Færsluflokkur: Bloggar

Fjölskylduboð.

Ég var í stúdentsveislu áðan. Gott að borða og drekka, ágæt stemning. Var reyndar í annarri slíkri veislu í gær. Gott að borða og drekka, ágæt stemning. Fólk að tala og masa, sumir með húmor aðrir án nokkurs húmors. Þessir húmorslausu eiga bágt, lifa í einhverju regluverki sem við hin með húmorinn föttum ekki. Maður virðir fyrir sér gestina, lífið hefur farið mishörðum höndum um þá. Sumir með ættarsögu og fengið kransæðasjúkdóm snemma, sumir í sömu sporum án ættasögu, sjálfsagt ranglega feðraðir, hver veit. Enn aðrir drukkið eða reykt frá sér alla heilsu, en áfram skrölta þeir þó. Vissir hafa átt marga maka og mörg börn sem gerir ómannglöggum manni eins og mér erfitt fyrir, veit varla hver er hvurs eða þannig. Þetta veldur að sjálfsögu spennu, sem þeir hafa etv gaman af sem til hafa stofnað en ekki okkur hinum. Jafnvel illdeilum því þeim láðist að tilkynna makaskipti í tíma.

Spurningin er hvernig maður nýtir þann tíma sem manni er gefinn. Tekur því að reiðast og eiga í illdeilum við vini og vandamenn, er lífið ekki of stutt til þess. Er lífið ekki of stutt til að glápa á sjónvarp ef maður vanrækir sína nánustu. Ég ætti kannski að fara að hringja í einhvern mér nákominn.


Geirbjörg.

Núna upplifum við lognið. Minnst lítið sagt en meira skrafað. Þetta er tímabilið sem maður þekkir svo vel, skömmu eftir endurlífgun, mun sjúklingurinn hafa það eða ekki. Nú bíðum við eftir sumarþingi og nýrri stefnuræðu. Vonandi fáum við nánari útfærslu á stjórnarsáttmálanum.

Fyrir mig persónulega skiptir mestu máli stefnan í heilbrigðismálum og sér í lagi nýbygging Landspítalans. Það tel ég vera eitt brýnasta verkefnið í heilbrigðismálum, ekki bara vegna þess að ég vinn þar heldur mun sú framkvæmd gagnast mjög mörgum. Auk þess mun nýbyggingin borga sig þegar fram líða stundir með færri spítalasýkingum og annarri hagræðingu. 

Aftur á móti skiptir miklu hvað Geirbjörg stjórnin mun gera fyrir Flateyinga. Menn geta velt fyrir sér tilvistarrétti lítilla staða úti á landi en ég held að það hljóti að vera óumdeilt að þessar hamfarir samrýmast ekki réttlætis ("kristilegu uppeldi-það sem þér viljið að...") kennd okkar. Sérkennilegt þegar snjóflóð fellur þá er hægt að reisa varnargarð fyrir mikla fjármuni. Aftur á móti þegar þessi hörmung ríður yfir byggðarlagið þá er fátt um varnir. Líkurnar á nýju snjóflóði eru þó mun minni en endurtekning gjaldþrota sem þessu. Það sýnir sagan að minnsta kosti.  

Nú er mál að linni. 

 


Guðlaugur Þór.

Gleðin er svo mikil hjá stjórnarliðum að maður hrífst auðveldlega með. Vonandi verða aungvir timburmenn á morgun þegar loforðalistinn birtist. Leitaði með logandi ljósi á netinu eftir greinum um heilbrigðismál eftir Guðlaug Þór en fann ekkert. Sendi honum póst og óskaði eftir stefnu hans. Nokkuð spennandi að vita hvað Sjálfstæðismenn ætla að gera í heilbrigðismálum. Hvað ætli það sé langt síðan þeir báru ábyrgð þessum málaflokki. 

Tel mikilvægast að haldið sé áfram með nýbyggingu Landspítalans. Frábið mér orðið "hátæknisjúkrahús". Auglýsi reyndar eftir höfundi þess orðskrípis. Hvernig myndi það hljóma ef Flugleiðir færu að auglýsa sig sem "hátækni flugfélag". Voru gömlu rellurnar fótstignar eða hvað. Að sjálfsögðu er Landspítalinn hátæknisjúkrahús, hefur verið það og mun vera það. Það sem okkur vanhagar um er pláss, getum ekki skipt um skoðun innandyra með góðu móti. Starfsfólk þarf að fara inn á salerni deilda og skipta þar yfir í vinnuföt og hengja sín eigin fót á snaga í Bónuspoka. Ekki það að Bónus sé slæm verslun, bara að ef þetta breytist ekki á næstu árum verður þetta "Baugsstjórn" í minningu okkar.

Það hefur stundum borið á því að fólk stilli upp nýbyggingu Landspítalans á móti uppbyggingu fyrir aldraða. Bið fólk að minnast þess að langflestir sjúklingar Landspítalans eru aldraðir. Allir sem eru "yngri" og heilsugóðir eru, eru meðhöndlaðir utan Landspítalans í dag.

Verður mjög spennandi að sjá Hvort Einar sjávarútvegsráðherra mun framvegist alltaf koma af fjöllum þegar þorp úti á landi eru lögð niður á einni nóttu, eða mun hann vera með á nótunum framvegis. Jafnvel taka kvótakerfið til gagngerrar endurskoðunar. 

 

 


"eru þetta hvort sem er ekki allt útlendingar........"

Það hefur verið umræða um lokun Kambs á Flateyri í umhverfi því sem ég lifi og hrærist í. Virðist sem fólk hér fyrir sunnan hafi ekki miklar áhyggjur af þessu. Þetta sé nánast eðlileg þróun og hluti af góðri hagræðingu, öllum til hagsbóta.

Þegar umræðan berst að einstaklingunum sem verða fyrir atvinnumissi og eignir þeirra verða nánast verðlausar grípur fólk til sérkennilegra mótraka. "Eru þetta hvort sem er ekki allt útlendingar ..."  mjög sérkennilegur málflutningur sérstaklega með hliðsjón af umræðunni um erlent vinnuafl sem var hér fyrir kosningar. Það virðist vera í lagi að selja kvóta og tala niður til útlendinga eftir kosningar. Það virðist vera fljótt að gleymast að íbúar Flateyrar eru líka Íslendingar þó þeir séu af erlendu bergi brotnir.

Svo heyrir maður frasann "þetta fólk" . Þarna er komin inn einhver skilgreining á Íslendingum í mismunandi "fólk". Ef við tilheyrum vissum hóp þá er í lagi að tilverunni sé kippt undan manni.

Það virðist vera töluvert verk að vinna þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð okkar. 


Kambur og langamma.

Eftir fréttatíma kvöldsins stendur unga konan frá Flateyri upp úr. Hún hafði flutt þangað í ágúst. Sjálfsagt búin að koma sér og sínum vel fyrir. Með fasta vinnu og drauma um framtíðina. Svo hrynur tilveran í einu vetfangi. 

Karlinn í plássinu ákvað að selja allt draslið og kvótann. Þar með hrundi sú goðsögn að Vestfirðingar væru karlar í krapinu.

Langamma brá búi í Dýrafirðinum þegar langafi drukknaði frá 10 börnum, skiljanlegt ekki gat hún látið börnin svelta í hel, amk hefði ég þá ekki komið undir. Miðað við langömmu er karlinn á Flateyri hálfgerður eymingi.Ekki skil ég í þeim að væla svona, hvers vegna hafa þessir "karlar" ekki safnað liði á liðnum árum og kippt þessari óstjórn fiskveiða í liðinn-ég hélt að við Vestfirðingar værum ekki svo leiðitamir. Gyðingarnir voru leiddir í gasklefana án mótþróa og þeir hlutu eilíft líf að launum. Hvað fær "karlinn" að Flateyri að launum.


Frumblogg.

Nú er ballið byrjað. Aldrei hafði ég trúað því að ég myndi fara að blogga. Nú er ég kominn í súpuna eins og allir hinir. Etv er það þannig að þegar börnin vaxa úr grasi hafi maður meiri tíma til að hugsa og mynda sér skoðun. Amk fyrir karlmann sem getur bara hugsað um einn hlut í einu. Við fengum okkur reyndar kött og hund en þau taka ekki svo mikinn tíma. Ég hafði bundið nokkrar vonir við hundinn að hann yrði mér undirgefinn. Þá yrði ég ekki aftastur í röðinni í fjölskyldunni, en sú von brást, hann hlýðir bara konunni. Þá er þrautarlendingin að blogga út í geyminn. Þá hefur maður að minsta kosti orðið og það er ekki gripið fram í fyrir manni, nema einhver hnjóti um bloggið og andmæli manni.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband