25.6.2007 | 22:23
Virkt lýðræði-Borgari.
Hér sit ég og sötra gott hvítvín ásamt því að brenna gamla þakkantinum mínum í Mexíkanska ofninum. Það er hlýtt í veðri, þurrt og sól-sjaldgæft fyrirbæri hér á höfuðborgarsvæðinu.
Þá fer ég allt í einu að velta fyrir mér lýðræðinu, hálfgert rugl við þessar aðstæður. Ég er að velta fyrir mér hinu virka lýðræði. Það ku víst birtast í kosningum og kosningarétti þegnanna. Síðan virðist vald okkar dvína hratt að þeim loknum. Hið virka lýðræði á að koma fram stöðugt, í sífelldum athugasemdum okkar borgaranna við hina kjörnu þingmenn. Það er að vera Borgari, skylda Borgarans er að veita aðhald, ekki bara í kosningum.
Ég var að gera mér grein fyrir því að e.t.v. er blogg Borgaranna svar nútímans við fyrrnefndri skyldu Borgaranna sem virkur meðlimur í lýðræðisþjóðfélagi.
Það sem stendur virku lýðræði mest fyrir þrifum er tímaleysi nútímamannsins. Að halda heimili, vinna, ná frama á vinnustað, sinna börnunum o. sv.fr. gerir það að verkum að lýðræðisiðkun verður harla lítil hjá venjulegu fólki. Því er um að gera hjá stjórnmálamönnum að lengja vinnutímann og á allan hátt halda okkur uppteknum svo við förum örugglega ekki að skipta okkur af störfum þeirra.
Ég hef alltaf litið svo á að einstaklingar sem hafa haft tíma fyrir lýðræðisiðkun samfara venjulegu lífi, þ.e. haft tíma til að fylgjast með fréttum og þess háttar og haft ráðrúm til að mynda sér skoðun hljóta að vera stikkfrí einhverstaðar annar staðar.
Svo kom bloggið. Þar lékum við á ykkur. Nú getur maður sest niður eftir að börnin eru komin í ró og hakkað í okkur pólitíkusana, bara að einhver lesi það sem maður skrifar. Maður er að minnsta kosti búinn að gera skyldu sína sem Borgari. Auk þess hefur maður létt á sér og líður eitthvað betur. En kannski er blogg ekki virkt lýðræði, bara dóp fyrir okkur almúgann-hver veit.
Hvað sem öllu líður þá er best á Íslandi því hvítvínið helst alltaf kalt á íslenskum síðkvöldum.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.