Færsluflokkur: Menning og listir

Ársfundur SÍ í dag-reynslunni ríkari

Mér var boðið á ársfund Seðlabanka Íslands í dag. Ég mætti. Ég hélt í einfeldni minni að boðið yrði upp á umræður um landsins gagn og nauðsynjar. Í staðinn héldu menn ræður í röðum. Enginn horfðist í augu við staðreyndir lífsins í ræðum sínum og hafði því ekki forsendur til að ráða okkur heilt. Því leið ekki á löngu þangað til höfuð mitt seig ofaní bringu og ég steinsofnaði.

Eftir að fundi lauk var boðið upp á næringu. Eðal áfengi og snittur af dýrustu sort, ekki niðurskurður í þessu húsi. Ég stóð álengdar og virti fyrir mér söfnuðinn samtímis og ég sötraði á hvítvíninu. Elítan virtist þekkjast nokkuð vel innbyrðis, faðmar og knús, en ég stóð utangáttar. Langflestir sem ég kannaðist við höfðu haft rullu í leikhúsi Davíðs á sínum tíma og komið landi mínu lóðbeint á hausinn án vandkvæða.

Í sjálfu sér verður maður að líta á svona uppákomu sem hvern annan listrænan gjörning í boði skattgreiðanda. 


Alþingi götunnar verður stofnað 6 mars

Fréttatilkynning frá grasrótinni, 4 mars 2010.

Nú hafa nokkrir grasrótarhópar ákveðið að standa fyrir kröfugöngu frá Hlemmi laugardaginn 6. mars kl 14. Gengið verður niður Laugarveginn og að lokinni göngu verður haldinn útifundur á Austurvelli kl. 15.

Ræðumenn verða Andrés Magnússon læknir, Héðinn Björnsson generáll heimavarnaliðsins og Júlíus Valdimarsson húmanisti. Á fundinnum verður Alþingi götunnar stofnað. Magnús Þór Sigmundsson mun syngja. Hljómsveitin Stjörnuryk mun flytja lag.

Helstu áhersluatriði Alþingis götunnar eru:

Leiðrétting höfuðstóls lána, afnám verðtryggingar, fyrningu lána við þrot, jöfnun ábyrgðar og að fjárglæframenn Íslands séu hvorki stikkfrí né endureistir, AGS í úr landi, manngildið ofar fjármagni, aukin völd til almennings, bættur neytendaréttur.   

Trommusláttur og lúðrablástur mun fylgja með niður Laugaveginn. Mælst er til þess að göngumenn taki með sér potta, pönnur, flautur eða annað sem getur framkallað hóflegan hávaða. Takið með kröfuspjöld.

Gerum næsta laugardag að sögulegum degi. Fjölmennum við formlega stofnun Alþingis götunnar. Gefum skýr skilaboð til umheimsins, lýðræðið er númer eitt, valdið er fólksins.

Gerum Alþingi götunnar að stórviðburði. Ekki láta þig vanta. Tölum einum rómi með samtökunum okkar. Látum það ekki fara neitt á milli mála hver vilji okkar er. Kjósum með fótunum í göngunni niður Laugaveg.

Hagsmunasamtök heimilanna,

Nýtt Ísland,

Attac samtökin á íslandi,

Siðbót,

Húmanistafélagið,

Rauður vettvangur,

Vaktin,

Aðgerðahópur Háttvirtra Öryrkja.

Samtök fullveldissinna.

http://raksig.blog.is/users/33/raksig/img/akureyri_906461.jpg

 


Íslenskir strútar.

Sumir eru búnir að missa áhugann á fréttum. Sérstaklega fréttum af kreppunni. Fólk vill miklu frekar fylgjast með Leiðarljósi og svipuðum þáttum í sjónvarpinu. Enn aðrir gleyma sér á Facebook. Mikið vinnuálag gerir það einnig erfiðara að fylgjast með stjórnmálum. Mér finnst þetta sinnuleysi vera vaxandi. Það er eins og fólk sé að verja sig fyrir ótíðindum með því að hlusta ekki á fréttir. Gallinn við þessa aðferð er að þó við stingum höfðinu í sandinn þá hverfa ekki vandamálin. Vandamál íslenskrar þjóðar aukast dag frá degi og sjálfsagt skynjar fólk það. Þar sem engin lausn virðist í sjónmáli stingur það bara höfðinu í sandinn.

Þetta hugarástand þjóðarinnar hagnast fjórflokkunum. Þar sem kjósendur flakka helst á milli "vinstri" flokkanna en mun síður frá Sjálfstæðisflokknum verður spurningin hver starfar með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Spurningin er hvort það sé ákkúrat það sem strútarnir vilja. Flestum er í fersku minni hrun efnahags Íslands í haust. Sumum er tamt að kenna óargadýrum í bönkum og slíkum fyrirtækjum um hrunið. En það var Sjálfstæðisflokkurinn sem hleypti King Kong út úr búrinu. Það er ákaflega sorglegt að fólk skuli ekki getað áttað sig á þessari staðreynd.


Það er ekki í askana látið-eða hvað?

Var að vinna síðastliðna viku í Neskaupstað, Litlu-Moskvu, og hef því ekki verið mikið að netast. Þessa dagana eru gömlu flokkarnir að undirbúa sig fyrir næstu kosningar. Markmiðið er að sjálfsögðu að ná sem bestum árangri. Sá árangur er metinn eftir þeim völdum sem mönnum tekst að innbyrða. Völdum til að stjórna. Margur hefur það á tilfinningunni að þörfin til að breyta sé takmörkuð hjá gömlu flokkunum. Sérkennilegt var að heyra Katrínu menntamálaráðherra Vinstri-Grænna ákveða að halda áfram með Tónlistarhúsið. Var þar um að ræða sameiginlegan kosningarundirbúning hjá VG og íhaldinu? Ég hef ekkert á móti listum en þær eru bara ekki látnar í askana. Við erum á því stiginu núna-sorry. Við verðum að forgangsraða. Ef við erum að skera niður í heilbrigðis- og menntamálum þá getum við ekki byggt Tónlistarhús, ekki í kreppu. Nær væri að byggja nýjan Landspítala, ólíkt Tónlistarhúsinu vitum við að mikil þörf verður fyrir hann til langrar framtíðar. Hann er semsagt í askanna látinn, eða þannig sko.

Hvað gerir þjóðin?

Við erum stödd í leikhléi. Sumir eru farnir að skrifa ritdóma um verkið án þess að hafa séð verkið til enda. Í raun fór maður á sýninguna sem óskrifað blað. Það hvarflaði aldrei að manni að boðið yrði upp á blóðug mótmæli, táragas, rúðubrot, stjórnarslit, nýja Ríkisstjórn, afsögn stjórnenda FME, kosningar og síðast en ekki síst, Íslendingar tala um lýðræði, lýðveldi og mannréttindi öllum stundum. Allt þetta fyrir hlé.

Ef enginn átti von á þessum ósköpum í fyrri hluta, hvernig verður þá seinni hlutinn. Sumar sýningar eiga það til að klúðrast eftir hlé. Þar sem áhorfendur voru virkir þátttakendur í sýningunni fyrir hlé gæti verið að sumir munu reyna að koma böndum á slíkt stjórnleysi. Framsóknarmenn eru greinilega að stýra skútunni eftir sýnu höfði. Þeir fengu kosningadaginn og stjórnlagaþing. Þrátt fyrir að verklag við efnahagsstjórn næstu vikna var ekki fullunnið, skipti það ekki máli. þeir gáfu SteinJóhönnu stjórninni sitt samþykki. Ég tel að tvennt hafi vakað fyrir Framsóknarmönnum. Að gæta þess að röngum steinum verði ekki velt við fram að kosningum og að kosið verði sem fyrst. Á þann hátt vonast þeir til að nýta sér nýfengnar vinsældir til að komast til valda á nýjan leik, með hverjum sem er.

Samfylkingin ætlast til þess að við fyrirgefum þeim að hafa veðjað á vonlausa Ríkisstjórn þegar við þurftum mest á hinu gagnstæða að halda. Samfylkingin fær þó hrós fyrir að hafa siglt samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn snyrtilega í strand. Gaman væri að fá skýringu á því hvers vegna Ágúst Ólafur gufar allt í einu upp. Ætli Solla hafi eimað hann. Frekar lágt í honum suðumarkið. Væntingar til Jóhönnu eru miklar, vonandi reynast þær á rökum reistar.

Hvað gera Sjálfstæðismenn núna? Þeir munu beita öllum sínum mætti til að ná völdum á ný. Þeir kunna því mjög illa að vera ekki í stjórn. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í raun regnhlífasamtök nokkurra ætta á Íslandi er spurningin meir hvaða ætt hefur sigur innan flokksins. Það mun ákvarða viðmót og stefnu flokksins til framtíðar. Hvort Sjálfstæðismönnum muni takast að heilla þjóðina skal ósagt látið, aftur á móti skal maður aldrei vanmeta Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur mikil völd víðsvegar og getur því auðveldlega gert öðrum lífið leitt sér til framdráttar.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá vitum við hvað flokkarnir gera, sama og síðast-halda völdum. Í raun er stóra spurningin hvað gerir þjóðin. Þjóðin er í raun mun stærra spurningarmerki en flokkarnir. Þjóðin hefur fengið í vetur að narta í sætleika valdsins. Ég tel að þjóðin hafi komist upp á bragðið og því til alls líkleg. Eins og maðurinn sagði,, vald spillir.


Áramótaskupið var frábært.

Þetta fannst öllum á mínu heimili, mikil ánægja og skemmtun.

Flokkur allra landsmanna-eða hvað?

"Forsætisráðherra segir marga þeirra sem sækja þjónustu í heilbrigðiskerfinu við góða heilsu í grunninn, og geti staðið undir gjaldtökunni".

Hugmyndir eru um að allir þeir sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús greiði 4000 kr. Ástæða þess að viðkomandi "velur" að koma á sjúkrahús er langoftast sú að hann á engra annarra kosta völ. Viðkomandi getur illa hagrætt og sleppt því að mæta. Það má vel vera að viðkomandi hafi verið nokkuð hraustur í "grunninn", aftur á móti þegar heilsubrestur verður hjálpar það ekki nema Geir til að rukka gjaldið sitt.

Að rökstyðja þessa gjaldtöku á þeirri forsendu að einhverjir hraustir einstaklingar leiti sér læknishjálpar er fáránlegt. Í fyrsta lagi eru þeir í algjörum minnihluta og hitt að hvers eiga hinir sjúku að gjalda. 

Auðmenn sleppa aftur og aftur hjá honum Geira kallinum, en ekki þeir sem veikastir eru fyrir. Hver er það sem gefur Geira ráð, eða hafa auðmennirnir keypt hann líka. Hver veit, hann er kannski líka veðsettur.


mbl.is Standa undir gjaldtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskur í dagblaði.

Reynir Traustason ætlar ekki að segja af sér eftir afhjúpunina í gærkveldi. Í upptökunni kom fram mikill ótti hjá Reyni ef frétt blaðamannsins yrði birt. Maður sá fyrir sér Síkakó gæja með fiðlukassana, handan við hornið, að minnsta kosti í huga Reynis. Það virðist sem Reynir hefði mátt búast við að lenda á hafsbotni steyptur í bala og sennilega götóttur sem sigti. Spurningin er hvort þessi inngreypti ótti Reynis við að fá fisk sendan til sín, innvafinn í dagblað, geri hann einmitt svo hæfan til að halda áfram sem ritstjóri að mati stjórnar Dagblaðsins.

Fish wrapped in newspaper with metal plate on worn red table, © Goodshoot/Corbis, RF, Dish, Fish, Food, Nobody, Plate, Seafood

 


Kató gamli.

http://nogoodreason.typepad.co.uk/photos/uncategorized/2008/02/04/cicero_2.jpg

Núna er ég farinn að endurtaka mig. Þannig var Kató gamli líka, endurtók sömu vísuna aftur og aftur í lok hverrar ræðu sagði hann "svo legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði". Honum varð lokum að ósk sinni.

Ég vil taka upp Evru einhliða strax. Ástæðan er eigingirni mín og ekkert annað. Ég tel það fljótvirkustu leiðina til að afnema verðtrygginguna af húsnæðislánunum mínum. Á þann hátt tekst mér að halda í lífeyrir minn í húsinu mínu sem ég hef þrælað fyrir í 30 ár. Sennilega er allur annar lífeyrir komin í ryksugu fjárglæframanna.

Svo er það þetta með EU og Samfylkinguna. Það er að sjálfsögðu algjört prinsipp mál að kolfella fyrsta samninginn sem við gerum við EU. Semja svo upp á nýtt og fá betri díl. Algjör heimska að taka fyrsta tilboði, eða hvað?


Borgarafundur.org-Agora.

Grein sem birtist eftir mig í Morgunblaðinu í dag.

Fyrirbærið Borgarafundur.org hefur gert sig gildandi á liðnum vikum í umræðunni. Leikstjóranum Gunnari Sigurðssyni leiddist allt í einu það sem flatskjárinn hans hafði upp á að bjóða. Á flatskjánum endurómuðu vandamálasögur fólks og hremmingar fræga fólksins. Dr. Phil sagði okkur að svona væri þetta hjá mörgum og við þyrftum að leysa þetta sjálf. Vandamálin tilheyra einstaklingunum og lausnirnar einnig. Á þessu torgi flatskjásins er sjaldnast leitað lausna með umræðu milli stjórnvalda og einkalífs. Flatskjárinn er milliliður og því getur hann aldrei komið í stað fundar þar sem valdhafar mæta almenningi til skrafs og ráðagerða. Flatskjárinn hans Gunna virtist ófær um að fá fram svör við ýmsum brennandi spurningum sem hrjáðu hann.

Þess vegna stóð Gunnar upp úr sófanum sínum og hélt Borgarafund í Iðnó. Borgarafundirnir eru torg þar sem „ráðið“ mætir fólkinu. Þar eiga persónuleg vandamál að umbreytast í opinber mál. Aþeningar til forna kölluðu þennan „hitting“ tveggja afla í þjóðfélaginu Agora. Þar sem fólkið mætti hinu opinbera. Þar fór fram lagasetning og niðurstaða þessara funda var ætíð inrömmuð í orðin „það dæmist gott af ráðinu og fólkinu“. Takið eftir því að fólkið var með í ráðum. Ekki að útkoman væri endanlega rétt og óbreytanleg. Þess vegna gat sú útkoma ekki endilega verið góð á næsta fundi í ljósi breyttra aðstæðna. Lýðræðisiðkun er ekki endanleg sannindi heldur síbreytileg framþróun ákvarðana flestum til hagsbóta í „Borginni“.

Það sem Gunnar gerði var að endurtaka söguna. Hann endurreisti Agora. Hann skapaði vettvang þar sem fólkið og „ráðið“ mættust. Skoðanaskipti eru ekki eini tilgangur Agora. Mikilvægur þáttur er að kynnast hvert öðru, skilja hvert annað og læra að lifa saman í sátt. Þegar nokkrir fulltrúar „ráðsins“ á Íslandi segja að fólkið sé ekki fólkið og að það sé sérkennilegt að fólkið hafi mætt á fundinn, þá ber það vott um skort á skilningi hvernig borgaralegt lýðræði hefur starfað í árþúsundir.

Tilgangur Borgarafunda er að skapa aðstæður svo að fólkið geti mætt „ráðinu“. Um er að ræða þverpólitíska hreyfingu. Allir sameinast um þetta markmið, að gefa borgurunum tækifæri til að komast að valdhöfunum milliliðalaust. Að sjálfsögðu erum við ekki ópólitísk, við hættum ekki að hugsa þó við höldum Borgarafundi. Við vonumst til að við séum komin til að vera. Það merkir að næstu ríkisstjórn verði líka boðið á borgarafund í fyllingu tímans. Við leitumst við að taka fyrir það sem brennur á fólkinu. Til að forðast allan misskilning þá ætlum við okkur ekki að verða pólitískur flokkur, við vitum að enginn skortur verður á slíku framtaki hjá einhverjum öðrum þegar fram líða stundir.

Bæði valdhafar og fólkið ættu að nýta sér Borgarafundi öllum til hagsbóta. Almenningur hefur tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að og spyrja spurninga. Ef til vill munu svörin minnka kvíða almennings og þar með lægja öldurnar í þjóðfélaginu. Því er ekki að leyna að almenningi finnst gjá á milli þeirra og valdhafa. Mjög mikilvægt er að valdhafar nýti sér þessa fundi til að sættast við almenning. Markmiðið á að vera „að það dæmist gott af ráðinu og fólkinu“.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband