17.6.2009 | 13:13
"Vér mótmælum allir"
Eins og Ívar Pálsson bendir á þá er IceSave að umbreytast úr deilu milli þjóða í lítið einkamál. Steingrímur sagði að um væri að ræða samning milli einkaaðila. Það væri ástæðan fyrir því að hann þyrfti leyfi til birtingar á samningnum. Ef deilan við Breta umbreytist í einkamál þá verður að reka það sem slíkt í framtíðinni. Hér er mikil vá fyrir dyrum. Þetta eina atriði er næg ástæða til að fella samninginn á Alþingi.
Að samþykkja ólesinn samning er landráð. Að samþykkja samning sem ber með sér verulega hættu á þjóðargjaldþroti er landráð. Að samþykkja samning sem fenginn var með þvingunum, þar sem Íslendingum var meinaður aðgangur að dómstólum er landráð. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að fara með mál fyrir dómstóla, alveg sama þó það hugnist ekki mótaðilanum. Alveg sama þó öllum finnist það tímasóun. Mannréttindi snúast ekki um slíka praktíska hluti heldur virðingu.
Því er borið við að staða okkar sé vonlaus. IMF muni spila með og setja þumalskrúfuna á okkur. Evrópusambandið muni henda okkur út í hafsauga. Sagan endurtekur sig í sífellu. Kúgun hefur ætíð verið til staðar, niðurstaðan byggist mun frekar á viðbrögðum hins kúgaða. Eitt sinn settist lítill Indverji á rassinn og heilt heimsveldi fór á hliðina. Í annað sinn stóð upp íslenskur maður og mótmælti ofríki Dana á Íslandi. Í kjölfarið stóðu allir hinir upp og sögðu "vér mótmælum allir". Þessi viðbrögð eru grundvöllur þess að í dag höldum við 17 júní hátíðlegan til að minnast fullveldis og heiðra minningu Jóns Sigurðssonar.
Mér er til efs að Jóni forseta hafi fundist sín samningsaðstaða sterk, sennilega hefur honum fundist hún nær vonlaus eins og okkur. Hann gerði sér aftur á móti grein fyrir því að það var bara ein leið til að komast að hinu sanna, að láta reyna á það. Ætlum við að sitja? Ætlum við að fylgja fordæmi Jóns og standa upp?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Mannréttindi, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Við hefðum hvorki öðlast sjálfstæði eða unnið landhelgissigra með forystumenn eins og Jóhönnu sem lyppast niður fyrir Bretum og Evrópusambandinu.
Sigurður Þórðarson, 17.6.2009 kl. 15:53
Tek undir hvert orð ykkar beggja. Hvers konar samningur er það sem þarf að fá leyfi mótsemjandans til að birta fulltrúum þjóðarinnar áður en hann er fullnustaður með samþykki þeirra? En nú er svo komið að við erum áminnt um að nefna orðið landráð með gætni. Og af hverju skyldi það nú vera?
En auðvitað er þessi samningur óútfylltur víxill og óráð að undirrita hann. Hvers vegna sættust viðsemjendur okkar ekki á að samningurinn hljóðaði upp á 5 eða 25% af upphæðinni ef það er svona tryggt að eignirnar séu 75% eða 95% ?
Árni Gunnarsson, 17.6.2009 kl. 16:39
Það má ekki gerast að einhver leynisamningur með óupplýstum veðum á bakvið verði samþykktur á Alþingi. Það ERU LANDRÁÐ þó að ég sé sammála Árna um að það verði að fara sparlega með notkun á því orði.
Ævar Rafn Kjartansson, 17.6.2009 kl. 20:15
Undirlægjuháttur Jóhönnu og Steingríms, er með ólíkindum. það er betra að lenda í nokkurra ára útskúfun frá alþjóðasamfélaginu, en að samþykkja þessa landráðasamninga.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.6.2009 kl. 02:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.