30.11.2008 | 21:27
Eru bara að fá útrás.
Ýmsir eru að reyna þessa dagana að gjaldfella mótmælin sem eru víða í þjóðfélaginu. Sagt er að við séum bara að þessu til að fá útrás. Kvartað er yfir því að við komum ekki með lausnir á vandamálum þjóðarinnar. Það er greinilegt að þessi tvö orð eiga ekki saman í dag, þ.e. "útrás" og "lausnir".
Staðreyndin er sú að útrás mun hingað til tengjast vandamálum frekar en nokkru öðru. Aftur á móti tel ég að það sé tilgangur í því að fá "bara útrás". Fólki líður kannski betur, það er ekki slæmt markmið í sjálfu sér.
Ég tel að öll sú mikla virkni sem við upplifum hjá almenningi í dag sé af hinu góða. Fólk er að minnsta kosti að velta fyrir sér vandamálunum, það er forsenda þess að einhverjar lausnir komi fram.
Sumir hafa gagnrýnt Borgarafundina, eins og þann sem var í Háskólabíó um daginn. Sjálfsagt ekki gallalausir frekar en önnur mannanna verk. Meginstef fundanna er krafan um upplýsingar. Almenningur hefur ekki aðgang að þeim upplýsingum sem þarf til að leysa vandamál þjóðarinnar. Það er sennilegasta skýringin á því að Jón Jónsson á götunni er ekki búinn að leysa kreppuna fyrir okkur-svona í einum grænum. Án upplýsinga er mjög erfitt að mynda sér skoðun. Mjög mörgum finnst vera mikill upplýsingaskortur á Íslandi. Við viljum búa í upplýstu samfélagi, ekki vera hluti af sértrúarflokki þar sem æðstu prestarnir ráða öllu.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Lífstíll, Menning og listir, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.