Er einhver munur á AGS eða ESB?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið slitu viðræðum við Ungverja sökum þess að þeir samþykktu ekki kröfur AGS og ESB. Auk þess voru Ungverjar með óæskilegar hugmyndir að mati AGS/ESB.

Ungverjar vildu ekki skera jafn mikið niður og AGS/ESB kröfðust. Skoðun Ungverja er sú að nóg sé komið af niðurskurði hjá almenningi og fyrirtækjum. Hinar yfirþjóðlegu stofnanir-AGS/ESB-töldu að skera ætti meira niður en munurinn er sá að Ungverjar kusu viðkomandi ríkisstjórn nýlega og hún ber ábyrgð gagnvart sínum landsmönnum. Hinar yfirþjóðlegu stofnanir AGS/ESB voru ekki kosnar og hafa því enga lýðræðislega ábyrgð gagnvart þegnum viðkomandi landa. Þessar stofnanir sjá vandamálin sem excel skjöl og mannúð eða velferð er ekki til í þeim reikniforritum.

ESB vill meina að Ungverjar séu ekki búnir að gera heimavinnuna hvað varðar breytingar á flutningakerfi sínu(lestakerfi), heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Með öðrum orðum að einkavæða.

Ungverjar voru svo ósvífnir að koma á sérstökum skatti á bankastarfsemi. Sex alþjóðlegir bankar sem starfa í Ungverjalandi kvörtuðu því við AGS/ESB og hlutu greinilega góða áheyrn því AGS/ESB lögðust gegn þessum hugmyndum Ungverja, umsvifalaust.

Ungverjar vildu einnig koma skuldsettum heimilum til aðstoðar með sérstökum sjóði en AGS/ESB voru á móti því einnig.

Ríkisstjórn Lettlands hefur háð svipaða rimmu við AGS/ESB, bæði hvað viðkemur niðurskurði og aðstoð við skuldsett heimili en borið lægri hlut fyrir hinu yfirþjóðlegu yfirvaldi.

Það er augljóst að AGS/ESB bera hag banka og fjármálafyrirtækja fyrir brjósti sér mun frekar en almennings í viðkomandi löndum. Vert er að minna á að kreppan er orsökuð af geðveiku framferði banka en ekki almennings-það voru bankarnir sem hringdu í okkur í tíma og ótíma og nánast tróðu nýjum lánum ofaní kokið á okkur.

Annað sem er augljóst er að stefna og skoðun þessara stofnana-AGS/ESB-er nánast eins. Þess vegna má segja að lítill munur sé á viðhorfum þessara stofnana hvernig bankakreppur eru leystar. Báðar stofnanir telja raunhæft að láta almenning borga brúsann fyrir bankakerfið og mistök þeirra. Að minnsta kosti lekur ekki slefan á milli þeirra í viðbrögðum við hugmyndum Ungverja/Letta/Grikkja um lausn kreppunnar.

Íslendingar geta prísað sig sæla að hafa bara AGS hér á landi-eða hvað?

 


mbl.is AGS og ESB fresta viðræðum við Ungverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

... er ekki talað um að það „slitni ekki slefan á milli þeirra“ en annars bestu þakkir fyrir þessa kraftmiklu færslu!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.7.2010 kl. 21:42

2 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

kennarastéttin er óþolandi smásmuguleg...

takk fyrir innlitið Rakel mín.

Gunnar Skúli Ármannsson, 20.7.2010 kl. 22:02

3 identicon

Á ekki að segja: ,,...slitni ekki slefið á milli þeirra"? Skemmtileg færsla annars...

Annar smásmugulegur kennari (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 22:23

4 Smámynd: Haraldur Baldursson

Greinin er góð og vert að rannsaka hvar AGS endar og ESB byrjar.
Hvort við erum heppinn að vera "bara" með AGS...jú líklega...en heppnin
er vís með að aukast enn meir við fækkun Þriggja-Stafa-Skrímslanna um
eitt til viðbótar.

Humgyndasnauð handrit hrollvekjunnar sem rennur af stað við brotthvarf
AGS hefur hins vegar aldrei orðið neitt sérlega efnislegt. Ég leita enn að
ógninni við þennan smágjörning að leyfa Frank (Rosodowsky) að fara heim
til sín. Yndislegur maður sem þetta kann að vera sé ég enn ekki ógnina við
brotthvarf hans...það má jú alltaf senda honum jólakort.

Haraldur Baldursson, 21.7.2010 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband