Færsluflokkur: Lífstíll

Nútíma þrælahald

Það er fátt sem gefur tilefni til bjartsýni þessa dagana. Ef við samþykkjum Icesave þá munu skuldir landsins verða óviðráðanlegar. Á sama tíma segja matsfyrirtæki, bankar og AGS að við samþykkt samningsins séu svokallaðar "lánalínur" opnar. Þ.e.a.s. við verðum ekki Kúba norðursins. Það virðist vera að til að gera sem flesta hamingjusama í nágrannalöndunum sé að þiggja sem mest lán af viðkomandi löndum.

AGS virðist vera miðlægur í þessu ferli. Hann hefur bútað niður aðstoðina til okkar og útdeilir henni í smápörtum. Sama aðferð og ég beiti við hundinn minn. Ef ég er með heila pulsu þá ríf ég hana niður í litla hluta og hvutti fær síðan bitana eftir því hversu þóknanlegur hann er. Ef Íslendingar gera ekki þetta eða hitt þá kemur ekki næsti biti frá AGS. 

Þegar búið verður að skuldsetja okkur í botn þá þurfum við að borga, að sjálfsögðu. Þar sem við erum rík af auðlindum er hægt að skuldsetja okkur mikið. Skuldsetningin mun miðast við að við getum borgað, rétt svo. Til að tóra munum við þurfa að selja auðlindir okkar, skera niður allan óþarfa kostnað eins og heilbrigðis- og menntakerfi. Allt þetta til að framleiða eins mikinn gjaldeyri úr áli og fiski og við getum.

Þar sem við erum með málþóf á Alþingi vegna Icesave þá er þegar farið að hóta okkur. AGS gefur í skyn að ekki fáist áframhaldandi fyrirgreiðsla frá honum. Matsfyrirtækin og Norræni fjárfestingarbankinn hóta líka.

Ef við fellum Icesave samninginn þá mun öllu verða skellt í lás. AGS kippir að sér hendinni. Hin löndin sem ætluðu að lána okkur hætta við. Matsfyrirtækin setja okkur í ruslflokkinn. Ísland verður Kúba norðursins. Neikvæð fjölmiðlaumræða úti í heimi mun drekkja okkur. Ég sé ekki neina lausn á þessari stöðu okkar.

Ég tel einsýnt að við stefnum í skuldafen og þrældóm. Eina spurningin er hversu margir munu vera eftir á Íslandi til þess að borga skuldirnar.

http://www.4strugglemag.org/images/slaves.jpg


Frjálslyndir og næstu jól.

Núna eru kosningar á morgun. Það verður mjög spennandi að vita hvernig fer. Þrír flokkar hafa komið okkur í þetta klúður, Sjálfstæðismenn, Framsóknarmenn og Samfylkingin. Þrátt fyrir minniháttar lýtaaðgerð á forsíðu þessara flokka eru innviðirnir eins. Það mun valda mér miklum vonbrigðum ef öll búsáhaldarbyltingin og öll sú óánægja sem hefur kraumað hefur ekkert í för með sér. Ef þessir þrír flokkar koma sterkir inn aftur er mér brugðið. Er fólk að kjósa eftir skoðanakönnunum?

Rödd Frjálslynda flokksins er mikilvæg. Við viljum afla og vinna okkur strax út úr kreppunni. Sérkennilegt að almenningur kveikir ekk á þessu. Okkur hefur skort múturfé, til allrar hamingju, en við gjöldum þess engu að síður. 

Ég vil bara benda kjósendum á að kröfur almennings í vetur, í mótmælunum eru að mestu samhljóma stefnu Frjálslynda flokksins. Því ættu margir að geta fundið atkvæði sínu gott skjól hjá Frjálslynda flokksins.


Við þyggjum ekki mútur!!

Miðbæjaríhaldið, Bjarni Kjartansson, hefur verið ötull bloggari undanfarin ár. Hann hefur verið trúr Sjálfstæðisflokknum árum saman. Nú bloggar hann og upplýsir okkur um það að hann ætli ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur. Í raun merkilegt en ástæða hans fyrir því er mun merkilegri.

Hann segir frá því að á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins hafi verið samþykkt að auðlyndir þjóðarinnar ættu að eilífu að vera eign þjóðarinnar. Hann og fleiri stóðu að þessari ályktun. Honum finnst þingflokkur Sjálfstæðismanna starfa í fullri andstöðu við samþykkt síns eigin Landsþings. Hann telur að þeir séu málaliðar Landsambands Íslenskra Útvegsmanna. Atferli þingflokksins á Alþingi síðustu daga geri lítið úr Landsþinginu, hæði og spotti æðstu valdastofnun flokksins.

Við svo sé ekki búandi og hann segir skilið við LÍÚ klíkuna á Alþingi.

Ég óska Bjarna til hamingju og bíð hann velkominn í Frjálslynda flokkinn því við þiggjum ekki mútur.


Baráttan við Chicago heilkennið.

G20 hópurinn ákvað mikla styrki til að stytta kreppuna. Um er að ræða ríkisstyrki. Þar að auki mjög hert eftirlit með öllu misjöfnu í viðskiptum. Aflétta bankaleynd og opna skattaskjól auðmanna. Sem sagt ríkisafskipti. Sumir segja að hér sé komið að endalokum frjálshyggjunnar. Frjálshyggjumenn mótmæla því og réttilega. Sannir frjálshyggjumenn bera ábyrgð á gjörðum sínum og miða fjárfestingar sínar við að geta staðið í skilum. Þ.e.ábyrgð í viðskiptum. Því fara þeir niður með sínum fyrirtækjum. Það er svolítið öðruvísi hér á landi.

Því er mjög athyglisvert að lesa pistil Styrmis á AMX í dag. Ég gerist svo ósvífinn að afrita hluta af honum hér því það er margt vel ritað hér annað en zetan.

 Um síðustu aldamót hóf Morgunblaðið í ritstjóratíð okkar Matthíasar Johannessen mikla baráttu fyrir því, að böndum yrði komið á stórar fyrirtækjasamsteypur, sem þá voru að verða til með löggjöf til þess að koma í veg fyrir að þær gætu eignazt Ísland allt. Við töluðum fyrir daufum eyrum. Þrátt fyrir ítrekuð skrif í langan tíma urðu viðbrögð nánast engin.

Slík löggjöf hefur aldrei verið vinsæl hjá þeim, sem starfa á vettvangi viðskiptalífsins. Í ljósi sterkra áhrifa þess innan Sjálfstæðisflokksins áttum við ekki von á miklum stuðningi þaðan. Hins vegar átti ég persónuleg samtöl við forystumenn Samfylkingar á þeirri tíð og benti á, að stuðningur þess flokks við þennan málflutning mundi skipta máli. Þann stuðning var ekki að fá og ég hef aldrei skilið og mun aldrei skilja hvers vegna.

Það er hins vegar ljóst, að ströng löggjöf, sem útilokar að nýjar fyrirtækjasamsteypur, sem leggi undir sig allar eignir, sem máli skipta á Íslandi, verði til og sterk löggjöf, sem setur bankakerfinu ákveðinn starfsramma áður en einkavæðing þess hefst á ný er alger forsenda fyrir því, að „nýtt Ísland“ geti risið á rústum þess gamla.

Styrmir trúir örugglega á heilbrigða samkeppni en ekki einokun. Í skjóli þess valds sem ritstjóri stærsta dagblaðs landsins hafði reyndi hann að koma böndum á einokunarverslun á Íslandi. Ráðandi öfl innan Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar aðhylltust frekar einokun. Að minnsta kosti fékk hann ekki stuðning þaðan. Skýringin sem Styrmir vill ekki trúa er Chicago heilkennið.

http://www.uic.edu/orgs/kbc/Images/capone.jpg

Sjálfsagt er rétt hjá Styrmi að haftastefna vinstri mann muni setja einstaklingsframtakinu þröngar skorður. Sama má segja um Chicago einokunina. Sú stefna hefur kæft allt einstaklingsframtak í fæðingu. Á þetta heilkenni vill Styrmir koma böndum.Hann telur stranga löggjöf sem setur mönnum lífsreglurnar forsendu þess að hér rísi lífvænlegt samfélag manna.

Það sem er að valda mér heilabrotum er; að framansögðu getur það varla talist líklegt að Styrmir muni kjósa Sjálfstæðisflokkinn því að sögn Styrmis er honum stjórnað af einokunarsinnum. Viðskiptaráð Íslands hefur haft sitt í gegn með hjálp Sjálfstæðisflokksins. Því get ég ekki verið annað en sáttur við að hafa mann eins og Styrmi við hlið mér í baráttunni gegn Sjálfstæðisflokknum.

 

 

 


mbl.is 1,1 billjón dala í aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðin tókst en sjúklingurinn dó.

Þar sem ég er læknir þekki ég til ýmissa ósiða sem fylgja starfinu. Sjálfsagt hafa ýmsir sem legið hafa inn á sjúkrahúsum upplifað þegar starfsfólkið talar yfir sjúklinginn um hann og batahorfur hans. Sjúklingurinn liggur flatur í rúminu og reynir að fylgjast með flókinni umræðu og skilja hana. Hann veit að þau eru að tala um sig en þau tala ekki við sig. Að lokum snýr doksi sér að sjúklingnum með flugfreyjubrosi og segir hughreystandi, þetta verður örugglega allt í þessu fína. Bætir jafnvel við,, vinurinn..Til allrar guðs lukku höfum við aðeins þroskast og erum byrjuð að fatta að sjúklingar eru fólk.

Ég held að atvinnulausum á Íslandi líði eins. Það eru allir spekingarnir sem tala kross og kruss í öllum fjölmiðlum, einhverja óskiljanlega latínu sem hinn atvinnulausi reynir að skilja. Þeir segja, við erum búin að skera upp kerfið og hreinsa ósóman út?? Hverju skiptir það hvort einhver ósómi sé kominn út í hafsauga eða ei-fæ ég vinnu já eða nei. Verðbólgan er að lækka-hitinn er að lækka. Lifi ég eða dey-fæ ég vinnu, já eða nei. 

Ég held að í öllu írafárinu hafi sjúklingurinn-hinn atvinnulausi ekki bara gleymst heldur steingleymst. Því verður að breyta. Það er slæmt að vera dissaður á banabeðinu, þ.e. vera sá síðasti sem vissi að maður væri að hrökkva upp af.


Hvað er í gangi.

Alveg hræðilega hefðbundin leikatriði. Maður er farinn að klípa sig í handlegginn í þeirri von að maður vakni. Sjálfstæðisflokkurinn heldur velli eins og ekkert hafi í skorist. Geir er með meiningar um þinglok. Frjálslyndi frjálshyggjupostulinn Geir vill alls ekki að við kjósendur fáum aukið frelsi í kjörklefanaum Páfinn, þe Bjarni Ben talar um sátt og traust. Gleymum fortíðinni og horfum fram á veginn. Hvar var samviska Bjarna Ben meðan Geir neitaði að viðurkenna staðreyndir lífsins. Hann kóaði með Geir og er því samábyrgur-hann vill heldur ekki persónukjör né Stjórnlagaþing.Bjarni Ben vill bara völd. Því er leikritið svo hræðilega hefðbundið og farsakennt. Og við kokgleypum það eins og atvinnumella.

Það er ekki margt til ráða. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins skilja ekki hvernig venjulegt launafólk á samleið með flokki auðmanna og sérhagsmuna. Þetta er svolítið sérstök ráðgáta í íslensku samfélagi. Meðan þessi tvöfeldni er ekki leyst held ég að fátt breytist. 

 


Hvers vegna mættu svona fáir á Austurvöll í dag?

Voru það bara Vinstri-grænir sem mættu í vetur. Sú gagnrýni virðist vera á rökum reist. Þegar Steingrímur var kominn í stól var tilganginum náð. Það snérist sem sagt ekki um bankahrun, spillingu né skort á lýðræði. Nei það gerði það ekki. Það snérist um að réttir menn sitji á réttum stólum. Það sem ég skil ekki er hvernig VG á Austurvelli í vetur gat dottið í hug að gjaldþrot okkar Íslendinga yrði eitthvað skárra við að þeir fylgdu okkur til botns. Gröfin verður jafn köld og vot þó þeir syngi Maísólina þar.

Hvers vegna mæta ekki þeir atvinnulausu, þeir sem eru ósáttir við aðdraganda bankahrunsins, þeir sem þola ekki spillingu, þeir sem vilja meira lýðræði eða eru allir bara voðalega sáttir. Þeir sem vita svarið vinsamlegast kjaftið frá!


Það er ekki í askana látið-eða hvað?

Var að vinna síðastliðna viku í Neskaupstað, Litlu-Moskvu, og hef því ekki verið mikið að netast. Þessa dagana eru gömlu flokkarnir að undirbúa sig fyrir næstu kosningar. Markmiðið er að sjálfsögðu að ná sem bestum árangri. Sá árangur er metinn eftir þeim völdum sem mönnum tekst að innbyrða. Völdum til að stjórna. Margur hefur það á tilfinningunni að þörfin til að breyta sé takmörkuð hjá gömlu flokkunum. Sérkennilegt var að heyra Katrínu menntamálaráðherra Vinstri-Grænna ákveða að halda áfram með Tónlistarhúsið. Var þar um að ræða sameiginlegan kosningarundirbúning hjá VG og íhaldinu? Ég hef ekkert á móti listum en þær eru bara ekki látnar í askana. Við erum á því stiginu núna-sorry. Við verðum að forgangsraða. Ef við erum að skera niður í heilbrigðis- og menntamálum þá getum við ekki byggt Tónlistarhús, ekki í kreppu. Nær væri að byggja nýjan Landspítala, ólíkt Tónlistarhúsinu vitum við að mikil þörf verður fyrir hann til langrar framtíðar. Hann er semsagt í askanna látinn, eða þannig sko.

Jón Magnússon og Frjálslyndi Flokkurinn.

Jón Magnússon mun ekki bjóða sig fram fyrir Frjálslynda flokkinn aftur. Þetta segir hann í DV og einnig í öðrum miðlum. Undanfarna mánuði hafa margir flokksmenn í FF verið að hópast í björgunarbátana. Langlundargeð Jóns vekur í raun eftirtekt því flest allir sem störfuðu í kjördæmi hans, Reykjavík, eru hættir í flokknum eða hættir að taka þátt í starfi hans. Það var blandaður hópur af fólki sem kom til starfa fyrir flokkinn hér í Reykjavík eftir síðustu kosningar. Stefnuskrá flokksins er góð og þessi hópur vildi vinna mikið starf með þingmanni sínum í Reykjavík. Grunnhugmyndin var sú að þar sem flestir kjósendur væru í Reykjavík væri mjög mikilvægt að efla flokkinn í Reykjavík. Með öflugu starfi í Reykjavík væri hægt að stækka flokkinn verulega. Því miður þá tókst yfirstjórn flokksins aldrei að tileinka sér þessa stefnu. Við sem störfuðum í Reykjavík komumst ekkert innan flokksins, tilvist okkar virtist vera ógn við ráðandi öfl í flokknum. Eftir þessa lífsreynslu þá er niðurstaða mín sú að kjarnamarkmið flokksins sé að eiga að minnsta kosti einn þingmann frá Ísafirði og þá sé markmiðinu náð.

Í raun er þessi niðurstaða mjög sorgleg. Stefna Frjálslynda flokksins er góð að mörgu leyti. Reyndar svo góð að meginstef hennar hafa verið meginkröfur mótmælenda um allan bæ eftir að kreppan hófst. Því er það með hreinum ólíkindum að stjórnmálaflokkur sem virðist eiga mikinn og góðan samhljóm meðal allra mótmælenda vetrarins minnki fylgi sitt í skoðunarkönnun eftir skoðunarkönnun. Í dag mælist flokkurinn í kringum 2% í könnunum. Flestum ætti að vera ljóst að eitthvað mikið er að þegar flokkur við slíkar aðstæður minnkar og meginstarf formannsins alla sína starfstíð hefur verið að stilla til friðar innan flokksins. Sem grasrót get ég ekki tekið ábyrgð á slíku. Hversu seint Jón Magnússon yfirgefur hið sökkvandi skip ber merki þess að hann sé séntilmaður, því konur og börn fara alltaf fyrst í björgunarbátana.

http://anunveiledface.files.wordpress.com/2008/01/sinking-ship.jpg


Hvað gerir þjóðin?

Við erum stödd í leikhléi. Sumir eru farnir að skrifa ritdóma um verkið án þess að hafa séð verkið til enda. Í raun fór maður á sýninguna sem óskrifað blað. Það hvarflaði aldrei að manni að boðið yrði upp á blóðug mótmæli, táragas, rúðubrot, stjórnarslit, nýja Ríkisstjórn, afsögn stjórnenda FME, kosningar og síðast en ekki síst, Íslendingar tala um lýðræði, lýðveldi og mannréttindi öllum stundum. Allt þetta fyrir hlé.

Ef enginn átti von á þessum ósköpum í fyrri hluta, hvernig verður þá seinni hlutinn. Sumar sýningar eiga það til að klúðrast eftir hlé. Þar sem áhorfendur voru virkir þátttakendur í sýningunni fyrir hlé gæti verið að sumir munu reyna að koma böndum á slíkt stjórnleysi. Framsóknarmenn eru greinilega að stýra skútunni eftir sýnu höfði. Þeir fengu kosningadaginn og stjórnlagaþing. Þrátt fyrir að verklag við efnahagsstjórn næstu vikna var ekki fullunnið, skipti það ekki máli. þeir gáfu SteinJóhönnu stjórninni sitt samþykki. Ég tel að tvennt hafi vakað fyrir Framsóknarmönnum. Að gæta þess að röngum steinum verði ekki velt við fram að kosningum og að kosið verði sem fyrst. Á þann hátt vonast þeir til að nýta sér nýfengnar vinsældir til að komast til valda á nýjan leik, með hverjum sem er.

Samfylkingin ætlast til þess að við fyrirgefum þeim að hafa veðjað á vonlausa Ríkisstjórn þegar við þurftum mest á hinu gagnstæða að halda. Samfylkingin fær þó hrós fyrir að hafa siglt samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn snyrtilega í strand. Gaman væri að fá skýringu á því hvers vegna Ágúst Ólafur gufar allt í einu upp. Ætli Solla hafi eimað hann. Frekar lágt í honum suðumarkið. Væntingar til Jóhönnu eru miklar, vonandi reynast þær á rökum reistar.

Hvað gera Sjálfstæðismenn núna? Þeir munu beita öllum sínum mætti til að ná völdum á ný. Þeir kunna því mjög illa að vera ekki í stjórn. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í raun regnhlífasamtök nokkurra ætta á Íslandi er spurningin meir hvaða ætt hefur sigur innan flokksins. Það mun ákvarða viðmót og stefnu flokksins til framtíðar. Hvort Sjálfstæðismönnum muni takast að heilla þjóðina skal ósagt látið, aftur á móti skal maður aldrei vanmeta Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur mikil völd víðsvegar og getur því auðveldlega gert öðrum lífið leitt sér til framdráttar.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá vitum við hvað flokkarnir gera, sama og síðast-halda völdum. Í raun er stóra spurningin hvað gerir þjóðin. Þjóðin er í raun mun stærra spurningarmerki en flokkarnir. Þjóðin hefur fengið í vetur að narta í sætleika valdsins. Ég tel að þjóðin hafi komist upp á bragðið og því til alls líkleg. Eins og maðurinn sagði,, vald spillir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband