Færsluflokkur: Trúmál
4.4.2010 | 22:29
2000 matargjafir og samningur Jesú Krists
Einhver presturinn sagði að við ættum að nota kyrrð páskahelgarinnar til að hugsa. Þar reis guðsmaðurinn upp gegn sínum veraldlegu valdhöfum því ekki er það gæfulegt fyrir þá ef almenningur færi að hugsa. Almenningur er mjög önnum kafinn við að færa björg í bú og sest síðan örþreyttur fyrir framan heilaþvotta vél stórabróður. Ef almenningi gæfist kostur á því að hugleiða þá gæti margt farið á annan veg og sennilega hefðum við aldrei lent í bankahruninu ef við hefðum haft tækifæri til að hugsa.
Ég hef verið að hugsa núna um páskana. Um 2000 manns þurftu mataraðstoð á Íslandi um daginn. Það jafngildir um 32.000 Norðmönnum eða 60.000 Svíum eða 400.000 Bretum. Einnig þekki ég fólk sem fer ekki til hjálparstofnana heldur fær aðstoð hjá öldruðum foreldrum sínum með matarinnkaup, þetta 2-3 sinnum í mánuði. Því eru tölurnar frá hjálparstofnunum bara toppurinn á ísjakanum. Hjá fjölda fólks er allt í járnum.
Það er sérkennilegt að kreppan geti skapað þessu fólki slík örlög. Sjálfsagt áttu þau enga sök á núverandi kreppu. Við vitum nokkurn veginn hverjum er um að kenna og að þau hafa það gott og eru að koma sér vel fyrir á nýjan leik á Íslandi. Við krefjumst réttlætis, það er lágmarkskrafa að svokölluð vinstri stjórn hætti að dansa með elítunni og kannist við uppruna sinn.
Jesú vissi alla tíð að hann yrði krossfestur saklaus, hann hafði samið um það við föður sinn. Íslenskur almenningur hefur ekki samið um neitt slíkt, okkur var hrint ofaní ljónagryfjuna, það er óréttlæti og mannréttindabrot.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.4.2010 | 23:10
AGS virðist kunna að smala....
Meira að segja Jesús sjálfur efaðist fyrir krossfestinguna en Íslendingar efast ekki. Við réttum út alla skanka til að neglingin gangi vel fyrir sig. Meðan nöglunum er hagrætt rífumst við um allt annað en hvað böðullinn hefur fyrir stafni. Það er eins og hann sé ekki til, fyrr en að naglarnir rjúfa holdið og þá er allt um seinan.
Við rífumst um ríkisstjórn, stjórnarandstöðu, kvóta o. fl. Allt mjög mikilvægt en það er stór leikari kominn inn á svið íslenskrar tilveru. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Starfsmenn hans segja núna að við uppfyllum öll skilyrði sjóðsins en stjórn sjóðsins þarf að samþykkja niðurstöðu starfsmanna sinna. Að við stöndumst prófið svona vel segir mér að við látum negla okkur við krossinn möglunarlaust.
Stefna sjóðsins hefur sýnt sig skaða almenning í þeim löndum sem hann hefur ráðskast með. Sami lánlausi lyfseðillinn er okkur réttur og við fylgjum fyrirmælunum af kostgæfni. Oft var þörf en nú er nauðsyn að við förum að haga okkur eins og sjálfstæðir kettir í samskiptum okkar við AGS í stað þess að láta leiða okkur til slátrunar eins og hverja aðra sauði.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.3.2009 | 21:48
Íslenskir strútar.
Sumir eru búnir að missa áhugann á fréttum. Sérstaklega fréttum af kreppunni. Fólk vill miklu frekar fylgjast með Leiðarljósi og svipuðum þáttum í sjónvarpinu. Enn aðrir gleyma sér á Facebook. Mikið vinnuálag gerir það einnig erfiðara að fylgjast með stjórnmálum. Mér finnst þetta sinnuleysi vera vaxandi. Það er eins og fólk sé að verja sig fyrir ótíðindum með því að hlusta ekki á fréttir. Gallinn við þessa aðferð er að þó við stingum höfðinu í sandinn þá hverfa ekki vandamálin. Vandamál íslenskrar þjóðar aukast dag frá degi og sjálfsagt skynjar fólk það. Þar sem engin lausn virðist í sjónmáli stingur það bara höfðinu í sandinn.
Þetta hugarástand þjóðarinnar hagnast fjórflokkunum. Þar sem kjósendur flakka helst á milli "vinstri" flokkanna en mun síður frá Sjálfstæðisflokknum verður spurningin hver starfar með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Spurningin er hvort það sé ákkúrat það sem strútarnir vilja. Flestum er í fersku minni hrun efnahags Íslands í haust. Sumum er tamt að kenna óargadýrum í bönkum og slíkum fyrirtækjum um hrunið. En það var Sjálfstæðisflokkurinn sem hleypti King Kong út úr búrinu. Það er ákaflega sorglegt að fólk skuli ekki getað áttað sig á þessari staðreynd.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)