Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Gömul fótbrotin kona.

Fyrir all nokkrum árum síðan var ég læknanemi. Ætli þetta viðtal hafi ekki átt sér stað sem ég ætla að segja frá uþb árið 1984.

Ég var að taka sjúkrasögu af gamalli konu frá Vestfjörðum. Ekki man ég hvers vegna hún var komin á Landspítalann í þetta skipti. Ef ég man rétt þá var hún frá Barðastrandarsýslu. Róleg og yfirveguð kona.

Ég tók eftir því að annar ökklinn á henni var illilega skakkur og hafði hún greinilega gengið á jarkanum alla æfi. Ég spyr að sjálfsögðu hvernig standi á þessu. Jú sjáðu til ungi maður, segir hún, ég fótbrotnað þegar ég var 9 ára gömul. Við vorum bændur. Faðir minn bar mig inn í rúm. Hann setti síðan tvær fjalir sitt hvoru megin við brotinn ökklann og batt svo snæri umhverfis fótlegginn. Þarna lá ég síðan þangað til að ég var gróin. Því miður greri brotið svolítið skakkt en það hefur ekki komið svo mikið að sök því gengið hef ég getað allar götur síðan þá.

Þarna sat ég opinmyntur stúdentsræfillinn og reyndi að skynja og skilja hlutskipti fyrri kynslóða. Spurningarnar hringsnerust í höfðinu á mér. Sú fyrsta sem hrökk út úr mér eins og popp korn fannst mér mjög gáfuleg, en það kom svo síðar í ljós að svo var ekki.

HVAÐ SAGÐI LÆKNIRINN? spurði ég.

HVAÐA LÆKNIR? spurði gamla konan.

Nú hófust heilabrot í kolli mínum fyrir alvöru. Bíddu nú við þau kölluðu semsagt ekki á lækninn. 

Þá kom næsta vísindalega úthugsuð spurning frá mér. Kölluðuð þið ekki til lækni þegar þú brotnaðir?

Sú gamla svaraði: TIL HVERS?

Nú var mér öllum lokið, til hvers? Jú en var þetta ekki óskaplega sárt hélt ég áfram, í þeirri vona að ná þræðinum aftur.

Sú gamla svaraði; AÐ SJÁLFSÖGÐU.

Þarna sat ég við rúmstokk þessarar öldnu konu frá einhverju allt öðru tilverustigi en ég sjálfur tilheyrði. Ég barðist við að ná áttum. Hægt og hægt rann upp fyrir mér ýmsar staðreyndir í þessu sérkennilega sakamáli. Því að í dag hefði þessi atburður orðið sakamál hjá barnaverndarnefnd.

Þegar ég svo skildi þetta þá var það þannig að ekki þurfti að kalla til lækni þar sem sjúkdómsgreiningin var augljós. Stúlkan var fótbrotin, það var deginum ljósar og því engin þörf fyrir lækni. Sömuleiðis var meðferðin á færi heimamanna og því ekki nauðsynlegt að kalla til lækninn.

Að beinbroti fylgdu kvalir var sjálfgefið og engin þörf á því að gera veður út af því. Það var bara hluti af lífinu að finna til og kveljast. Að lifa af og komast aftur á fætur var bara vel sloppið. Þessi gamla kona kenndi mér margt þó ég muni alls ekki hvers vegna hún kom til okkar á Landspítalanum.

Síðan ég átti þetta viðtal hef ég oft velt því fyrir mér hvort við getum farið fram á það að finna aldrei til. Allar kynslóðirnar á undan okkur fundu til. Ekki fóru þær í hundana því þá værum við ekki til. Getur verið að við förum í hundana vegna þess að við finnum aldrei til? 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  


Tannlæknasvæfingar.

Í Blaðinu í dag er grein um svæfingar vegna tannviðgerða á börnum. Réttara sagt skort á svæfingum. Bent er á að þessi þjónusta fáist í þjóðfélögum sem við berum okkur gjarnan saman við. Sagt er að svæfingalæknar hafi lítinn áhuga á þessum svæfingum vegna þess að þær séu ver borgaðar af Tryggingastofnun miðað við aðrar svæfingar. Sjálfsagt rétt en ekki meginskýringin.

Þessar svæfingar hafa verið stundaðar á stofum tannlækna. Þar hefur ekki verið nein sérstök aðstaða fyrir svæfingar. Svæfingalæknirinn hefur komið með sín tæki og tól í lítill tösku og sett upp svona "mini" svæfingaraðstöðu. Einstaka hafa alltaf svæft fyrir sama tannlækninn árum saman og geta útbúið eitthvað betri aðstöðu fyrir sig.

Að svæfa fólk er ekki hættulaust. Að svæfa börn er vandasamara. Að svæfa börn þar sem unnið er í öndunarveginum er enn vandasamara. Að gera við tennur er oftast ekki hættulegt. Því á vinnuaðstaðan að miðast við þann þátt starfseminnar sem er hættulegastur fyrir sjúklinginn.

Að stunda farandsvæfingar vegna tannviðgerða er steinöld, það er ekki sæmandi nú til dags. Engum skjólstæðingum svæfingalækna í dag er boðið upp á slíkar hörmungaraðstæður nema börnum sem þurfa tannviðgerð. Allir aðrir eru svæfðir við mun betri aðstæður.

Ég held að það sé meginskýringin á því að erfitt sé að fá svæfingalækna til að sinna þessu.

Tannlæknar ættu að koma sér upp einni stofu þar sem allar svæfingar fara fram vegna tannviðgerða. Þar sé vandað til allra hluta, góð vinnuaðstaða, nægur mannafli til að sinna barnasvæfingum og hámarks öryggi tryggt eins og kostur er. Annað er ekki bjóðandi börnunum okkar í dag. 

 


Mótvægisaðgerðir-hvurra?

Í kvöldfréttatímanum var sagt frá því að Sunnlendingar ætla að skapa sínar eigin mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskaflans á komandi vetri. Gott framtak. Sjálfsagt vita heimamenn best hvar skóinn kreppir að.

Hin hliðin á peningnum er sú að menn hafa sjálfsagt verið farnir að örvænta eftir slíkum aðgerðum frá hendi stjórnvalda. Á þeim bæ virðast allir hafa verið í góðu sumarfríi sl vikur. Það læðist að manni sá grunur að menn tali í austur og vestur í þessum málaflokki. Ingibjörg Sólrún var á Hólum í dag. Það er gamalt fræðasetur. Í viðtali sagði Utanríkisráðherrann að með góðri nettengingu og handfylli af menntamönnum væri hinum dreifðu byggðum ekkert að vanbúnaði að sækja fram á veginn til framtíðar. 

Ef maður hefur ekki áhuga á menntun og getur ekki veitt þorsk með nettengingu hvað á maður þá að gera? Á að umbreyta sjómönnum í menntamenn. Ef þeir vilja það ekki eiga þeir þá setjast fyrir framan tölvu með góðri nettengingu og blogga. Hver er þorskur í þessum vangaveltum? Er ég svona einfaldur að halda að fullfrískir íslenskir karlmenn, sjálfráða, fjárráða og haldnir löngun og áhuga á að sigla út á hafið og veiða fisk hafi lítinn sem engan áhuga á að sitja fyrir framan háhraðatengingu heima í stofu. 

Hér held ég að menn tali tungum tveim. Ég held að landsbyggðarmenn vonist eftir mótvægisaðgerðum við hæfi, einhverri vinnu sem hentar þeim. Stjórnmálamenn ætla að breyta sjómönnum í háhraðanetamenn. Hvað verður um þá sem falla milli skips og bryggju, verða þeir sendir á einhverskonar hæli eða betrunarvist?

Ekki nema von að menn fari að dikta upp sínar eigin mótvægisaðgerðir. 

 


Vínsala, neysla eða ofneysla.

Það hefur verið nokkur umræða um smásölu víns á Íslandi. Talsmenn frelsisins vilja færa okkur nær Evrópu í þessum efnum. Andstæðingarnir vilja höft og hátt verðlag.

Það er þetta með vímuefnin okkar og stjórnlausa fíkn í þau á móti eðlilegri neyslu. Það er á margan hátt verið að takast á um hvernig við umgöngumst þessi efni og hvernig við tökumst á við þau. Hvernig við höfum meðhöndlað fíkn náungans í vímuefni er merkilegt fyrirbæri. Afstaða okkar á 21. öldinni til fíkla er ekki ósvipuð umgengni forfeðra okkar á holdsveikum hér á öldum áður.

Ef við höldum okkur við samlíkinguna við holdsveika þá var það stefnan að vona inn í það síðasta að veikjast ekki sjálfur. Ef maður veiktist var það refsing æðri máttarvalda og síðan voru viðkomandi úthýstir úr mannlegu samfélagi. Svipað er komið fyrir okkur á dag. Allir vonast til að börnin þeirra verði ekki fíklar. Ef fíkill er í fjölskyldu náungans þá reynum við að forðast frekari umgegni í þeirri von að smitast ekki. Svo viljum við koma þeim fyrir á stofnunum þar sem þau eru "læknuð". Eins og með holdsveikina. Vandamálið er að holdsveiki er ekki fíkn, fíkn er eitthvað sem býr með einstaklingum eða myndast við notkun efnis.

Fíkn á sér þrjár undirstöður. Fíkniefnið, einstaklinginn og fíknina. Þegar allt kemur saman þá er komin fíkniefnaneysla. Til að leysa það vandamál þarf að eyða einhverjum þessara þriggja þátta. Það hefur ekki gengið vel hingað til. Spurningin er hvort það er fullreynt með þeim aðferðum sem við höfum beitt hingað til eða tími endurskoðunarinnar er kominn.

Ef fíkniefnaneysla væri eins og holdsveiki væri vandamálið einfalt. Því miður er ekki svo. Fíkniefnaneysla er flókið fyrirbæri. Ef fíkn er til staðar þá skiptir engu máli hvar fíkniefnið er selt né hversu mikið það kostar. Öllu er fórnað. Því held ég að það skipti ekki máli þó vín sé ódýrara en í dag. Persónulega skiptir það mig engu méli þó ég fari í eina verslun aukalega til að kaupa vín og sé því enga knýjandi þörf á því að færa vínsölu inn í matvöruverslanir. Ef hægt væri að láta fíkniefni hverfa í eitt skipti fyrir öll væri málið leyst. Svo er ekki. Meðan þannig er málum háttað verður að vera til staðar forvarnarstarf og meðferð þeirra sem verða fíklar.

Aftur á móti er umræða um hvernig við ætlum að fást við afleiðingar annarra fíkniefna en víns mjög mikilvæg og þörf.


Gullna klukkustundin.

Þetta er mjög gott mál hjá Guðlaugi og vonandi kemur eitthvað gott frá þessari nefnd. Það er oft rætt um hina gullnau klukkustund við björgun. Er þá átt við að ef ekki er vel og rétt staðið að málum í upphafi þá skiptir litlu máli hversu góð þónustan er á síðari stigum.

mbl.is Vinnuhópur skipaður til að skoða skipulag sjúkraflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin.

Hvernig er þetta með Samfylkinguna. Þau fóru í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, að sjálfsögðu til að fá völd og stóla. Einnig til að sýna alþjóð að þau geti verið ábyrg í stjórn. Sýnt festu og tekið á málum með alvöru og mikilli skynsemi.

Hvernig gekk þeim í fyrsta stóra málinu sem kom til kasta þeirra. Kvótamálinu eða réttara sagt ákvörðun aflaheimilda fyrir næstu ár. Ekki vel finnst mér.

Miðað við allt sem sagt var fyrir síðustu kosningar þá er framkvæmdin döpur. Í staðinn fyrir sjálfsbjargarhvöt einstaklingsins, smáfyrirtæki sem fengju tækifæri til að blómstra þá fylkir samfylkingin sér með hagræðingarsinnum og vill steypa sjávarútveginn í stóriðju. 

Þannig mun þetta vera næstu árin. 

 


Hvar er Frjálslyndi flokkurinn?

Það dynja á manni fréttir af samdrætti eða lokunum fyrirtækja víðs vegar um landið. Ástæðan er niðurskurður á aflaheimildum á fiski.  Nú  er að koma í ljós það sem ýmsir sögðu fyrir að hinar dreifðu byggðir myndu halda áfram að blæða, þegar  niðurskurðurinn  verður kominn fram þá mun  sjávarbyggðunum fossblæða.

Sumir halda því fram að kjósendur í sjávarbyggðunum hefðu betur kosið Frjálslynda flokkinn í síðustu kosningum. Sérstaklega þegar það er haft í huga að menn gátu vænst þess að um mikinn aflaniðurskurð yrði að ræða í haust. Þeir hefðu eflaust sett sig upp á móti tillögum Hafró ef þeir hefðu komist í ríkisstjórn. Niðurstaðan varð önnur eins og allir vita.

Umræðunni um þessi mál virðist vera handstýrt að miklu leiti. Margir eru á móti niðurskurðinum. Margir trúa ekki á Hafró. Málflutningur þeirra heyrist ekki. Mikið til vegna þess að þeir komast ekki að í vinsælum fjölmiðlum.  Þannig er umræðunni handstýrt.

Aftur á móti hafa menn lagt mismikið á sig til að brjótast í gegn og mótmæla. Kristinn P, Jón Valur og ekki síst Sigurjón Þórðarson. Hann hefur bloggað ákaft og skrifað greinar í blöð. Einnig skorað ráðherra á hólm á blogginu.

Mér hefur fundist skorta á áberandi framgöngu Frjálslynda flokksins síðustu vikur. Virkni heimasíðu flokksins hefur ekki verið nein s.l. 2 mánuði. Ekki hef ég orðið mikið var við þingmenn flokksins í umræðunni. Þeir hafa a.m.k ekki nýtt sér bloggið mikið sem er orðinn mjög mikilvægur miðill á liðnum árum. Eina undantekningin er Jón Magnússon sem hefur bloggað töluvert.

Aftur á móti mun þetta allt saman skána í haust þegar menn koma úr sumarfríi og sérstaklega horfum við til þess að þegar Sigurjón Þórðarson mun taka við framkvæmdastjórastöðunni í FF og þá mun komast mikið afl í umræðuna.


Mótvægisaðgerðir og sjómenn.

Nú á að malbika og grafa göng svo að fólk sem hefur unnið við sjávarútveg sl ár hafi eitthvað að gera.

Mjög merkilegt. Ef sjúklingakvóti lækna væri skorinn niður og okkur yrði boðin vinna við jarðgangagerð eða vegavinnu yrðum við ofsakátir. Ég held ekki. Hvers vegna eiga sjómenn að gera það sér að góðu. Ekki hefur sjómönnum verið boðið neitt í staðinn fyrir sína vinnu annað en meira launalaust frí. Að minnsta kosti ekki neitt við hæfi. 

Ég neita því ekki að mér finnst sem sjómenn eigi bara að gera sér að góðu þennan niðurskurð á þorskkvóta án sértækra mótvægisaðgerða fyrir þá.

Hvað getur komið sjómönnum að gagni, jú að auka þorskkvóta og gefa þeim kost á að veiða sinn þorsk og þar að auki hvað eiga sjómenn að gera við þorskinn sem kemur upp með ýsunni? 


Rómantík.

Enn eru það sjávarútvegsmál sem eru á dagskrá hjá mér. Er þetta ef til vill eintóm rómantík að vilja að fólk geti stundað sjóinn. Er það rómantík og óraunsæi að menn geti haft lifibrauð af því að róa á litlum bát sem maður á sjálfur, ræður sjálfur. Er það rómantík að menn geti rekið svona lítið til meðalstórt útgerðafyrirtæki nálægt miðunum og haft ofan í sig og á.

Sjálfsagt er þetta óraunsæi og rómantík. Núna er öldin önnur. Núna ráða hagfræðingar. Því skal hlutunum komið þannig fyrir að hámarks gróði fáist með sem minnstri fyrirhöfn. Þá er sjálfsagt best að hafa örfá stór fyrirtæki sem geta beitt mikilli hagræðingu til gróðamyndunar. Að sjálfsögðu verður starfsfólkinu greitt eftir taxta annars eykst ekki gróðinn.

Er þetta bráðnauðsynlegt. Er ekki tími né ráðrúm til að hafa smá rómantík í lífinu. Liggur okkur lífið á? Getum við ekki hægt aðeins á okkur og notið lífsins á annan hátt en að bókfæra alltaf þennan gróða.

Ef þessar þjóðfélagsbreytingar væru knúnar fram af óvefengjanlegum vísindarannsóknum þá gæti maður ekki sagt mikið. En núna eru mjög margir sem hafa miklar efasemdir um niðurstöður Hafró. Það er alls ekki hægt að tala um einhug um rannsóknaraðferðir Hafró. Verst er að ráðleggingar eins og Hafró er með hafa hvergi skilað árangri. 

Þessa dagana getur maður ekki annað en fundist forystumenn þjóðarinnar vera að klæmast á fornri Íslenskri rómantík-að vera sinn eigin herra og sjá sínum farborða.

 

 


Kolefnisjöfnun-eða hvað?

Nú sit ég enn og aftur og brenni í mínum Mexíkóska ofni. Drekk hvítvín sem ég verð að kæla sökum óvenjumikilla hita hér í Reykjavík. Venjulega kólnar það af sjálfsdáðum hér úti á pallinum. Ekki hef ég hugsað mér að kolefnisjafna þennan bruna neitt sérstaklega. Reyndar setti konan niður nokkur blóm um daginn, ég veit ekki hvað þau vigta þungt í þessu sambandi.

Reyndar er ég þeirrar skoðunar að okkur beri að minnka mengun eins og kostur er. Þess vegna drekk ég gjarnan úr plastglösum því það er víst minnsta mengunin. Það kostar meira að þvo venjuleg glös og ég tala ekki um sápuna sem við sleppum út í umhverfið samfara þeim þvotti. Plastglösin fara í náttúruna og eru þar og hafa engin áhrif.

Ég hef enga trú á því að við séum að grilla jörðina til frambúðar sem er ekki það sama og að okkur leyfist að búa til ómælt magn af gróðurhúsalofttegundum. Það ber að minnka eftir því sem tök eru á. En þessir dómsdagsspádómar eru hreint rugl. T.d. hefur verið margsinnis mun heitara á jörðinni en núna og samt er ég að blogga ósviðinn.   

Kolefnisjöfnun er nokkuð merkilegt fyrirbæri. Ef ég tek þá meðvituðu ákvörðun að menga þá get ég greitt fyrir með því að borga í sjóð og hef fengið þannig syndakvittun. Þetta er syndaaflausn nútímans samanber syndaaflausn kaþólskunnar fyrr á öldum. Það er sjálfsagt skammt í sjóð  sem maður getur greitt í áður en maður heldur fram hjá konunni eða hvað? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband