Færsluflokkur: Mannréttindi
21.6.2009 | 13:03
Svona borgum við IceSave.
Okkur Íslendingum eru flestar bjargir bannaðar. Ef við samþykkjum IceSave samninginn þá munum við lifa við hungurmörk árum saman ef við förum hreinlega ekki á hausinn. Ef við höfnum honum fer Evrópusambandið í fýlu og reynir að einangra okkur. Bandaríkjamenn og NATO hafa engan áhuga á okkur eftir að kalda stríðinu lauk.
Spurningin er hvort smá smjörklípa kæmi að notum. Segjum okkur úr NATO og bjóðum Kínverjum Keflavíkurflugvöll fyrir herstöð. Auk þess gætum við fengið hingað inn kínverskar verksmiðjur því við erum hvort eð er láglaunasvæði. Allt þetta gegn hóflegu gjaldi, svona einu stykki af IceSave samningi. Þetta er í raun bara spurningin hverjum við afhendum fullveldi okkar, eða þannig sko.
17.6.2009 | 13:13
"Vér mótmælum allir"
Eins og Ívar Pálsson bendir á þá er IceSave að umbreytast úr deilu milli þjóða í lítið einkamál. Steingrímur sagði að um væri að ræða samning milli einkaaðila. Það væri ástæðan fyrir því að hann þyrfti leyfi til birtingar á samningnum. Ef deilan við Breta umbreytist í einkamál þá verður að reka það sem slíkt í framtíðinni. Hér er mikil vá fyrir dyrum. Þetta eina atriði er næg ástæða til að fella samninginn á Alþingi.
Að samþykkja ólesinn samning er landráð. Að samþykkja samning sem ber með sér verulega hættu á þjóðargjaldþroti er landráð. Að samþykkja samning sem fenginn var með þvingunum, þar sem Íslendingum var meinaður aðgangur að dómstólum er landráð. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að fara með mál fyrir dómstóla, alveg sama þó það hugnist ekki mótaðilanum. Alveg sama þó öllum finnist það tímasóun. Mannréttindi snúast ekki um slíka praktíska hluti heldur virðingu.
Því er borið við að staða okkar sé vonlaus. IMF muni spila með og setja þumalskrúfuna á okkur. Evrópusambandið muni henda okkur út í hafsauga. Sagan endurtekur sig í sífellu. Kúgun hefur ætíð verið til staðar, niðurstaðan byggist mun frekar á viðbrögðum hins kúgaða. Eitt sinn settist lítill Indverji á rassinn og heilt heimsveldi fór á hliðina. Í annað sinn stóð upp íslenskur maður og mótmælti ofríki Dana á Íslandi. Í kjölfarið stóðu allir hinir upp og sögðu "vér mótmælum allir". Þessi viðbrögð eru grundvöllur þess að í dag höldum við 17 júní hátíðlegan til að minnast fullveldis og heiðra minningu Jóns Sigurðssonar.
Mér er til efs að Jóni forseta hafi fundist sín samningsaðstaða sterk, sennilega hefur honum fundist hún nær vonlaus eins og okkur. Hann gerði sér aftur á móti grein fyrir því að það var bara ein leið til að komast að hinu sanna, að láta reyna á það. Ætlum við að sitja? Ætlum við að fylgja fordæmi Jóns og standa upp?
15.6.2009 | 12:02
Lauk Lýðveldinu 5 desember 2008?
Ég er ákaflega hugsi. Er að lesa bók Guðna Th. þessa dagana. Mín upplifun er sú að þann 5 desember s.l. þegar Alþingi Íslendinga samþykkti þingsályktunartillögu var bundinn endir á sjálfstæði okkar Íslendinga. Þá lauk Lýðveldinu eins og við höfum kynnst því hingað til.
Tillaga til þingsályktunar
um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum
vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka
á Evrópska efnahagssvæðinu.
(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 20082009.)
Þingsályktunartillagan hljóðar svona og er mjög saklaus á að líta.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld
vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli
þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.
á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.
Það eru þessi viðmið sem skipta öllu máli og fylgja með í þingsályktunartillögunni. Ég er ekki lögfróður en ef Alþingi samþykkir viðmiðin þá hljóta Íslendingar að hafa samþykkt þau. Viðmiðin fylgja hér með.
UMSAMIN VIÐMIÐ
1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og
hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um
Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/
EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld
inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska
efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum
Evrópusambandsins.
2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna
þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og
samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna
sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift
að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
3. Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi
þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.
Samkvæmt þessu þá fékk Ísland enga fyrirgreiðslu hjá AGS nema að samþykkja Icesave skuldirnar. Liður 3 tryggir það að við rífum ekki kjaft seinna því Evrópusambandið mun verða samráðsaðili að aðstoð AGS. Ef við fellum samninginn núna á Alþingi munum við ekki fá frekari aðstoð frá alþjóðasamfélaginu.
Við vorum algjörlega borin ofurliði, ekki einu sinni Norðurlandaþjóðirnar studdu okkur. Ekki það að við hefðum ekki góð rök fyrir máli okkar. Nei, það var bara sá sem valdið hefur sem réð, þeir þurfa sjaldnast á lögum að halda.
Ekki veit ég hvort er verra að vera gjaldþrota þjóð eða útskúfuð svöng þjóð. Sennilega erum við hvoru tveggja. Hvað er til ráða kæru landsmenn? Kæra þá fyrir mannréttindarbrot? Kannski er best að við flytjum öll til Englands og skráum okkur atvinnulaus þar.
12.6.2009 | 23:24
Kaupa menn hús án fyrirliggjandi veðbókavottorðs.
Við okkur Íslendingum blasa erfiðar spurningar. Þær tengjast Icesave málinu. Erum við skyldug til að greiða Icesave skuldirnar. Þeir einstaklingar sem eiga að þekkja lög og reglur Evrópusambandsins manna best á Íslandi, Stefán Már og Lárus Blöndal, telja svo ekki. Þeir hafa birt greinar endurtekið í vetur um þetta mál. Rök þeirra eru sterk. Ég hef ekki séð nein önnur gagnrök en að við eigum að borga, bara vegna þess. Ekki hafa nein góð lagaleg rök komið fram sem hnekkja málflutningi þeirra Stefáns og Lárusar. Menn telja sig bundnir af undirrituðum minnisblöðum milli ríkja og því hafi þeim verið allar bjargir bannaðar. Minnisblað er ekki ríkisábyrgð það er ljóst. Ríkisábyrgð fæst eingöngu fram með samþykki Alþingis Íslendinga. Ef Alþingi samþykkir ríkisábyrgð sem skerðir fullveldi landsins er það landráð.
Af framansögðu er um mjög stórt mál að ræða, vægt til orða tekið. Mjög áleitin spurning er hvernig þessi samningur mun virka á gengi íslensku krónunnar eða lánshæfimats Íslands. Hvernig munu aðrir bregðast við sem telja sig eiga kröfur á Ísland. Munu þeir koma í kjölfarið og nýta sér Icesave samninginn sem fordæmi. Hvers virði er Landsbankinn í raun og veru. Hversu mikið fellur á íslenska ríkið. Mikið af spurningar og fátt um svör.
Fyrrnefndur samningur er ekki opinber. Þrátt fyrir það á að kjósa um hann á Alþingi. Ef eingöngu Alþingismenn fá að sjá samning hvernig eiga þeir að meta hann með grasrótinni, fólkinu sem veitti þeim valdið.
Það er lágmarkskrafa að samningurinn í heild verði settur á netið þannig að þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun. Við kaupum ekki fasteign án þess að veðbókarvottorð liggi frammi við undirskrift, þannig er það bara hjá siðuðu fólki.
Lárus Blöndal
Stefán Már Stefánsson
>> Þjóðin hlýtur að spyrja: treysta þingmenn sér til að taka ákvörðun um að skuldsetja hana um 650 milljarða kr. auk hárra vaxta, án þess að skýr og afdráttarlaus rökstuðningur liggi að baki?
8.6.2009 | 23:35
"Við lentum í þessu."
Það er ýmislegt sem gerjast í hugum fólks þessa dagana. Hvernig stendur á því að þrátt fyrir þrjár mismunandi Ríkisstjórnir í vetur þá breytist ekki nokkur skapaður hlutur. Sama leikritið en bara mismunandi leikarar. Hvernig stendur á því að Steingrímur snýst eins og vindhani. Er möguleiki að æðstu stjórnendur Íslands á hverjum tíma viti eitthvað sem við hin vitum ekki. Er það sú staðreynd að ef umheimurinn lokar á okkur þá sveltum við að nokkrum vikum liðnum. Olían búin, bóndinn og útgerðarmaðurinn stopp, enginn matur. Hvers vegna er okkur ekki sagt allt!
Er hugsanlegt að íslensk stjórnvöld hafi lagt sig í líma við að láta líta svo út að allt sé í góðu lagi hjá okkur. Höldum áfram með Tónlistarhúsið eins og ekkert hafi í skorist. Yfirvöld hafi brugðist í því að gera umheiminum fulla grein fyrir því að við getum ekki greitt þessar skuldir. Ef Steingrímur hefði sagt í dag að hann ætlaði að reisa 40 grunnskóla á hverju ári næstu 7 árin í Bretlandi hefðum við skutlað honum snarlega á geðdeild. En hann sagði þetta í dag.
Þegar kreppan hófst í október sagði Geir "að við lentum í þessu". Núna segir Steingrímur líka "við lentum í þessu". Hann fékk þetta bara si sona í hausinn. Skrítið ég hélt að stjórnmálaskörungar breyttu sögunni en væru ekki bara söguritarar. Ef við rifjum upp söguna þá hafa þeir sem greitt hafa sínar stríðskaðabætur farnast illa. Karthagóbúar greiddu sínar skaðabætur að fullu eftir annað Púnverska stríðið. Þeir voru þurrkaðir út í því þriðja. Hefur einhver orðið var við mikla breytingu á mannskepnunni síðan þá?
30.5.2009 | 22:23
Blaðamenn.
Það var viðtal við útlending í Kastljósinu í vikunni. Hann ræddi um mistök blaðamanna í aðdraganda og í kjölfar hrunsins í haust. Þessi mistök voru ekki á neinn hátt einskorðuð við Ísland. Það virðist vera um alþjóðlegt vandamál að ræða. Mistökin felast í því að stunda ekki heiðarlega og nákvæma blaðamennsku. Skýringanna var að leita í ýmsu. Meðvirkni, því allir voru á eyðslutrippi og þar með blaðamennirnir líka. Menn vildu ekki rugga bátnum því það gæti komið eigendum miðlanna illa og þar með blaðamannanna. Allt mjög skiljanlegt og í takt við mannlegt eðli.
Því miður virðist sem blaðamenn hafi ekki lært mikið af mistökum sínum. Kannski er óttinn við atvinnuleysið sem heldur þeim niðri. Er sparnaður í kjölfar kreppunnar sem kemur niðurá góðri blaðamennsku? Hvað um það. Það skortir mikið á góða blaðamennsku enn í dag. Það sem við viljum sjá eru blaðamenn sem kafa vel og grafa upp staðreyndir. Staðreyndir sem eiga erindi við alþjóð en einhverjir vilja halda leyndu fyrir okkur. Það væri góð tilbreyting ef blaðamenn skúbbuðu meira í stað þess að flytja eingöngu fréttir af liðnum atburðum.
25.5.2009 | 21:51
Reyk-ja-vík og Jóhanna.
Það voru margir á Íslandi sem biðu spenntir eftir munnlegri skýrslu Jóhönnu í dag. Skýrslu um hversu hratt og örugglega sumir Íslendingar fara í gjaldþrot. Það var mjög sérkennilegt að hlusta á Jóhönnu. Þegar hún er loksins komin í góða aðstöðu til að hygla þeim sem minna mega sín þá verða ákvarðanirnar sem hún þarf að taka þær erfiðustu á lífsleiðinni. Svolítið sérstakt verð ég að segja. Ég hefði haldið að það yrði auðvelt að valta yfir auðvaldið og færa almúganum fé og völd.
Hún afneitaði AGS og sagði það gert fyrir almenning að staðgreiða skuldir þjóðarbúsins í einum grænum. AGS og erlendir lánadrottnar kæmu hvergi nærri þeim fyrirætlunum Ríkisstjórnarinnar. Fyrirgefið en er mig að dreyma.
Verst af öllu að fátt nýtt kom fram í ræðu Jóhönnu. Mest atriði sem þegar hefur verið fjallað um. Gerði Jóhanna sér ekki grein fyrir að við biðum með öndina í hálsinum í dag eftir ræðu hennar. Þetta var nokkurn veginn síðasti séns að standa sig. Ef þessi taktík sjálfsvorkunnsemi og stefnuleysis á að vera aðalsmerki Ríkisstjórnarinnar er ekki von á góðu. Mörg þúsund manns bíða eftir lausn sinna mála. Þá er það alls ekki ásættanlegt að þau ætli að tékka á því fólki við tækifæri .Hætta er á því að þá muni Reykjavík bera nafn með rentu.
26.4.2009 | 22:05
Hvernig hefur Jóhanna hugsað sér að bjarga okkur?
Þá er komin niðurstaða og við í Frjálslynda flokknum töpuðum illa. Ástæðurnar eru 5% þröskuldurinn, fjárvana og vanþroskað innra starf. Skoðanakannanir sem gera það að verkum að fólk vill ekki kjósa flokk sem kemst líklega ekki á þing. Þetta er í raun aukaatriði. Það sem skiptir máli er ástand Íslands.
Ástandið er mjög slæmt. Fólk vill ekki tala um það. Fréttamenn vilja það ekki heldur. Það var mjög lærdómsríkt að fylgjast með umræðunni í kosningabaráttunni. Eftir að hafa verið þátttakandi í mótmælunum í vetur, setið við fótskör meistaranna og hlustað grannt. Þá veit ég að kosningabaráttan snérist um aukaatriði. Að ræða niðurstöður skoðanakannana í þaula í hverjum fréttatímanaum af fætur öðrum er rugl. Að spyrja í þaula hvort einhverjir geti sætt sig við ESB eða ekki í næstu ríkisstjórn er tímasóun. Við munum frétta það hvort eð er þegar að því kemur.
Spurningarnar sem skipta máli er skuldastaða Íslands. Hvað og hverjum skuldum við. Hvernig standa samningamálin um skuldir okkar. Hvað hafa verið margir fundir, með hverjum og um hvað hafa menn rætt. Hvernig eru kjörin og hvers vegna hefur ekki forsætisráðherra vor farið til Evrópu nú þegar og samið niður skuldir okkar. Hvers vegna greiðum við þetta ekki á löngum tíma. Sú harðsuða sem nú er í gangi er að drepa allt líf á Íslandi.
22.4.2009 | 23:18
Borgarafundur RÚV-"ég er mættur"
Mikið var gaman að fylgjast með borgarafundi í beinni á RUV. Spillingarmál gömlu flokkanna voru gerð full ítarleg skil. Meiri tími hefði mátt fara í mistök fyrri ríkisstjórna og stefnu flokkanna til framtíðar. Þegar kemur að greiðslum til flokkanna og frambjóðenda er málið einfalt í mínum huga. Ég styrki ekki nokkurn mann með 2 milljónum án þess að ætlast til greiða á móti, það er bara þannig.
Aftur að þættinum. Sturla, minn maður, var lang bestur. Stulli var lang ferskastur og með bestu tilsvörin. Auk þess alvarlegur og í sömu stöðu og margir aðrir atvinnulausir. Hann þekkir það á sínu eigin skinni hvað það er að vera atvinnulaus og gjaldþrota. Því er hann hæfastur til að leysa vandamál einstaklinga í slíkri stöðu. Allar þær hugmyndir sem hann hefur að nýsköpun munu fara langleiðina að leysa atvinnuleysið. Að mínu mati eru það stór mistök ef Stulli kemst ekki á þing.
17.4.2009 | 23:55
Við þyggjum ekki mútur!!
Miðbæjaríhaldið, Bjarni Kjartansson, hefur verið ötull bloggari undanfarin ár. Hann hefur verið trúr Sjálfstæðisflokknum árum saman. Nú bloggar hann og upplýsir okkur um það að hann ætli ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur. Í raun merkilegt en ástæða hans fyrir því er mun merkilegri.
Hann segir frá því að á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins hafi verið samþykkt að auðlyndir þjóðarinnar ættu að eilífu að vera eign þjóðarinnar. Hann og fleiri stóðu að þessari ályktun. Honum finnst þingflokkur Sjálfstæðismanna starfa í fullri andstöðu við samþykkt síns eigin Landsþings. Hann telur að þeir séu málaliðar Landsambands Íslenskra Útvegsmanna. Atferli þingflokksins á Alþingi síðustu daga geri lítið úr Landsþinginu, hæði og spotti æðstu valdastofnun flokksins.
Við svo sé ekki búandi og hann segir skilið við LÍÚ klíkuna á Alþingi.
Ég óska Bjarna til hamingju og bíð hann velkominn í Frjálslynda flokkinn því við þiggjum ekki mútur.