Færsluflokkur: Mannréttindi
29.8.2009 | 21:40
ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐURINN KLIKKAR EKKI.
Þetta er grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu-sunnudagsblaðinu.
ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐURINN KLIKKAR EKKI.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn(AGS) hefur mikil áhrif á Íslandi í dag. AGS er banki sem setur mjög ströng skilyrði fyrir þeim lánum sem hann veitir. Þessi skilyrði eiga hug og hjarta AGS því sjóðurinn leggur mikið á sig til að farið sé eftir skilyrðunum. Oft eru lánin það stór að ómögulegt er að endurgreiða þau. Því virðist sem sjálf endurgreiðsla lánanna sé ekki mesta áhyggjuefni AGS. Það sem skiptir þá höfuðmáli er að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda. Ég vona að menn skilji að þetta er harla óvenjuleg framkoma hjá lánastofnun. Þar sem mér hefur enn ekki tekist að finna samninginn sem valdhafar Íslands skrifuðu undir verður maður að styðjast við þekkta afrekaskrá AGS. Kröfur AGS eru yfirleitt eftirfarandi.
Fjálst og óheft flæði fjármagns yfir landamæri. Við tókum ómakið af AGS með EES samningnum 1994 við ESB. Kreppurnar í Asíu, Rússlandi og núna á vesturlöndum hófust þannig. Fyrst kemur mikið af erlendu fjármagni inn í landið. Mikil hækkun fasteignaverðs og gjaldmiðilsins. Þar á eftir kemur til mikil lántaka hjá öllum aðilum innanlands. Síðan, í miðri veislunni gerist það eins og hendi sé veifað, að fjármagnið hverfur aftur heim tíl sín. Þá hrynur allt hagkerfið því endurfjármögnun skulda verður ómöguleg og gjaldþrot verður niðurstaðan. Þetta er margendurtekið og klikkar aldrei.
Krafa um markaðsvæðingu, sem þeir kalla frjálsa og er þá reynt að vísa til Adam Smith. Gamli Skotinn þyrfti sjálfsagt áfallahjálp í dag ef hann sæi þessa klámvæðingu á kenningum sínum. AGS vill óheft viðskipti, enga tolla og þess háttar. Vandamálið er að oft er um einstefnufrelsi að ræða, mörg þriðja heims lönd fá ekki að selja vörur sínar á Vesturlöndum. Þess í stað er dælt inn vörum frá eigendum AGS, jafnvel þó framleiða mætti slíka vöru í heimalandinu. Viðkomandi þjóð verður því háð dýrum innflutningi og fjarlægist enn frekar sjálfsþurftarbúskap.
Þá skulum við kanna þá þætti sem á eftir að fullgera hér á landi. AGS krefst þess ætíð að stýrivextir séu háir. Það gera þeir á þeirri forsendu að verðbólga verði ekki of mikil hjá örmagna þjóðum. Reyndar er mikilvæg undantekning, það eru Bandaríkin. Þar eru stýrivextir lágir, núna innan við 1%, sjálfsagt til að örfa atvinnulífið. Í Indónesíu á sínum tima fór AGS með stýrivextina í 80%. Afleiðingin af þessari hávaxtarstefnu hefur ætið haft í för með sér fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila í viðkomandi löndum(margendurtekið og klikkar ekki). Þetta er núna að gerast á Íslandi. Síðan bætist verðtrygging lána við, hjá Íslendingum, sem hvati sem flýtir öllu ferlinu.
Strangar kröfur koma frá AGS um ríkisfjármál. Þeir hafa skipað öllum löndum að skera niður ríkisútgjöld til að ná hallalausum fjárlögum. Undantekningin er aftur Bandaríkin sem fer yfir á kortinu til að efla atvinnulífið og minnka atvinnuleysi. Seðlabanki þeirra prentar bara dollara fyrir þá, sem verðbólgan étur síðan upp með tíð og tíma. Vandamál okkar er að við þurfum að framleiða til að eignast dollara til að greiða erlendu lánin. Til að sem mestur afgangur verði til að kaupa dollara verður að minnka öll ríkisútgjöld. Þessi stefna AGS hefur valdið miklum niðurskurði í heilbrigðis, mennta og félagsmálum. Laun almennings hafa lækkað verulega. Yfirleitt skreppur miðstétt úr 60-70% niður í 20%. Fátækt eykst að sama skapi.
AGS kemur með eða styður kröfuna um einkavæðingu. Heibrigðis- og menntakerfið, járnbrautir, flugfélög, olívinnsla, orkuvinnsla, vatnsveita , rafmagn og fleira. Niðurstaðan er oftast sú að þjónusta minnkar og verður það dýr að notkun einstaklinga ræðst af efnahag. Þegar um er að ræða auðlindir sem þjóðir hafa byggt afkomu sína á, eins og olíu o.þ.h. þá verður viðkomandi þjóð algjörlega berskjölduð því hún hefur engin tök á því að afla sér tekna til að greiða skuldir sínar hjá AGS.
Elexír AGS virkar einhvern veginn svona. Fyrst er að koma á mikilli skuldsetningu. Háir stýrivextir sem setja heimili og fyrirtæki á hausinn. Mikill niðurskurður sem veldur miklu atvinnuleysi. Mikill niðurskurður á launum og öllum bótum frá hinu opinbera. Einkavæðing sem eykur kostnað einstaklingsins á nauðþurftum til daglegs lífs. Yfirskuldsett kynslóð sem lifir við kjör sem hún hefur aldrei kynnst áður og er til í að selja eigur sínar upp í skuldir. Sala á auðlindum landsins og þar með möguleikanum á því að endurgreiða lán AGS. Þar með verður þjóðin að fá lán fyrir láninu, gott dæmi um þetta er Argentína.
AGS er kominn inn á gafl hjá okkur. Til að lágmarka skaðann þurfum við að skuldsetja okkur sem minnst. Framleiða sem mest og greiða skuldirnar. Halda í auðlindirnar hvað sem það kostar. Látum ekki neyða okkur til að brjóta Mannréttindasáttmála SÞ þar sem kveðið er á um; rétt einstaklinga til atvinnu, frelsi til að velja sér atvinnu og rétt á mannsæmandi lífsskilyrðum þrátt fyrir skort á atvinnu, skort sem viðkomandi ber enga ábyrgð á.
28.8.2009 | 23:52
Okkar Dunkirk.
Bretar flúðu undan Þjóðverjum eftir algjöran ósigur í Frakklandi. Chamberlain kom með ónýtan samning heim eins og Svavar Gestsson og ári síðar voru Bretar komnir niður í fjöru í Dunkirk. IceSave ríkisábyrgðin var samþykkt á Alþingi Íslendinga í dag. Þjóðverjar túlkuðu Chamberlain samninginn eftir sínu höfði. Hvort við fáum eins og Bretar einhvern Winston Churchill er önnur saga. En við þurfum á þeim anda að halda núna.
Þegar flest sund virtust lokuð þá lofaði karlinn svita, blóði, tárum og sigri.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn(AGS) hefur skuldsett okkur svo hrikalega að við ráðum engu sjálf. Heyrst hefur að AGS banni Steingrími Fjarmálaráðherra að kaupa HS orku til okkar Íslendinga svo orkan á Suðurnesjum falli ekki í hendur útlendinga. AGS samþykkir ekki frekari lán nema við samþykktum IceSlave samninginn. AGS krefst hallalausra fjárlaga innan tveggja ára. Það þýðir meiriháttar niðurskurð. AGS stjórnar Íslandi gott fólk. Einhver staðar er til samningur um yfirtöku AGS á sjálfstæði Íslands en hann höfum við ekki fengið að sjá. Hvort það er hótun um líflát eða svissneskar bankabækur veit ég ekki, en að minnsta kosti er farið með þennan samning eins og mannsmorð.
Það var ákveðið að skera lítið niður í ár. Almenningi var leyft að frysta lánin sín tímabundið. Núna er komið að skuldadögum. Niðurskurður á ríkisútgjöldum verður a.m.k 30% á næsta ári. Í Lettlandi geysar kreppan og AGS stjórnar þar og því er gott að fylgjast með þeim, því þeir eru skrefi á undan okkur. Þar sem skólar eru nálægt hvor öðrum eru þeir sameinaðir. Laun kennara verða skorin niður um 30% frá og með 1 september í ár. Heilbrigðisráðherrann segir að ef ekki fæst meira fjármagn þá muni hún þurfa að rukka alla sjúklinga fyrir sjúkrahúsvist, sem liggja lengur inni en tvo daga.
Það er ekkert í spilunum sem bendir til hins gagnstæða hjá okkur Íslendingum, nema hefðbundin íslensk brjálsemi. Ef við stöndum saman, yfir allar flokkslínur, og mótmælum áformum AGS, krefjumst þess að fá að ráða okkar málum sjálf þá eigum við von. Við erum ekki heimsk, við getum siglt okkur út úr þessari kreppu, með aðstoð, án þess að gefa allar eigur okkar. Vaknið kæru landsmenn og stöndum saman.
Þessi mynd hér fyrir neðan er ekki alveg splunkuný, hún er frá júlíbyrjun. Mig grunar að hún hafi versnað ef eitthvað er. Myndin ber með sér að afborganir af skuldum ríkissjóðs verða gróflega 200 milljarðar á ári til 2023. Þar sem ríkissjóður hefur haft um 400 milljarða á ári til ráðstöfunar er um að ræða mikla blóðtöku. Við getum búist við skertum tekjum í framtíðinni, kunnugir telja að ríkissjóður muni hafa um 380 milljarða á ári til ráðstöfunar. Það ætti að gefa okkur 180 milljarða í stað 400 milljarða í ráðstöfunartekjur þegar við erum búin að greiða af lánunum. Nú er hugsanlegt að íslenska ríkið gæti verið í mínus í nokkur ár meðan það versta gengur yfir en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannar okkur það nema tvö næstu árin. Það setur okkur svo þröngar skorður að manni liggur við köfnun.
Ef við veltum þessum stærðum örlítið fyrir okkur. Samkvæmt þessu eru ráðstöfunartekjur ríkissjóðs að minnka um 50%. Landspítalinn sem þarf tæpa 40 milljarða á ári ætti samkvæmt því að fá rúma 20 milljarða. Ef þetta reynist vera raunin þá erum við að upplifa mesta niðurskurð á LSH í sögunni. Þetta þýðir miklar uppsagnir hjá starfsfólki. Þetta getur einnig haft í för með sér takmarkanir á meðferð sjúklinga. Meðferð sem við höfum talið sjálfsagða hingað til. Takmarkanir gætu falist í því að einstaklingar með krabbamein fái ekki gjörgæslumeðferð, sjúklingar sem hafa náð ákveðnum aldri komist ekki í blóðskilun í gervinýranu. Eldri einstaklingar komist ekki í hjartaskurðaðgerð, kornabörn með rýrnunarsjúkdóma verði látin deyja án gjörgæslumeðferðar. Ef til vill verður gefinn kostur á meðferð ef sjúklingar borga meðferðina sjálfir.
Útlitið er ekki gott. Vonandi hef ég rangt fyrir mér, því að öðrum kosti er framtíð okkar hræðileg.
24.8.2009 | 20:50
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og skólabækur
Að lokinni helgi sem hefur verið róleg í pólitíkinni er samt ýmislegt að bærast í kolli mínum. Umræðan um ríkisfjármál blundar á bakvið allt suðið í IceSave. Framundan er mjög mikill niðurskurður á ríkisútgjöldum. Ástæða þess er mikil innspýting inn á bankabækur fjármagnseigenda og endurreisn bankanna. Síðan er það vaxtagreiðslur af öllum lánunum. Niðurskurðurinn verður gríðarlega mikill næstu árin tvö sökum þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn(AGS) krefst hallalausra fjárlaga eftir 3 ár. Sú krafa er að sjálfsögðu glórulaus og hvaða tilgangi þjónar hún yfir höfuð?
Fréttir um foreldra sem geta ekki keypt skólagögn fyrir börnin sín og jafnvel tilkynna þau veik, því þau skammast sín svo mikið stakk mig þó mest.Hvar er þessi skjaldborg sem lofað var? Hvar er Norrænt velferðasamfélag? Á bara að stoppa í götin eftirá, sérstaklega ef þau rata á síður fjölmiðlanna.
Ef saga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lesin þá eigum við ekki von á góðu. AGS sker niður laun og alla styrki eða bætur til þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Samtímis og AGS setur okkur í gríðarlega skuld sem hefur í för með miklar vaxtargreiðslur krefst hann hallalausra fjárlaga. Niðurstaðan verður sú að nánast ekkert verður til skiptanna og alls ekki fyrir lítilmagnann. Það er ekkert sem bendir til þess enn þá að þetta gangi ekki eftir. Því má vænta þess að mikill landflótti muni bresta á og að erlendir aðilar munu eignast allar auðlindir þjóðarinnar. Spurningin er hvort maður eigi að setja hausinn undir sig og deyja með sæmd eða bara koma sér í burtu.
14.8.2009 | 00:35
Þannig er það bara, alveg sama hvað okkur finnst
Ég er að melta daginn. Þurfti reyndar að vinna fram á kvöld þannig að ég missti af fundinum í dag á Austurvelli. Hef frétt að hann hafi verið vel heppnaður.
Fundurinn varð til þess að umræða skapaðist í dag um stöðu Íslands. Ég ræddi málið við all nokkra og reyndi samtímis að hafa hemil á mér og hlusta. Það eru all nokkur hópur fólks sem veit ekkert hvernig á að taka á IceSave en vill ræða málið. Síðan er það hópur fólks sem vill ganga frá þessu sem fyrst og án þess að vera með málalengingar. Sömu aðilar sjá ekkert rangt við það að nota IceSave skuldirnar sem aðgöngumiða inn í ESB. Þetta eru yfirleitt Samfylkingarfólk. Svo er það hópurinn sem telur að hægri/vinstri pólitík skipti einhverju máli í IceSave. Tala mikið um að allt sé Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum að kenna. Allt sé betra en að hleypa þeim aftur í stjórn. Enn einn hópurinn skynjar ógn og er hræddur en skilur ekki út á hvað málið gengur. Síðan er það hópurinn sem myndast ætið þegar flóknir hlutir eru sífellt í fréttum, þ.e. þau verða hundleið á málinu og reyna ýta því frá sér.
Allir hóparnir eiga það sameiginlegt að þeir sjá þessa risaöldu nálgast landið, viðbrögðin eru bara mismunandi. Viðbrögðin tengjast einhverjum viðmiðum sem þau hafa tileinkað sér áður, pólitísk afstaða, áhugi/andstaða við ESB o. sv. fr. Vandamálið er að sú staða sem Ísland er í dag á sér enga hliðstæðu, við höfum aldrei gengið í gegnum neitt svipað áður, við höfum lítið gagn af okkar viðmiðum sem við höfum tileinkað okkur við hversdagsleg vandamál. Hugsun og ályktunargeta okkar getur ekki stuðst við fyrri reynslu nema mjög takmarkað.
Hingað til hef ég sagt því miður, en í dag ætti ég frekar að segja Guði sé lof að mjög sársaukafull reynsla úr æsku hefur ætið fylgt mér. Pabbi skrifaði undir lán sem ábekingur hjá náfrænda sínum, hann borgaði aldrei. Rest is history.
Þannig er það bara, skoðanir okkar á tilverunni skipta engu máli, bara undirskriftin, þannig er það bara og hefur alltaf verið.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2009 | 21:10
Ég var að pæla......
Ég var að pæla, óþarfi að halda sér fast ég er ekki svo djúpur. Hefur þetta stríð um IceSave snúist um örfáa einstaklinga sem hafa krafist sterkra fyrirvara við ríkisábyrgðinni. Ögmundur mest áberandi sökum stöðu sinnar og hagstæðrar fortíðar í IceSave málinu. Mótmæli stjórnarandstöðunnar hefðu sennilega verið látin liggja í léttu rúmi ef allir stjórnaliðar hefðu hugsað eins og Samfylkingin. Þá hefði málið verið afgreitt eins og hvert annað stjórnarfrumvarp.
Síðan er það þessi viðbótarsamningur sem Samfylkingin virðist hafa gert við Evrópusambandið. Að minnsta kosti virðist Össur vita manna mest um það mál. Samningurinn er einhver óopinber sáttmáli/viljayfirlýsing um endurgreiðslur á IceSave ef við samþykkjum að ganga í ESB. Það er greinilega gert ráð fyrir því að við séum komin inn í bandalagið innan 7 ára.
Að lokum, að allar hugsanlegar fyrirgreiðslur virðast þurfa að fara um skrifborðin í Washington fyrst. Við fáum enga fyrirgreiðslu nema fulltrúar AGS sleiki frímerkin fyrst. Sérkennileg ráðstöfun stofnunar sem gefur sig út fyrir að vilja hjálpa þjóðum í neyð. Enn þá sérkennilegra að þjóðir skuli sætta sig við það.
11.8.2009 | 14:31
Það er hægt að klára málið á mjög skömmum tíma ef það er vilji til þess af hálfu Samfylkingarinnar,“
Stundum hrekkur út úr mönnum sannleikskorn í hita leiksins. Ekki að ég telji Þór Saari einhvern stórlygara, bara ekki eins vanur og reyndir þingmenn að segja ekki neitt þó þeir tali í tíma og ótíma. Eftirfarandi er haft eftir Þór á Mbl.is
"Það er hægt að klára málið á mjög skömmum tíma ef það er vilji til þess af hálfu Samfylkingarinnar,
Miðað við þetta er öll töf á IceSave málinu orsökuð af skoðunum Samfylkingarinnar á þeirri ríkisábyrgð sem Alþingi á að samþykkja. Þeir þingmenn sem vilja setja mjög trygga öryggisventla á ríkisábyrgðina eru ekki í Samfylkingunni, þeir eru í ýmsum öðrum flokkum.
Því virðist átaklínan snúast um hvort Samfylkingunni takist að koma ríkisábyrgðinni í gegnum þingið með eins veikum fyrirvörum og hugsast getur. Eina haldbæra skýringin á þessari afstöðu Samfylkingarinnar er þörf hennar að styggja ekki valdið í Brussel. Til að ná þessu markmiði sínu reynir Samfylkingin að hóta, setur þrönga tímaramma og lofar stjórnarslitum ef ekki verður gengið að kröfum hennar. Þeir hóta í Brussel og þeir hóta í Samfylkingunni, ekki furða að þau telji sig eiga betur heima í Brussel en Reykjavík.
Það er vaxandi skilningur meðal þjóðarinnar að ríkisábyrgðin er stórmál. Þetta snýst um sjálfstæði og sjálfsvirðingu þjóðarinnar. Það sem ekki allir gera sér grein fyrir að það eru mjög margir erlendis sem bíða í ofvæni eftir niðurstöðunni. Ef Íslendingum tekst að slíta af sér hlekkina þá er það fordæmi, fordæmi sem gæti gefið öðrum von. Við erum ekkert eyland ef einhver hélt það.
Hefðbundið pólitískt ofbeldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.8.2009 | 22:16
Þingræði er bara tómt vesen.
Þingræðið þvælist fyrir. Guðbjartur gefur þingmönnum 48 klst. Jóhanna hótar stjórnarslitum ef IceSave er ekki samþykkt. Þingmenn vilja fá tíma til að átta sig sjálfir á afleiðingum ríkisábyrgðar á IceSave samningnum.
Ein hugsanleg afleiðing er að þessi skuld gæti verið líkistungli sjálfstæðis þjóðarinnar. Það er hugsanlegt að við förum á hausinn. Ekki furða að þingmenn vilji hugsa sig vel um.
Það sem vekur furðu mjög margra í þjóðfélaginu er algjört áhyggjuleysi Samfylkingarmanna. Margir þeirra virðast vilja samþykkja samninginn 1 2 og 3. Á þetta alls ekki endilega við þingmannahópinn einvörðungu heldur Samfylkingarmenn vítt og breitt um þjóðfélagið. Þegar maður reynir að rökræða IceSave þá loka þeir eyrunum og fara að tala um veðrið. Sjálfsagt vörn gegn of válegum tíðindum og truflun á fyrirhuguðum skíðaferðum í vetur og því um líku.
Efast um alvöru þingmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2009 | 22:25
Ekki ráðist í niðurfellingu skulda, hins venjulega Íslendings, samkvæmt samkomulagi við AGS.
Þetta er að finna á RÚV þann 4 ágúst 2009.
Félagsmálaráðherra segir ekki verða ráðist í almennar niðurfellingar skulda hjá almenningi. Það sé ein af forsendum samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ekki sé í mannlegu valdi að bæta fólki það sem gerðist í bankahruninu.
Þetta eru andsvör hans við gagnrýni Hagsmunasamtaka heimilanna við lélegum úrræðum bankanna og yfirvalda.
Ég held að þetta sé í fyrsta skiptið sem ég heyri Ráðherra segja það hreint út að fólki verði ekki bjargað með niðurfellingum skulda. Gríðarleg aukning á skuldastöðu einstaklinga hefur verið orsökuð af öllum öðrum en þeim sjálfum. Það sem lántakendur skrifuðu undir var að greiða lánin upp á ákveðnum fjölda ára, það hefur nú verið svikið. Svikaforsendurnar fyrir hækkun lána einstaklinga hafa verið ræddar í þaula og eru flestum kunnar.
Það sem er athyglisvert við fréttina er að íslenska Ríkið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerðu með sér samkomulag í upphafi viðskipta sinna eftir hrun. Samkomulagið gengur út á það að alls ekki eigi að fella niður skuldir almennings. AGS bannar allar afskriftir á lánum einstaklinga og íslenskar Ríkisstjórnir samþykkja það. Hvers vegna hafa ekki stjórnmálamenn sagt okkur lántakendum strax að við sætum ein í súpunni, hvers vegna er verið að gefa fólki von um að einhver hluti lána þeirra verði afskrifaður. Nú er það ljóst, lánin skulu greidd að fullu en við getum valið hversu margar kynslóðir munu taka þátt í greiðslunum. Aftur á móti er hægt að bjarga bönkum og þvíumlíku.
Framkoma íslenskra yfirvalda er hneykslanleg. Þau eru fulltrúar fólksins, eða að minnsta kosti kusum við þau á þing til þess. Alþingismenn og Ráðherrar skammta ofaní okkur upplýsingarnar. Við erum búin að hrópa á gegnsæi. Okkur er bara gefið langt nef. Ef þingmenn hafa ekki fattað það þá treystir íslenska þjóðin þeim ekki lengur. Þess vegna erum við á förum.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
"Bretar og Hollendingar hafa staðfest að ekki verði gengið að auðlindum Íslands ef ekki tekst að greiða Icesave-skuldirnar."
Þetta er haft eftir formanni fjárlaganefndar, Guðbjarti Hannessyni. Þetta er mjög athyglisvert með hliðsjón af hvernig þessi samningur við Breta og Hollendinga kom til landsins. Ef við rifjum þetta upp þá voru áhöld um að við fengjum að sjá samninginn. Það voru jafnvel til þingmenn sem voru reiðubúnir að samþykkja hann óséðan. Það var umsvifalaust kveðið í kútinn ef einhver Íslendingur óttaðist að við gætum ekki staðið í skilum. Sömuleiðis ef menn óttuðust að gengið yrði að veðum ef svo færi, þ.e. eignum íslenska ríkisins.
Nú hefur sá ótti verið staðfestur. Það hefur semsagt verið staðfest af Guðbjarti að hugsanlega gætum við ekki staðið í skilum. Þar að auki hefur sá möguleiki verið staðfestur að hægt hefði verið að ganga að auðlindum okkar. Það var sem sagt mögulegt.
Það má segja að sá möguleiki að auðlindir gengju upp í skuldir þjóðarinnar, að þjóðin sé á því augnabliki komin í greiðsluþrot. Því hlýtur sá möguleiki um gjaldþrot þjóðarinnar að svipta alla þingmenn möguleikanum að samþykkja IceSave samninginn, að öðrum kosti væru þeir að framkvæma landráð. Hjáseta er af sömu rökum ekki gerleg heldur.