Færsluflokkur: Bloggar

11. boðorðið og mannát.

 Þetta er grein sem birtist eftir mig í Fréttablaðinu í dag.

 

11. boðorðið og mannát.

Málefni tengd fiskveiðum og vinnslu hafa fjarlægst daglega umræðu okkar Íslendinga. Þessi þróun hefur gerst hratt á síðustu áratugum. Sennilega hefur afli, spretta og veður verið forfeðrum okkar hugleikin s.l. þúsund ár eða svo. Á mannamótum í dag eru þeir sem ræða um sjómenn eða bændur í þaula álitnir svolítið skrítnir. Aðrir hlutir þykja fínni umræðuefni svo sem bankar, peningar og viðskipti.

Ég veit ekki hvort þessi þróun í samfélaginu sé ástæðan fyrir því að líffræðingarnir á Hafrannsóknarstofnun fóru að beita hagfræði við fiskeldi. Hvað sem því líður þá stöndum við frammi fyrir því að hagfræði þeirra hefur skilað okkur hörmulegum árangri í fiskeldi. Hagfræði Hafró gengur út á það að banna mönnum að veiða fisk. Þetta er orðið eins og 11. boðorðið í íslensku þjóðlífi. Meðan við höfðum eingöngu 10 boðorð virkaði þetta vel. Þá sá náttúran um sig sjálf. Ef það var bræla var ekki farið á sjó, það er eins í dag. Ef netin voru hálftóm flutti flotinn sig til. Þegar menn gátu veitt þá veiddu þeir hvað þeir gátu. Samt var alltaf fiskur í hafinu.

Svo kom 11. boðorðið. Bannað að veiða fisk og sérstaklega ekki lítinn ungan fisk. Hver er niðurstaðan? Vægast sagt hörmuleg. Það er ekki mikið af fiski í hafinu. Sá fiskur sem veiðist er horaður með magafylli af afkvæmum sínum. Fiskurinn er ekki bara horaður heldur mun minni en jafnaldrar hans voru þegar menn veiddu eins og þeir gátu.

Þegar við sjáum fréttamyndir af manneskjum sem hafa lent í hungursneyð, rýr, sljó og með þaninn maga vegna eggjahvítuskorts, hvað gerum við þá? Sendum þeim mat ekki satt. Nú ef þessar manneskjur fá engan mat þá deyr stærsti hlutinn og þeir sem lifa af verða vel nærðir og sterkir.  Ef mannát væri viðurkennd iðja hjá mannskeppnunni þegar ekkert annað væri á boðstólnum þá kæmi hungursneyðin mun síður fram ekki satt?

Ég læt öðrum eftir að hártogast frekar með hagfræðikenningar Hafró, enda botnar enginn neitt í þeim. Meginniðurstaðan er sú að takmörkun veiða hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Það er ekki ásættanlegt að það sem við höfum haft úr býtum sé horaður, vanþroska fiskur fullur af sjálfum sér.Við ætlumst til betri árangurs þegar mestu mannvitsbrekkur landsins eiga í hlut. Borið saman við almennt hyggjuvit forfeðra okkar þá er árangurinn ansi rýr.

Ég tel að í þessu máli sé brýn þörf á uppstokkun og endurskoðun allra málavaxta. Það er ekki ásættanlegt að bæði þorskurinn og mannlíf út á landi sé nánast að engu orðið. Í þúsund ár beyttu forfeður okkar hyggjuvitinu í umgengni sinni við náttúruna en ekki hagfræði. Hagfræði á vel heima á öðrum sviðum mannlífsins. Að lokum tel ég nauðsynlegt að innleiða sjálfbæra þróun bæði í fiskveiðistjórnun og Hafrannsóknarstofnun ríkisins.

 

 

 


Leiðtoginn-Ólafur F Magnússon.

The image “http://www.legacee.com/Assets/Assets_Services/Assets_Leadership/Assets_Workshops/washdel.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Ólafur F Magnússon er orðinn leiðtogi okkar Reykvíkinga. DV í dag reynir að veita okkur óbreyttum borgurum innsýn inn í persónuleika Ólafs. Maðurinn er að sjálfsögðu ýmsum kostum búinn. Hlýr, viðkvæmur, hreinskiptinn, góður félagi og samkvæmur sjálfum sér. Ókostirnir geta verið að hann er einrænn, dulur og þver. Honum er illa við málamyndanir og forðast þær eins og pestina. Það heitir á fínu máli að vera fylginn sér. Vonandi gangi honum nú allt í haginn, þrátt fyrir allt.

Enda er það augljóst þegar horft er til stefnumála nýs meirihluta. Ólafur hefur nánast ekki gert neinar málamiðlanir við stærsta og sterkasta stjórnmálaafl landsins, Sjálfstæðisflokkinn. Auk þess er það bersýnilegt að þeir ætla að leyfa honum að stjórna, milljarði kastað í fúaspýtur á Laugaveginum. Reyndar kom það sér ákaflega vel fyrir Þorgerði Katrínu, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafði eitthvað upp úr krafsinu.

Þegar haft er í huga háðsglósur og hlátur Sjálfstæðismanna þegar Ólafur F gekk af vettvangi þess flokks auk niðurlægingarinnar fyrir Ólaf þegar Villi sveik hann er þetta mál allt hið sérkennilegast. Þegar sterkasta stjórnmálaafl landsins drýpur niður í duftið fyrir gömlum liðhlaupa, þá hlýtur eitthvað mikið að hanga á spýtunni. Það getur varla verið bara hefnd og völd. Sjálfstæðisflokkurinn er þekktur fyrir mun fínni takttík en svo.

Reyndar finnst okkur Reykvíkingum þær orðnar allar frekar illa lyktandi, hvaða nafni þessar tíkur eru svo sem kallaðar. 

 


PÓLITÍK-meirihlutinn jarðaður í "kyrrþey".

Skáksnillingurinn var jarðaður í kyrrþey, sóknarpresturinn vissi ekki einu sinni um það. Eins fór fyrir meirihluta Borgarstjórn Reykjavíkur. Þau voru jörðuð í kyrrþey- eða þannig sko. Þau vissu ekkert af sinni eigin jarðarför. Það má segja að þau voru kviksett.

Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Borgarbúar eru fullir hneykslan og undrun. Trú almennings á pólitík fer hraðminnkandi þessa dagana.Guðjón Ólafur er alsettur hnífsstungum eftir Börn Inga. Bingi segir að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að stinga bróður sinn á hol í aðdraganda prófkjörs. Síðan eigi menn að gleyma öllu eins og ekkert hafi í skorist. Ólafur F skellir sér í samstarf með Sjálfstæðisflokknum samtímis sem samflokksmanneskja hans Margrét Sverris er enn í samtarfi með R-listanum. Hvað á almenningur að halda. Sjálfsagt munu flestir túlka þetta þannig að menn hafi sameinast um stóla en ekki málefni. Er ekki Ólafur í algjörum minnihluta í þessu meirihlutasamstarfi. Ég bara spyr?

Sjálfsagt er hægt að óska Ólafi til hamingju, hann hefur komist í oddaaðstöðu. Vonandi kemur hann góðum málum áfram. Það sem veldur mér mun meiri áhyggjum er tiltrú almennings á fulltrúarlýðræðinu. Eigum við ekki að hafa kosningar í sveitastjórnum þegar meirihlutar falla?  Hvernig virkar það á fólk að vera í ákveðnum stjórnmálaflokk í kosningum en ekki í honum síðar við meirihlutamyndun?  

Það er greinilega margt sem er enn órætt í okkar lýðræðisþjóðfélagi. 


LANDSPÍTALINN OG SAMKEPPNI UM SJÚKLINGA.

 Þetta er grein sem birtist eftir mig í 24stundum þann 18 jan.

 vetrarriki_fossvogi_2002

 

 Þann 10 janúar s.l. skrifar Hanna Katrín Friðriksson mjög athyglisverða grein í 24 stundir. Þar gerir hún grein fyrir því að hinn lagalegi rammi um val sjúklinga á þjónustu innan heilbrigðiskerfis Evrópu sé vel á veg kominn. Því muni ég geta sótt þjónustu til annarra landa ef svo ber undir á kostnað íslenska ríkisins. Að vísu bendir hún á að einhver skilyrði verði fyrir því. Ef engin óeðlileg bið er eftir aðgerð í heimalandinu eigi maður ekki átt rétt á þessu. Því stefnir í að sjúklingar fari að velja á milli sjúkrahúsa innan ESB og ESS. Þetta hljómar mjög vel.

Þar með er komið að mér sem sjúklingi að taka upplýsta ákvörðun hvar ég vil láta meðhöndla mig. Ég vil að sjálfsögðu fara á það sjúkrahús sem ég treysti best fyrir heilsu minni. Til að leggja mat á það þarf ég upplýsingar. Ef ég ætla í skurðaðgerð vil ég vita hversu margar aðgerðir eru gerðar af þessari tegund á viðkomandi spítala. Hver er árangurinn, hversu margir lenda í aukaverkunum eins og sýkingum eða blæðingum? Hversu margir lifa af eða deyja? Ef aukaverkanir verða svæsnar er þá góð gjörgæsla á spítalanum? Ef ég veikist í öðrum líffærakerfum, eru þá færir sérfræðingar á sjúkrahúsinu til að sinna því? Er verkjameðferðin fullnægjandi? Hvernig er persónuleg aðstaða mín á sjúkrahúsinu? Verð ég á einbýli eða þröngu fjölbýli? Eru fjárhagserfiðleikar á stofnuninni? Er starfsandinn góður?

Þetta eru í raun svipaðar hugsanir sem fara í gegnum kollinn á manni þegar maður kaupir sér flugmiða. Er flugfélagið vel rekið? Hvernig er viðhald flugvélanna. Eru þeir með góða flugmenn?

Hvernig nálgast ég slíkar upplýsingar. Ég veit til þess að sumir erlendir spítalar hafa þessar upplýsingar á heimasíðum sínum og til eru heimasíður sem sérhæfa sig í slíkum upplýsingum. Eftir því sem ég best veit eru engar slíkar upplýsingar handbærar á Íslandi. Slíkum gagnabanka þyrfti að koma á fót sem fyrst svo fólk geti farið að velta möguleikunum fyrir sér. Auk þess væri æskilegt að hafa slíkan samanburð á millli stofnana hérlendis.

Hvernig stöndum við okkur? Gerðar eru liðlega 150 kransæðaaðgerðir á Íslandi á ári. Á sjúkrahúsinu í Lundi í Svíþjóð eru gerðar fleiri en 1000 á ári. Út frá þessum upplýsingum ætti ég að velja Lund. En eru þeir betri en við? Ristilaðgerðir eru samtals um 60-80 á ári á Íslandi. Hluti af þeim geta verið mjög flóknar og er þá fjöldri slíkra aðgerða vel innan við 10 á ári. Sama gildir um erfiðar vélindaaðgerðir og aðgerðir á briskrabbameini, þær eru vel innan við 10 á ári á Íslandi. Svona mætti lengi telja en erfitt er að átta sig á því hvar við stöndum. Til að geta borið okkur saman þarf meiri upplýsingar. Til þess þarf mannafla og peninga.

Þegar kemur að húsnæðismálum og aðbúnaði sjúklinga þá versnar ástandið. Flest híbýlin reist á fyrri helming síðustu aldar og viðhaldið af íslenska ríkinu. Sú stefna í hnotskurn er reynsla gjörgæsludeildarinnar í Fossvogi sem fékk ekki nýtt þak fyrr en allar skúringafötur voru uppiskroppa til að taka við regnvatninu. Þegar mið er tekið af því að nágrannaþjóðir okkar eru í óða önn að reisa ný sjúkrahús, þá held ég að gömlu jálkarnir okkar fölni í samanburðinum. Til að mynda munu Bretar reisa meira en 100 ný sjúkrahús frá 1997 til 2010. Sömu sögu er að segja frá meginlandi Evrópu, Norðurlöndunum og Bandaríkjunum. Sjálfsagt ætla önnur Evrópuríki að vera tilbúinn í slaginn þegar opnað verður fyrir samkeppni um sjúklinga innan ESB og ESS svæðisins. Við erum ekkert eyland í þessum málaflokki.

Ef Landspítalinn ætlar að verða samkeppnishæfur á þessum markaði er hann ekki tilbúinn. Húsnæðisvandi hans er óleystur. Öll hátæknin er til staðar og oft á tíðum geymd á göngum spítalans vegna skorts á geymslurými. Starfsfólkið er gott og fært á sínu sviði. Reyndar svíður því undan umræðunni. Í henni er iðulega rætt um „eyðslu" hjá LSH. Starfsfólkið „keyrir" fram úr fjárlögum eins og óábyrgur 17 ára gutti nýkominn með bílpróf. Þrátt fyrir sífelldan niðurdrepandi málflutning vinnur starfsfólkið eins vel og það getur.

Ég tek undir með Hönnu Katrínu þegar hún bendir á að sameiginlegur markaður verði mikil áskorun fyrir heilbrigðiskerfi Evrópu og um leið að gríðaleg tækifæri muni skapast. Auk þess er ég henni innilega sammála að það hvetji menn til frekari dáða.

Því eru allir starfsmenn Landspítalans til í slaginn um sjúklinga Evrópu, eins og kappreiðarhestur af bestu sort. Vandamálið virðist vera að knapinn sé ekki til í hlaupið með okkur.

 


Bullshit = BUS.IS

Drengurinn var að vandræðast vegna morgundagsins. Vildi ekki hjóla í vinnuna en vildi gjarnan fá bílinn. Bentum honum á BUS.is.  Hann svaraði stutt og laggott"bullshit". Kom fram á moggablogginu í dag að 3% þjóðarinnar gengur til vinnunnar en eingöngu 2% nota strætó. Það er greinilegt að strætó er eingöngu afarkostum þeirra sem koma engum öðrum ferðamáta við. Þannig er börnunum mínum einnig innanbrjóst, strætó er algjört neyðarúrræði. Hnignun þessa kerfis er með eindæmum og fáa sinn líka. Fádæma hæfileikaleysi til að setja sig í spor þeirra sem hefðu áhuga á að nota strætó frekar en einkabílinn. Ef vottur af tilfinningargreind og metnaði hefði verið til staðar hefði kerfið blómstrað í dag.

Í raun er þetta svo einfalt. Geta greitt með þeim kortum sem maður er venjulega með í vasanum. Vita eingöngu hvaða leið taka skuli og vagninn komi það oft að ekki þurfi að bíða nema í mesta lagi 10 mínútur. Sökum þess hversu málið er auðleyst, en ekki hefur tekist að leysa það, er augljóst að aldrei hefur staðið til að hafa hér almennilegar almenningssamgöngur.


Borgaralegt lýðræði.

Stundum hef ég velt fyrir mér lýðræði og hvernig við beitum því. Að vera Borgari í lýðræðis ríki setur vissar skyldur á herðar manns. Að vera Borgari krefst þess að maður sé virkur, hafi skoðun og komi þeim á framfæri. Ekki bara í kosningum. Margir hafa verið harðduglegir á þessu sviði. Sjálfsagt voru aðal aðferðirnar að mæta á fundi og skrifa í blöð. Einnig hefur sjálfsagt verið mjög áhrifaríkt að geta hitt félagana á minni fundum og lagt á ráðin. Þetta hefur sjálfsagt verið gott og gilt áður fyrr en er sennilega allt of hægvirkt á öld hraðans í dag.

Í dag er hraðvirkari aðferðum beitt. Fulltrúar fólksins eru með heimasíður á netinu, setja þar fram skoðanir sínar og áður en að dagur er að kveldi þá hafa þeir fengið fjölda athugasemda frá virkum Borgurum þessa lands. Gallinn er reyndar sá að oft eru það varðhundar andstæðinganna sem eru duglegastir við að senda inn athugasemdir. Menn verða nú að sætta sig við það og oft reynist sannleikskorn í því sem þeir segja.

Auk þess erum við þessir venjulegu að blogga og rífa kjaft, þar er hægt að taka púlsinn og að reyna átta sig á hvað venjulegir Borgarar eru að hugsa.

Að hafa heimasíðu hefur reyndar vissan galla. Þú ert svolítið berskjaldaður. Þú lætur skoðanir þínar í ljós og hægt að mótmæla þér, svona eins og þú sért í samtali við hálfa þjóðina. Vissum virðist ekki hugnast þessi tækni að öllu leiti. Hafa etv heimasíðu en hún er í formi eintals því ekki er hægt að koma með athugasemdir-sem sagt lokuð heimasíða. Aðrir hafa enga heimasíðu og eru ekkert að vasast í netheimum. Virðist alls ekki tengjast neinum aldri, frekar persónu. Finnst kannski þægilegra að tala við nokkra samherja úr heimasímanum, ekkert ónæði. Lýðræðið er vissulega tímafrekt og krefjandi. Að vera einvaldur finnst sumum einfaldara, örugglega einvaldinum. Því miður verða tengsl þeirra við almúgann oft lítil og ómarkviss. Þeir þorna oft upp því það er nærandi að standa í skoðanaskiptum. 


Vínsala, neysla eða ofneysla.

Það hefur verið nokkur umræða um smásölu víns á Íslandi. Talsmenn frelsisins vilja færa okkur nær Evrópu í þessum efnum. Andstæðingarnir vilja höft og hátt verðlag.

Það er þetta með vímuefnin okkar og stjórnlausa fíkn í þau á móti eðlilegri neyslu. Það er á margan hátt verið að takast á um hvernig við umgöngumst þessi efni og hvernig við tökumst á við þau. Hvernig við höfum meðhöndlað fíkn náungans í vímuefni er merkilegt fyrirbæri. Afstaða okkar á 21. öldinni til fíkla er ekki ósvipuð umgengni forfeðra okkar á holdsveikum hér á öldum áður.

Ef við höldum okkur við samlíkinguna við holdsveika þá var það stefnan að vona inn í það síðasta að veikjast ekki sjálfur. Ef maður veiktist var það refsing æðri máttarvalda og síðan voru viðkomandi úthýstir úr mannlegu samfélagi. Svipað er komið fyrir okkur á dag. Allir vonast til að börnin þeirra verði ekki fíklar. Ef fíkill er í fjölskyldu náungans þá reynum við að forðast frekari umgegni í þeirri von að smitast ekki. Svo viljum við koma þeim fyrir á stofnunum þar sem þau eru "læknuð". Eins og með holdsveikina. Vandamálið er að holdsveiki er ekki fíkn, fíkn er eitthvað sem býr með einstaklingum eða myndast við notkun efnis.

Fíkn á sér þrjár undirstöður. Fíkniefnið, einstaklinginn og fíknina. Þegar allt kemur saman þá er komin fíkniefnaneysla. Til að leysa það vandamál þarf að eyða einhverjum þessara þriggja þátta. Það hefur ekki gengið vel hingað til. Spurningin er hvort það er fullreynt með þeim aðferðum sem við höfum beitt hingað til eða tími endurskoðunarinnar er kominn.

Ef fíkniefnaneysla væri eins og holdsveiki væri vandamálið einfalt. Því miður er ekki svo. Fíkniefnaneysla er flókið fyrirbæri. Ef fíkn er til staðar þá skiptir engu máli hvar fíkniefnið er selt né hversu mikið það kostar. Öllu er fórnað. Því held ég að það skipti ekki máli þó vín sé ódýrara en í dag. Persónulega skiptir það mig engu méli þó ég fari í eina verslun aukalega til að kaupa vín og sé því enga knýjandi þörf á því að færa vínsölu inn í matvöruverslanir. Ef hægt væri að láta fíkniefni hverfa í eitt skipti fyrir öll væri málið leyst. Svo er ekki. Meðan þannig er málum háttað verður að vera til staðar forvarnarstarf og meðferð þeirra sem verða fíklar.

Aftur á móti er umræða um hvernig við ætlum að fást við afleiðingar annarra fíkniefna en víns mjög mikilvæg og þörf.


Jón Magnússon á Útvarpi Sögu.

Ligg heima veikur með tyrkneskt kvef og hita. Get því veitt mér þann munað að hlusta á útvarpið. Í svefnrofanum heyri ég í Jóni Magnússyni þingmanni FF. Hann er þá líka þáttastjórnandi á útvarpi Sögu. Smátt og smátt verða múslímskir vírusar sem heltekið hafa skrokkinn á mér að láta undan orðræðu Jóns og ég fer að hlusta á hann með athygli.

Margt var rætt og skrafað. Greinilegt að áhugi okkar Jóns á söngvaranum Roger Whittaker er sá sami, enda er hann algjör snillingur. Svo kom Magnús Þór til Jóns til skrafs og ráðagerða. Margt sem Magnús benti á sem betur mætti fara, sérstaklega í utanríkisþjónustunni voru þarfar athugasemdir. Stundum upplifir maður utanríkisþjónustuna í misskyldri útrás. Mörg íslensk fyrirtæki eru í útrás fyrir eigin reikning og gera slíkt í því markmiði að hagnast. Að íslensk utanríkisþjónusta sé í útrás á reikning okkar landsmanna er mun vafasamara. Hagnaðurinn er oft vandfundinn og virðist ganga út á flott nafnspjöld í húsakynnum Sameiniðuþjóðanna til handa starfsmönnum utanríkisþjónustu Íslands. Er sammála Magnúsi að utanríkisþjónustan eigi að einbeita sér að málum sem snerta hagsmuni okkar Íslendinga beint.

Varð þó fyrir annarri upplifun líka. Kom upp viss söknuður að Magnús skildi detta út af þingi sl vor. Þar missti FF góðan málssvara sinna mála. Sömu sögu má segja um Sigurjón Þórðar. Þetta er kannski fornaldarhyggja að allt hafi verið betra áður. Nýir menn hafa komið í staðinn. Þeir eiga eftir að sanna sig sem þeir vonandi gera.

Aftur á móti eins og fram kemur fram í þunglyndislegum pistli mínum um tilvistarrétt FF þá sakna ég þess að FF hafi ekki slegið í gegn sl vor. Auk þess sakna ég þess að rödd FF hefur ekki verið virkari í sumar. Er ég að gera of miklar kröfur? Þegar mál sem hafa þetta beina tengingu við helstu baráttumál flokksins hafa verið aðal mál sumarsins hefði heimasíðan mátt vera logandi virk og veitt okkur hinum fóður og næringu til rökræðna á milli manna .

 


Til hvers Frjálslyndi Flokkurinn?

Ég er í svolítilli tilvistarkreppu þessa dagana. Ég hef verið hallir undir stefnumál FF að undanförnu. Aftur á móti hef ég verið að velta því fyrir mér hvers vegna FF ætti að vera til.

Kosningaúrslitin eru í raun ósigur. Ef menn velta því fyrir sér að FF setti á oddinn mörg af helstu baráttumálum hinna dreifðu byggða þá var uppskeran á þeim svæðum ansi rýr. Annað hvort treysti fólk öðrum flokkum betur fyrir hagsmunum sínum eða rödd FF komst engan veginn til skila. Þegar kvótinn er skorinn niður þessa dagana þá blæða þær byggðir mest sem FF ætluðu sér að vernda. Hvers vegna kusu menn þá ekki FF til að koma í veg fyrir þessar aðfarir? Hélt fólk að atkvæði sínu væri betur borgið hjá niðurskurðarflokkunum eða hafði enginn heyrt talað um FF og kaus hann því ekki.

Miðað við stefnu FF hefðu þeir átt að sópa til sín á þeim svæðum sem núna verða verst úti í kvótaniðurskurði, það gerðist ekki í vor. Trúði fólk ekki á að þessi ósköp myndu dynja á þeim þrátt fyrir varnaðarorð FF. Núna eru allir sem verða fyrir þessum niðurskurði ævareiðir en ekki fylkja þeir sér um FF þrátt fyrir það.  Það er greinilega mikið ósamræmi í öllu þessu. Hinar dreifðu byggðir eru eins gyðingar forðum sem létu leiða sig möglunarlaust til slátrunar.

Því er ég í nokkurri naflaskoðun þessa dagana. Hefur meirihlutinn ekki bara rétt fyrir sér, er FF ekki bara óþarfur, er þetta ekki bara einhver rómantískur misskilningur? Ef nánast enginn sá sér hag í því að kjósa FF því ætti hann að vera til? Er ég kannski bara í svartsýniskasti?


Ísland í dag.

Er fimmtugur kall eins og ég forngripur í þessu þjóðfélagi. Hringamyndun í viðskiptum virðist vera reglan. Gamli Sjálfstæðisflokkurinn sem ól mig upp einkenndist af einstaklingshyggju, frelsi einstaklingsins, framtaki einstaklingsins og frelsi til athafna. Dugnaður var gilt hugtak.  Ríkisafskipti voru af hinu vonda. Náttúrulögmálin myndu leiða til bestu niðurstöðu flestum í hag.

Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn flokkur ríkisafskipta. Algjört kratabæli með Framsóknarstíl. Regluverkið er sniðið að einhverjum góðvinum flokksins sem græða á tá og fingri. Svo er það kallað frjálshyggja, í mínum eyrum argasta klám. Að beita ríkisvaldinu til að veita vissum aðilum forskot er ekki frjálshyggja í mínum huga. Í besta falli ríkiskapítalismi en þó mun frekar í ætt við áætlunarbúskap Stalíns gamla. Síðan er smurt smáaurum á kvartssárustu hópana eftir þörfum.

Ef fáir græða mikið er ef til vill mun auðveldara fyrir hagfræðinga að reikna út stöðugleika og aðrar hagfræðilegar niðurstöður en ef margir einstaklingar eru að maka krókinn.

Við verðum að gera þá kröfu til hagfræðingsins í brúnni að hann leggi á sig smá reiknikúnstir og fylgi að minnsta kosti upphaflegri hugsun Sjálfstæðisflokksins. Að allt skuli falla og standa með hámarks gróða er ekki til góðs fyrir fjöldann, sérstaklega þegar það er ríkisstýrt. Það fengu þegnar fyrrum Sovétríkjanna að reyna í sínum áætlunarbúskap sem vit átti að hafa fyrir einstaklingsframtakinu. Hleypum smá rómantík inn í tilveruna og leyfum smáum að njóta sín.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband