Færsluflokkur: Bloggar

Börnin okkar og eiturlyf.

Það kom kona í heimsókn til okkar hjóna í dag. Þó ég væri fullur af tyrkneskum vírus með hálsbólgu og hita skynjaði ég þó að hún hafði frá ýmsu að segja sem olli mér heilabrotum. Mín heilabrot hafa í sjálfu sér aldrei verið merkileg en brot er þó alltént brot.

Dóttir hennar hafði lent í eiturlyfjum og stríðið hafði staðið í mörg ár. Sigrar og ósigrar. Hún hafði þá sterku sannfæringu að gefa ætti eiturlyf "frjáls". Í raun ekki frjáls. Heldur að koma í veg fyrir gróðamyndun við innflutning og sölu á eiturlyfjum. Hún var þeirrar skoðunar að ef eiturlyf væru meðhöndluð á sama hátt og áfengi væri hægt að losna við marga óæskilega fylgifiska eiturlyfjasölu. ÁTVR selur áfengi reyndar ekki ódýrt, en ekki á uppsprengdu verði. ÁTVR er ekki með handrukkara á sínum snærum enda allt staðgreitt þar. Þar að auki myndi allur ávinningur sölunnar renna í sameiginlega sjóði okkar landsmanna en ekki í vasa eiturlyfjabaróna.

Í raun ganga þessar hugmyndir út á það að lítill munur sé á áfengi og öðrum eiturlyfjum. Það er svolítið erfitt að vera andsnúinn því, því í raun er enginn munur á kúk og skít.

Auk þess er önnur forsenda að eiturlyf hafi alltaf fylgt mannkyninu og muni alltaf gera það. Því sé sú hugmynd að reyna að uppræta eiturlyf í eitt skipti fyrir öll andvana fædd hugsun. Það er erfitt að andmæla þessu því EVA beit í eplið og þar við situr.

Ég get ekki neitað því að gróandinn á mínum heilabrotum geti látið bíða eftir sér. 


Sálartetur Sjálfstæðismannsins.

Ég var að koma frá Tyrklandi í nótt og bunki af ólesnum blöðum beið mín. Það sem ég rak augun fyrst í voru greinar í Blaðinu um smásölu lyfja. Ólafur Adólfsson lyfsali á Akranesi er að rífa kjaft yfir því að stórlaxarnir í bransanum eru að setja hann á hausinn með undirboðum. Hálfgerð ósvífni hjá Óla, þó að hann sé vanur því úr boltanum að dómari dæmi á andstæðinginn sem hefur rangt við þá gildir annað í bísniss. Þar er Darwinn gamli alsráðandi. Þróun tegundarinnar er nefnilega komin lengra en svo að einstaklingsframtak eða önnur frjálshyggju vitleysa borgi sig. Núna er það hringamyndun sem er inni. Í smásölu lyfja eru tveir risar sem ætla allt lifandi að drepa, með góðu eða illu. Dæmisögurnar frá Vestmannaeyjum og Borgarnesi sýna það glöggt. Í sjávarútvegi eru nokkrir stórir að gera sömu hluti með þeim afleiðingum að allt einstaklingsframtak deyr víðsvegar um land. Forsetsráðherra landsins dásamar þessa þróun og kallar hana "aukna hagræðingu og stöðugleika".

Í Bandaríkjunum, frjálshyggjulandinu, eru lög gegn hringamyndunum. Því eru hlutirnir á Íslandi ekki í samræmi við eðlilega frjálshyggju. Hér á landi virðast ekki vera nein lög gegn hringamyndun sem virka, enda ekki von á góðu þegar Forsetsráðherra dásamar ástandið.

Þar sem ég var búsettur í Svíþjóð í 9 ár þekki ég kerfið þar. Þar voru þrír aðilar sem skiptu allri nýlenduvöruverslun á milli sín. Þar voru þrír aðilar sem skiptu allri nýbyggingu húsa og vega á milli sín. Mjög hagstætt fyrir fyrirtækin. Þau höfðu algjörlega í sinni hendi alla verðlagningu á sínu svæði. Engin óæskileg samkeppni. Hægt að sjá fyrir stöðu bókhaldsins við upphaf árs. Engin óþarfa óvissa. Aftur á móti hefur neytandinn stöðu þrælsins í þessu kerfi. Þetta er það sem ég kalla ríkisrekinn kapítalisma.

Núna dásamar formaður þess flokks sem hingað til hefur verið tengdur einstaklingsframtaki þessa þróun á Íslandi. Hann er orðinn einn helsti talsmaður ríkisrekins kapítalisma. Enda upplifi ég hann sem Göran Persson Íslands.

Sönnum Sjálfstæðismönnum hlýtur að vera svolítið órótt í sálinni þessa dagana. 


Tyrkland og Guðstrúin.

Nú er Tyrklandsævintýrinu lokið. Við komum heim í nótt. Allir voru sammála um að ferðin hafi verið meiri háttar vel heppnuð. Okkur fannst gott að vera í Tyrklandi. Fjölskyldan vill mjög gjarnan fara aftur að ári og segir það sína sögu. Vorum á Club Turban hótelinu seinni vikuna. Nutum lífsins þar í hvívetna. Get virkilega mælt með Tyrklandi sem ferðamannastað.

Það sem gerir Tyrkland óneitanlega svolítið sérstakan ferðamannastað er að það er múslímskt land. Oftast höfum við verið að ferðast um kristin svæði, lútersk eða kaþólsk. Tyrkland hefur þá sérstöðu að fullur aðskilnaður er á ríki og trú. Sem ferðamaður í Tyrklandi er nánast ekkert sem bendir til þess að maður sé í landi þar sem 99% íbúanna séu múhameðstrúar. Maður var ekkert var við trúariðkun landsmanna. Enginn af þeim Tyrkjum sem voru að vinna í kringum mann virtust biðjast fyrir fimm sinnum á dag. Einstaka konur voru huldar klæðum en þær voru algjör undantekning. Flest minnti mann á vestræna menningu, bæði í háttalagi og öllu umhverfi.

Það vakti auk þess athygli mína að nýkjörinn forseti Tyrklands, sem hefur verið hallur við strangtrúarstefnu, gerði strax grein fyrir því að hann hygðist ekki breyta neinu í sambandi trúar og ríkis. Enda eins gott fyrir hann, því annars mun herinn setja hann af.

Svipað hugarfar ríkir hér á landi, nema með öfugum formerkjum. Þegar alræmdur vinstri maður, Ólafur Ragnar, er kjörinn forseti á Íslandi þá gengur ekki hnífurinn á milli hans og lútersku kirkjunnar á Íslandi. Ef hann hefði vogað sér að setja sig upp á móti kirkjunni hefði hann aldrei náð kjöri sem forseti. Þá hefði "herinn" sett hann af.

Hér á landi er ekki neinn aðskilnaður trúar og ríkis. Að því leitinu erum við komin skemur á veg en Tyrkir. 


Tyrkneskt detox.

Við höfum verið hér í góðu yfirlæti í Tyrklandi. Þessa vikuna erum við á Hoteli Club Turban. Þar er allt innifalið, fullt fæði og drykkir allan liðlangan daginn. Dagurinn er þétt bókaður. Tímafrek sólböð sem eru tafin með sífelldum sjávarböðum til að forða líkamanum frá suðumarki. Svo fer töluverður tími í að skola niður 3 lítrum af vatni á dag ásamt ögn af bjór eða brandy. Þegar meðvitundarstigið er vart finnanlegt þá skellir maður í sig tyrknesku kaffi.

Detox meðferð hefur verið vinsæl á Íslandi upp á síðkastið. Einhverskonar afeitrunarmeðferð í gegnum ristilþvott. Sem læknir þekki ég það mjög vel að þetta líffæri á hug manns allan við upphaf og lok lífs okkar. Þar sem ég tel mig vera staddan einhvers staðar mitt á milli þessara tveggja póla í lífi mínu velti ég frekar fyrir mér öðrum líffærum.

Ég held að tyrkneskur HEILAÞVOTTUR sé frekar við hæfi nú til dags. Ristillinn og innihald hans er hvort sem er fyrir utan líkamann og þar að auki er það líffæri að mestu sjálfvirkt. Heilinn aftur á móti er óneitanlega hluti af líkamanum. Ég held að við ættum að sína honum viðlíka virðingu og skolpröri skrokksins.

Að fara í frí og slaka á ætti að vera mun meðvitaðra ferli. Hvers vegna pantar maður sér bara tvær vikur á svona letistað. Jú, sú hræðilega staða gæti komið upp að manni færi að leiðast ef maður væri í þrjár vikur. Hvað er að leiðast? Að hafa svo mikinn tíma til að gera ekki neitt annað en það sem hugurinn girnist að það veldur óróleika í heilanum.

Ég held að tyrkneskt detox sé okkur öllum holl. 


Gullna klukkustundin.

Þetta er mjög gott mál hjá Guðlaugi og vonandi kemur eitthvað gott frá þessari nefnd. Það er oft rætt um hina gullnau klukkustund við björgun. Er þá átt við að ef ekki er vel og rétt staðið að málum í upphafi þá skiptir litlu máli hversu góð þónustan er á síðari stigum.

mbl.is Vinnuhópur skipaður til að skoða skipulag sjúkraflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkneskur strætó.

Hér í Marmaris í Tyrklandi er strætó. Hann er að mestu rekinn af einyrkjum. Þeir eiga sinn vagn og reka hann sjálfir. Þeir hafa hagsmuna að gæta, þ. e. sinna.

Þeir hafa vagninn frekar lítinn þannig að hann fyllist fljótt. Yfirbyggingin er skorin við nögl, bara þeir sjálfir. Þeir keyra sem oftast fyrirfram ákveðna leið því þannig ná þeir í sem flesta farþega. Farþegarnir þurfa ekki að kunna neina tímatöflu því hún er ekki til. Maður gengur bara út á götu og vinkar þá stoppa þeir, svo taka þeir við aðgangseyrinum sjálfir. Síðan segir maður bara STOPP og þá stoppar hann. Það gæti ekki verið einfaldara og þess vegna DETTUR MANNI EKKI Í HUG AÐ TAKA LEIGUBÍL.

Hvatir strætisvagna höfuðborgar Íslands eru allt annars eðlis. Sem fæstir farþegar sem sjaldnast gefur af sér minnstan kostnað. Þess vegna er það sem manni dettur fyrst í hug í Reykjavík er TAXI. 


Betlarinn LSH.

Guðlaugur heilbrigðisráðherra ráðleggur LSH að taka sér lán fyrir skuldunum.

Ég er staddur í Tyrklandi þessa dagana. Hér prúttum við. Kaupmaðurinn hefur voru að selja og ég seðla. LSH hefur ekki neitt. LSH skuldsetur sig hjá kaupmönnum. LSH er boðið að skuldsetja sig enn frekar hjá ríkinu. Ég hélt að þrælahald væri afnumið. Ríkisafskiptaflokkurinn(X-D) nýtur þess að spinna upp ríkið.

Ef LSH væri í sömu aðstöðu og bankarnir væri öldin önnur. Þá hefði LSH réttarstöðu prúttarans og gæti verðlagt sína vöru og selt hana. Þá hefði LSH tekjur og gæti greitt sínar skuldir. Þá hefði LSH virðingu.

Í dag er LSH betlari, þeir stunda ekki viðskipti enda hefur þeim á flestum stöðum verið úthýst, mellur eru enn til staðar enda stunda þær viðskipti og hafa því virðingu.

Hvernig væri að menn átti sig á því að LSH framleiðir gæðavöru og hætti að umgangast hann sem betlara. 


mbl.is Viðvarandi vanskil LSH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjóferð-Gökova.

Í dag fórum við í sjóferð á tyrkneskum bát frá Gökova. Báturinn heitir Memo. Skipstjórinn heitir Jósep. Hann er líka kokkur og kafari. Siglt var meðfram ströndinni og á milli eyjanna. Veðrið var stórkostlegt. Jósep stoppaði á nokkrum stöðum og við syntum í sjónum. Í hádeginu grillaði hann þennan fína mat, frændi hans, dóttir og barnabarn voru hásetarnir. Allt mjög elskulegt og þægilegt fólk. Þessi dagur var ákaflega vel heppnaður og allir alsælir eftir útivistina.

Tyrkland-vatnsrennibrautagarður.

Nú jæja, að sjálf sögðu urðum við að fara í vatnarennibrautargarð með stelpurnar. Sérstaklega þá 11 ára.Munurinn á Marmaris og Florida í þessu samhengi er mikill. Það er bara 5 mínútna rölttúr á garðinn frá hótelinu okkar. Ekki klukkustundar akstur eins og í Florida og þar að auki verður ,maður að læsa bílhurðunum þar til að verða ekki rændur á rauðu ljósi eða jafnvel stútað. Hér röltir maður í rólegheitum og óttast ekki um líf sitt. Inngangseyrinn er bara brot af því sem það kostar í Florida. Maturinn á staðnum er mun ódýrari og þar að auki mun hollari. Og það besta af öllu er að allir skemmtu sér konunglega og komu nánast óþreyttir heim. En í Florida var maður algjörlega búinn á sál og líkama eftir einn dag í skemmtigarði og mjög mikið fátækari. "Fólks" skellið ykkur bara til Marmaris!!!!.

Naflastrengurinn.

Það er mjög merkilegt að vera í Tyrklandi. Hér voru fyrstu vínin í heiminum ræktuð. Hér er borg sem heitir Efesus og er mörg þúsund ára gömul. Þar eru almenningssalerni og upphituð gólf. Íslendingar voru þá ekki einu sinni til. Þegar þeir birtust hafa þeir sjálfsagt verið flokkaðir sem villimenn af Tyrkjum. Svo erum við að setja okkur á háan hest. Í Istanbúl er kirkja sem er 1500 ára gömul og var ein stærsta kirkjan í veröldinni um 800 ára skeið. Geri aðrir betur.

Við hjónin höfum verið að ferðast svolítið að undanförnu. Heimsótt Madrid, Prag og Barcelona. Nú Kaupmannahöfn að sjálfsögðu. Þegar maður drekkur í sig menningu þessara borga, þá á einhvern hátt nær maður að samsama sig þessari fornu menningu. Á einhvern hátt er maður hluti af henni, maður finnur fyrir samhljóm. Maður fær svolítið sérstaka tilfinningu í sálina, hálfgerða helgun eða jafnvel dýpt og ró. Við eigum okkar upphaf hér, það eimir svolítið eftir af þeim naflastreng.

Við vorum á Florida fyrir ári. Gott frí í sjálfu sér. Heimsóttum skemmtigarðana fyrir börnin. Tilveran í Florida er svolítið öðruvísi en í Evrópu. Florida er tilbúin veröld. Í raun getur bara krókódíllinn búið í Florida án þess að gjörbreyta öllu umhverfi sínu með þurrkun fenja, loftkælingu og þess háttar. Í raun er Florida nánast óbyggilegt fyrir menn nema með þessum tilfæringum. Þetta er bara mjög rakt, heitt fenjasvæði fyrir krókódíla. Reyndar er krókódíllinn friðaður í Florida. Því er hann eina skepnan sem hefur öruggan tilvistargrundvöll í Florida. Hann er friðaður, enginn mé drepa hann, honum er hvorki of heitt né kalt þar sem hann marir hálfur í kafi. Auk þess má hann éta alla hina íbúana í Florida. Góður díll.

Svo eru hinir dílarnir í Flórída. Það eru þeir sem selja manni allt milli himins og jarðar. Ég held að það eina sem er frítt í henni Ameríku er loftið sem maður andar að sér. Allt annað selja þeir manni og líf þeir gengur út á að selja. Að selja eru þeirra trúarbrögð. Að selja er þeirra menning.

Þegar Evrópubúar fluttu til Ameríku þá slitnaði naflastrengurinn, því miður. Núna eigum við í vandræðum með þennan ungling sem veit ekki ennþá muninn á réttu og röngu. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband