27.10.2009 | 21:25
Bréf frá Gunnari Tómassyni um núverandi gjaldþrot Íslands.
Ágætu bloggvinir, fékk sendan tölvupóst sem Gunnar Tómasson hagfræðingur sendi upp á Íslands strendur. Gunnar hefur verið mjög gagnrýninn á að stjórnvöld hafa þverskallast við að horfast í augu við vandann og hagað sér að hætti okkar 2007.
Í þessu bréfi tjáir einn virtasti hagfræðingur Bandaríkjanna sig um stöðu Íslands. Hann segir blákalt að við séum gjaldþrota. Þrátt fyrir að allar helstu fréttastofur landsins hafi fengið bréfið frá Gunnari s.l nótt sjá þau enga ástæðu til að fræða okkur almenning um það. Þetta kallast þöggun og stríðir gegn upplýstri umræðu sem er almenningi nauðsynleg. Hverjum gagnast þessi þöggun?
Hér er bréf Gunnars;
Ágætu alþingismenn.
Í fyrradag spurði ég James Galbraith, einn virtasta hagfræðing Bandaríkjanna, um álit hans á því mati AGS (sjá IMF Survey 21. október sl.) að erlend skuldsetning Íslands að jafngildi 310% af vergri landsframleiðslu væri þjóðarbúinu ekki ofviða.
Galbraith svaraði um hæl (í minni þýðingu; enskur texti að neðan):
Það segir sig sjálft: það er fáránlegt að ímynda sér að Ísland eða eitthvað annað land geti tekið á sig gjaldeyrisskuldir sem jafngilda 300 eða 400 prósent af vergri landsframleiðslu (VLF) og forðast greiðsluþrot. Ef skuldir væru 400 prósent og vextir aðeins þrjú prósent þyrfti afgangur á viðskiptajöfnuði og hliðstæður samdráttur innlendrar neyzlu að vera 12 prósent af VLF án nokkurrar greiðslu af höfuðstól. En auðvitað myndi enginn vilja eiga lágvaxta íslenzk skuldabréf vegna áhættunnar á vanskilum.
Ef stjórnvöld reyndu að axla slíka skuldabyrði myndu vinnufærir einstaklingar flytja af landi brott. Útkoman yrði lýðfræðileg eyðilegging Íslands að viðbættu greiðsluþroti. Staðan er því ekki síður alvarleg en sú sem kom upp vegna stríðsskaðabóta í Versalasamningnum eða Morgenthau áætluninni fyrir Þýzkaland 1945. Samningurinn leiddi til óðaverðbólgu en áætlunin var ekki lögð til hliðar fyrr en ljóst varð að hún myndi leiða til brottflutnings eða útrýmingar mikils hluta þjóðarinnar sem lifði af stríðið.
Eins er það augljós skrípaleikur að leggja slíka skuldabyrði á litla þjóð, fyrst með svikum og síðan með hótunum.
Eins og málum er háttað er það siðferðileg skylda Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu að sækja svikahrappana til saka eftir því sem landslög leyfa. Hitt er fyrir stjórnvöld erlendra ríkja, sem brugðust skyldum sínum við bankaeftirlit, að ákveða hvernig deila skuli tapinu sem af því hlaust milli reikningshafa og skattborgara sinna.
Þér er heimilt að koma þessum skoðunum mínum á framfæri við aðra.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Fjölmiðlar, Mannréttindi | Facebook
Athugasemdir
Og nú hafa forsetisráðherra og fjármálaráðherra flúið landið. Ætla þau ekki að tilkynna gjaldþrot landsins?
Offari, 27.10.2009 kl. 22:35
Alveg stórfurðulegur skratti, að stjórnvöld skuli skolleyrast við ofangreindum skilaboðum, með gildum rökum og skoðunum faglegra aðila.
Það er eins og megi ekki segja hlutina eins og þeir eru!
Grafalvarlegasta í þessum skilaboðum að mínu mati, er raunveruleg hætta á lýðfræðilegri eyðileggingu Íslands.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 27.10.2009 kl. 22:39
Þessu var sem sagt laumað út rétt eins os Icesave sem lak inn á RUV
Sigurður Þórðarson, 27.10.2009 kl. 23:29
Það eru öflin bak við alþjóðavæðinguna sem njóta góðs af þögguninni. Það er erfitt að útskýra fyrir fólki að alþjóðavæðingin sé óhagkvæm, fyrir okkur, fyrir öll. Nýtist aðeins fámennri elítu alþjóðlegra bankamanna og alþjóðlegra auðhringja. Fyrir okkur hin, almenning og smærri fyrirtæki, rík lönd jafnt sem fátæk lönd þá er 'frjáls verslun' ekkert annað en viðskiptahindranir sem tryggja fákeppni og einokun stjóru alþjóðahringanna.
Allar þjóðir glíma nú við sitt Icesave, mjög 'furðulegt' ef fólk skilur ekki baktjaldamakkið. Bandaríkin og Bretland glíma við bailout. Olíuþjóðirnar glíma við hrun á hráolíuverði ofaní skuldasúpu sem þær hafa komið sér í, Kína stendur sæmilega, en á mikið fé í bandarískum ríkisskuldabréfum sem eiga bara eftir að hrynja í verði og svo framvegis.
Við tekur ný heimssýn, sama og gamla heimssýnin, það er lénskerfið, 5/95 skipting, 95% þrælar, 5% aðall.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 23:34
Nokkuð borðleggjandi. Gjaldþrot fyrirtækja í september - 86 og aðallega í byggingariðnaði (33,7%) og heildsölu (22,1%) - segir til um hvað koma skal. Áhrifin koma fram í atvinnuleysistölum um jólin sem neglir niður smásöluveltu sem aftur eykur gjaldþrot eða rekstrarstöðvun. Við erum verulega nálægt því að fara inn í vítahring niður á við. Ísland er neyslusamfélag. Án neyslu er ekkert samfélag.
Það er samt sem áður hægt að gera góða hluti hérna. Ég set alltaf fyrirvara við samanburði á tölum fyrir og eftir netvæðingu. Aðilar sem hafa byggt upp sterkar netverslanir sem beinast að alþjóðamörkuðum þurfa ekki að flytja úr landi og geta raunar haft það mun betur hér en víðast annarsstaðar þar sem meira fæst fyrir gjaldeyrinn. Stóriðjuhugmyndir eru fornar og eiga við um miðbik 20. aldar.
Það er mikill munur á að skapa 2.000 störf í stóriðju eða á sviði netviðskipta. Stóriðja er með þak en netverslun getur vaxið langt umfram hana. Það þarf nýtt hugarfar í stjórnina ef á að leysa þessa stöðu.
Forbes listi yfir 2.000 stærstu fyrirtækin
07 - AT&T: United States - Telecommunications Services20 - Vodafone: United Kingdom - Telecommunications Services
24 - Verizon Communications: United States - Telecommunications Services
26 - Nippon Telegraph & Tel: Japan - Telecommunications Services
28 - IBM: United States - Software & Services
31 - Telefónica: Spain - Telecommunications Services
36 - Hewlett-Packard: United States - Technology Hardware & Equipment
46 - France Telecom: France - Telecommunications Services
49 - Microsoft: United States - Software & Services
69 - Rio Tinto: United Kingdom/Australia - Materials
Snorri Hrafn Guðmundsson, 28.10.2009 kl. 00:19
Sæll, Gunnar Skúli. Þó nokkrar þjóðir hafa orðið gjaldþrota umliðin ár, ekki sízt vegna faðmlaga sinna við AGS. Þá er bara farið í endurmat og núllstillt. Sú stefna ríkisstjórnarinnar að elta ólar við vonlausa skuldastöðu til þess eins að bráðna inn í alþjóðasamfélagið mun verða okkur dýrkeypt. Útleiðina er ekki að finna í fjórflokknum, vona fólk nái saman um nýjan kost. LÁ
lýður árnason (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 02:30
Já það er alveg með ólíkindum þetta endalausa laumuspil, og alveg svívirðilegt
Hulda Haraldsdóttir, 28.10.2009 kl. 03:21
Takk fyrir að birta þetta bréf, Gunnar Skúli. Það lá fyrir við hrunið að skuldir Íslendinga væru 12- föld þjóðarframleiðsla (15.600 ma.) og að ríkið ætti ekkert með að eiga við bankaskuldirnar. Samt er haldið áfram að ræða slíkt eins og það sé raunhæft. Ríkið verður að gæta þess að vera rétt sjálfbjarga, svo að skuldabréf þess haldi einhverju virði.
Vonandi finnst einhver stjórnmálamaður sem þorir í alvöru að standa gegn ESB, IMF og sérstaklega Icesave. En Jóhanna klappar bara ESB vinum sínum lof í lófa í Skandinavíu núna.
Ívar Pálsson, 28.10.2009 kl. 15:28
Tölurnar fljúga út um allt....það er athyglivert að sjá hvernig Gunnar heldur þessu fram um leið að horfa á einn spámanna hrunsis, núverandi viðskiptaráðherra Gylfa Magnússon gera lítið úr þessu.
Það er ekki skrítið að almenningur sé orðin dofin fyrir þessum tölum. Aðalmálið er hins vegar hvernig við ætlum að komst af sem þjóð. Ég tel að við eigum góða möguleika á því sé rétt haldið á spöðunum varðandi skuldir okkar og hvernig við komum til með að reyna að greiða eitthvað af þeim til baka. Fyrsta verk er auðvitað að losna við AGS og svo hætta að láta okkur dreyma um að ESB vinirnir vilji hjálpa okkur án þess að hirða það sem eftir er af þjóðarauðlindunum.
ps...ég reyndi að nikka til þín í matsalnum í dag....við erum kannski eins og þú veist að vinna á sama vinnustað. Ég er til áramóta á ESD.
Karen Elísabet Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 16:18
Sæl öll sömul og takk fyrir innlitin.
Karen, ég var einmitt að velta því fyrir mér að þú væri þú, við læknar hugsum stundum svo djúpt.
Gunnar Skúli Ármannsson, 28.10.2009 kl. 16:48
ég er ég.....læt verða af því að segja ,,hæ´' næst.
Karen Elísabet Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 17:25
Það er vonlaust að þessi ríkisstjórn viðurkenni þann einfalda sannleika að einu möguleikar okkar í stöðunni er að einangra okkur. Þrátt fyrir ofvaxna skuldastöðu erum við enn rík af auðlindum. "Frjáls verslun ekkert annað en viðskiptahindranir sem tryggja fákeppni og einokun stóru auðhringanna." Hárrétt hjá Gullvagninum.
Árni Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 17:42
"Einangrun" er auðvitað orð sem auðvelt er að mistúlka og gera neikvætt. Enginn er hinsvegar einangraðri í þessu tiliti en hann kýs að vera.
Árni Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 17:46
Hér vantar upplýsingar.
Til að meta hve skaðvænlegt þetta er í raun þarf að vita hve stór hluti þessa er eingöngu á ábyrgð hreinna einkafyrirtækja sem ekki eru á neinskonar ábyrgð opinberra aðila, einnig hve stór hluti á að greiðast af arði af erlendum fjárfestingum í útlöndum, þ.e. hve stór hluti þess snertir ekki Ísland nema að nafninu til og hve stór hluti þessa eru skuldahræ sem bar á eftir að stroka út eftir hrun bankanna og stóru Grúpp-anna.
Þannig er það alveg rétt hjá Gylfa Magnússyni að þetta hlutfall var miklu hærra fyrir hrun þegar allar skuldir bankanna og allar skuldir stóru samsteypanna svo sem FL voru inni í þessu og full gildar.
ATH! Þetta eru ekki skuldir ríkisins heldur þjóðarbúsins í heild. Margir höfðu legni varað við því hve hátt þetta hlutfall var orðið - en nú er það þegar orðið miklu lægra en það var fyrir rúmu ári. Á móti hafa samt skuldir ríkisins aukist skuggalega og eru miklu stærri hluti af þessu en var - en samt aðeins hluti af þessu.
Gunnar (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 20:25
Það gerir það enginn að gamni sínu heldur illri nauðsyn að vekja athygli á þessu. Þú og systir eigið heiður skilið fyrir alla eljusemina. Sjálfur stytti ég mér leið.
Sigurður Þórðarson, 28.10.2009 kl. 21:00
Sæll Gunnar,
skuldir gömlu einkabankanna voru um 11 þúsund milljarðar og eru ekki með í þessu, það eru allir búnir að afskrifa þær fyrir löngu.
Skuldir sem við vitum um og þurfum að borga eru amk 3300 milljarðar. AGS virðist vera búinn að finna heldur meiri skuldir því þær virðast vera komnar í liðlega 4000 milljarða. AGS mun fljótlega koma fram með skuldagreiningu fyrir okkur.
Þessar skuldir sem um er rætt eru skuldir ríkisins, sveitafélaga,Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og nokkurra stórfyrirtækja. Því miður Gunnar, þú átt að borga þessar skuldir.
Hvers vegna Gylfi lætur svona er mér hulin ráðgáta.
Gunnar Skúli Ármannsson, 28.10.2009 kl. 22:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.