Færsluflokkur: Umhverfismál
4.10.2009 | 22:46
Silfrið, Guðfríður Lilja og AGS
Mér fannst Silfrið í dag bara nokkuð merkilegt. Átakalínur komu betur fram. Samkvæmt Guðfríði Lilju þá er sterk tilhneiging að koma Icesave í gegnum bakdyrnar. Hún og fleiri ætla að reyna að koma í veg fyrir það leynimakk. Þorvaldur Gylfa prófessor taldi slíka lýðræðisiðkun bara framkvæmdavaldinu til trafala. Maðurinn er ekki tækur í lýðræðislega umræðu, ætli hann sé enn á launum hjá AGS? Jarðfræðingurinn góði jarðaði stóriðjudrauma landsmanna. Orkan er ekki endalaus né eilíf.
Umræðan um skaðleg áhrif AGS á land og þjóð verður stöðugt háværari. Menn klæða orð sín ýmsum klæðum en sameiginlegt er öllum óttinn að sjóðurinn skilji Ísland eftir sem rjúkandi rúst. Það er reglan hjá sjóðnum þannig að full ástæða er til að óttast. Því er okkur ráðlegast að senda hann til baka, því fyrr því betra.
30.8.2009 | 22:18
Steingrímur, hér er kvöldlesningin fyrir morgundaginn
...um sameiginlega eign auðlinda
Flokksráðsfundur VG, haldinn á Hvolsvelli dagana 28.-29. ágúst 2009, leggst eindregið gegn því að lausafjárvandi samfélagsins verði leystur með sölu eða langtímaframsali á auðlindum og orkufyrirtækjum.
Í þeirri vá sem nú vofir yfir þar sem Magma Energy og GGE eru nálægt því að eignast þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og auðlindir á Reykjanesi er það brýnna en nokkru sinni fyrr að Vinstri græn stöðvi þessi áform. Flokksráðið beinir því til ráðherra sinna, þingmanna og sveitarstjórnarmanna að tryggja hagsmuni þjóðarinnar með því að halda HS orku í samfélagslegri eigu. Aðeins þannig er hægt að tryggja að Hitaveita Suðurnesja var stofnuð um, árið 1974. Ljóst er að ekki er seinna vænna að breyta lögum og reglugerðum þannig að almannahagsmunir séu varðir og að samfélagslegt eignarhald orkufyrirtækja og orkuauðlinda sé tryggt.
Ef Steingrímur klikkar og selur frá okkur auðlindina á Suðurnesjum, þvert gegn vilja flokksins hefur hann gengið í björg.Hann hefur þá sennilega verið heilaþveginn(Stokkhólms heilkennið), hótað lífláti eða keyptur með svissneskri bankabók. Innst inni vil ég ekki trúa neinu af þessu. Ég óttast að annað kvöld er ég fer að sofa hafi ég áttað mig og það sé endanlega orðið opinbert að hann hefur skipt um lið.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.8.2009 | 19:27
Hverjum nýtist gróðinn, þeim eða okkur
Hvenær er rétti tíminn til að selja auðlind sem hækkar stöðugt í verði, aldrei. Hvenær er rétti tíminn til að kaupa auðlind sem hækkar stöðugt í verði, núna. Ég þvældist aðeins um viðskiptablogg vestanhafs og það er augljóst að margir bíða slefandi eftir því að hagnast vel á kaupum Magma á HS-Orku. Margir segjast ætla að kaupa hlut í Magma um leið og viðskiptin eru frágengin hér á landi. Gott fyrir Magma en hvað merkir það fyrir okkur Íslendinga.
Menn reikna með gróða, ég tel að hann sé betur kominn í vasa okkar Íslendinga.
Ross er þekktur fyrir að hámarka verð fyrirtækja sem hann kaupir og selja síðan hæstbjóðanda. Að hámarka þýðir að lækka laun og hækka raforkuverðið, þannig verður HS-Orka álitlegur pakki til sölu.
Ef við höldum eignarhaldinu innan landsins þá getum við nýtt þessa auðlind til að afla okkur vaxandi tekna og um leið ódýrrar orku fyrir landsmenn. Það lækkar reikning heimilanna og stuðlar að hagvexti heillar þjóðar en ekki einhvers eins fyrirtækis úti í heimi og hluthafa þess.
Ég óttast það mest að Steingrímur verði svínbeygður af AGS og missi þessa auðlind úr landi.
Gegn sölu orkufyrirtækja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er farið að læðast að manni illur grunur. Þeir einstaklingar sem fá að sjá leyniskjöl um Icesave samninginn eru ekki samir á eftir. Hárin rísa á höfði þeirra, nema að sjálfsögðu Steingrími. Orðrómur er á kreiki um að við eigum engra kosta völ. Til að greiða Icesave og aðrar skuldir verðum við að virkja enn meira og reisa enn fleiri álver. Er það skýringin á algjörri uppgjöf Steingríms gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að öll þingstörf séu bara formsatriði.
Sú leynd sem er á ýmsum staðreyndum gerir almenningi mjög erfitt um vik. Er hugsanlegt að látið sé í veðri vaka að við séum í vonlausri aðstöðu svo við séum ekki með múður. Svo að við samþykkjum Icesave í þeirri trú að við getum ekkert annað. Ég tel að það sé borgaraleg skylda allra sem vita sannleikann að opinbera hann.
Atburðir síðustu mánaða bera þess glögg merki að allir eru að tapa nema lánadrottnar. Þeir halda sínum hlut. Almenningur og fyrirtæki skulu blæða þangað til þau geta ekki greitt meir. Allt til þess að lánadrottnar beri ekki nokkurn skaða af kreppunni. Hugsanlegt er að það samrýmist stefnu VG því ef allir flytja af landi brott mun náttúran blómstra án mannskepnunnar á Íslandi, virkilega grænt, ekki satt?
Margar orrustur hafa verið háðar án fyrirfram gefinnar niðurstöðu og óvissra lykta. Því er aðstaða okkar Íslendinga ekkert óvenjuleg. Meðan við vitum ekki betur tel ég best að taka slaginn og falla með sæmd, eða sigra
13.7.2009 | 19:05
Þeir fiska sem róa.
Þetta er grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu í gær.
Þeir fiska sem róa.
Veiðiskapur er sport, beitan er valin af innsæi, fiskurinn þreyttur og síðan dreginn að landi. Þar fær hann síðan náðarhöggið.
Við vorum skuldlaus þjóð og því nokkuð sjálfstæð. Í dag erum við skuldug og ósjálfstæð þjóð. Við bitum á agnið, afbrot okkar var að láta glepjast en núna situr öngullinn fastur og það er sárt. Það er verið að þreyta okkur núna. Stýrivextirnir lækka ekki neitt af ráði. Afleiðingin er að fleiri fyrirtæki komast í þrot. Atvinnulausum fjölgar. Þar með er kominn ásættanlegur grundvöllur fyrir launalækkunum. Af þeim sökum minnka tekjur ríkisins verulega, bæði beinir og óbeinir skattar minnka. Þar með er einnig kominn grundvöllur fyrir launalækkun opinberra starfsmanna og síðan verulegur niðurskurður hjá hinu opinbera. Til að tryggja þetta ástand til frambúðar munum við samþykkja IceSave samninginn í sumar.
Við verðum að framleiða eins mikið af vörum sem gefa gjaldeyri og við getum. Ál og fisk. Það viljum við gera til að standa í skilum. Það vilja líka þeir að við gerum sem voru svo góðhjartaðir að lána okkur til að bjarga okkur frá vandræðunum, sem öngullinn veldur okkur. Því vinnur veiðimaðurinn ötull að því að hámarka afrakstur veiði sinnar. Fljótlega mun þjóðin framleiða eins mikið og hún getur. Þjóðinni mun vera greitt eins lágt kaup og framast er unnt til að halda framleiðslukostnaðinum niðri. Það mun hámarka afraksturinn úr verksmiðjunni Íslandi. Það mun gera okkur kleift að greiða niður lánin og taka ný. Í stað þess að hagnaður okkar, vegna vinnu okkar, fari í okkar vasa mun hann streyma óhindrað í vasa lánadrottna okkar.
Nú er okkur bent á að með aukinni stóriðju muni okkur ganga betur að greiða skuldir okkar. OECD er búið að gefa línuna. Til stóriðju þarf lán. Lánveitendurnir skella okkur í ruslflokk lánshæfismatsins til að stilla af vaxtabyrði okkar, sér í hag. Síðan mun hver stóriðjan af annarri fylgja í kjölfarið og við höfum ekkert um málið að segja. Lánadrottnarnir stjórna og stýra, þannig er það hjá gjadþrota heimilum og eins er það hjá gjaldþrota þjóðum.
Eina spurningin sem út af stendur er hvort eða hvenær þeim þóknast að veita okkur náðarhöggið. Sennilega munu þeir ekki gera það. Mun arðvænlegra er að setja okkur í kvíar til hámarks nytja. Að velta því fyrir sér hvað Davíð, Solla eða Geir gerðu er tímasóun. Jafn glórulaust er að velta sér upp úr því hvað Jóhönnu dettur í hug. Önglar hafa þá náttúru að sitja fastir. Veiðimaðurinn á næsta leik.
Niðurstaðan er sú að íslensk þjóð er komin í kvíar lánadrottna sinna. Við munum strita og púla þangað til síðasta lánið er greitt og það mun taka okkur marga áratugi. Hver er sinnar gæfu smiður.....
10.4.2009 | 23:02
DRAUMALANDIÐ.
Þessi kvikmynd er frábær. Hún virkilega hristir upp í manni. Það er ekki laust við að manni finnist íslensk þjóð hafi verið plötuð. Að sjálfsögðu með aðstoð að innan-alltaf þessir Trójuhestar að eyðileggja vel heppnað drama þannig að það fær rússneskan enda.
Andri Snær á heiður skilin fyrir frábært framtak. Myndin fær mann virkilega til að hugsa meira heilstætt um þessi mál. Áróður peningaaflanna er mikill og yfirgnæfir öll mótrök. Hraði og tímaleysi samfélagsins kemur í veg fyrir að fólk geti myndað sér skoðun að vel athuguðu máli. Ef allir hefðu 2 klst á dag bara til að velta fyrir sér þjóðfélagsmálum væri margt öðru vísi i dag.
9.4.2009 | 20:44
Hvaða flokkur gagnast mér?
Sjálfstæðisflokkurinn er vinsæll flokkur. Um það bil fjórði til fimmti hver Íslendingur kýs Sjálfstæðisflokkinn. Því ætti hann að hafa gert mörgum margt gott. Sjálfstæðisflokkurinn tók réttin til að veiða fiskinn frá fólkinu og færði þann rétt á silfurfati til fárra. Þeir leyfðu síðan mönnum að veðsetja óveiddan fisk. Þeir seldu bankana sem við áttum til örfárra manna-vina sinna. Þeir hafa endurtekið reynt að koma auðlindum okkar í einkaeigu. Þrátt fyrir greiðslur í sjóði sína frá hagsmunaaðilum hefur það ekki tekist enn. En áfram skal haldið. Helstu kosningaloforð Sjálfstæðismanna núna er að koma sem mestri orku fyrir kattarnef, helst í formi álbræðslu. Þeir gáfu fiskinn, síðan bankana, næst er það orkan.
Sjálfstæðisflokkurinn jók skatta á venjulega launamenn. Hann minnkaði eignaskatt. Hann tók af hátekjuskatt. Hann lækkaði skatt á fyrirtækjum. Hann lækkaði skatt af arði.
Það er augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn gagnast best þeim tekjuhærri, stóreignamönnum og þeim sem meira mega sín í þjóðfélagi okkar. Það er vel hugsanlegt að fyrrnefndur hópur sé um fjórðungur þjóðarinnar, en ég dreg það stórlega í efa. Aðallega vegna þess að ég þekki svo marga sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn en hafa ekkert gagn af því. Ég tel það brýnt hagsmunamál að hinn almenni kjósandi geri virkilega "kost benifit analýsu" á því hvað hagnast honum best að kjósa.
1.4.2009 | 22:02
Veruleikafirring Sjálfstæðisflokksins.
Á Alþingi Íslendinga er lítið frumvarp sem er 5 greinar og varla ein A4 síða. Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi. Sjálfstæðismenn eru arfavitlausir og hafa uppi málþóf. Í frumvarpinu er rætt um að við Íslendingar eigum okkar eigin auðlindir. Við eigum að nýta þær á hagkvæman og sjálfbæran hátt. Síðan er rætt um rétt þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess stofnun Stjórnlagaþings sem semur nýja stjórnarskrá.
Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að við eigum okkar auðlindir. Hann vill að útvaldir gæðingar geti auðgast á þjóðareign okkar. Afleiðing þessa er að Íslendingar verða leiguliðar í eigin landi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslur né Stjórnlagaþing. Hann hefur setið að völdum í 18 ár og vill engar breytingar á því. Hann vill halda áfram að stjórna og stýra landi voru. Hann er valdasjúkur-fíkill.
Sjálfstæðisflokkurinn ber mesta ábyrgð á bankahruninu sem varð í október 2008. Hann hleypti út King Kong og kallaði það frelsi einstaklingsins. Hann gaf fiskikvótann sem menn síðan veðsettu. Þeir fjármunir settu rúllettuna í gang. The rest is history. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja þá firringu sem á sér stað innan Sjálfstæðisflokksins. Þeir röfla og rífast eins og fortíðin komi þeim ekki við. Þeir fara á Landsþing og Dabbi dópar liðið. Það er ekkert innsæi, engin ábyrgðarkennd algjör veruleikafirring bara ég um mig frá mér til mín. Vonandi vaknar þjóðin fyrir 25 apríl og áttar sig á orsökum og afleiðingum tilverunnar.
21.3.2009 | 22:37
Grætt á daginn og grillað...
1.2.2009 | 22:19
Alþingi götunnar mun halda vöku sinni eftir sem áður!!
Þá er Ríkisstjórnin komin á koppinn. Ég er viss um að stór hluti þjóðarinnar er nú þegar búinn að lesa stjórnarsáttmála þessarar Ríkisstjórnar. Svo mun þjóðin fylgjast með og haka við uppfyllt loforð eftir því sem dagarnir líða. Væntingarnar eru mjög miklar og refsingin við vanefndum verður kolbrjáluð þjóð á Austurvelli. Því tel ég að stjórnarandstöðunni verði ekki kápan úr klæðunum ef þau ætla að reyna að eyðileggja fyrir Jóhönnu. Ef Alþingi Íslendinga hefur ekki manndóm í sér til að verja almenning fyrir holskeflu kreppunnar verðum við Austurvellingar að spúla dekkið í eitt skipti fyrir öll.
Steingrímur er skemmtilegur karl og ótrúlegur í tilsvörum. Þegar blaðamaður spurði hann út í sjávarútveginn, og var að velta fyrir sér mannréttindabrotum og framsali kvóta, þá fer hann að tala um fullvinnslu sjávarafurða. Maður sér fyrir sér fínan pinnamat sem engin hefur efni á kaupa, hvorki hér eða erlendis. Spillingin í kringum kvótann, framsal hans og veðsetning hefur verið þjóðinni hugleikin í allt haust. Þjóðin mun ekki sætta sig við neitt annað en að þessi spilling verði krufin og leiðrétt. Vonandi skilur Steingrímur það. Þar sem Steingrímur studdi framsal á sínum tíma á Alþingi má segja að hann sé upphafsmaður að þeirri spillingu sem að lokum leiddi til bankahrunsins nú í október. Nú er gullið tækifæri fyrir Steingrím að snúa við blaðinu og verða minnst sem maður að meiri fyrir vikið.