Hvað gerir þjóðin?

Við erum stödd í leikhléi. Sumir eru farnir að skrifa ritdóma um verkið án þess að hafa séð verkið til enda. Í raun fór maður á sýninguna sem óskrifað blað. Það hvarflaði aldrei að manni að boðið yrði upp á blóðug mótmæli, táragas, rúðubrot, stjórnarslit, nýja Ríkisstjórn, afsögn stjórnenda FME, kosningar og síðast en ekki síst, Íslendingar tala um lýðræði, lýðveldi og mannréttindi öllum stundum. Allt þetta fyrir hlé.

Ef enginn átti von á þessum ósköpum í fyrri hluta, hvernig verður þá seinni hlutinn. Sumar sýningar eiga það til að klúðrast eftir hlé. Þar sem áhorfendur voru virkir þátttakendur í sýningunni fyrir hlé gæti verið að sumir munu reyna að koma böndum á slíkt stjórnleysi. Framsóknarmenn eru greinilega að stýra skútunni eftir sýnu höfði. Þeir fengu kosningadaginn og stjórnlagaþing. Þrátt fyrir að verklag við efnahagsstjórn næstu vikna var ekki fullunnið, skipti það ekki máli. þeir gáfu SteinJóhönnu stjórninni sitt samþykki. Ég tel að tvennt hafi vakað fyrir Framsóknarmönnum. Að gæta þess að röngum steinum verði ekki velt við fram að kosningum og að kosið verði sem fyrst. Á þann hátt vonast þeir til að nýta sér nýfengnar vinsældir til að komast til valda á nýjan leik, með hverjum sem er.

Samfylkingin ætlast til þess að við fyrirgefum þeim að hafa veðjað á vonlausa Ríkisstjórn þegar við þurftum mest á hinu gagnstæða að halda. Samfylkingin fær þó hrós fyrir að hafa siglt samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn snyrtilega í strand. Gaman væri að fá skýringu á því hvers vegna Ágúst Ólafur gufar allt í einu upp. Ætli Solla hafi eimað hann. Frekar lágt í honum suðumarkið. Væntingar til Jóhönnu eru miklar, vonandi reynast þær á rökum reistar.

Hvað gera Sjálfstæðismenn núna? Þeir munu beita öllum sínum mætti til að ná völdum á ný. Þeir kunna því mjög illa að vera ekki í stjórn. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í raun regnhlífasamtök nokkurra ætta á Íslandi er spurningin meir hvaða ætt hefur sigur innan flokksins. Það mun ákvarða viðmót og stefnu flokksins til framtíðar. Hvort Sjálfstæðismönnum muni takast að heilla þjóðina skal ósagt látið, aftur á móti skal maður aldrei vanmeta Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur mikil völd víðsvegar og getur því auðveldlega gert öðrum lífið leitt sér til framdráttar.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá vitum við hvað flokkarnir gera, sama og síðast-halda völdum. Í raun er stóra spurningin hvað gerir þjóðin. Þjóðin er í raun mun stærra spurningarmerki en flokkarnir. Þjóðin hefur fengið í vetur að narta í sætleika valdsins. Ég tel að þjóðin hafi komist upp á bragðið og því til alls líkleg. Eins og maðurinn sagði,, vald spillir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Satt segir þú, leiksýningin hefur verið mikilfengleg og atburðarásin hröð, meira að segja svo hröð að vart hefur hafst undan að fylgjast með. Leikhléið er núna segir þú og það má til sanns vegar færa. Nú síðustu daga hefur farið fram liðskönnun utan Sjálfstæðisflokksins og svo virðist að búið sé að mynda nokkuð þéttan hóp til að taka við völdum á morgun, 1. febrúar á 105 ára afmæli Heimastjórnar á Íslandi. Ég hef nokkuð sterka trú á því að eftir helgina fari ýmsir atburðir að gerast. Þá verða öruggleg virkjuð ýmis úrræði vegna ástandsins, sem legið hafa tilbúin á skrifborðum Sjálfstæðismanna en ekki verið komið í framkvæmd. Ég tel mig hafa allgóða vissu fyrir að svo sé.

Hreinsunarstarf í stjórnkerfinu mun fara í gang og einnig tel ég nokkuð ljóst að ráðstafanir til undirbúnings Stjórnlagaþings verða hafnar. Jóhanna Sigurðardóttir lagði fram frumvarp um málið 1996. Það er ekki bara Framsókn sem er fylgjandi því máli, þó ég fagni því vissulega. Þverpólitísk grasrótarsamtök standa nú fyrir undirskriftasöfnun á netinu um sama málefni á www.nyttlydveldi.is

Síðan er búin að vera netinu í viku og þegar komin þar inn tæp 7 þúsund nöfn. Þess utan eru fleiri hópar sem hafa tekið þetta mál upp á sína arma.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.2.2009 kl. 00:01

2 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Hólmfríður, ég átta mig ekki á ummælum þínum um valdatöku á morgun, áttu við nýju Ríkisstjórnina hennar Jóhönnu?

Hvað úrræði hjá Sjálfstæðismönnum áttu við?

Gunnar Skúli Ármannsson, 1.2.2009 kl. 00:34

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þjóðin mun ekki líða neitt hálfkák, við viljum sjá raunverulegar breytingar.  Augu og eyru fólksins eru allstaðar, ef ekki verður tekið á vanda heimilanna, og aðgerðir hafnar til þess að reyna að ná í eitthvað af auðæfunum sem fáir sölsuðu undir sig og fluttu úr landi.  Þá mun fólkið láta heyra í sér, og miklu hærra en síðast.  Lifi eldhúsáhaldabyltingin. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.2.2009 kl. 00:56

4 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Jóna, er sammála þér að öðrum kosti er ég illa svikin af þjóðinni minni.

Gunnar Skúli Ármannsson, 1.2.2009 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband