Færsluflokkur: Evrópumál

Ráðstafanir Steingríms eru kokkaðar í Whasington

Pressugrein  3 ágúst 2010.

Bankahrunið eins og nafnið gefur til kynna er orsakað af bönkum og starfsemi þeirra. Hvert og eitt okkar hinna gekk til sinna starfa árið 2008, sinntum skyldum og skuldbindingum okkar að venju. Sú fullyrðing að við séum meðsek vegna þess að við horfðum ekki yfir axlirnar á bönkunum, ríkisvaldinu og eftirlitsstofnunum á hverjum degi er æði langsótt.

Síðan hafa allar aðgerðir stjórnvalda snúist um að skrapa saman eins miklum fjármunum og nokkur kostur er til að greiða skuldir bankakerfisins. Það sem þessar skuldir eiga sameiginlegt er að Alþingi Íslendinga hafði ekki stofnað til þeirra fyrir hrun. Upphaf skuldanna má rekja til athafna utan valdsviðs kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Þrátt fyrir það á þjóðin að borga skuldirnar á eftirfarandi hátt:

Boðuð er frysting á launum í all nokkur ár og segir ráðherra vel sloppið ef frystingin ein dugar. Niðurskurðahugmyndir fyrir komandi fjárlagaár eru svo hrikalegar að framkvæmdastjórar ýmissa stofnana telja sig ekki geta veitt lögbundna þjónustu.

Háir stýrivextir á Íslandi eru banvænir fyrir viðkvæmt atvinnulíf okkar. Hækkun skatta.

Niðurskurður hjá hinu opinbera veldur atvinnuleysi, bæði hjá opinberum starfsmönnum og einkaaðilum sem höfðu verkefni hjá hinu opinbera. Niðurskurður tekna almennings veldur samdrætti hjá öllum fyrirtækjum landsins og þar með er kominn vítahringur.

Nánast engar afskriftir verða leyfðar hjá skuldugum einstaklingum og sennilega mun verða gengið milli bols og höfuðs á 25 þúsund heimilum fyrir áramót. Mörg fyrirtæki hafa farið í gegnum sömu aftökur síðan hrunið varð. Sökum síversnandi aðstæðna mun fjölga stöðugt í þessum hópi eftir því sem tíminn líður.

Reynt er að draga fé úr lífeyrissjóðum okkar til að ná af okkur sparnaðinum. Fjárfest er í flugfélagi sem er mikill áhætturekstur en ekki fékkst leyfi til að fjárfesta í HS-Orku sem á framtíðina fyrir sér.

Hugsanlegt er að vegaframkvæmdir fari af stað sem einkaframkvæmd og þá greidd upp með vegatollum.

HS-orka var seld til erlends einkafyrirtækis í óþökk Íslendinga. Litlu munaði að búið væri að einkavæða vatnið okkar og stór spurning er hvernig löggjöfin um vatnið verður næsta vetur.

Samantekið: Laun skorin niður, skattar hækkaðir, gjöld aukin, lífeyrissparnaðurinn kroppaður af okkur. Allt gert til að auka getu ríkissjóðs og almennings til að greiða lánadrottnum. Hingað til höfum við talið það vera hlutverk ríkissjóðs að jafna kjör almennings í landinu og standa í framkvæmdum landi og þjóð til hagsbóta.

Þessi stefna mun leiða til aukins fjölda fátækra og samsvarandi minnkunnar á millistétt. Fámennur hópur stórríkra einstaklinga verður áfram til. Auðlindirnar komnar í eigu einkaaðila. Einkavæðing á almanna þjónustu. Þeir sem hafa fjárráð munu fá góða þjónustu. Spillingin heldur meiri ef eitthvað er. Landflótti og þeir sem eftir eru að leita sér matar í öskutunnum besta bæjarins, Reykjavíkur.

Mörgum finnst sjálfsag myndin máluð dökkum litum. Viðkomandi stefna hefur haft slíkar afleiðingar í för með sér í öðrum löndum og enn sem komið er hefur lítil mótstaða við þessari þróun myndast á Íslandi. Kjósendur núverandi ríkisstjórnar sem eru vinstri menn og félagshyggjufólk hafa sjálfsagt ekki gert ráð fyrir þessu. Mjög skiljanlegt því viðkomandi stefna er ekki skráð í stefnuskrár viðkomandi ríkisstjórnarflokka. Stefnan er stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Sumir leiðtogar vinstri manna hafa fylgt stefnu AGS í löndum sínum og oftar en ekki tekist að halda andófi í lágmarki. Sagt er að óskastjórn AGS sé vinstri stjórn því þá eru mótmæli í lágmarki. Það er sorgleg staðreynd að andstæðingum AGS væri þægð í því að hægri menn kæmust til valda á Íslandi á ný. Þá myndu vinstri menn koma aftur á Austurvöll og mótmæla eins og þeir gerðu í búsáhaldabyltingunni. Mikil og kröftug mótmæli almennings gegn AGS er eina leiðin til að snúa af þeirri braut sem þjóðin er á.

Það er mjög skiljanlegt að loksins þegar Vinstri grænir eru komnir til valda að þeir vilji halda völdunum og að sleikipinnarnir innan flokksins reyni allt til að skríða upp eftir bakinu á flokkseigendafélaginu. Það eru mikil vonbrigði, eftir að hafa upplifað alla þessu hörðu andstæðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í búsáhaldarbyltingunni, njóta í dag valdanna af slíkri áfergju að öll prinsipp eru gleymd og grafin. Það er mér hulin ráðgáta að stefna strákanna frá Whasington sé orðin að vinstri stefnu á Íslandi og er varin sem slík.

Fjölmiðlar mættu standa sig betur í því að skýra út fyrir almenningi að Steingrímur er bara millistjórnandi og að það er AGS sem ræður öllu á Íslandi. Ef það hefði verið gert hefði almenningur beint reiði sinni að AGS frekar en Steingrími. Vissum aðilum(fjölmiðlum) hentar að spjótin standi á Steingrími og aðrir aðilar(fjölmiðlar) verja hann með kjafti og klóm. Á meðan hlær AGS að heimsku okkar.

Eftir því sem stjórnvöld þjóðríkja fylgja ráðleggingum AGS betur farnast almenningi viðkomandi landa ver, rannsóknir fræðimanna sýna fram á þetta.

Það er augljóst að enn sem komið er hafa helstu máttastólpar lýðræðisins á Íslandi þ.e.  Alþingi, ráðherrar og fjölmiðlar, kosið að fylgja AGS að málum. Ef fyrrnefndir aðilar skipta ekki fljótlega um skoðun mun stór hluti íslensku þjóðarinnar fylgjast með gleði þeirra á störfum sjóðsins úr fjarlægð, erlendis frá. Aftur á móti, ef Alþingi, ráðherrar og fjölmiðlar vilja ekki að þjóðin dreifist út um allar koppagrundir eða hírist í fátækt á skerinu gamla, verða viðkomandi aðilar að breyta um stefnu. Viðbrögð ykkar við stefnu AGS er það sem mun gera ykkur ábyrg í næstu Rannsóknarskýrslu Alþingis. Viðbrögð Alþingis, ráðherra og fjölmiðla við stefnu AGS mun ákvarða kjör almennings á Íslandi til framtíðar.

 


Er einhver munur á AGS eða ESB?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið slitu viðræðum við Ungverja sökum þess að þeir samþykktu ekki kröfur AGS og ESB. Auk þess voru Ungverjar með óæskilegar hugmyndir að mati AGS/ESB.

Ungverjar vildu ekki skera jafn mikið niður og AGS/ESB kröfðust. Skoðun Ungverja er sú að nóg sé komið af niðurskurði hjá almenningi og fyrirtækjum. Hinar yfirþjóðlegu stofnanir-AGS/ESB-töldu að skera ætti meira niður en munurinn er sá að Ungverjar kusu viðkomandi ríkisstjórn nýlega og hún ber ábyrgð gagnvart sínum landsmönnum. Hinar yfirþjóðlegu stofnanir AGS/ESB voru ekki kosnar og hafa því enga lýðræðislega ábyrgð gagnvart þegnum viðkomandi landa. Þessar stofnanir sjá vandamálin sem excel skjöl og mannúð eða velferð er ekki til í þeim reikniforritum.

ESB vill meina að Ungverjar séu ekki búnir að gera heimavinnuna hvað varðar breytingar á flutningakerfi sínu(lestakerfi), heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Með öðrum orðum að einkavæða.

Ungverjar voru svo ósvífnir að koma á sérstökum skatti á bankastarfsemi. Sex alþjóðlegir bankar sem starfa í Ungverjalandi kvörtuðu því við AGS/ESB og hlutu greinilega góða áheyrn því AGS/ESB lögðust gegn þessum hugmyndum Ungverja, umsvifalaust.

Ungverjar vildu einnig koma skuldsettum heimilum til aðstoðar með sérstökum sjóði en AGS/ESB voru á móti því einnig.

Ríkisstjórn Lettlands hefur háð svipaða rimmu við AGS/ESB, bæði hvað viðkemur niðurskurði og aðstoð við skuldsett heimili en borið lægri hlut fyrir hinu yfirþjóðlegu yfirvaldi.

Það er augljóst að AGS/ESB bera hag banka og fjármálafyrirtækja fyrir brjósti sér mun frekar en almennings í viðkomandi löndum. Vert er að minna á að kreppan er orsökuð af geðveiku framferði banka en ekki almennings-það voru bankarnir sem hringdu í okkur í tíma og ótíma og nánast tróðu nýjum lánum ofaní kokið á okkur.

Annað sem er augljóst er að stefna og skoðun þessara stofnana-AGS/ESB-er nánast eins. Þess vegna má segja að lítill munur sé á viðhorfum þessara stofnana hvernig bankakreppur eru leystar. Báðar stofnanir telja raunhæft að láta almenning borga brúsann fyrir bankakerfið og mistök þeirra. Að minnsta kosti lekur ekki slefan á milli þeirra í viðbrögðum við hugmyndum Ungverja/Letta/Grikkja um lausn kreppunnar.

Íslendingar geta prísað sig sæla að hafa bara AGS hér á landi-eða hvað?

 


mbl.is AGS og ESB fresta viðræðum við Ungverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plís góði guð, eitt eldgos, það eykur hagvöxt

Hugsanleg framtíð:

1. Íslensk heimili sem geta ekki staðið í skilum eftir sumarið fara í þrot. Kannski 25 000 heimili.

2. Til að áætlun AGS gangi upp virðist sem reisa eigi 2 álver á stærð við Reyðarál árið 2011.

3. Þrátt fyrir þetta mun innflutningur minnka með hverju árinu og er vísbending á mjög mikla fátækt og útflutning á fólki.

Summa:

Hvar er hægt að búa án aðkomu AGS og Steingríms.....?


Geta embættismenn samið sig fram hjá þjóðarvilja?

Hið sanna andlit alþjóðasamfélagsins sínir sig þessa dagana. Það er þetta samfélag sem margir á Íslandi vilja tilheyra sem fullgildir meðlimir. Gott að vera í klúbb sem kúgar minnimáttar.

AGS ætlar að þjóna eigendum sínum vel. Þeir ætla að verja lánadrottna okkar og skuldsetja okkur til helvítis. Því fyrr sem landsmenn gera sér grein fyrir því, því betra.

Núna er Gylfi í Washington, varla er hann að versla sér nýja skó. Mun frekar að semja við AGS. Það felst yfirleitt í að skrifa undir viljayfirlýsingu sem AGS hefur samið. Ætli Gylfi og Steingrímur semji um Icesave málið í þeirri viljayfirlýsingu? Geta embættismenn samið sig fram hjá þjóðarvilja?


mbl.is Íslandslán ekki á dagskrá AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The day after...

Við verðum sjálfsagt nokkurn tíma að jafna okkur eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það kom þó greinilega fram í Silfrinu áhugi hjá Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum að taka við stjórnartaumunum. Ég tel það ekki gæfulegt og allra síst við þessar aðstæður. Reyndar er svo komið fyrir þjóðinni að málflutningur Steingríms og Jóhönnu gæti á endanum hrakið okkur í fang þeirra, því allt er hey í harðindum.

Ef ríkisstjórnin á að lifa verður Steingrímur að fjarlægja vírusforritið úr sér sem einhver plantaði inn í hann eftir kosningar. Hann þarf bara að standa við öll kosningaloforðin, Icesave ekki á þjóðina, Ekki ESB, Kvótann til þjóðarinnar, Velferðakerfi án nauðungaruppboða á heimilum landsmanna, fjárglæframenn gjaldi heimsku sinnar, stjórnlagaþing, AGS úr landi, ekki enduruppbygging á gamla kerfinu. Gott væri að hann gluggaði aðeins í gamlar sjónvarpsupptökur frá því fyrir kosningar.

Líf ríkisstjórnarinnar hangir því á upprisu gamla Steingríms. Jóhanna var, er og verður þannig að ég er ekkert að ræða hana nánar eða Samfylkinguna. Það virðist hvort sem er sem þau séu ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.

Reyndir menn segja mér reyndar að Steingrímur muni ekkert breytast, sumir fullyrða nefnilega að hann var, er og verður, við sáum það bara ekki fyrr en núna.


Það eru ósannindi að kosningin sé markleysa !

Einhverjir eru að gera að því skóna að Vinstri grænir séu að klofna. Það er í sjálfu sér ekki stóra málið, flokkar hafa klofnað eða sameinast áður.

Það sem er alvarlegt er að þjóðin er klofin. Einn mjög skýr hópur er sá sem vill ganga í Evrópusambandið hvað sem það kostar. Annar hópurinn vill ekki greiða Icesave hvað sem það kostar. Ef í þeim hópi voru einhverjir Evrópusinnar þá hafa þeir skipt um skoðun. Síðan er hópur sem er á milli hinna tveggja. Það sem einkennir hann eru einstaklingar sem hafa fjárhagslegt öryggi, atvinnu og komast af í kreppunni. Margir þessara aðila tengjast hægri (Steingríms) armi VG og styðja hann yfir gröf og dauða þó þeir vilji ekki inn í ESB. Síðan eru einstaklingar sem halda að á Íslandi sé vinstri stjórn og vilja að hún lifi. All nokkur hluti hefur ekki kynnt sér málin umfram það að fylgjast með þeim sem hæst lætur hverju sinni.

Núna er staðan sú að sá samningur sem Svavar kom með er ekki góður fyrir íslenska skattgreiðendur því betri er í burðarliðnum. Þökk sé Ólafi Ragnari. Svavari og Steingrími finnst frumhlaup forsetans óþolandi afskipti af innanríkismálum VG. Steingrímur er pólitískt afsprengi Svavars og Svarar má ekki vamm sitt vita í lok ferils síns í Utanríkisráðuneyti nýfrjálshyggjunnar síðast liðin ár.

Af þessum sökum bindast þeir fóstbræðralagi með Evrópusinnum Samfylkingarinnar og reyna að telja þjóðinni trú um að þjóðaratkvæðagreiðslan sé marklaus.

Lögin sem forsetinn neitaði að skrifa undir eru í gildi þrátt fyrir það. Til að fella eða styðja lögin verða kjósendur að mæta og kjósa. Því eru það ósannindi að kosningin sé markleysa. Þeir sem halda þessu fram vega að stjórnarskrá og lýðræði okkar.

Allt gert til að komast í ESB eða að forða kuski af flibba sendiherra. 


Face-saving Icesave

Icesave virðist ætla að verða minnisvarði um allt hið aumasta og versta í mannlegum samskiptum.

Hin tæra snilld Landsbankans einkenndist af græðgi og taumlausu ábyrgðarleysi. Icesave, sparifé almennings, var hugsað sem bjarghringur gjaldþrota banka og friðþæging spilltra matsfyrirtækja. Fjármálaelítan með Gordon Brown í fylkingarbrjósti hafði gert eftirlitsstofnunum ókleift að hemja hina tæru snilld. Allir gerðu hvort eð er ráð fyrir því að skattgreiðendur greiddu tapið þegar carnivalinu lyki.

Svavar, Steingrímur og Indriði hafa allir beðið þess lengi að komast að völdum. Icesave var kjörið til að sýna fram á að Sjálfstæðisflokkurinn og Davíð hefðu fylgt rangri pólitík. Þjóðin þarf ekki Icesave til þess því annars hefði Sjálfstæðisflokkurinn verið endurkjörinn. Steingrímur og félagar virðast þurfa Icesave. Mér finnst það harla aum réttlæting á tilvist þeirra við stjórnvölin.

Þremenningarnir telja sig hafa gert besta hugsanlega samning. Íslenska þjóðin er þeim ósammála. Við sjáum ekki að við séum ábyrg fyrir afglöpum einkabanka eða gölluðu regluverki ESB. Þeir telja svo vera og gleðja því Gordon Brown og elítuna í City of London. 

Neitun Forseta Íslands hefur sameinað alla þessa aðila, því vilja þeir semja nú. Það sem sameinar alla þessa ólíku aðila er að þeir mega ekki verða sér til skammar, verða að halda andlitinu og ekki má sannast á þá vanhæfni né mistök. Það kallast "Face-Saving" á ensku,(preserving or intended to preserve one's dignity, self-respect, or good reputation).

Þremenningarnir verða að hafa gert góðan samning þó nýr betri komi fram. Bretar og Hollendingar verða að sýna fram á sömu niðurstöðu, þ.e. hafa gert góðan samning og síðan betri þó hann sé verri en þeir gömlu.

Fjármálaelíta ESB vill bjarga Evrunni-andlitinu og ætlar að hjálpa Grikkjum þegar skattgreiðendur þar hafa borgað eins mikið og þeir geta upp í carnival skuldina. Sami lyfseðill er notaður á Íslandi. Íslensk stjórnvöld fylgja þeirri forskrift af alúð. Í þessu forréttindaapóteki vilja sumir búa eins og margur fíkillinn.

Eldhússkápar eru rangar íverur búsáhalda, því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því, því betra.

 

 


Hver er Þrándur í Götu

Einhver staðar í þessu spili er Þrándur í Götu. Ég hef nú dvalið hér í Noregi í rúma 2 daga og átt fundi með norskum þingmönnum og verkalýðsleiðtoga eins stærsta verkalýðsfélags Noregs. Það er smá saman að renna upp fyrir mér ýmislegt. Það er mjög mikill velvilji hér í Noregi til að aðstoða okkur. Þeim finnst sjálfsagt að nota hluta af olíusjóð sínum til þess. Þetta á við þá sem hafa engan sérstakan áhuga á ESB. Hinir hér í Noregi sem vilja að Noregur og Ísland gangi í ESB vilja að íslendingar greiði Icesave möglunarlaust. Því má segja að hugsjónir Norðurlandasamstarfsins hafi verið rústaðar af ESB.

Ég tel að Norðurlandasamstarfið hafi verið byggt á samhjálp og bræðralagi. ESB ástin byggist á einhverju allt öðru því ef það að íslendingar taki á sig skuld einkabanka og muni þjást fyrir það árum saman sé hluti af hugsjónum ESB þá er ESB bara stórt dæmi um pilsfaldakapítalisma.

Þar með hafa Samfylkingamenn á Íslandi og systurflokkur þeirra í Noregi sameinast um að koma í veg fyrir að Noregur hjálpi Íslendingum. Það getur ekki verið nein önnur skýring á þeirri staðreynd að íslensk stjórnvöld hafa ekki ennþá farið fram á aðstoð Norðmanna með formlegum hætti. Margir Norðmenn bíða eftir þeirri ósk.


mbl.is AGS vill ekki tengja Icesave við lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundur í Stortinget í Ósló

Við vorum á mjög góðum fundi núna með systurflokki Vg á Íslandi. Okkur var boðið í Stortinget og ræddum þar um AGS og Icesave. Það fylgir því mjög sérkennileg tilfinning að finna þann velvilja og áhuga á örlögum okkar sem er hér til staðar í Noregi. Ekki ber þeim nokkur skylda til að aðstoða okkur og þar að auki eru við samkeppnisaðilar á mörkuðum. Þrátt fyrir það vilja margir aðstoða okkur. Það er eins og á Íslandi að afstaða manna til Icesave mótast algjörlega af áhuga þeirra á ESB. Þeir Norðmenn sem vilja fara í ESB vilja að við borgum Icesave en hinir ekki. Fundurinn í dag í þinghúsinu hér í Ósló var mjög góður.

IMG 3089


mbl.is Ekki formlega rætt við Noreg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í víking til Noregs...

Þetta er búið að vera sérkennilegur dagur í dag. Ég, Bjarni og Einar Már fórum til Noregs í dag, nánar tiltekið til Óslóar. Við erum hér í boði attac samtakanna í Noregi. Fulltrúum þess finnst að norsk stjórnvöld standi sig illa gagnvart Íslandi. Þeim finnst að Noregur eigi að vera sjálfstæðari og þora að taka af skarið til að hjálpa okkur.

Það var sérstakur opinn fundur-seminar-um stöðu Íslands og möguleika þess að losna við AGS með aðstoð Norðmanna. Við Einar fluttum málstað Íslands og gekk það vel. Fundarmenn voru lang flestir á bandi Íslands og vildu að Norðmenn tækju til hendinni. Þingmaður Social demokrata í Noregi hafði mestar áhyggjur af alþjóðasamfélaginu en ekki Íslandi og skar sig þar með úr hópnum, eins og Samfylkingarmenn gera á Íslandi.

Hér eru nokkrar myndir frá fundinum:

IMG 3053

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG 3050

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Norskur almenningur skilur sjónarmið Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband