Ég endaði í sjónum á Patreksfirði.

Fyrir tuttugu árum síðan bjó ég á Patreksfirði. Þá var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur eins og venja er. Þá var meðal annars kappróður. Ég var stýrimaður á bát skipuðum konum af sjúkrahúsinu og heilsugæslunni. Var frekar dagsfarsprúður og lá ekki hátt rómur. Þennan dag tók ég hamförum og öskraði svo á mínar stúlkur að þær réru lífróður og við sigruðum. Það var til siðs í þá daga að fleygja stýrimanni sigurliðsins í sjóinn. Þennan dag var ekki gerð nein undantekning frá þessari göfugu reglu. Þrátt fyrir að ég væri eini læknir héraðsins flaug ég í fallegum boga út yfir hafflötinn og lenti á bólakafi í ísköldum sjónum. Læknirinn var að minnsta kosti á vísum stað á meðan. Sjórinn var ískaldur og blautur. Svo fékk ég að súpa á Íslenskum sjó, söltum, þannig að mér hefur ekki bara orðið migult í saltan sjó heldur einnig fengið að vera neytandi, hlandblandaðs bryggjugutls.

Það er því deginum ljósara að ég hef dulda hæfileika til að vera leiðtogi. Amk ef ég fæ tækifæri til þess. Aftur á móti er mér mun hugstæðara hver verður næsti framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins. Þar er mikil nauðsyn að sé maður sem getur stýrt sínu liði til sigurs, eins og ég gerði forðum daga. Sigurjóni Þórðarsyni hefur verið úthlutað stöðunni ef eitthvað er að marka bloggheima.

Enginn talsmaður Frjálslyndra hefur jafn breitt bakland og á ég þá við að mörgum andstæðingum fannst fall hans af þingi hið verst mál. Þar fór góð og kröftug rödd í súginn. Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum kvótaflakks. Sigurjón er maður friðarins. Ekki minnist ég úr fréttum liðinna ára að hann hafi átt í útistöðum við fólk, nema þá pólitíska andstæðinga sína, enda eru þeir sviðnar rústir eða parkeraðir inn á stofnunum til langdvalar. Hans bakland er eins og spretthlauparar sem bíða eftir skothvellinum til að hefja baráttu í þágu Frjálslynda flokksins. Ef hann verður stýrimaður er nánast formsatriði að sigur er í höfn.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband