Hvernig verður framtíðin með helmings niðurskurði á ráðstöfunarfé ríkissjóðs

 Þessi mynd hér fyrir neðan er ekki alveg splunkuný, hún er frá júlíbyrjun. Mig grunar að hún hafi versnað ef eitthvað er. Myndin ber með sér að afborganir af skuldum ríkissjóðs verða gróflega 200 milljarðar á ári til 2023. Þar sem ríkissjóður hefur haft um 400 milljarða á ári til ráðstöfunar er um að ræða mikla blóðtöku. Við getum búist við skertum tekjum í framtíðinni, kunnugir telja að ríkissjóður muni hafa um 380 milljarða á ári til ráðstöfunar. Það ætti að gefa okkur 180 milljarða í stað 400 milljarða í ráðstöfunartekjur þegar við erum búin að greiða af lánunum. Nú er hugsanlegt að íslenska ríkið gæti verið í mínus í nokkur ár meðan það versta gengur yfir en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bannar okkur það nema tvö næstu árin. Það setur okkur svo þröngar skorður að manni liggur við köfnun.

Ef við veltum þessum stærðum örlítið fyrir okkur. Samkvæmt þessu eru ráðstöfunartekjur ríkissjóðs að minnka um 50%. Landspítalinn sem þarf tæpa 40 milljarða á ári ætti samkvæmt því að fá rúma 20 milljarða. Ef þetta reynist vera raunin þá erum við að upplifa mesta niðurskurð á LSH í sögunni. Þetta þýðir miklar uppsagnir hjá starfsfólki. Þetta getur einnig haft í för með sér takmarkanir á meðferð sjúklinga. Meðferð sem við höfum talið sjálfsagða hingað til. Takmarkanir gætu falist í því að einstaklingar með krabbamein fái ekki gjörgæslumeðferð, sjúklingar sem hafa náð ákveðnum aldri komist ekki í blóðskilun í gervinýranu. Eldri einstaklingar komist ekki í hjartaskurðaðgerð, kornabörn með rýrnunarsjúkdóma verði látin deyja án gjörgæslumeðferðar. Ef til vill verður gefinn kostur á meðferð ef sjúklingar borga meðferðina sjálfir.

Útlitið er ekki gott. Vonandi hef ég rangt fyrir mér, því að öðrum kosti er framtíð okkar hræðileg.

g6ikehf0.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Erum við ekki að lenda í nákvæmlega sama vanda og ýmis ríki Suður-Ameríku, þar sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur tekið stjórnina eins og hér. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.8.2009 kl. 23:44

2 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Hvernig stendur annars á því að þingið ræddi aldrei lántökur hjá AGS? Framkvæmdavaldið hefur ekki vald til að skuldsetja ríkið með þessum hætti, skv. 40. gr. stjórnarskrárinnar þarf lagasetningu til. Það voru ekki sett nein lög um þessa lántöku, eins og gert var í dag v/Icesave.  Af hverju var málið ekki borið undir þingið rétt eins og Icesave? Hvernig stendur á þessu ósamræmi í athöfnum stjórnvalda? og afhverju heimtaði ekki þingið að fá málið til umræðu á sínum tíma?

Aðalheiður Ámundadóttir, 28.8.2009 kl. 22:00

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Jóna,

jú ég held að þú hafir rétt fyrir þér. Ég hef ekki getað merkt nokkuð annað á hegðun AGS gagnvart okkur. Það er hægt að malda í móinn, það minnkar skaðann en þá verðum við að standa saman sem einn maður.

Gunnar Skúli Ármannsson, 28.8.2009 kl. 22:27

4 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Aðalheiður,

þú varpar fram mjög athyglisverðri spurningu, í raun grundvallarspurningu. Árni Matt og Davíð Oddson skrifuðu undir "Letter of intent" sem er í raun þingsályktunartillagan sem samþykkt var. Slíkt bréf er bara yfirlýsing um að menn vilji gera samning á viðkomandi nótum eins og fram kemur í slíku bréfi. Það er einhliða yfirlýsing íslenskra yfirvalda, enda er það bara undirritað af Árna og Davíð. "Memorandum of understanding" er viljayfirlýsing undirrituð af báðum aðilum og hana hef ég hvergi fundið og því síður sjálfan samninginn. Allt bak við luktar dyr.

Gunnar Skúli Ármannsson, 28.8.2009 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband