Innsæi Steingríms og frumþörf fólks.

Umrótið á Íslandi er svo mikið þessa dagana að það nálgast byltingu. Fólk setur spurningarmerki við flest allt, véfengir flest, treystir engu. Svolítið frábrugðið 2007 þegar allt var svo pottþétt. Reyndar virðist þjóðin upp til hópa vera róleg, hópast ekki á Austurvöll að minnsta kosti. Aftur á móti virðist hún vera búin að gera upp hug sinn gagnvart Icesave, þjóðin vill ekki borga samkvæmt þeim samningi sem fyrir liggur. Ekki að undra, staðan í dag er slæm og nánast vonlaus ef við samþykkjum samninginn.  Þjóðin sýnir ábyrgð í sinni afstöðu.

Hvað Steingrímur er að pæla er svolítið erfitt að átta sig á. Hann hefur hingað til verið talinn ákaflega ábyrgur stjórnmálamaður, svona grandvar, þið skiljið hvað ég á við. Núna vill hann að við samþykkjum Icesave, samning sem hugsanlega getur sett Ísland í gjaldþrot. Nokkuð sem hann hefði æpt sig hásan ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu. Hefur Steingrímur alltaf verið svona mikill loddari og valdasjúkur, eða býr eitthvað meira að baki þessari afstöðu hans?

Veit hann eitthvað sem við almennir borgarar vitum ekki. Verður Ísland sett í efnahagslega sóttkví ef við samþykkjum ekki Icesave. Verðum við strax sett á hausinn? Mun Evrópusambandið senda herlið til Íslands ef við borgum ekki? Er Steingrímur valdasjúkur kerfiskarl sem hangir í stólnum eins lengi og hann getur? 

Kannski hefur Steingrímur gert sér grein fyrir því að það er vonlaust að streitast á móti. Lánadrottnar okkar ráða öllu á Íslandi. Því meiri auðmýkt því betri meðferð við íslenska þjóð. Það er augljóst að ýmsir Íslendingar hafa ekki öðlast sama innsæi í efnahagsmál Íslands og Steingrímur.

Við erum all nokkur sem teljum að Ísland eigi sér möguleika. Við trúum því enn þá að til sé réttsýnt fólk í hinum stóra heimi.  Samt sem áður læðist að manni efi, kannski verður rödd okkar fótum troðin. Slíkt hefur hent aðrar þjóðir. Þá mun þjóðin kjósa með fótunum og allir þeir sem geta munu flytja þar sem betra er að búa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband