14.1.2009 | 15:16
LÝÐVELDISBYLTINGIN.IS
Það er ekki beint lognmollan hér á skerinu þessa dagana. Mikill fjöldi einstaklinga hefur tjáð sig síðan kreppan hófst í haust. Athyglinni er beint að grunnstoðum þjóðfélagsins og er umræða um lýðræði og lýðveldið Ísland mikil þessa dagana. Finnst mörgum að nú sé lag að betrumbæta það stjórnkerfi sem við höfum búið við undanfarna áratugi. Sumir ganga svo langt að hér þurfi að stofna lýðveldi, því þeir standa í þeirri meiningu að aldrei hafi verið lýðveldi á Íslandi.
Kreppan kristallaði fram alla agnúa íslenska stjórnkerfisins og getum við þakkað fyrir það. Íslensk stjórnsýsla virðist spillt því mikið er um vinaráðningar. Því er augljóst að krosseignatengsl eru ekki eingöngu í viðskiptalífinu. Það virðist vera mjög sterk tilhneiging til að safna valdinu á fáar hendur. Það kemur valdhöfum vel því þá þarf símaskráin í gemsanum ekki að vera svo stór.
Almenningur er ekki að vonum sáttur með hlutskipti sitt. Við höfum ekki aðgang að nauðsynlegum upplýsingum til að geta myndað okkur eigin skoðun á málum og mönnum. Það eina sem við getum er að kjósa sama fólkið aftur og aftur. Það er ekki einu sinni tryggt að það verði í sama flokki í næstu kosningum en við getum þó treyst því að alltaf er sama fólkið á einhverjum lista. Við höfum ekkert vald til að raða á listana, það sér flokkseigendafélagi um.
Kreppan hefur afhjúpað algjört Ráðherravald og um leið fullkomið valdaleysi Alþingis.
Þrátt fyrir sívaxandi mótmæli og mjög almenna kröfu í þjóðfélaginu um nýjar kosningar er almenningur hunsaður.
Því er ekki að undra að umræðan sé lífleg. Í gær var stofnuð Wikipediu síða sem heitir lýðveldisbyltingin.is Hún virkar þannig að allir geta skrifa á hana. Þar er hugmyndin að safna öllum hugmyndum saman um lýðræði og svipuð efni. Úr verður vonandi tunna full af góðu efni. Því fleiri sem tjá sig því betra. Vonandi mun tunnan verða okkur leiðarljós til betri framtíðar. Það væri mun verra ef hún myndi springa í höndunum á okkur.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Lífstíll, Menntun og skóli, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Satt segir þú, tunnan má ekki springa í höndum okkar. Ég hef fulla trú á því að við náum að finna færar leiðir því þær eru til og þær munu finnsta. ÞÚ FINNUR ALLTAF LEIÐ EF ÞÚ LEITAR.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 14.1.2009 kl. 15:51
Vona það sannarlega að þangað safnist góðar hugmyndir sem reynast nothæfur byggingarviður. Ekki veitir af traustum grunnstoðum þar sem hinar gömlu reyndust vera úr fúnum rekaviði:-/
Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.1.2009 kl. 02:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.