24.9.2009 | 20:35
Davíð, landráð og endurheimt fullveldis Íslands
Þá mun Davíð okkar Oddsson koma til starfa á ný, sem ritstjóri Morgunblaðsins ef einhver skyldi hafa misst af því. Það er ekki laust við blendnar tilfinningar. Þar sem ég er karlkyns og frekar praktískur í eðli mínu hafa hugsanir mínar snúist mest um þá hugsanlegu gagnsemi sem má hafa af DO sem ritstjóra. Hugsa sér má að hollusta við kvótaeigendur og andstaða við Evrópusambandið muni verða ráðandi. Við vitum þetta svo sem og ekki óvænt. Því mun Mogginn verða lesinn eins og við lásum flokksblöðin í denn, þ.e. með sérstökum gleraugum. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera ókostur því í raun eigum við aldrei að lesa nokkuð gagnrýnislaust.
Ég tel þó ábyrgð Davíðs vera gríðarlega mikla. Ísland berst nú fyrir tilveru sinni. Stór hluti heimila og fyrirtækja landsins er á barmi gjaldþrots. Bankar og orkufyrirtæki eru að hverfa úr eigu okkar í hendur erlendra aðila. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur uppi stýrivöxtum sem setur fyrirtækin í þrot, hann smyr landið með óborganlegum skuldum sem mun færa allt vald frá Reykjavík til Washington og skylda okkur til að selja auðlindir okkar erlendum aðilum á tombóluprísum.
Því er það stóra spurningin hvort Davíð muni taka þátt í landvörnum Íslands sem sannur sjálfstæðismaður eða skemmta skrattanum með því að ná sér niður á fornum fjendum. Tækifæri Davíðs til að reka óværur af landi brott er einstakt, að misnota slíkt er nánast landráð. Við ætlumst til þess að hver maður geri skyldu sína, ef ekki, þá verður það aldrei fyrirgefið.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Mannréttindi, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.