óróleika í heilanum.
Ég held að tyrkneskt detox sé okkur öllum holl.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Ferðalög, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 18:49 | Facebook
Athugasemdir
Takk Óli Páll, ef ég hef rænu eftir þessa agnar ögn af brandy sem ég er að skola niður núna þá skal ég reyna að muna eftir ráði þínu.
Gvöð hvað ég vorkenni þér að vera alltaf á þessu flakki, annars spurði dóttir mín mig í dag, sem er reyndar fædd í Svíþjóð, hvort IKEA er til í Tyrklandi.
Gunnar Skúli Ármannsson, 25.7.2007 kl. 19:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.