14.7.2010 | 23:30
Hver ræður á Íslandi?
Grein sem birtist eftir mig í Svipunni 12 júlí.
Hópur fólks hefur nú byrjað að mótmæla starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á Íslandi og er það vel. Þar með erum við Íslendingar komnir í hóp þjóða sem hafa þurft að grípa til slíkra aðgerða. Hvers vegna ættum við að mótmæla? Stutta svarið er að AGS sér til þess að eigur almennings eru millifærðar til lánadrottna, þannig séð er AGS banki.
AGS safnar öllum skuldunum saman og reiknar síðan út hvernig þjóðin getur greitt þær. Allt Ísland er í raun rekið með eins miklum afgangi og hægt er til að borga skuldir. Þess vegna er bannað af AGS að ríkissjóður taki neinn kostnað á sig til að forða fjölskyldum frá gjaldþroti. Fjölskyldur verða einfaldlega að fara í gjaldþrot. Ekki kemur til greina að mati AGS að lánadrottnar beri afskriftir því þeim er sjóðurin að bjarga.
Auk þess er það innprentað í starfsemi sjóðsins að einkavæðing sé af hinu góða. Þjóðir sem eru í klóm AGS freistast því oft til að selja auðlindir sínar upp í skuldir, oftar en ekki hefðu tekjur af viðkomandi auðlindum nýst mun betur til að greiða skuldir þjóðarinnar.
Flestir hugsandi menn gera sér grein fyrir því að viðkomandi stefna er á engan hátt vinstri stefna eins og núverandi ríkisstjórn kennir sig við, því síður norræn velferðarstjórn. Hvernig í ósköpunum getur núverandi ríkisstjórn fylgt AGS að málum jafn gagnrýnislaust og raunin er? Í tilfelli Umhverfisráðherra þá virðist allt koma henni mikið á óvart sem dúkkar upp eins og Magma málið sýnir. Aftur á móti hafa Jóhanna, Steingrímur, Gylfi og Már öll skrifað undir samning við AGS og skuldbundið alla íslensku þjóðina til að fylgja fyrirmælum sjóðsins. Þessi samningur var aldrei kynntur í ríkisstjórn né á Alþingi. Hann birtist bara undirskrifaður á netinu.
Samningurinn er nefndur viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda til AGS og í honum kemur m.a. eftirfarandi fram.
We believe that the policies set forth in this and previous letters are adequate to achieve the objectives of our program. We stand ready to take any further measures that may become appropriate for this purpose. We will consult with the Fund on the adoption of any such measures and in advance of revisions to the policies contained in this letter, in accordance with the Funds policies on such consultation.
Hér er um hreina trúarjátningu að ræða-we believe... Þau trúa eða telja að stefna sjóðsins sé góð og eru reiðubúin að gera hvað sem er til að stefna sjóðsins verði að raunveruleika. Þar að auki skuldbinda þau sig til að bera undir sjóðinn allar hugmyndir sínar til samþykktar eða synjunar.
Hér er um klárt valdaafsal að ræða. Sjóðurinn fær neitunarvald í öllum málum landsins sem skipta máli. Við getum ákveðið hvort við höfum ísbjörn hér eða þar en ekki meira. Ragna dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp þar sem fjölskyldum var leyft að að búa í 12 mánuði í því húsnæði sem fjölskyldan hafði misst. Hún var kölluð á teppið hjá landstjóra sjóðsins og húðskömmuð því þetta var í andstöðu við stefnu sjóðsins. Þeir telja sig hafa valdið og koma fram eins og sá sem valdið hefur. Það er því nokkuð augljóst að dagar Rögnu sem ráðherra eru taldir.
Annað dæmi er að Gylfi ráðherra virtist fyrst glaður með dóm hæstaréttar en nokkrum klukkustundum seinna var allt annað hljóð komið í strokkinn þegar AGS var búinn að gera honum grein fyrir því að lánadrottnar eiga aldrei að bera skarðan hlut frá borði. Í kjölfarið komu tilmælin frá SÍ og FME sem Umboðsmaður Alþingis krefst núna skýringa á, því það virðast litlar valdheimildir fyrir slíkum tilmælum.
Það er ekki sérkennilegt að AGS nýti sér völd sem honum eru færð. Það sem er stórundarlegt er að þjóðin, fjölmiðlar og Alþingi séu ekki á öðrum endanum vegna þess að sjálfstæði landsins hafi verið afhent fjármálastofnun sem er með lögheimili í Whasington USA. Ætlum við að sameinast eða ekki gegn yfirþjóðlegu valdi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gunnar Skúli - Steingrímur hefur sagt að þessi lán sem AGS og lánasjúku hjúin hafa troðið upp á þjóðina séu geymd í banka í Bandaríkjunum á vöxtum auðvitað - og verði ekki notuð.
Ef kallinn er ekki að ljúga þá getum við bara skilað þessum lánum og vextirnir ættu að duga upp í lánavextina.
Þannig að endurgreiðsla lánanna ætti ekki að standa í vegi fyrir því að losna við skrímslið AGS.
Veist þú eitthvað hvernig er með þessi lán ? Hvort þau eru til reiðu eða hvort búið er að eyða þeim ?
Benedikta E, 14.7.2010 kl. 23:53
Góð skrif Gunnar Skúli, og ó já, til er ég í byltinguna .
Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 15.7.2010 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.